13.03.1979
Sameinað þing: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

43. mál, orkusparnaður

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Þessi till. um orkusparnað, sem við Bragi Sigurjónsson, hv. 3. þm. Norðurl. e., flytjum á þskj. 43, hefur áður verið flutt á hv. Alþ. af Alþfl.-mönnum. Hún mun lítinn hljómgrunn hafa fengið í þau skipti. En nú hafa hins vegar gleðilega skipast veður í lofti, eins og m. a. hefur mátt heyra af ræðum hæstv. iðnrh., og ber vel að þakka það.

Það er svo með okkur Íslendinga, að okkur hættir nokkuð til að hegða okkur líkt og sagt er að nýríkir menn geri. Það er í einn stað að sóa og bruðla, en að hinu leyti að nýta ekki það sem við þegar eigum. Margt af því, sem við nú köllum mengun, en áður hét ófínni nöfnum, svo sem óþverri eða skítur, er aðeins vannýtt verðmæti á röngum stað sakir sinnuleysis eða kunnáttuleysis. Mér er í því sambandi löngum minnistætt þegar ég vann sem ungur maður í síldarverksmiðjum á Siglufirði og sá sjóinn út allan fjörð verða gráan af skolvatni verksmiðjanna. Síðar var úr sams konar skolvatni unninn soðkjarni og þótti verðmæt vara, auk þess sem óþrifin minnkuðu í firðinum. Svipað má vissulega segja þegar kolsvartur reykur stendur upp úr reykháfi á olíukyntu húsi. Þar er um að ræða vannýtta orku vegna rangrar stillingar kynditækja. Afleiðingin verður hár hitakostnaður og loftmengun að auki.

Ég vil nota þetta tækifæri til að andmæla ummælum hv. 5. þm. Austurl., sem hann hafði í Sþ. 15. febr. s. l., þegar þetta mál var til umr., jafnvel þó að hv. þm. sé ekki við núna og reyndar ekki í landinu heldur, þar sem hann taldi að lítill árangur hefði orðið af för nemenda Vélskólans til Akraness fyrir nokkrum árum — ég hygg að það hafi verið 1975 — þar sem þeir stilltu kynditæki manna. Það var helst á hv. þm. að skilja að árangur af þessari ferð vélskólanema hefði helst orðið sá, að þrátt fyrir áframhaldandi kyndingu Skagamanna sætu þeir síðan eftir í köldum íbúðunum, því að húsin hitnuðu ekki eftir þessa aðgerð. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að þetta er alrangt og er á allt annan veg farið. Bæði er að húsin hitnuðu betur og olíukostnaðurinn varð verulega minni. Ég held að yfirleitt hafi olíukostnaðurinn orðið meira en 10%, eða 10–15% minni almennt á hvert hús eftir að þetta framtak þeirra vélskólanema var um garð gengið. En hitt var svo annað mál að annar og meiri árangur varð af fyrrnefndri för vélskólanemanna, en hann fólst í því, að augu manna opnuðust fyrir þessum sparnaðarmöguleika og var því þessu starfi haldið áfram af heimamönnum. Eins hygg ég að verði um för nemenda hinna þriggja skóla sem nú nýverið hafa verið í þorpum á sunnanverðum Austfjörðum. Þeir vinna sjálfsagt ekki stórkostlegt þjóðþrifaverk sjálfir, en för þeirra mun verða hvatning fyrir aðra til áframhaldandi starfa á þessu sama sviði.

Það leikur varla nokkur vafi á því, að við Íslendingar eigum eftir að nýta í stórauknum mæli orku lands okkar og við munum fara út í orkufrekan iðnað í einhverri mynd. En ég vil engan veginn fara að spá nokkru um það, hvort það verður á alíslenskum grundvelli, eins og er með áburðarverksmiðjuna og sementsverksmiðjuna, eða í samvinnu við aðra, eins og t. d. er um ál-, kísilgúr- og járnblendiverksmiðjurnar. En í sambandi við stofnun slíkra verksmiðja verðum við áreiðanlega að hyggja betur að orkunýtingunni en við höfum áður gert.

Hér á Alþ. hefur verið bent á að hitaorka fari forgörðum í frystihúsum okkar í stórum stíl. En vita menn nokkuð hvernig þessu er varið hvað álverið snertir, sem notar þó nærfellt helming allrar raforku sem framleidd er í landinu? Vita menn að þegar sementsverksmiðjan var byggð voru uppi áætlanir um að hita hluta Akraneskaupstaðar með afgangsorku frá henni, en framtakssemi og áhuga vantaði? Mér er einnig kunnugt um að við rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga myndast miklu meira en næg afgangshitaorka, er nægja mundi til að hita upp öll hús í Akraneskaupstað. Á þessu hefur tvívegis verið gerð frumrannsókn, en áhuga hefur skort til frekari framkvæmda. Og nú leitar Akranes eftir heitu vatni innan úr Reykholtsdal. En það er trúlega ekki öll nótt úti enn hvað orkuvinnslu snertir frá Grundartanga, því að þar þarf að brenna miklum býsnum af kolmónoxýð — kolsýringi hygg ég að það heiti á íslensku — sem er banvænt loft, en breytist við brunann í koldíoxíð — koltvísýring eins og ég held að það heiti á nútímamáli.

Ég sagði að það mætti sennilega nýta þetta á annan hátt. Í viðtali, sem birtist í Dagblaðinu 28. febr. s. l. við prófessor Braga Árnason, segir hann einmitt frá þessu og ef ég mætti, með leyfi forseta, lesa smáklausu úr því viðtali, þá stendur þar:

„Bragi kvað Grundartangaverksmiðjuna verða er tímar líða, aflögufæra um 25 þús. tonn af kolmónoxíði. Ef það magn yrði notað til metanólframleiðslu í stað kolsýru, væri hægt að fá ódýrara metanól, t. d. á bifreiðar, en núverandi bensín er og mundi kolmónoxíðframleiðslan á Grundartanga nægja til eldsneytisframleiðslu, sem svarar til 12% af núverandi bensíninnflutningi.“

Það er því augljóst að umframorka í stóriðjuverum getur orðið verulegt umhugsunarefni og verulega þýðingarmikið atriði í nýtingu orku á Íslandi. Það er mjög ánægjulegt að nú virðast augu manna vera að opnast fyrir gildi þess að spara orku. Það er að vísu olíukreppan, sem fram undan virðist vera, sem hefur meira en annað opnað augu manna fyrir þessu, en vonandi má þessi till. verða til þess að opna enn betur augu manna fyrir nauðsyn þess að nýta sem best íslenska orku.