14.03.1979
Efri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3231 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

166. mál, grunnskólar

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Óvenjulega ítarlegar umr. fara fram um þetta frv. Ég held að það sé kannske út af fyrir sig ekki vanþörf á því og ég get alveg tekið undir orð hv. þm., sem talaði hér á undan mér, því ég held að frv. og þær hugmyndir, sem þar eru fram settar, þurfi miklu nánari skoðunar við áður en lögfestar yrðu.

Hv. 5. þm. Reykv., flm. þessa frv., fylgdi því úr hlaði á sínum tíma með alllangri ræðu og ítarlegri á vissan hátt, en mér þótti þó ræðan nokkuð einhliða í byggingu. Án þess að ég ætli að hafa uppi langt mál um þetta allt saman, sem er þó vissulega þess virði að það sé íhugað vandlega og rætt um það ítarlega, ætla ég að víkja að því örfáum atriðum, bæði að því sem fram kom í máli hv. flm. og eins í tillögugerð þm.

Þessi könnun, sem hv. þm. varð tíðrætt um og mér skildist að þm. hneykslaðist mjög á, var leyfð á þeim missirum þegar ég var menntmrh., fyrir nokkrum árum. Ég er dálítið undrandi á því, hvað mikið er gert með þessa könnun. Það hefur verið óskað eftir því að prenta í þingtíðindum allan spurningalistann — þetta er þykkur bunki — og framsöguræða hv. þm. snerist að mjög miklu leyti um könnunina. Ég skal ekki fjölyrða um það út af fyrir sig, enda er sá þáttur, könnunin eiginlega þrautræddur hér í hv. d. nú þegar. Ég vil þó í þessu sambandi taka fram örfá atriði, bara af því að þetta gerðist á þeim dögum sem ég var í rn.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, að ég kynnti mér að sjálfsögðu innihald könnunarinnar. Hins vegar taldi ég alls ekki rétt að ég tæki ákvörðun um, hvort leyfa skyldi, á hné mér, eftir persónulegu mati mínu. Í stað þess að gera það leitaði ég álits sérfræðinga á grunnskólasviðinu og í uppeldis- og sálarfræði við Háskóla Íslands og byggði svo ákvörðun mína um hvort leyfa skyldi m. a. á niðurstöðum sérfræðinga þessara og viðræðum við þá. Ég hygg að menntmrn. hafi leyft og leyfi yfirleitt þær rannsóknir í skólunum sem við athugun þar til kvaddra manna og svo þeirra, sem í rn. starfa teljast vísindalegs eðlis og þá náttúrlega ekki skaðsamlegar þátttakendum — menn reyna að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því.

Mér finnst að þessi meginhugsun felist einnig í frv. hv. 5. þm. Reykv., ef vel er að gáð, þó að ummælin um þessa könnun gætu bent til annars. Ég vil í þessu sambandi taka undir orð hv. 3. landsk. þm., að það verður að leggja mikla áherslu á nauðsyn þess að fram fari rannsóknir og margvíslegar athuganir í skólum hér á landi, á skólastarfinu og uppbyggingu íslenska skólakerfisins, sem menn setja sem stóra lagabálka. Þetta verður allt að vera sífellt í mótun og verður að vera á hreyfingu. Og þá er gífurlegt atriði kennaramenntunin og sú aðstaða sem henni er búin hér á landi. Fyrir nokkrum árum var eftir miklar sviptingar í málefnum þeirrar skólastofnunar stofnaður hér Kennaraháskóli Íslands. Ég held að það hafi verið gott spor og þarft. En þá verður náttúrlega að halda áfram að byggja upp þá stofnun og efla hana til þess að vera raunverulegur háskóli og um leið miðstöð vísinda og vísindalegra rannsókna á kennslusviðinu. Það er eðlilega ekki komið nema mjög skammt á veg með slíka uppbyggingu. Og ég er ákaflega sár yfir því og mig undrar það satt að segja þegar ég verð var við vissa viðleitni til þess að reka þarna eins konar hentistefnu, eins og t. d. hefur komið fram í sambandi við umr. um Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans nú nýlega. Menn eru að velta því fyrir sér að fara með hann eitthvað út í bæ, burt af lóð Kennaraháskólans. En það er ekki af tilviljun að þessi tilraunaskóli er byggður á sömu lóð. Mönnum hefur dottið þetta í hug vegna þess að það er röskun á fjölda nemenda í einstökum skólum á höfuðborgarsvæðinu. Það er hvatinn að þessum hugmyndum en ekki hitt, að það sé verið að gera breytingarnar vegna þess að það eigi að fullkomna aðstöðuna eða starfsemina sem þarna fer fram. Ég er alveg undrandi satt að segja á þessum umr., því þetta finnst mér vera svo mikið grundvallaratriði, kennaramenntunin, uppbygging Kennaraháskóla Íslands og aðbúnaður, að það megi ekki vinna þar að breytingum á grundvelli þess arna, þó aldrei nema við séum að tala um að spara og gæta hagsýni. Ég held nefnilega að þarna verðum við að halda strikið. Lög hafa verið sett og Kennaraháskóli Íslands stofnaður. Þau voru svo endurskoðuð og það er verið að fara yfir frv. á ný í rn. Þar kemur nýr ráðh. Það er allt eðlilegt. En okkur ber að halda strikið, afgreiða ny lög eða ljúka endurskoðun á lögum með því að afgreiða ný lög frá Alþingi. Síðan verða menn að halda áfram að byggja upp húsnæði með eðlilegum hætti og í samhengi.

Auðvitað geta svokallaðir erfiðir tímar seinkað framkvæmdum á þessu sviði, en hvað um það þarf að halda fastri stefnu í þessu og reyna eftir því sem efni og möguleikar eru á að byggja upp rannsóknaraðstöðu. Og svo er það gífurlegt atriði í sambandi við þetta mál, kennaramenntunina og alla framþróun í því sviði, að treysta í vaxandi mæli tengsl Kennaraháskólans við ýmsa aðra starfsemi t. d. skólarannsóknadeildina, Ríkisútgáfu námsbóka, væntanlega námsgagnagerð og svo alveg sérstaklega við Æfinga- og tilraunaskólann, sem er óaðskiljanlegur hluti af Kennaraháskóla.

Í frv. hv. 5. þm. Reykv. eru settar ýmsar skorður í sambandi við kannanir í skólum og allnákvæm fyrirmæli um framkvæmd kannana eða rannsókna innan veggja skólanna. Enda þótt það sé gert, álít ég að það vaki raunverulega fyrir hv. flm. að alls ekki skuli loka fyrir slíkar vísindalegar kannanir. Ég er út af fyrir sig sammála þm. um að það sé a. m. k. rétt að huga að því og e. t. v. nauðsynlegt að setja nánari ákvæði um þetta efni en nú eru í lögum. En ég er alls ekki sannfærður um að öll ákvæði frv. séu heppileg eða skynsamleg eins og það er hér flutt. Það er t. d. eitt atriði — og hefur verið rætt um það hér — að ætlast sé til þess að verkefni, t. d. spurningalistar sem á að leggja fyrir einstaka hópa, verði kynnt forráðamönnum barnanna áður en þau eru lögð fram. Mér sýnist, alveg eins og hv. síðasti ræðumaður gerði grein fyrir, að þetta geti í ýmsum tilvikum og kannske oftast verið alveg ósamrýmanlegt framkvæmd slíkra kannanna eða rannsókna, þar sem fyrirframkynning hlýtur að valda gagnkvæmum áhrifum innan hópsins, sem kannaður er, og svo áhrifum frá öðrum kunnugum, hvort sem það eru nú forráðamenn, foreldrar eða einhverjir aðrir sem börnin umgangast. Þetta gæti hreinlega ónýtt og gert að engu þann tilgang sem fyrir vakir með könnuninni.

Svo sýnist mér að það geti reynst býsna örðugt að samrýma ákvæði frv. ákvæðum grunnskólalaganna í 2. gr., þar sem segir: „Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“ Ég skal aðeins skýra nánar hvað ég á við með því að þarna kunni að verða erfitt að samrýma ákvæði frv. og þessi ákvæði laganna, sem ég veit að síst vakir fyrir hv. flm. að raska. Samkv. 1. gr. frv. skal það vera réttur forráðamanna, eins og þar stendur, að „tryggja það, að menntun og fræðsla gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra.“ Þá koma mér í hug t. d. ýmis trúfélög hér, t. d. ásatrúarfólkið, og svo fólk sem aðhyllist einræðiskenningar í stjórnmálum. Hvernig á að gera þetta mögulegt, bókstaflega, gagnvart forráðamönnum barna, sem hafa þessar skoðanir að tryggja að börnum þeirra sé ekki kennt annað en það sem er í samræmi við þeirra hugsanir?

Svo er þetta með rétt forráðamanna almennt í þessu tilfelli. Það er ekkert einfalt mál að kveða á um það, eins og hér hefur verið bent á í allítarlegu máli. Ég vil, til þess að spara tíma, vísa til ummæla hv. 3. landsk. þm. um það efni síðast þegar þetta mál var til umr. — og reyndar aftur nú, því að hann rifjaði þetta aðeins upp. En ég vil aðeins segja það, að í mínum huga getur aldrei verið um að ræða alger yfirráð forráðamanna eða foreldra, heldur hljóta þau yfirráð ætíð að takmarkast margvíslega í þjóðfélagi eins og okkar, eins og það er byggt upp. Já, við getum tekið skólaskylduna. Foreldrar hafa ekki leyfi til að brjóta hana niður. Og ýmis önnur lagaákvæði takmarka foreldravaldið þannig að það getur aldrei orðið um að ræða neitt alræðisvald foreldra yfir börnum sínum. Þó að ég vilji ekki gera lítið úr ábyrgð heimilanna, þá er þetta nú svona.

Hv. flm. vitnaði í alþjóðasamþykktir, sem Íslendingar eiga aðild að, og þær eru nú orðnar margar og sum ákvæði frv. eru sniðin eftir þeim — a, m. k. einni þeirra. Vissulega viljum við hafa þær samþykktir að leiðarljósi sem við höfum gerst aðilar að og teljum að stefni til góðs. En það er ekki þar með sagt að vel fari á því og sjálfsagt sé að taka þær inn alveg orðréttar í hina ýmsu löggjöf okkar, þó að við viljum tileinka okkur anda þeirra, enda held ég að það sé ekki gert yfirleitt meðal þjóða sem eru aðilar að þessum samtökum. Svo er hitt, að það getur náttúrlega verið spursmál um það, hvar í íslenskri löggjöf einstök ákvæði slíkra samþykkta eiga heima, t. d. í þessu tilviki, hvort þessi ákvæði, sem þarna er leitast við að fella inn í grunnskólalöggjöf okkar, eiga heima þar eða kannske í einhverri annarri löggjöf. Ég held að þetta atriði þurfi miklu nánari athugunar við en fram hefur farið, að athuga þurfi miklu nánar hversu með skuli fara og um hnúta búa í sambandi við þátttöku okkar í alþjóðasamningum, hversu fella skuli ákvæði þeirra að eða inn í íslenska löggjöf. Og mér finnst alveg sérstaklega að það þurfi að koma til nokkru víðari yfirsýn bókstaflega en mér fannst koma fram hjá hv. flm. þegar þm. gerði grein fyrir máli sínu í frumræðu sinni, sem ég hlýddi á á dögunum. Mér fannst rétt að taka þetta fram og það lýsir nokkuð viðhorfi mínu til frv. Ég held að málið þurfi miklu ítarlegri skoðunar við.

Það eru sjálfsagt flestir sammála hv. flm. þessa frv. um það sem hann gerði að nokkru umræðuefni, að einhliða pólitískur áróður sé ekki æskilegur innan veggja skólanna og í raun óþolandi og eftir því verri sem hann kemur niður á yngri aldursflokkum. Menn hafa verið á því að reyna að fyrirbyggja þetta eftir því sem unnt er. Það getur þó verið svolítið erfitt á stundum. Pólitísk sannfæring er stundum eins konar trúaratriði, svo hjá kennurum sem öðru fólki, og það getur verið erfitt að fyrirbyggja slíkt gersamlega. En ég er sammála því, að við eigum að reyna eða halda skólunum utan við pólitísk slagsmál eða harðar deilur um önnur þjóðfélagsleg viðhorf, og menn geta þurft að setja skorður við þessu í löggjöf. En þó vil ég jafnframt segja það og leggja á það áherslu, að ég tel æskilegt almennt að opna skólana og tengja þá sem best umhverfi sínu og athafnalífi fólksins. Þetta kemur ekki í bág við það sem ég sagði áðan — ég vek athygli á að ég talaði um einhliða áróður. Þetta á að vera opið almennt. Og þetta álít ég að eigi að gera og það eru menn að leitast við að gera nú í grunnskólunum og í öðrum skólum landsins, bæði með því að bjóða þangað velkomna ýmsa fleiri en börnin og kennarana og svo með hinu, að leiðbeinandinn og nemendurnir fari á vettvang og kynni sér það sem fram fer í þjóðfélaginu utan skólans. Þessi starfsemi er mjög vaxandi, grunnskólalöggjöfin ýtir undir þetta og sama felst ábyggilega í þeim hugmyndum, sem menn gera sér um framhaldsskóla, að reyna að tengja hann betur en áður umhverfi og athafnalífi. Þetta er gífurlega mikið atriði.

Ég vil minnast nokkuð á þær þjóðir sem kannske eru lengst komnar í skólahaldi, hafa þróað lengst skólakerfi sitt, hafa lengsta skólagöngu o. s. frv. Mér er tjáð að þar hafi menn nokkuð rekið sig á að fólk, sem búið er að vera í skólum árum saman án þess að hafa nokkur tengsl við það sem fram fer að öðru leyti í þjóðfélaginu, við annað starf, á erfiðara með það e;n okkar fólk oft og einatt að koma sér inn í störfin utan skólanna þegar til kemur. Þarna held ég að við séum tvímælalaust á réttri leið. Sú viðleitni, sem nú fer fram, að leiða kennsluna meira inn á það að vera leiðbeinandi um að kenna mönnum að vinna en að vera einhliða kennsla í alls konar minnisatriðum, það held ég að sé alveg tvímælalaust af hinu góða. Og það sem gerir þetta enn þá nauðsynlegra hjá okkur en það var fyrir skömmu, að tengja skólana umhverfinu með ýmsu móti, það eru þær óskaplegu breytingar sem orðið hafa í þá veru að fjarlægja heimili og vinnustað hvort öðru. Áður var það svo hjá öllum þorra landsmanna, að vinnustaður og heimili var eitt og hið sama og ungmennin kynntust þar margs konar vinnubrögðum alveg sjálfkrafa. Nú er þetta breytt. Í öllum þéttbýlisstöðum er heimilið ekki lengur vinnustaður, heldur svefn- og griðastaður fjölskyldunnar. Þess vegna þarf að ástunda sem allra nánust tengsl skóla og heimilis — og atvinnulífs eins og auðið er. Þetta eru grundvallaratriði. Og einmitt vegna þessara stórkostlegu breytinga, sem eru að verða alls staðar, ekki einasta á þessu sviði, heldur á ótalmörgum öðrum sviðum þjóðlífsins, mikil þörf á alls konar athugunum og rannsóknum til að undirbyggja sem best það sem gert skal þá og þá til breytinga og úrbóta.

Mér fannst málflutningur hv. flm. bera svolítinn keim af því, að þm. vildi tryggja eins konar alræðisvald foreldra gagnvart börnum og ganga í því efni öllu lengra en ég fyrir mitt leyti tel fært eða æskilegt að gera af almennum og félagslegum ástæðum. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta öllu meira.

Ég vil að lokum árétta það, að ég tel æskilegt að þetta mál verði skoðað mjög vel. Mér þykir líklegt að að þeirri athugun lokinni þyki ástæða til þess að setja fyllri ákvæði um ýmis þau atriði, sem frv. fjallar um, en nú er að finna í lögunum. Ég er ekki alveg viss um að þessi ákvæði kunni að eiga heima þá í grunnskólalögunum, — kynnu að eiga heima í annarri lagasetningu, sem sumpart er nú verið að vinna að, t. d. um skoðanakannanir og um vísindalegar rannsóknir, sem byggðar eru á persónulegum upplýsingum einstaklinga, um öflun og úrvinnslu slíkra gagna. Það er hugsanlegt a. m. k. Ég vil þó ekki fullyrða neitt um þetta. En sem sagt, ég vil ekki leggja stein í götu þessa frv., að það fái pínlega meðferð og vandlega athugun, því það er vitanlega nauðsynlegt.