14.03.1979
Efri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3225 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

166. mál, grunnskólar

Ólafur Ragnar Grímsson [frh.]:

Herra forseti. 1. umr. um frv. er að verða eins konar framhaldssaga í d. Má segja að fyrst hafi umr. snúist um almenn atriði og þær hugmyndir sem komu fram hjá hv. flm., Ragnhildi Helgadóttur. Hún kvartaði að vísu undan því í svarræðu sinni að ég hefði ekki tekið efnisatriði frv. til umfjöllunar. Ég gerði það hins vegar ítarlega í ræðu minni í lok síðustu viku, en þá brá svo við að hv. flm. hafði ekki áhuga á efnisathugasemdum við frv. og hvarf úr þingsalnum. Ég skal ekki segja hvernig eigi að túlka það. Flm. sat hins vegar sem fastast meðan hin almenna pólitíska umr. um frv. fór fram. Má kannske leiða að því nokkrar líkur að það sanni það mál, að meginhvatinn að þessum frv.-flutningi hafi ekki verið raunverulegur áhugi á rannsóknastarfsemi í skólakerfinu, heldur fyrst og fremst undirbúningur undir þá pólitísku herferð um þetta mál sem fram hefur farið í flokksdeildum Sjálfstfl. og í málgögnum hans, Morgunblaðinu og Vísi, eins og leiðaraskrif beggja þessara blaða bera með sér.

Ég lýsti því í síðustu ræðu minni, að ég vænti þess að hægt væri að skoða árás hv. flm. á þá ungu fræðimenn, sem stóðu að Á rósakönnuninni, sem kafla þessa máls sem flm. hefði lokað í krafti þess að það þjónustaði ekki málið. Ég rakti síðan, ég ætla aðeins að hlaupa á því með örfáum orðum, aths. við frvgr. eins og þær liggja nú fyrir.

Ég benti á það í fyrsta lagi, að í frv. er eingöngu fjallað um forræði foreldra gagnvart rannsóknastarfseminni og enn fremur gagnvart flutningi trúar- og lífsskoðunar í skólanum, en vakti athygli á því, að á síðari árum hefur verið talin rík þörf á því að tryggja einnig forræði nemendanna, sérstaklega unglinga sem grunnskólinn nær til, og það sé verulegur galli á þessu frv., eins og það nú er, að það tekur á engan hátt tillit til réttinda nemendanna og unglinganna til þess að hafa sjálfir ákveðinn íhlutunarrétt um það, hvað gerist í skólanum og hvers konar kennsla þar fer fram eða hvers konar rannsóknastarfsemi er stunduð, en eingöngu byggt á algjöru forræði foreldranna. Þetta taldi ég vera íhaldssöm sjónarmið og alls ekki í samræmi við þroska, sérstaklega nemenda í efri bekkjum grunnskólans, og þau almennu viðhorf, sem rutt hafa sér til rúms á síðari árum, að það beri í auknum mæli í löggjöf að tryggja rétt unglinga og barna yfir eigin málum.

Í öðru lagi vakti ég athygli á því, að frv. í núverandi búningi þess kynni að leggja margvíslega steina í götu þeirra kennsluhátta, sem hafa verið að ryðja sér til rúms í skólakerfinu á síðari árum og félast m. a. í því, að nemendur stundi sjálfir undir leiðsögn kennara margvíslega rannsóknastarfsemi í skólunum. Frv. í þeim búningi sem nú er, ef þröngt er túlkað af yfirvöldum, gæti í raun og veru hindrað að slík eðlileg framþróun nýtískulegra kennsluhátta í mannvísindum í skólakerfinu gæti átt sér stað á eðlilegan hátt.

Í þriðja lagi benti ég á að í frv. er gengið út frá að því kerfi sé við haldið og það fest enn frekar í sessi, að embættisstofnun — menntmrn. — sé veitt algjört vald yfir þeirri rannsóknastarfsemi sem fram fer á íslenska skólakerfinu. É;g benti á að í öðrum lögum er tveimur háskólum í þessu landi, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, lögð sú skylda á herðar að þróa uppeldisfræði og kennslufræði sem vísindagrein á Íslandi. Ég tók það fram, að aths. mínar bæri ekki að skoða sem gagnrýni á núverandi embættismenn eða fyrrv. eða núv. ráðh. í menntmrn., en þarna er samt sem áður allveruleg hætta á því, að þegar slíkri embættisstofnun er falið svo yfirgnæfandi vald yfir rannsóknastarfseminni geti það hindrað frjálsa rannsóknastarfsemi í landinu á margvíslegan hátt og jafnvel komið í veg fyrir að þær vísindastofnanir við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, sem falin er sú skylda samkv. lögum að þróa þessar fræðigreinar, geti gert það með réttum og eðlilegum hætti.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að í skólakerfi eins og hinu íslenska, þar sem menntmrn. hefur jafnafgerandi vald yfir öllum starfsháttum skólans, eru miklar líkur á því að í rn. þróist tilhneiging til að vernda þá skólastefnu, sem rn. hefur beitt sér fyrir, og kunni að koma upp þau tilfelli — það er a. m. k. hugsanlegt — að rn. vilji koma í veg fyrir að rannsóknir á þeirri skólastefnu, sem gætu leitt til þess að ýmsar undirstöður þeirrar skólastefnu væru dregnar í efa, fengju að þróast á eðlilegan hátt í skólakerfinu. Ég held að þeir, sem hafa einhver náin kynni af þróun uppeldis- og kennslufræða á s. l. árum, séu sér mjög meðvitandi um þá hættu, að embættisstofnun, pólitísk valdastofnun, af þessu tagi geti hugsanlega beitt valdi, sem henni er ætlað hér og hún hefur haft, til þess að hindra eðlilega framþróun frjálsrar rannsóknastarfsemi, sem m. a. hefur það hlutverk, eins og rannsóknir í hagfræði, rannsóknir í læknavísindum og fjölmörgum öðrum greinum, að varpa nýju ljósi á ríkjandi stefnu á ýmsum sviðum.

Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé, ef ætlunin er að setja lög um skipulag rannsóknastarfsemi í uppeldis- og kennslufræðum í þessu landi, að þetta hugsanlega afgerandi vald embættisstofnunarinnar yfir rannsóknastarfseminni sé takmarkað allverulega og vísindastofnunum, sem hafa lögbundna skyldu að þróa þessar fræðigreinar, eins og Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, sé veittur sjálfstæður réttur til rannsóknastarfsemi í skólakerfinu. Ég held að sú framkvæmd sé meir í samræmi við framþróun vísindanna, við það nauðsynlega rannsóknafrelsi sem vísindunum er nauðsynlegt, en oftrú á forræði valdastofnunar og forræði foreldra yfir rannsóknastarfseminni.

Ég benti í fjórða lagi á það, að ef bæri að skilja ákvæði þessa frv. á þann veg, að forráðamenn barna og unglinga hafi rétt til þess að fá t. d. senda heim á heimilin þá spurningalista sem lagðir eru fyrir í skólunum, geti það í fjölmörgum tilvikum jafngilt því að ónýta algjörlega rannsóknastarfsemi af þessu tagi, vegna þess að það er alkunna að ef slíkt er gert leiðir það til umræðna um spurningalistann. Það leiðir til margvíslegra áhrifastrauma á það, hvers konar svör séu sett fram, og þannig koll af kolli, svo að sú eðlilega upplýsingaöflun, sem spurningakönnununum er ætlað að láta fræðimönnunum í té, yrði þá nánast gjörsamlega ónýt og einskis virði. Þess vegna er hugsanlegt að það séu beinir árekstrar á milli þess annars vegar að veita fræðistarfsemi á þessu sviði fullkomlega eðlilega og fullkomlega heiðarlegan grundvöll til þess að þróa mannlega þekkingu á svo mikilvægri félagsstofnun sem skólinn er og svo hins vegar hinu afgerandi foreldravaldi sem flm. virðist vilja ganga út frá.

Ég vil í því sambandi vekja athygli flm. á því, að í frv., og einkum og sér í lagi í framsöguræðunni, virtist vera gengið út frá þeim skilningi að foreldrarnir eða forráðamennirnir bæru einir ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þetta kann að vera rétt í vissum þröngum lögfræðilegum skilningi, en í félagslegum skilningi nútímaþjóðfélags er þetta ekki rétt. (RH: Er hann ekki samkv. lögum?) Flm. frv. veit væntanlega að samkv. lögum er menntastofnunum í þessu landi falin margvísleg skylda, margvísleg ábyrgð gagnvart uppeldi, menntun og þroska barna, og það tíðkast í æ ríkari mæli, hvort sem hv. flm. líkar það betur eða verr, að margvíslegar stofnanir í þessu þjóðfélagi taka að sér að annast í meira eða minna mæli uppeldi barna og unglinga. Það er m. a. talin nauðsynleg forsenda þess að konur geti farið út af heimilunum og sinnt sínum störfum, — konur, sem hafa t. d. hlotið menntun eins og hv. flm. frv., geti starfað allan daginn á því starfssviði sem menntun þeirra veitir þeim rétt til að starfa á, að margvíslegum stofnunum sé falið uppeldi og menntun barnanna.

Ég veit að vísu að sumir flokksbræður hv. flm. og e. t. v. flm. sjálfur hafa haldið því fram á undanförnum árum að það fæli í sér verulegar hættur fyrir börn og unglinga ef konur færu út af heimilunum og ýmiss konar þjóðfélagslegum stofnunum væri falin ábyrgð á uppeldi barnanna. Ég vil hins vegar vekja athygli bæði flm. og deildarmanna á frásögn af erindi sem Helga Hannesdóttir, læknir flutti á einhvers konar flokksfundi í Sjálfstfl. fyrir nokkrum dögum, þar sem hún rakti meginatriði í læknisfræðilegum og sálfræðilegum rannsóknum, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum og áratugum, sem sýna að starfsemi slíkra uppeldisstofnana og útivinna mæðra hefur engin neikvæð áhrif á sálarlíf eða þroska barna og unglinga, ef tilteknum umgengnisskilyrðum er fullnægt. Slíkt er þess vegna bábilja ein sem rannsóknir á uppeldisfræði og rannsóknir á sálarfræði, jafnvel rannsóknir sem spyrja um slíka heimilishagi sem hv. flm. vill banna með lögum að spurt sé um, nema með sérstökum leyfum, hafa synt fram á hvers eðlis eru.

Ég held að ef við viljum skapa konum í þessu þjóðfélagi skilyrði til raunverulegs jafnréttis sé það óhjákvæmileg afleiðing þeirrar stefnu, að þjóðfélagsstofnanir af ýmsu tagi, uppeldisstofnanir, skólar og dagvistunarstofnanir af ýmsu tagi beri í æ ríkari mæli hina raunverulegu ábyrgð á uppeldi barnanna og unglinganna. Og þegar svo er, þá er líka óhjákvæmileg afleiðing að sköpuð sé aðstaða til að afla með jöfnu millibili ítarlegrar þekkingar á þeirra starfsemi, þeim starfsháttum og afleiðingum þeirra, sem tíðkast í þessum stofnunum. Í raun og veru er framganga uppeldis- og kennslufræðilegra rannsókna nauðsynleg forsenda þess, að jafnrétti kynjanna geti orðið í raun. Þetta er hið raunverulega þjóðfélagslega samhengi milli annars vegar hinnar breyttu menntastefnu, hinnar breyttu skipunar í þjóðfélaginu hvað snertir ábyrgð á uppeldi barna og unglinga annars vegar og þeirrar jafnréttisbaráttu þjóðfélagshópa og kvenna á síðustu árum og áratugum.

Mér finnst margvíslegt orðalag í þessu frv. fela í sér möguleika á því að forræði foreldra og valdi embættisstofnunar sé beitt til þess að hindra að þessi að mínum dómi óhjákvæmilega og eðlilega þjóðfélagslega þróun geti fengið að gerast með fyllilega eðlilegum hætti. Þess vegna tel ég að ákvæði 2. og 3. gr. þessa frv. þurfi rækilegrar endurskoðunar við, ef tilgangurinn er ekki sá að leggja margvíslegar hindranir í götu framþróunar kennslufræða og uppeldisfræða í íslensku þjóðfélagi.

Ég vil að lokum víkja að tveimur atriðum til viðbótar. Fyrra atriðið er, að flm. var að gera því skóna í svarræðu sinni að ég og aðrir þm. Alþb. værum á móti löggjöf um þessi atríði, værum á móti eftirliti með söfnun upplýsinga í tölvuformi, geymslu þeirra o. s. frv. Þetta er alger misskilningur sem ég vona a. m. k. að hv. flm. geri sér grein fyrir. Ég hef hvað eftir annað í vetur lyst hér í d. skoðunum mínum um hve eindregin nauðsyn sé á slíkri löggjöf. Ég ræddi um það sérstaklega á sínum tíma, þegar hæstv. dómsmrh. flutti frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda, hvernig liði frv. um lagasetningu um,tölvunotkun og tölvuvæðingu upplýsinga. Ég hef einnig í sambandi við þetta frv, vakið rækilega athygli á því, að í raun og veru væri það að mínum dómi miklu raunhæfari trygging gegn misnotkun heimilda til fræðilegra rannsókna af þessu tagi, að kveðið væri á um að öll rannsóknagögnin — í flestum tilfellum spólur — væru opin fyrir aðra fræðimenn til skoðunar og rækilegrar meðhöndlunar, að þau væru lögð inn til geymslu og varðveislu, t. d. hjá Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands eða öðrum viðurkenndum fræðistofnunum, þar sem aðrir vísindamenn gætu að fengnum tilskildum leyfum farið í gegnum rannsóknina alla. Það raunverulega aðhald, sem gagnrýni fræðimanna hvers á öðrum veitir í þróun greinanna, væri til lengdar miklu raunhæfara og virkara eftirlit með því, að þarna væri ekki um misnotkun að ræða, en að treysta á embættisstofnun eins og menntmrn. og birtingu auglýsinga í Lögbirtingablaðinu.

Ég held einmitt að það sé eitt af höfuðatriðunum varðandi þróun rannsókna af þessu tagi að kveða á um að rannsóknagögnin verði lögð þannig fram að aðrir fræðimenn geti gengið úr skugga um að þarna sé rétt á málum haldið. Og ég vil benda á það, að hliðstæð sjónarmið komu fram í viðtali sem Morgunblaðið átti nýlega við dr. Þórólf Þórlindsson lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands — þann mann sem meðal núlifandi Íslendinga hefur aflað sér einna ítarlegastrar þekkingar á aðferðafræði og ýmsum vandamálum varðandi tölvuvæðingu rannsókna í sálarfræðum, félagsfræðum og uppeldisfræðum.

Síðara atriðið er túlkun hv. flm. á nauðsyn þess að setja 1. gr. frv. fram á þann hátt sem hún gerir. Flm. hefur haft um það mörg orð hér, að þetta sé allt gert í nafni mannréttinda og það sé eitthvað skrýtið ef menn séu á móti því að lögfesta atmenn mannréttindaákvæði. Það hefur enginn lýst andstöðu sinni við það, hv. flm., en það, sem gerst hefur hér, er að sú röksemdafærsla, sem hv. flm. setti fram fyrir máli sínu, gaf rækilega til kynna að hvatinn að þessum flutningi væri alls ekki sprottinn af hreinum og sönnum mannréttindaanda. (Gripið fram í.) Nei, einmitt ekki. Það kom greinilega fram hjá hv. flm., eins og ég hef reynt að sýna fram á hvað eftir annað og einnig af öðrum tilefnum, að því miður þjáir hv. flm. sá alvarlegi misskilningur, að hún flytur hér hvað eftir annað íhaldsskoðanir af margvíslegu tagi, en getur þess svo við og við að þetta séu frjálshyggjuskoðanir og þetta sé allt saman gert í nafni frelsisins, þar sem hið raunverulega innihald er mjög svo íhaldssamar skoðanir í menningarmálum, í þjóðfélagsmálum og í réttindamálum. Það kemur m. a. fram í því, að hv. flm. útskýrir texta þessarar greinar á þann veg, að það eigi eingöngu að fjalla um fræðslu í trúmálum og lífsskoðun, eigi eingöngu að fjalla um þær hugmyndir, og — ég les orðrétt úr framsöguræðu hv. flm., með leyfi forseta — „þær hugmyndir sem lögverndaðar eru í stjórnarskrá og öðrum lögum landsins.“

M. ö. o. : það eru pólitískar valdastofnanir, pólitískur meiri hl. á Alþ. hverju sinni, sem á að ákveða hvað eru réttar lífsskoðanir sem er heimilt að fjalla um í skólunum. Það á ekki að vera réttur hvers og eins þegns þjóðfélagsins, eins og hin klassíska frjálshyggja hefur löngum boðað, að ákveða um hvaða lífsskoðanir sé í raun og veru fjallað, heldur setur flm. gagngert fram þá skýringu á þessari grein að það séu eingöngu lögverndaðar skoðanir, það séu eingöngu lögverndaðar hugmyndir, þær hugmyndir sem hlotið hafa blessun valdastofnana í landinu, sem eigi að fjalla um í kennslustofnunni. Nú vill svo til sem betur fer, að fjölmörg atriði í þjóðfélagi okkar sem snerta trúar- og lífsskoðun manna, hafa ekki tengst lagasetningu á neinn hátt í þessu landi. Við búum ekki við stjórnkerfi þar sem löggjafarstofnun, pólitískir valdaaðilar, er að setja flóknar lagasetningar um það, hvaða trúar- og lífsskoðanir eigi að vera ríkjandi. En samkv. þeim skilningi, sem hv. flm. hefur lagt í þessa grein, má ekki í skólanum fjalla um neitt annað. Hin frjálsa og opna umræða skólans um trúar- og lífsskoðunarviðhorf, sem hlýtur að vera eðlilegur þáttur í uppeldi sérhvers einstaklings, á samkv. þessum skilningi í raun og veru að vera bönnuð. Og það er einmitt þessi krafa um að ríkisvaldið ákveði hvað séu réttar lífsskoðanir, hvað séu réttar trúarskoðanir, sem kemur hvað eftir annað fram og kom m. a. fram hjá hv. flm. í umr. í vetur um „Félaga Jesús“, sem ég tel staðfesta að hún afneitar í raun grundvallarlögmálum frjálshyggjunnar, en hefur uppi kröfur um beitingu ríkisvaldsins í þágu ákveðinna lífsskoðana.

Þetta kemur m. a. fram í því, að hv. flm. telur eðlilegt að kristindómsfræðsla sé meginuppistaðan í þeirri trúarfræðslu sem fer fram í skólanum. Nú er ég alls ekki að leggjast gegn því, að slík fræðsla sé í skólakerfinu, en ég vil hins vegar benda á að trúarbragðafræðsla er miklu víðtækara fyrirbæri en fræðsla um kristindóm. Trúarbragðafræðsla er í reynd miklu flóknari og umfangsmeiri starfsemi en eingöngu að fræða nemendur um kenningar þeirrar ríkiskirkju sem er í landinu, sem hv. flm. vill greinilega að sé meginuppistaðan í þessari fræðslu. Það vill svo til, að ákveðið trúfrelsi er í landinu, en samt sem áður vill flm. og ýmsir pólitískir samherjar hennar beita skólakerfinu til þess að þjónusta fyrst og fremst þær trúarskoðanir sem lútherska ríkiskirkjan hefur uppi, ekki ýmsar aðrar trúarskoðanir, t. d. frjálshyggjusafnaða af ýmsu tagi eða annarra trúarbragða.

Ég benti á það í upphafsræðu minni, að í reynd væri það trú mín að líklegast væri ábótavant við trúarbragðafræðslu, í skólakerfinu væri út frá almennum lögmálum um opna og heiðarlega fræðslu í þeim efnum gengið, en reyndin væri sú, að í skólunum væri rekinn mjög víðtækur pólitískur áróður, eins og hv. flm. virðist gera skóna, vegna þess að hún segir í framsöguræðu sinni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég hef fyrst og fremst í huga, að einhverjar skorður séu reistar gegn pólitískum áróðri í skólum.“ Og síðar í ræðunni kemur fram, að sá pólitíski áróður, sem hún hefur hér í huga, er í einhverjum tengslum við Alþb.

Nú vill svo til, að það hefur á síðari áratugum verið talinn æ nauðsynlegri þáttur í uppeldi þegna í nútímaþjóðfélögum að fræða þá um mismunandi hugmyndastefnur sem uppi eru, um mismunandi stjórnkerfi sem uppi eru, um það flókna fyrirbæri sem nútímalýðræði og nútímastjórnkerfi er. Samkv. þeim skilningi, sem flm. virðist leggja í þessa grein, á eingöngu að vera heimilt að fjalla um þá stjórnskipun sem lögvernduð er hér á Íslandi. Mér finnst alveg sjálfsagt að um hana sé fjallað. En ef á að efla viðsýni nemenda er jafnframt nauðsynlegt að fjalla um margvíslegar aðrar tegundir stjórnskipana sem mjög áhrifaríkar eru í heiminum í dag. Þess vegna vil ég taka það skýrt fram, að sá texti, sem í frvgr. er, gefur kannske ekki tilefni til þessara aths., en þegar túlkun flm. á lagatextanum og tilgangur greinarinnar er hafður í huga, eins og hann birtist í framsöguræðu, lítur þetta mál allt öðruvísi út.

Ég vil að lokum undirstrika það, að ég held að nemendur, sérstaklega nemendur efri bekkja grunnskólans, séu fyllilega færir um að meta í stórum dráttum hvers konar fræðslu um trúar- og lífsskoðanir þeir kjósa að fá. Ef lagagreinin á eingöngu að tryggja rétt foreldranna gagnvart þessu efni er hún í raun og veru spor aftur á bak. Það er mikilvægt í okkar nútímaþjóðfélagi að tryggja ekki síður rétt unglinganna sjálfra til þess að vera umsagnaraðili um þessi efni, í stað þess að reyna að rígbinda með lögum æ fleiri og afdrifaríkari svið foreldravaldsins í okkar flókna þjóðfélagi. Eins og ég hef sagt áður í þessum málflutningi hafa breyttir þjóðfélagshættir á síðustu áratugum, breyttur þjóðfélagsskilningur, aukinn þroski unglinga, leitt í ljós að æ fleiri telja að það sé kannske meira vandamál í skólakerfinu í dag að tryggja með lögum rétt unglinganna gagnvart fræðslukerfinu en það, sem virðist vera meginverkefni flm. hér, að tryggja rétt foreldranna.

Ég held þess vegna, herra forseti, að þetta frv. þurfi bæði efnislega og hvað tilgang þess snertir að fá mjög ítarlega og gagnrýna meðferð í nefnd.