13.03.1979
Sameinað þing: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

81. mál, kornrækt til brauðgerðar

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Að undanförnu hefur mjög verið rætt um markaðserfiðleika og söluvandamál í sambandi við íslenskan landbúnað og þá jafnframt um þörfina á að draga úr framleiðslu á þeim vörutegundum sem erfiðast er að fá viðunandi markað fyrir. Hér skal ekki dregið úr því, þar sem þar er um ærinn vanda að ræða. En með till. til þál. um kornrækt til brauðgerðar, sem ég hef flutt á þskj. 89 ásamt Þórarni Sigurjónssyni og Friðrik Sophussyni, er gerð tilraun til að benda á eina leið til að snúast við þessu vandamáli á jákvæðan hátt, þ. e. að leita að nýrri framleiðslu sem viðunandi markaður væri fyrir. Á þann hátt gætu einhverjir bændur breytt um framleiðslugreinar til ávinnings fyrir sjálfa sig og stéttina í heild.

Í þessari þáltill. er ríkisstj. falið að kanna að hve miklu leyti er hægt að nota íslenskt korn til brauðgerðar. Jafnframt hefji ríkisstj. skipulegt starf til að reyna að stuðla að aukinni kornrækt þegar á komandi vori.

Í grg. eru í stuttu máli rakin þau rök, sem að baki þáltill. liggja, og bent á nokkrar staðreyndir í því sambandi. Annars vegar er sá mikli ávinningur sem væri af því að geta tryggt nýtt og ómengað mjöl til brauðgerðar hérlendis. Það er einnig mikilsverður áfangi til að framleiða sem mest af neysluvörum okkar hér innanlands. Flestar þjóðir leggja kapp á það með því að styrkja landbúnað sinn á margvíslegan hátt og telja það þátt í að treysta sjálfstæði sitt. Og hv. alþm. hafa staðreynt að hér er ekki um skýjaborgir að ræða, þar sem undanfarnar vikur hefur brauð úr íslensku byggi verið á boðstólum í kaffistofu Alþingis. Hins vegar er um að ræða nýjan markað fyrir innlenda búvöruframleiðslu sem ætti að geta hvatt til að kornrækt verði fastur liður í búrekstri í sumum héruðum landsins. Eins og áður sagði er slíkt sérstaklega brýnt nú, þegar erfiðlega gengur að selja alla framleiðslu þeirra búgreina sem mest eru stundaðar.

Reynslan á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og á tilraunastöðinni á Sámsstöðum í Fljótshlið síðustu árin bendir til þess að byggrækt sé þar ekki áhættusamari en kartöfluræktin, sem sjálfsagt er talið að stunda hérlendis þrátt fyrir misjafna uppskeru milli ára. Og enda þótt með kynbótum á byggi erlendis hafi fengist nýir stofnar sem henta okkur betur en þeir sem reyndir voru hér fyrir nokkrum áratugum, þá má tvímælalaust með slíku kynbótastarfi, sem fyrst og fremst væri miðað við íslenskar aðstæður, fá bæði harðgerari og uppskerumeiri stofna, þar sem tækni við slíkar kynbætur hefur fleygt ört fram.

Enda þótt hér sé sérstaklega bent á notkun á byggi til brauðgerðar þarf ekki síður að hafa í huga það mikla magn af kolvetnum til skepnufóðurs sem flutt er til landsins, en miklar niðurgreiðslur Efnahagsbandalagsins á þeim vörum til útflutnings valda harðri samkeppni við fóðurframleiðslu íslenskra bænda. Með innflutningi á slíkum fóðurvörum, sem hægt væri að komast hjá með betri fóðurframleiðslu innanlands, annaðhvort með betri heyverkun eða innlendri kornrækt, er verið að flytja atvinnumöguleika íslenskra bænda úr landi.

Í þessari þáltill. er aðeins fjallað um kornrækt, enda þótt á fleira mætti benda og þá sérstaklega í því sambandi minnast á frærækt, sem er þó nokkuð hliðstætt. Á undanförnum árum hafa verið gerðar athyglisverðar tilraunir með frærækt á Sámsstöðum. Niðurstöður þeirra gefa vonir um að viðunandi árangri megi ná með ræktun fræs af túnvingli, vallarsveifgrasi og jafnvel vallarfoxgrasi og ef tekst að ná nógu góðum tökum á þeirri framleiðslu muni nokkur hópur bænda geta stundað þessa framleiðslu á býlum sínum.

Í umr. um nýjar búgreinar hefur enn fremur loðdýrarækt borið á góma. Hefur landbrh. skipað nefnd til að athuga hvernig best sé að vinna að framgangi þeirra mála hér og þá sérstaklega refarækt. Þá er öllum kunnugt um vaxandi áhuga á fiskrækt. Þessi þáltill. fjallar því aðeins um eitt mál af mörgum sem nauðsynlegt er að hafa í huga og vinna að til þess að snúa þeirri vörn, sem íslenskur landbúnaður hefur verið í á síðustu mánuðum og árum vegna erfiðleika á sölu framleiðsluvörunnar, í öfluga sókn. En það verður ekki gert nema með því að nýta vel hvert það tækifæri sem þar getur komið til greina.

Ég legg svo til að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.