13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu enginn tími eða tækifæri til þess að ræða raforkumálin í heild til nokkurrar hlítar í fsp.-tíma þar sem ræðumaður hefur 2 mínútur. Ég vil þess vegna áskilja mér rétt til að ræða þessi mál við aðrar aðstæður. En ég vil þó ekki láta hjá líða að koma því á framfæri að þær tölur, sem hæstv. fjmrh. las upp, eru aðeins örlítið brot af lántökum Landsvirkjunar, eins og kom fram hjá honum, 5.6%. Til þess að fá raunhæfan samanburð á fjármagnskostnaði þessara virkjunarfyrirtækja þarf auðvitað að upplýsa líka hvað erlend lán Landsvirkjunar hafa hækkað, sem eru langsamlega stærsti hluti af lántökum þess fyrirtækis. Áður en það liggur fyrir geta menn, held ég, ekki gert raunhæfan samanburð á því, hver búi við bestu kjörin og hver sé að greiða niður raforkuverðið fyrir hinn.