13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

342. mál, endurgreiðsla almannatrygginga vegna ferðakostnaðar sjúklinga

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans skýr og glögg, um þessar höfuðreglur sem tryggingaráð hefur sett. Ég geri mér ekki ljóst í fljótu bragði hvað víðtækar þær eru, en ég þykist þó sjá af þessu svari að hér sé gengið verulega til móts við þá, sem mesta hafa þörfina í þessum efnum, og það er auðvitað það sem nauðsynlegast er í þessu tilfelli.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að hér var og er vissulega um vandmeðfarnar reglur að ræða og helstu mótbárurnar, sem voru á sínum tíma við frv. mínu varðandi þetta efni, voru auðvitað misnotkunarhættan. Sú misnotkunarhætta er reyndar hvarvetna í tryggingakerfi okkar og erfitt að komast fram hjá henni algerlega, en ég hygg að þarna hafi þó a. m. k. verið farin sú leið sem tryggi örugglega að um slíkt verði ekki að ræða. Hvort þarna hefði e. t. v. mátt teygja sig eitthvað lengra skal ég ekki um segja á þessu stigi. Ég mun reyna að kynna mér það. Það er komið þarna inn á sambærileg tilfelli og vitnað til þeirra alveg sérstaklega, og ég treysti því þá, að þegar um þau einstöku tilfelli er að ræða taki tryggingaráðjákvætt á því.

Ég legg hins vegar höfuðáherslu á að hæstv. ráðh. og formaður tryggingaráðs, sem báðir heyra mál mitt, sjái til þess að Tryggingastofnun ríkisins dreifi þessum upplýsingum sem allra best til fólksins úti á landsbyggðinni, til lækna og til heilsugæslustöðva og til umboða sinna að sjálfsögðu, sem eflaust eru með þær nú þegar, og það verði rækilega til þess séð að fólk geti notfært sér þennan rétt. Ég hygg að það muni taka allnokkurn tíma að fólk átti sig á því nægilega vel að það á þennan rétt. Það á hiklaust að nota sér hann, svo mikill og bagalegur kostnaður, fyrir utan öll óþægindin, sem stafar af margítrekuðum ferðum þessa fólks á fund sérfræðinga og fund lækna hér á þessu svæði.