14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3257 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 445 frv. til l. um breyt. á lögum nr. 30 frá 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, svo hljóðandi:

„1. gr. Við 8, gr. laganna, Á-lið, komi ný mgr. er hljóði svo:

Húsnæðismálastjórn hefur einnig heimild til að veita lán til byggingar vistheimila fyrir aldrað fólk, enda geti það eigi lengur búið á eigin heimilum og þarfnist umönnunar, án þess þó að hafa þörf fyrir sjúkrahúsvist. Skal ráðh. með reglugerð setja ákvæði um fjárhæð slíkra lána, lánstíma og tryggingar. þeirra.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með leyfi forseta mun ég lesa hér upp grg. Hún er svo hljóðandi:

„Nú munu vera um það bil 10 ár liðin frá því að Alþ. veitti Húsnæðismálastofnun ríkisins fyrstu heimild til þess að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til byggingar leiguíbúða fyrir aldrað fólk í elliheimilum og byggingum Örorkubandalags Íslands. Með núgildandi húsnæðismálalöggjöf, sem er að stofni til frá 1970 (nr. 30 1970, var sú heimild færð mjög út. Á grundvelli hennar hafa síðan verið veitt lán úr Byggingarsjóði ríkisins til byggingar 821 íbúðar, sem velflestar eru komnar í notkun í dvalarheimilum aldraðra og öryrkja um land allt, en enn eru þó nokkrar í byggingu. Þegar mun hafa verið varið um 1.5 milljörðum kr. úr Byggingarsjóði ríkisins í þessu skyni og er fyrirsjáanlegt framhald á því.

Ljóst er, að margir þeirra, sem flust hafa og dveljast nú í ofangreindum íbúðum í dvalarheimilum aldraðra, geta varla búið þar og annast sjálfir allt sitt heimilishald þegar aldurinn færist meir yfir. Þeir, sem sjúkir eru, hljóta þá að fara á sjúkrahús, en hinir, sem frískir eru án þess að geta sakir ellihrumleika annast sitt heimilishald, verða í vandræðum. Hyggilegast er þá að búa þeim stað á vistheimilum, þar sem þeir njóta verulegrar umönnunar jafnframt því sem þeir hafa aðstöðu til þess að bjarga sér sjálfir eftir því sem kraftar og heilsa leyfir.

Vistheimili þau, sem hér um ræðir, eiga ekki að óbreyttum lögum kost á fjárframlögum úr ríkissjóði. Í þeim yrðu ekki íbúðir, heldur herbergi með eldunaraðstöðu, og því eiga þau ekki heldur kost á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins að óbreyttum lögum. Því er með till. þessari lagt til að húsnæðismálastjórn verði veitt heimild til þess að veita lán til bygginga af þessu tagi, sem telja má víst að bráðnauðsynlegt verði að koma á laggirnar um land allt á næstu árum.“

Herra forseti. Grg. þessi er í sjálfu sér nægjanleg sem málflutningur með þessari till. minni. Mér þykir þó rétt að geta þess, að þau vistheimili, sem hér um ræðir, eru undir þeirri stærð á einingu vistarvera sem lög nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, leyfa að lánað sé út á. Þessi vistheimili eru til þess hugsuð að veita öldruðu fólki áfram þjónustu og umhyggju eftir að það getur ekki lengur hugsað um sig sjálft af nokkru öryggi í sjálfstæðum íbúðum fyrir aldraða. Með tilkomu þessara vistheimila verður hægt að losa íbúðir fyrir aldraða með meiri hraða en hingað til og þar með veita fleira öldruðu fólki þjónustu við hæfi eða eftir þörfum hvers og eins.

Þjónustukeðja sú, sem stefnt er að því að fullkomna hér í Reykjavík, er byggð í samræmi við þá reynslu, sem hæfustu læknar og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar hafa lagt til að komið yrði á fót, og hliðsjón höfð af reynslu annarra þjóða í þessum málaflokki.

Ég vil geta þess, að í Reykjavík hafa verið byggðar þó nokkuð margar íbúðir. Ég ætla ekki að fara að telja þær upp, en þó minna á Furugerði 2, Lönguhliðarhúsin, Dalbrautarhúsin, sem eru í byggingu og verður líklega lokið fyrir n. k. áramót, Norðurbrún, Vesturbrún o. fl. Þetta eru allt íbúðir fyrir aldraða. En svo mikil er þörfin hér í Reykjavíkurborg fyrir umhugsun og öryggi fyrir þetta aldraða fólk, að meðalaldur þeirra, sem síðast fengu úthlutaðar íbúðir í Lönguhlíðarhúsunum, er um 80 ár. Má öllum skiljast að ekki er langt í að þetta aldraða fólk geti ekki hugsað um sig sjálft, án þess þó að það þurfi á sjúkrahúsvist að halda. Því hefur verið ráðgert að á vegum Reykjavíkurborgar verði næsta heimili, sem byggt verður fyrir aldraða, vistheimili sem staðsett verður á milli Heilsuverndarstöðvar og Sundhallarinnar í Reykjavík. Er þá kominn stærsti hlutinn af þeirri keðju sem stefnt er að því að byggja, þ. e. a. s. íbúðir með eldhúsplássum, íbúðir með tiltölulega mikilli þjónustu og svo íbúðir með nokkurri hjúkrunarþjónustu. Síðan eru þessi vistheimili, sem hugsuð eru fyrir það aldraða fólk sem ekki er sjúklingar, en þarf á umönnun að halda, meiri eða minni. Síðan er Heilsuverndarstöðin sjálf, sem er langlegudeild. Endanlega kemur svo B-álma Borgarsjúkrahússins, sem lokar þannig keðjunni að Reykjavíkurborg á í því tilfelli að geta veitt öldruðu fólki alla þá þjónustu sem það þarf á að halda til lausnar vandamálum sem skapast af ellinni sem slíkri.

Þetta er vandamál fleiri sveitarfélaga en Reykjavíkur. Þetta er vandamál landsmanna og byggðarlaganna allra. Því vona ég að sú n., sem ég geri till. um að fjalli um þetta frv., taki hana til skjótrar afgreiðslu. Ég legg til að henni verði vísað til félmn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni.