14.03.1979
Efri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3224 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

95. mál, leiklistarlög

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að fagna þeirri sendingu sem við höfum fengið úr hv. Nd. Það er ánægjulegt þegar frv. breytast til bóta, og ég tel að svo hafi verið í þessu tilfelli. Að vísu tel ég að tilganginum að búa leiklistinni í landinu þroskavænleg skilyrði eigi að vera náð eftir því sem hægt er með 1. gr. þessara laga, en með því að fella burt skilyrðið um að leiklistarráð skuli vera vettvangur stefnumótunar tel ég að sé þó heldur stefnt í rétta átt eða öllu heldur líti það ekki eins illa út og áður. — Annars er ég enn þá þeirrar skoðunar sem áður, að leiklistarráðið sé í raun og veru óþörf silkihúfa og fremur til lýta heldur en hitt, alla vega óþörf. Það var mjög óviðfelldið að í lögunum stæði að sérstök nefnd manna skyldi móta stefnu í leiklistinni í landinu. Auðvitað á leiklistin í landinu að vera frjáls. Stefna í henni á ekki að vera undir stjórn einhvers ráðs, sem auk þess er styrkt af hinu opinbera.

Ég tel að þetta litla frv. horfi annars mjög til aukins frelsis í menningarmálum í landinu, því núna er heimilt og er stuðlað að því að hið opinbera styrki leiklistarstarfsemi, þó ekki sé það í formlegum atvinnuleikhúsum, svo og óperustarfsemi.

Í vetur var hér minnt á Alþýðuleikhúsið. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna sérstaklega á Ferðaleikhúsið sem ég tel að vinni mjög mikilsvert menningarstarf. Þar er um að ræða leiklistarstarfsemi sem felst í því að ýmis íslensk bókmenntaverk eru flutt á erlendu máli fyrir erlenda ferðamenn. Með þeim hætti er unnið að mikilsverðri landkynningu, þannig að útlendingar, sem eiga þess lítinn kost að kynnast af eigin raun leikbókmenntum Íslendinga í löndum sínum, eiga slíks kost á einni kvöldstund þegar þeir hafa viðdvöl hér. Slíka starfsemi ber vitanlega að efla, einkanlega þegar um er að ræða að þarna hefur flutningur leiklistar verið í höndum mjög lærðra og vel færra leikara. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar stuðlað er að því að slíkir hópar njóti opinbers stuðnings. Ég held að ýmislegt, sem óþarfara er, sé stundum styrkt af hinu opinbera.

Herra forseti. Aðalatriði málsins er það, að ég fagna því að þessi óviðkunnanlega klausa um að sérstakt ráð skuli móta stefnu í leiklistarmálum í landinu skuli vera fallin brott.