14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3260 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

187. mál, erfðafjárskattur og erfðafé erfðafjársjóðs

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 356 um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjársjóðs er flutt af mér ásamt 4 öðrum hv. þm. úr þremur stjórnmálaflokkum. Vænta má því að frv. þetta fái greiða leið í gegnum hv. Alþ. og vænti'ég að það takist að afgreiða það á þessu þingi. Frv. er endurflutt, var í fyrsta sinn flutt á síðasta Alþ., en hlaut þá eigi afgreiðslu vegna þess að það kom þá eigi fram fyrr en síðla þings.

Eins og kunnugt er greiðist skattur af öllum dánarbúum sem ná ákveðinni lágmarkseign, erfðafjárskattur. Erfðafjárskattur er mishár, frá 5% af fyrstu 200 þús. kr. erfð til niðja og upp t 50% af arfi þegar um útarfa er að ræða. Þá falla til erfðafjársjóðs þeir fjármunir dánarbúa sem erfingjar finnast ekki að.

Samkv. gildandi lögum rennur erfðafjárskattur til erfðafjársjóðs, sem er í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins og er ráðstafað þaðan að fengnum till. hennar eftir ákvörðun félmrn. Fé þessu hefur að mestu verið varið til félagssamtaka sem vinna að uppbyggingu mikilvægra þjónustustofnana, einkum fyrir fólk sem er fatlað að einhverju leyti eða með skerta starfsgetu. Reyndin hefur orðið sú, að þessar stofnanir hafa nær einvörðungu risið á höfuðborgarsvæðinu. Þangað hefur fé sjóðsins runnið og þangað leitar þá um leið það fólk sem þarf á vistrými að halda í stofnunum af þessu tagi. Þörfin fyrir slíkar byggingar á höfuðborgarsvæðinu verður þá alltaf meiri og meiri, fjárþörfin brýnni og ekkert verður eftir af fé sjóðsins til uppbyggingar úti á landsbyggðinni.

Vegna hinna miklu fólksflutninga úr sveitum og raunar úr flestum byggðum landsins til fárra þéttbýlisstaða, aðallega við Faxaflóa, kemur það oft fyrir að mikið af arfi og mjög oft allur arfur fellur til fólks sem býr ekki í heimahéraði arfláta, sem þá hefur einn orðið eftir eða af tryggð haldið heimili sínu í ættarbyggð sinni. Þannig hafa orðið gífurlegir fjármagnsflutningar frá landsbyggðinni til nokkurra þéttbýlissvæða, einkum við Faxaflóa, — fjármagnsflutningar sem gerst hafa við erfðir. Erfðafjárskatturinn er því oft og tíðum það eina úr dánarbúum sem getur orðið eftir í heimahéraði, en þó því aðeins að ákvæðum laga um ráðstöfun erfðafjárskatts sé breytt í það horf sem lagt er til í þessu frv.

Hér er lagt til að erfðafjárskattur, sem til fellur í hverju lögsagnarumdæmi landsins, renni í sérstakan sjóð sem varðveittur sé í heimahéraði og gangi þar til uppbyggingar á aðstöðu fyrir fatlað fólk, gamalt fólk og börn, einkanlega ef um þroskaheft börn er að ræða. Með þessu móti væri tryggt að alltaf yrði þó eitthvað eftir í heimahéraði af því fé, sem þar er aflað, þegar skipti verða á dánarbúum. Þörfin fyrir þetta fé heima fyrir er víðast hvar ærin.

Á nokkrum stöðum á landsbyggðinni eru til elliheimili, en áform uppí um byggingu þeirra annars staðar. Á sumum þessum heimilum eru möguleikar til að taka við fötluðu fólki, en víða skortir þó breytingar til þess að aðstaða þess geti verið nægilega góð. Slíkri aðstöðu þarf að gera ráð fyrir við byggingu nýrra heimila. Fjármagn skortir hins vegar mjög til þessara framkvæmda.

Komist þær breytingar fram, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er ekki á nokkurn hátt verið að vinna gegn hagsmunum Reykvíkinga eða þéttbýlissvæðanna við Faxaflóa. Í fyrsta lagi getur það naumast talist keppikefli fyrir Reykjavík að draga til sín meginhlutann af öryrkjum og gamalmennum landsins. Og í öðru lagi er réttmætt að þeirri skerðingu, sem verða kann á framlögum erfðafjársjóðs til þýðingarmikilla framkvæmda á því svæði, verði mætt með öðrum hætti.

Hinn mannlegi þáttur þessa máls má ekki gleymast. Flestum þeim, sem þurfa að dveljast langdvölum í húsnæði sem sérstaklega er byggt fyrir öryrkja eða gamalt fólk eða fatlað fólk, er kærara að geta notið þeirrar aðstöðu í heimabyggð sinni heldur en fjarri eigin heimkynnum. Tengslin við kunnugt umhverfi, vini og venslafólk gefur lífinu gildi sem ekki er auðfengið annars staðar. Einnig þessi mannlegi þáttur er röksemd sem þarf að hafa í huga þegar fjallað er um mál af þessu tagi.

Ég sagði áðan að frv. þetta væri flutt af þm. þriggja stjórnmálaflokka hér á hv. Alþ. Ég vænti þess, að það fái góðan byr í gegnum báðar deildir þessarar stofnunar. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.