31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

325. mál, gildistaka byggingarlaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna þeim umr. sem um þetta mál hafa orðið, og um leið tel ég að hin nýja byggingarlöggjöf sé að því er þetta varðar mjög tímabær og nauðsynleg.

Ég vil aðeins vekja athygli í þessum umr. á því vandamáli, á hvern hátt skuli ráða bót á því ástandi sem er í þjóðfélaginu hvað þetta varðar, þ.e.a.s. hvernig hægt sé að láta breyta því húsnæði, ekki síst því opinbera húsnæði sem fyrir er, á þann hátt að það komi að gagni fyrir fatlað fólk. Ég tel að það þurfi að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar. E.t.v. kann að vera þörf á því að leggja fram sérstakt fjármagn við fjárlagagerð til þess að reyna að leysa úr þessu vandamáli sem fyrst. Þrátt fyrir að ákvæði í nýrri löggjöf sé gott, þá tekur það aðeins til nýrra framkvæmda sem fram undan eru, en við vitum að m.a.s. núna er verið að byggja stórbyggingar víðs vegar um landið sem verða ekki tilbúnar fyrr en á næstu árum. Þar er alls ekki gert ráð fyrir þessu atriði, sem byggingarlögin nýju gera ráð fyrir. Ég vildi vekja athygli á þessu.