14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3245 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Skýrsla ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina ásamt frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir o. fl. hefur verið hér til meðferðar í hv. þd. alllengi. Ég vildi leyfa mér að beina því til hv. fjh.- og viðskn., sem eflaust fær málið til meðferðar, að reyna að hraða afgreiðslu þess þegar þar að kemur, vegna þess að það fer að verða óþægilegt að bíða eftir samþykkt frv. Það eru ýmsar fjármálaráðstafanir í sambandi við lánsfjár- og fjárfestingaráætlunina sem þarf að fara að afgreiða og taka ákvarðanir um, lántökur o. fl., og það fer að líða að því að þetta fari að valda truflunum í atvinnulífinu, sérstaklega þó í sambandi við ýmiss konar uppbyggingu sem er í gangi og þyrfti að geta gengið áfram truflunarlaust.

Það hafa orðið miklar umr. um þetta mál hér í d. og er full ástæða til þess. Hér er um að ræða stórt mál, eitt af stærstu málum sem ríkisstj. og Alþ. fjalla um á hverju ári. Og það er margt sem komið hefur fram í þessum umr., miklu fleira en ég mun drepa á í þessari ræðu. Ég vil þó vekja á því athygli, að áður en farið var að semja fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina lá það fyrir, að ríkisstj. hafði sett sér ákveðin markmið í sambandi við fjárfestinguna eða fjármunamyndunina á árinu 1979: Það kemur fram í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að draga skuli úr fjárfestingu á árinu 1979 og heildarfjármunamynduninni verði ákveðin takmörk sett. Enn fremur kemur fram í grg. með frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu frá 1. des. s. l., að ríkisstj. lýsir því yfir í þessari grg. að hún muni m. a. beita sér fyrir því, að heildarfjárfestingin á árinu 1979 verði ekki umfram 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Breytingar í fjárfestingarmálum eru í undirbúningi, segir enn fremur, og er gert ráð fyrir lagafrv. um þau mál innan tíðar. Síðan segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir því, að fjárfestingu verði beint frá verslunar- og skrifstofubyggingum í tækni- og skipulagsumbætur, m. a. í fiskvinnslu og iðnaði. Í landbúnaði verði dregið úr fjárfestingu sem leiði til aukinnar framleiðslu, en áhersla lögð á hagræðingu og á uppbyggingu vinnslustöðva landbúnaðarins. Útlánareglum fjárfestingarlánasjóða og útlánum banka verði breytt í samræmi við þessa stefnu.“

Öll þessi atriði voru lögð til grundvallar þegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin var samin, og einnig var að þessu hugað, þegar fjallað var um skattamálin fyrir jólin. M. a. var þá ákveðið að leggja sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, og það var gert öðrum þræði í þeim tilgangi að hægja á þessum byggingarframkvæmdum í samræmi við það sem kemur fram í grg. sem ég var að lesa upp. Og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin er einmitt byggð í aðalatriðum á þessari stefnumótun, sem ríkisstj. hafði einsett sér. Það var ákveðið fyrir fram, að fjárfestingin á þessu ári yrði 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Þannig voru sett hér ákveðin mörk þegar í upphafi. Þeim hefur verið fylgt, og eins og áætlunin er nú lögð fram er gert ráð fyrir 24, 5% af vergri þjóðarframleiðslu í fjármunamyndun á þessu ári.

Ýmsir hv. þm. hafa tekið til máls í þessum umr., þ. á m. hv. þm. Matthías Á. Mathiesen. Ég sé að hann er nú ekki viðstaddur umr., en ég vil drepa á örfá atriði sem hann gerði að umræðuefni.

Hann minntist á forsendur fjárl. og forsendur fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar. Um það vildi ég segja það og endurtaka, að forsendur fjárl. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunarinnar varðandi framkvæmdir eru almennt séð miðaðar við 34% verðbólgu á árinu 1979, og við skulum vona að takist að halda verðbólgunni innan þeirra marka. Þó ber að hafa í huga að fjárhæðir fjárl. eru fastar upphæðir þegar um framkvæmdir er að ræða.

Ég vil vekja á því athygli, að í raun og veru kom það ekki fram hjá stjórnarandstæðingum í þessum umr. að þeir gagnrýndu heildarstefnuna í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, að þeir gagnrýndu það að setja fjárfestingunni takmörk á þessu ári sem væri miðuð við 24–25%. Og þetta er auðvitað eitt af meginatriðum málsins, því að þetta er aðalstefnuskráratriði sem kemur fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni. Ég varð ekki var við, að stjórnarandstæðingar gagnrýndu þetta höfuðatriði, og vil vekja alveg sérstaka athygli á því.

Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen minntist á launahækkanir í sambandi við fjárl. sérstaklega, launahækkunina 1. mars, sem er 6.9% í stað 5% sem stefnt var að af hálfu ríkisstj., en ekki tókst að ná því markmiði. Um þetta vil ég aðeins taka fram að 1% launahækkun á ársgrundvelli þýðir í útgjöld fyrir ríkissjóð hvað snertir bein laun 540 millj. kr., en önnur útgjöld ríkissjóðs, þar sem eru lífeyristryggingar og sjúkratryggingar, 360 millj., eða samtals um 900 millj. kr. Ég vil endurtaka það, sem ég hef raunar sagt áður um þessi mál varðandi ríkissjóð, og ég get sagt frá því hér, að ég hef ítrekað gert fsp. um það til Þjóðhagsstofnunar og hagsýslustofnunarinnar, hver sé skoðun þessara stofnana á þeim áhrifum sem almennar launahækkanir í landinu hafi á rekstur og greiðslustöðu ríkissjóðs. Það er samdóma álit þessara stofnana, og ég hygg að það hafi ekki breyst frá því sem var á síðasta kjörtímabili, að almennar launahækkanir, ef þær eru jafnar alls staðar í þjóðfélaginu, hafi ekki áhrif á rekstrarstöðu ríkissjóðs. Ég hef verið dálítið vantrúaður á það, svo að ég segi alveg frómt frá, að sama máli gegni fullkomlega um greiðslustöðu ríkissjóðs, vegna þess að þessi útgjöld fara út strax, en tekjurnar, sem leiðir af almennum launahækkunum, koma yfirleitt seinna til skila. Þó er því haldið fram, að þegar yfir vofa launahækkanir hagi menn sér nokkuð í samræmi við það og auki útgjöld sín nokkuð í samræmi við það fyrr en menn hefðu annars gert og það komi ríkissjóði fyrr til góða. Um þetta skal ég þó ekki fullyrða, en vil greina frá þessu að gefnu tilefni. Ég held þar til ég sé annað, — sem ég geri sennilega aldrei, því að það er afar erfitt að mæla þetta, — að almennar launahækkanir mundu hafa þau áhrif að greiðslustaða ríkissjóðs versnaði, a. m. k. í bili, ég skal ekki fullyrða um það á ársgrundvelli. Ég vildi taka þetta fram í tilefni af þessum ummælum í sambandi við launahækkanirnar.

Þá víl ég víkja örfáum orðum að skattamálunum og gera grein fyrir því, hvaða áhrif skattbreytingarnar, sem gerðar voru fyrir áramótin, hafi á innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1979. Ég hef látið Þjóðhagsstofnun athuga þetta mál alveg sérstaklega til þess að menn þurfi ekki að deila um það, og niðurstaðan af þessari athugun er sú, að heildaráhrif skattbreytinganna, sem gerðar voru fyrir jólin, á innheimtar tekjur ríkissjóðs 1979 umfram það sem verið hefði ef engar breytingar hefðu verið gerðar, valdi skattahækkunum sem nema 3910 millj. kr. Þá er að sjálfsögðu tekin inn í þetta dæmi lækkun aðflutningsgjalda vegna EFTA-samninganna um áramótin og lækkun aðflutningsgjalda af fiskvinnsluvélum og lyfturum, sem voru afnumin, nemur nokkurri fjárhæð, það er tekið inn í þetta og reiknað með um 2050 millj. kr., sem ég hygg að sé heldur lág fjárhæð í þessu efni, en skal þó ekki um það fullyrða. Niðurstaðan er sem sagt sú, að breytingin nemi 3910 millj. kr. Það er öll skattahækkunin, það er öll skattpíningin sem fólst í ráðstöfnunum sem gerðar voru fyrir jólin. Þannig er ekki rætt neitt um þær tilfærslur sem áttu sér stað og urðu verulegar innan skattkerfisins, og um það ætla ég ekki að deila.

Í þessu sambandi hef ég vakið athygli á því, að nýr útgjaldaliður kom um áramótin inn í fjárl., sem aldrei hefur verið þar áður, og þar á ég við útgjöld vegna fjármagnskostnaðar við Kröfluvirkjun. Þessi útgjöld nema 2380 millj. kr. Auðvitað hefði þurft að afla fjár til að standa undir þessum útgjöldum eða skera niður útgjöld í sama skyni. Ef þetta atriði er tekið inn í dæmið, þá er heildarbreytingin ekki nema einar 1500 millj. kr. En eins og ég tók fram áður og vil undirstrika, þá eru ýmsar tilfærslur innan kerfisins, þ. á m. meiri skattar og hærri skattar á atvinnurekstur og hærri skattar á hærri tekjur. Þessi heildaráhrif eru ekki nema 0.6% af þjóðarframleiðslu og 2% af ríkistekjum. — Þetta vildi ég taka fram í sambandi við endurteknar umr. og skrif um hina svokölluðu skattpíningu.

Hv, þm. Matthías Á Mathiesen kom nokkuð inn á ríkissjóðinn og afkomu ríkisins. Það er verið að undirbúa venjulega skýrslu í fjmrn. og hagsýslustofnuninni um greiðsluafkomu og rekstrarafkomu ríkissjóðs á síðasta ári. Hliðstæðri skýrslu var útbýtt á síðasta Alþ. 13. mars hér á Alþ. Ég geri mér vonir um að þessi skýrsla verði mjög fljótlega tilbúin og þá verður henni að sjálfsögðu útbýtt hér á Alþ. eins og venja hefur verið. Þess vegna mun ég ekki gera þetta mál nú að sérstöku umræðuefni, en aðeins endurtaka það, að heildarskuldir ríkissjóðs við síðustu áramót voru 26 milljarðar kr, og höfðu vaxið um 11 milljarða frá áramótum 1977–1978. Þar af voru um 7 milljarðar gengisuppfærsla, þ. e. a. s. eingöngu hækkun ríkisskulda í íslenskum kr. vegna gengisbreytinga sem orðið höfðu á síðasta ári.

Þá gat hv. þm. nokkuð um fjárl. og fjárfestingaráætlunina og meðferð málsins og kem ég nánar að því síðar.

Varðandi stjórnleysið, sem mikið er talað um, vil ég aðeins við þetta tækifæri segja það, að þegar núv. ríkisstj. tók við völdum í septemberbyrjun s. l. var verðbólgan 52%, og það verður að viðurkennast að það er nokkurt vorkunnarmál að fjalla um ríkisfjármál og efnahagsmál við slíkar aðstæður. Ég hygg að hvaða ríkisstj. sem er muni veitast erfitt að ná tökum á efnahagsmálunum á nýjan leik og koma verðbólgunni niður í það sem hún verður að komast í, hliðstætt við það sem gengur og gerist hjá okkar nágranna- og viðskiptaþjóðum. Til viðbótar við þetta koma svo stórfelld vandamál, þar sem er olíukreppan, hin nýja olíukreppa, þar sem er ástand fiskstofnanna, sem er vissulega mjög alvarlegt vandamál, og einnig þau vandamál sem blasa við í íslenskum landbúnaði vegna offramleiðslu á landbúnaðarvörum eins og sakir standa. Þetta eru allt saman erfið mál úrlausnar og torvelda að sjálfsögðu að menn nái tökum á efnahagsmálunum á nýjan leik, en ég tel ekki að það verði nema menn nái verðbólgunni verulega niður. Ég held, án þess að ég vilji nú stofna til almennra umr. um verðbólgumálin, að verðbólgan sé enn þá skaðsamlegri en menn gera sér grein fyrir, og ég held, að hún smátt og smátt sjúgi merg og blóð úr atvinnulífi okkar og atvinnuvegum, staðfestu í efnahagsmálum og fjármálum og leiði, ef hún stendur lengi svona mikil, til atvinnuleysis og versnandi lífskjara í landinu.

Hv. þm. Lárus Jónsson, 6. þm. Norðurl. e., gerði að umræðuefni ýmis sömu atriði og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen. Hann minntist t. d. á meðferð málsins, þ. e. a. s. fjárfestingar- og lánsfjáráætlunarinnar, og gagnrýndi það að áætlunin var ekki samferða fjárl. Ég get tekið undir þá gagnrýni. Það er mjög æskilegt að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin sé samferða fjárl. Ég get tekið undir það. Og það er til tjóns að ekki tókst að afgreiða þessa áætlun fyrir áramót, eins og var upphaflega ætlun mín. En það fór, eins og hv. þm. minnast, miklu lengri tími í afgreiðslu fjárl. fyrir jólin en ástæða var til að ætla að þyrfti, og þess vegna varð því ekki komið við að afgreiða fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina fyrir áramót og það er verra, það viðurkenni ég.

Varðandi samráð við fjvn., þá er það auðvitað svo, að þegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin er samferða fjárl. koma þessi samráð frekar af sjálfu sér, og það er eðlilegt í sumum efnum að höfð séu samráð við fjvn. þegar um er að ræða atriði sem snerta sérstaklega fjárveitingar úr ríkissjóði. Það eru einstök atriði, að vísu ekki mörg, í þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem eru þess eðlis. Það er t. d. gert ráð fyrir því, að framlag til Rafmagnsveitna ríkisins verði 120 millj. á 5 árum, þ. e. a. s. 600 millj. kr. lán, sem tekið verður til að styðja Rafmagnsveitur ríkisins, verði greitt þannig til baka að ríkissjóður veiti sérstaka fjárveitingu á 5 árum til að greiða þetta lán upp, þ. e. a. s. höfuðstólinn, ekki vextina. Þetta er mál sem væri e. t. v, eðlilegt að væri rætt um við fjvn. En vegna þess að meðferð þessara mála fór ekki saman var það ekki sérstaklega gert.

Enn fremur má minna á mál eins og flugvélakaup eða flugvélaskipti flugmálastjórnarinnar, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni. Ég ætla ekki að ræða það mál nánar. Ég mun gera fjvn. grein fyrir því máli. Það eru ýmsir fletir á því sem ég er ekki ánægður með, ég get viðurkennt það. Síðan kemur einnig til í þessu efni atriði eins og það, hvernig eigi að nota þessa nýju flugvél. Ég setti það skilyrði, þegar gengið var endanlega frá málinu, það kom ekki til mín fyrr en á seinni stigum þess, að eðlilegt væri að þessi flugvél yrði notuð öðrum þræði í þjónustu fyrir landhelgisgæsluna. Og það er að sjálfsögðu rétt að ræða það mál við fjvn.

Ég get tekið undir þá gagnrýni og viðurkennt hana, að það er æskilegt að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé samferða fjárl., enda er gert ráð fyrir að lögfesta þá skipan í því frv. til l. um efnahagsmál o. fl. sem forsrh. hyggst leggja fyrir Alþingi á morgun.

Ég tók það fram áðan og vil gjarnan endurtaka það, að það kom fram hjá hv, þm. Lárusi Jónssyni að hann var samþykkur,þeirri meginstefnu að draga saman opinberar framkvæmdir eins og sakir standa. Ég vil aftur vekja athygli á því, að þetta höfuðstefnuskráratriði fjárfestingaráætlunarinnar, að draga heldur úr framkvæmdum, hefur ekki sætt gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Hv. þm. Lárus Jónsson studdi einnig þá nýju stefnu, sem kemur fram í áætluninni, að heimila innlendum skipasmíðastöðvum að taka innlend bráðabirgðalán á byggingartíma skips eða til meiri háttar breytinga á skipum. Hér er um að ræða aðeins stærri skip, þ. e. a. s. nótaskip og togara. En ég vil taka það fram í þessu sambandi, að það er ekki hugmyndin að þessi lán verði nema til bráðabirgða, í raun og veru rekstrarlán, og þau verði tekin innan þeirra marka, sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin setur, og verði greidd upp af lánum sem tekin eru í samræmi við lánsfjáráætlunina.

Ég vil vekja athygli á því, að þarna er um að ræða í raun og veru eitt af mörgum atriðum sem hafa verið að gerast á undanförnum árum, að við erum að seilast æ lengra í að nota erlent fjármagn. Þetta eru ekki varanleg lán, heldur eru þetta lán innan marka lánsfjáráætlunar sem ég gerði ítarlega grein fyrir í framsöguræðu. En þetta eru þó merki um það, að við erum að seilast lengra en áður í þessum efnum. Verðbólgan er að brenna upp fjármagnið í lánsfjárstofnunum okkar hægt og bítandi, og við erum að hörfa lengra og lengra í þessum efnum og nýta erlent lánsfé bæði til uppbyggingar og rekstrar.

Þá minntist hv. þm. aðeins á þjóðarbókhlöðuna. Það kemur fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á bls. 9, að gert er ráð fyrir 200 millj. kr. lántöku til áframhaldandi framkvæmda við þjóðarbókhlöðu. Afgangur fjárveitinga fyrri ára nemur 32 millj. kr., og nemur því heildarframkvæmdafé, sem verður til reiðu, væntanlega 232 millj. Framlagið var lækkað við afgreiðslu fjárl., en það kom fram í máli margra þm. þegar fjárl. voru til afgreiðslu hér í þinginu, að þeir voru mótfallnir þessu, og ég átti von á því að það kæmi hreinlega fram brtt. við fjárl. út af þessu máli. Þess vegna lýsti ég því yfir við afgreiðslu fjárl., að ríkisstj. mundi beita sér fyrir lántöku í þessu skyni, og það er gert með því að heimila sérstakt lán til þjóðarbókhlöðunnar á þessu ári.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um Lánasjóð ísl. námsmanna. Framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna er 2 milljarðar 234 millj. 861 þús. kr. á fjárl. og síðan er lántökuheimild í fjárl. eða ábyrgðarheimild upp á 400 millj., að sjóðurinn taki 400 millj. kr. lán sem verði ábyrgst af ríkissjóði. Og síðan kemur í lánsfjáráætlun 700 millj. kr. lántökuheimild til handa sjóðnum. Samkv. aths. við fjárlagafrv. er framlag að viðbættum lántökuheimildum miðað við að lánshlutfall sjóðsins verði 85% af umframfjárþörfinni. Við það eru þessar heimildir miðaðar, við þessa stefnu sem var ákveðin af fyrrv. ríkisstj.

Þá gerði hv. þm. að umræðuefni fjárþörf til hitaveitna. Það er gerð sundurliðuð og ítarleg grein fyrir því í skýrslunni, hvernig áformað er að afla fjár til hinna ýmsu hitaveitna, sem þar eru nefndar, og fjarvarmaveitna. Til viðbótar við það vil ég aðeins nefna það, — ég hygg að ég hafi komið inn á það í framsöguræðu minni fyrir skýrslunni, — að sennilega skortir 700–800 millj. til þess að hægt sé að ljúka framkvæmdum við Hitaveitu Akureyrar á þessu ári. Ég álít að ef hægt sé að gera það með sæmilega góðu móti, þá sé sjálfsagt að greiða fyrir því, ekki síst vegna þeirra nýju aðstæðna sem hafa skapast við tilkomu olíukreppunnar. Sama er e. t. v. að segja um fleiri hitaveitur. Það er ástæða til að hraða þeim eftir því sem föng eru á vegna þessara nýju viðhorfa, og það er þá hægt að afgreiða þau mál þegar þar að kemur. Um þessi efni er ekki svo gott að ræða á þessu stigi málsins, vegna þess að undirbúningi hinna ýmsu framkvæmda er mjög misjafnlega langt á veg komið.

Hv. þm. gerði Ferðamálaráð að umræðuefni. Ég tók það fram í minni framsöguræðu, að athuga þyrfti það mál nánar í fjh.- og viðskn., sem eflaust fær málið til meðferðar. Gert er ráð fyrir því á þessu ári, 1979, að seldar vörur og þjónusta frá Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli nemi um 1802 millj. kr. og það sérstaka gjald, sem samkv. lögum um skipulag ferðamála var sett á, 10% gjald af árlegu söluverðmæti, nemi um 164 millj. kr. á þessu ári, en það mundi verða reiknað af 1638 millj. kr. Hins vegar samkv. lagafrv., sem hér er til umr., mundi þetta gjald ekki nema hærri fjárhæð en 47.9 millj. kr. Hér hygg ég að sé of stórt stökk stigið og þess vegna hefði ég viljað leggja til að þessi 10%, sem reiknað er með í lagafrv., 20. gr., og er gert ráð fyrir að verði 10% af skilum Fríhafnarinnar til ríkissjóðs, — þetta verði hækkað upp í 20%, þannig að það verði um 90 millj. sem mundu þá renna til Ferðamálaráðs í staðinn fyrir 164 millj. Ég hef sannfrétt það, að þegar þetta frv. var til meðferðar hér á þingi hafi það farið í gegn að þessu leyti til án þess að menn veittu þessu nægilega mikla athygli. Í raun og veru er ákaflega óeðlilegt að hraða málum þannig að ríkissjóður geti greiðslulega séð tapað á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, en það gerir hann ef 10% af seldum vörum og þjónustu verða meira en það sem er í afgang. Þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt að mínum dómi að miða við skilin, miða við skil á hagnaði sem rennur til ríkissjóðs á hverju ári, og vil ég biðja hv. þm. að taka þetta mál til athugunar.

Hv. þm. setti fram nokkrar fsp. sem voru sumar almennar.

Fyrsta fsp. varðaði áform ríkisstj. um niðurgreiðslur. Áformin um niðurgreiðslur eru þau, að gert er ráð fyrir því á fjárl. að til niðurgreiðslna verði varið 18.9 milljörðum kr., og það er ekki nægilegt fjármagn til að standa undir því niðurgreiðslustigi sem nú viðgengst. Það skortir rúmlega 3 milljarða kr. til þess. Og það er áform ríkisstj. að gera breytingar á í þessu efni þannig að þetta fé hrökkvi til niðurgreiðslna eins og áformað er, en að líkindum mundi það hafa 1.5% hækkunaráhrif á verðbætur á síðari hluta ársins.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um laun opinberra starfsmanna, hvað það mundi kosta ríkissjóð ef grunnlaun hækkuðu um 3% 1. apríl. Það mundi kosta ríkissjóð á þessu ári um 1300 millj. kr. Talið er að að viðbættum þessum 6.9%, sem launin hækkuðu nú 1. mars, nemi launagreiðslur úr ríkissjóði á þessu ári um 58 milljörðum kr.,1% af því eru þá 580 millj. og 3% 1740 millj., en eftir eru 9 mánuðir ársins, þannig að hér mundi vera um að ræða útgjöld sem nema á þessu ári um 1300 millj. kr. Að öðru leyti vil ég vísa í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál, þar sem gert er ráð fyrir samningum við BSRB um að fella þessi 3% niður gegn því að það fái í sinn hlut aftur réttindi sem tilgreind eru í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna.

Þá spurði hv. þm. um lyfjakostnað, þar sem fjárlög voru afgreidd þannig að miðað var við að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og kostnaði vegna sérfræðiþjónustu ykist sem nemur um 940 millj. kr. á árinu 1979. Þessu vil ég svara því, að þessi hækkun verður framkvæmd, en ríkissjóður mun tapa á þessu það sem af er árinu um 400–450 millj. kr. Ég hygg að það sé nálægt 150 millj. sem seinkun á þessari hækkun valdi í útgjöldum ríkissjóðs á hverjum mánuði.

Síðan spurði hv. þm. um það, hvenær væri að vænta tillagna um niðurskurð útgjalda í samræmi við fjárl. Því er til að svara, að það er verið að undirbúa það mál og munu verða gerðar um það till. alveg á næstunni og teknar ákvarðanir um það.

Gert er ráð fyrir því í fjárl., að tekjur umfram gjöld séu 6.6 milljarðar, og ef 1 milljarður kemur til viðbótar í lækkuðum ríkisútgjöldum mundi rekstrarafgangur á fjárl. verða 6.7 milljarðar, ef allt gengur eftir eins og ætlast er til.

Hv. þm. spurði enn fremur um stöðu ríkisbúskaparins, og vísa ég til þess sem ég sagði áður um það efni.

Hv. þm. Matthías Bjarnason gerði að umræðuefni Byggðasjóðinn og taldi að ráðstöfunarfé Byggðasjóðs yrði skert verulega umfram það sem til væri ætlast í lögum, ef farið væri eftir fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni eins og hún er sett fram. Ég vil svara þessu á þann veg, að Byggðasjóður hefur aldrei haft meira fé til ráðstöfunar en hann kemur til með að hafa á þessu ári. Samkv. því, sem kemur fram í töflu á bls. 40 í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, hefur Byggðasjóður 367 millj. kr. til ráðstöfunar af eigin fé, hann fær frá ríkissjóði 2458 millj., svo fær hann sérstakt fé, 1100 millj., af því eru 900 millj. ætlaðar til að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og 200 millj. til að létta lausaskuldir bænda. Síðan eru 1480 millj. sem ganga út og inn, vegna þess að það er tekið lán og endurlánað vegna kostnaðar við byggðalínur. Samtals verður ráðstöfunarfé sjóðsins 5405 millj. kr. á móti 2700 millj. á seinasta ári. Ef 1480 millj. eru dregnar frá verður ráðstöfunarfé sjóðsins rétt um 4 milljarða, en útgjöld fjárl. eru rúmir 200 milljarðar, þannig að það stendur nokkurn veginn heima að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar á þessu ári 2% af útgjöldum fjárl. eins og gert er ráð fyrir í lögum.

Hv. þm. kom nokkuð inn á þetta mál almennt séð. Þegar lög um Framkvæmdastofnun ríkisins voru endurskoðuð á seinasta kjörtímabili var um það nokkur deila á milli Framsfl. og Sjálfstfl. hvernig þetta skyldi gert. Við lögðum áherslu á okkar stefnu, að 2% af ríkisútgjöldunum rynnu til Byggðasjóðs, en Sjálfstfl. vildi ekki fallast á það, heldur vildi orða þessa reglu þannig, að á ári hverju hefði Byggðasjóður til ráðstöfunar sem svarar 2% af fjárl., og það var samþ. og lögfest. En það þýðir að það þarf ekki að renna til sjóðsins fullt framlag frá ríkissjóði, heldur getur hann tekið lán til þess að hafa til ráðstöfunar. Og það er í samræmi við þessa reglu sem sú uppstilling hefur verið gerð sem kemur fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni.

Þá minntist hv. þm. Matthías Bjarnason á Fiskveiðasjóð og nýsett lög um útflutningsgjald, þar sem útflutningsgjaldið er lækkað. Það er rétt hjá hv. þm., að Fiskveiðasjóður tapar nokkru fé á þessu, og hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir hér á Alþ., að Fiskveiðasjóði verði bætt það upp. Ég vil því beina því til hv. fjh.- og viðskn., sem eflaust fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi alveg sérstaklega hvað mikið það er sem Fiskveiðasjóður tapar á þessu í framlögum og að það verði gerðar breytingar með lántöku til þess að Fiskveiðasjóður hafi til ráðstöfunar það sem ætlast er til samkv. lánsfjáráætluninni.

Að lokum vil ég aðeins drepa á það, að það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin er eitt af stórmálum Alþ. og ríkisstj., eitt allra stærsta mál sem þessir aðilar fjalla um á ári hverju og þess vegna full ástæða til að það séu miklar umr. um málið hér á Alþ., enda hefur svo verið að þessu sinni. Það hafa verið mjög miklar umr. um málið í þessari hv. deild.

Um þátt stofnana í þessu verki vil ég aðeins segja það, að áætlunin er lögð fram á ábyrgð ríkisstj. Það er ekki stórmannlegt að varpa ábyrgð á svona verki yfir á stofnanir. Það er ríkisstj. sem ber ábyrgð á því, það verður að hafa í huga þegar svona skýrsla er lögð fram. Hitt er annað mál, að þegar þrír flokkar vinna saman í ríkisstj., þá hafa þeir auðvitað skiptar skoðanir á málum og verða því að bræða sjónarmið sín saman, ef þeir ætla að koma málum sameiginlega fram.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson minntist alveg sérstaklega á skyldusparnaðinn. Það kemur fram í töflu á bls. 40 í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni hvernig fyrirhugað er að haga þessum málum. Samkv. því er fyrirhugað að af skyldusparnaðinum, sem nemur 4900 millj. kr. á þessu ári, verði lánaðar til íbúðalánasjóða eða Byggingarsjóðs ríkisins 2500 millj., til Framkvæmdasjóðs 2400 millj. og til Stofnlánadeildar landbúnaðarins 400 millj., þ. e. a. s. skyldusparnaður ungmenna í sveitum. Ég tók fram í framsöguræðu minni, að mér er það ekki fast í hendi og í raun og veru ekki ríkisstj., hvernig þessu er fyrir komið. Af hennar hálfu er alveg opið að haga því öðruvísi, en þó þannig að menn nái þeim markmiðum sem sett eru í áætluninni, eins og t. d. að í staðinn fyrir að lána af skyldusparnaðarfé 2400 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs, þá verði Framkvæmdasjóði lánað af fé Atvinnuleysistryggingasjóðs í staðinn og Byggingarsjóður ríkisins fái aftur meira af skyldusparnaðarfé. Þetta eru málefni sem hv. þn. mun taka til athugunar.

Ég vil svo að lokum aðeins minnast á það, að hvaða leyti fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin er raunveruleg áætlun. Ég hef gert grein fyrir því, að heildarstefnan sé að fjárfesting ársins verði 24–25% af þjóðarframleiðslu þess eða um 182 milljarðar kr., og það hefur ekki sætt gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðunnar. Þetta er meginstefnumarkið. Í öðru lagi er skipting fjárfestingarinnar, sem kemur fram í áætluninni, þannig, að heildarframkvæmdir á vegum hins opinbera nema 32.5% af heildarfjárfestingunni eða 59 milljörðum 297 millj. kr. Heildarframkvæmdir á vegum atvinnuvega nema samkv. áætluninni 43.2% á árinu af heildarfjárfestingu eða 79 milljörðum 300 millj. kr. Og heildarframkvæmdir íbúðarhúsa nema 24.3% eða 43 milljörðum 640 millj. kr.

Þarna er um að ræða stærstu drættina í þeirri stefnumörkun sem lánsfjár- og fjárfestingaráætlunin boðar. Opinberum framkvæmdum er í áætluninni skipt í fjóra flokka: Það eru rafvirkjanir og rafveitur, hita- og vatnsveitur, samgöngumannvirki og byggingar hins opinbera. Síðan kemur fram í einstökum atriðum hvað á að framkvæma.

Framkvæmdum á vegum atvinnuvega er stýrt gegnum fjárfestingarlánasjóðina sem eru tvenns konar: annars vegar íbúðarlánasjóðir og hins vegar atvinnuvegasjóðir. Íbúðarlánasjóðirnir eru þrír og lána tæpa 13 milljarða kr. á þessu ári samkv. áætluninni. Langstærstur þeirra er Byggingarsjóður ríkisins sem stjórnar hinu almenna íbúðalánakerfi. Eins og kunnugt er, eiga allir, sem fullnægja tilteknum skilyrðum, rétt á láni frá Byggingarsjóði, og í áætluninni er gert ráð fyrir að auka húsbyggingaframkvæmdir á félagslegum grundvelli. Auk þess er gert ráð fyrir því, að ef sérstakar aðstæður steðja að, svo sem atvinnuleysi eða því um líkt, þá er heimilt að auka fé Byggingarsjóðs til þess að mæta því ástandi. Húsnæðismálastjórn stýrir þessum lánveitingum. Þá koma atvinnuvegasjóðirnir, sem eru samtals 14 og allir hafa þeir yfir sér sérstaka stjórn. Þeir lána samtals samkv. áætluninni 25 milljarða 946 millj. kr. Framkvæmdasjóður Íslands er sérstakur sjóður sem lánar öðrum fjárfestingarlánasjóðum og lánar mjög lítið beint í framkvæmdir, en Fiskveiðasjóður er langstærsti atvinnuvegasjóðurinn og er gert ráð fyrir að hann láni 9780 millj. kr. + 1200 millj. úr gengismunarsjóði, eða samtals 10 milljarða 980 millj. kr. á þessu ári. Stjórn Fiskveiðasjóðs lánar úr sjóðnum eftir vissum reglum, aðallega í eftirgreinda þætti: 1) til erlendra skipakaupa, 2) í innlenda skipasmíði, 3) til tækjakaupa, viðgerða og breytinga og 4) til vinnslustöðva í sjávarútvegi. Og þannig skipta allir atvinnuvegasjóðirnir lánveitingum niður í einstaka þætti. Forráðamenn sjóðanna ræða ítarlega við Framkvæmdastofnun ríkisins um fjárvöntun og Framkvæmdastofnun ræðir svo málin við ríkisstj. Þannig verður áætlun um útlán atvinnuvegasjóðanna til.

Svo lengi sem ég man hefur aldrei verið hægt að fullnægja öllum óskum atvinnuvegasjóðanna og þess vegna þurfa menn að gera áætlun um hvernig lánveitingum verði skipt, og þá er það m. a. gert í þá þætti hjá Fiskveiðasjóði sem ég nefndi áðan sem dæmi. Það er heimild í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins til þess að skilyrða lánveitingar úr Framkvæmdasjóði og gera það þannig, að Framkvæmdasjóður skilyrði lánveitingar sínar þannig að Fiskveiðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóður og aðrir fjárfestingarlánasjóðir láni það fé, sem Framkvæmdasjóður veitir að láni, með tilteknum hætti í tilteknar greinar. Þessi heimild hefur ekki verið notuð og ég er nú fyrir mitt leyti frekar hlynntur því að reyna samninga um þessa mál. Þó kann að vera að menn hafi ekki beitt þessari heimild nægilega til þess að beina fjármagni til ákveðinna greina, en heimildin er til og gerir auðvitað stöðu Framkvæmdasjóðs og Framkvæmdastofnunarinnar sterkari í þessu sambandi. En auðvitað eru skiptar skoðanir um það, hve afskipti hins opinbera eigi að vera víðtæk í þessum málum. Ég hallast að því, að afskiptin eigi að beinast að umgjörð starfseminnar frekar en að starfseminni sjálfri, en eigi að síður er ég fylgjandi því að beina fjármagninu inn á ákveðnar brautir, alveg sérstaklega við verðbólguaðstæður, til þess að koma í veg fyrir að fjármagnið renni eftir farvegum verðbólgu í óarðbæra og óæskilega fjárfestingu.

Í löngum og ítarlegum umr. hafa að sjálfsögðu komið fram fjölmörg atriði umfram þau sem ég hef hér drepið á. Það atriði sem hvað flestir hafa gert að umræðuefni, er spurningin um hvort 182 milljarða fjárfesting á þessu ári muni tryggja nægilega atvinnu eða muni leiða til atvinnuleysis í landinu. Í þessu efni er tvenns að geta. Annars vegar segir svo í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, að það skuli draga úr fjárfestingu á árinu 1979 og heildarfjármunamynduninni verði ákveðin takmörk sett. Ég gerði grein fyrir því í upphafi máls míns, hvernig þessi mörk hefðu verið sett um 24–25% fjárfestingu af þjóðarframleiðslunni. Hins vegar segir einnig í samstarfsyfirlýsingunni, að draga skuli úr erlendum lántökum á þessu ári. Það er að sjálfsögðu vandaverk að meta fjárfestingarstigið annars vegar með það í huga að draga úr spennu í efnahagslífinu og minnka á þann hátt verðbólguna og hins vegar að tryggja fulla atvinnu í landinu. En það er mat ríkisstj. að miða heildarstefnuna í samræmi við það sem kemur fram í skýrslunni um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Það, sem hefur þó úrslitaáhrif á atvinnustigið, er allt annað að mínu mati, þ. e. a. s. að atvinnuvegunum séu búin þau rekstrarskilyrði sem tryggja þróttmikla atvinnustarfsemi og mikla atvinnu í landinu. Fjárfestingin er ekki nema liður í því að tryggja fulla atvinnu. Þar koma að sjálfsögðu til fleiri greinir og þá auðvitað sérstaklega ástand atvinnuveganna og af hve miklum þrótti þeir eru reknir.

Varðandi fjárfestinguna verður að hafa í huga að til þess að auka hana við núverandi aðstæður verður að taka meiri erlend lán. Menn hafa hreinlega ekki getað með skipulegum hætti aflað meira lánsfjár innanlands í fjárfestingu en gert er ráð fyrir í þessari áætlun og er þó gagnrýni á ýmsa þætti í þessu efni, eins og t. d. frá lífeyrissjóðakerfinu, svo að dæmi sé tekið. En lífeyrissjóðafjármagnið er hvorki meira né minna en 27 milljarðar hvað ráðstöfun snertir. á þessu ári og er ákaflega mikilsvert til að standa undir uppbyggingu og fjárfestingu. En ríkisstj. metur það svo, að það sé ekki ráðlegt við núverandi aðstæður að auka meir á erlendar lántökur en gert er samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að endurtaka þá ósk, að hv. fjh.- og viðskn., sem eflaust fær málið til meðferðar, reyni að hraða afgreiðslu málsins í n., vegna þess að drátturinn á málinu er að byrja að valda truflunum í uppbyggingu. Það verður að fara að taka ákvarðanir um lánveitingar til vissra þátta, og það fer að valda erfiðleikum og er þegar farið að valda erfiðleikum ef ekki kemur fjármagn t. d. til iðnaðaruppbyggingar og alls konar uppbyggingar í atvinnulífinu sem gert er ráð fyrir í áætluninni