31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

325. mál, gildistaka byggingarlaga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Málefni fatlaðra hafa því miður verið mjög vanrækt á Íslandi um langan aldur. Sérstaklega er það sú hliðin, sem veit að byggingarmálum og skipulagsmálum, sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi. Þegar ákveðið var að endurskoða byggingarlög var lögð á það sérstök áhersla að við þá endurskoðun yrði tekið fullt tillit til þarfa fatlaðra og reynt að greiða fyrir þeim í umferð. Var samið ítarlegt frv. til nýrra byggingarlaga og lagt fyrir Alþ. og ásamt því var lagt fram frv. um breytingu á skipulagslögum. Í þessum lögum hvorum tveggja þurfa að vera ákvæði í þessa átt. Því miður tók það þrjú ár fyrir Alþ. að ganga frá þessum lögum, en það tókst á s.l. vori. Hinn nýi lagabálkur, byggingarlög, var þá afgreiddur og sömuleiðis breytingar á skipulagslögum í samræmi við þau.

Ég vil taka það skýrt fram, að sem félmrh. lagði ég á það alveg sérstaka áherslu að tekið yrði fullt tillit til þarfa fatlaðra í þessum lögum. Félmrn. hafði um það alveg sérstakt samráð við hv. fyrirspyrjanda, Odd Ólafsson alþm., sem verið hefur brautryðjandi og mikill áhugamaður um langan aldur um málefni öryrkja og unnið þar þjóðnýtt starf.

Ég held að þannig sé frá lagaákvæðum í þessum tvennum lögum gengið, að það ætti að tryggja, að því er skipulags- og byggingarmál snertir, á viðunandi hátt þarfir fatlaðra. Ég tel að með þessari löggjöf sé brotið í blað og eins og hv. fyrirspyrjandi orðaði það, hér hafi verið stefnumótandi ákvarðanir í málefnum fatlaðra.

Eins og kom fram í svari hæstv. félmrh., þá er svo ákveðið í byggingarlögunum, að reglugerð skuli samin innan tiltekins tíma frá gildistöku laganna. Var skipuð nefnd á s.l. sumri til að undirbúa þessa reglugerð, sem er, eins og hæstv. ráðh. tók fram, viðamikið verkefni. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda og leggja á það þunga áherslu, að í þessari byggingarreglugerð verði tekið fyllsta tillit til þarfa fatlaðra eins og lögin ákveða.