14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3261 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

175. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 333 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. ásamt hv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni, um breyt. á l. nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Frv. þetta er aðeins tvær greinar og er ekki viðamikið, hvorki að efni né formi. Fyrri gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 12. gr, laganna bætist ný mgr., svo hljóðandi: Umboðslaun vegna sölu landbúnaðarvara erlendis skulu greiðast sem ákveðinn hundraðshluti af því verði sem fyrir þær fæst. Landbrh. ákveður umboðslaun fyrir útfluttar landbúnaðarvörur að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þó að þetta frv. sé ekki efnismikið og ekki margar gr., þá fjallar það um nokkur þýðingarmikil atriði. Það fjallar um breytt fyrirkomulag á töku umboðslauna fyrir útfluttar landbúnaðarvörur. Sú regla hefur gilt um þetta efni, að aðalútflytjandi landbúnaðarafurða, búvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga, hefur tekið sem umboðslaun 2% af heildsöluverði vöru eins og það er ákveðið í upphafi verðlagsárs. Gildir þá einu hvort hærra verð eða lægra fæst fyrir vöruna. Þessi prósentutala hefur verið föst og ákveðin og breytist ekki við verðbreytingar eða við það verð sem fæst fyrir vöruna erlendis. Með þessum hætti, sem tæplega er í samræmi við venjulegar viðskiptavenjur, felst engin hvatning til útflytjenda í þá átt að ná sem hagstæðustu verði og afla hinna bestu markaða. Nauðsynlegt er að umboðslaun verki hvetjandi á söluaðila til þess að ná sem hagstæðustum árangri við sölu vörunnar og miðar frv. að því að koma þeim breytingum fram. Þetta kerfi hefur einnig orðið tilefni til þess að vekja tortryggni og bjóða grunsemdum heim um að ekki sé alltaf eins vel staðið að sölumeðferð búvara á erlendum markaði og æskilegt væri. En meginatriðið er að kerfi það, sem notað er við töku slíkra umboðslauna, feli í sér hvatningu til þeirra, sem vinna að útflutningi vörunnar, til þess að þeir leggi sig fram við að ná sem hagstæðustum samningum og hinu besta verði sem tök eru á hverju sinni.

Með þeirri skipan, sem gilt hefur, er ekki einungis að umboðslaun séu föst og miðuð við heildsöluverð eins og það er ákveðið í upphafi verðlagsárs. Umboðslaun eru þá einnig tekin af því fé sem varið er til útflutningsuppbóta. Ef svo fer, eins og horfur eru á t. d. á þessu verðlagsári, að verulega skorti á að útflutningsbætur nægi til að náð verði fullu verði, þá tekur útflytjandi einnig umboðslaun af þeim hluta heildsöluverðsins sem hvorki fæst við sölu varanna né með verðtryggingu frá ríkissjóði í útflutningsbótum.

Þetta er auðvitað óhæft kerfi og þarf að breyta þessu í eðlilegt horf og til þess að það verði í samræmi við eðlilegar viðskiptavenjur. Með þessu er ekki verið að fella neinn dóm um það, hvort sú heildarfjárhæð, sem tekin er í þessum umboðslaunum, sé of há eða hæfileg. En kerfinu þarf að breyta.

Ef lítið er á það, hvaða fjárhæðir hér er um að tefla í umboðslaunum af öðrum þáttum heildsöluverðsins en sem eiginlegu söluverði nemur, þá verður að segja það eins og er, að ég hef ekki getað fengið söluskýrslur útflytjenda yfir búvörur síðustu árin. En miðað við útflutningsáætlun Framleiðsluráðs um landbúnaðarvörur á þessu verðlagsári liggur það fyrir, að útflutningsbætur muni nema um 5.7 milljörðum kr., og 2% af þessum 5.7 milljörðum kr. eru 114 millj. kr. Það er enn fremur gert ráð fyrir því, að um 5 milljarða skorti á útflutningsbótafé til þess að náði verði fullu verði miðað við heildsöluverð, og eru þá um ca. 100 millj. kr. sem útflytjandinn fær í umboðslaun af reiknuðu heildsöluverði vörunnar sem hvorki fæst í gegnum verð vörunnar erlendis né verðtryggingu ríkisins. Hér er ákaflega óeðlilega að verki staðið. Ef þetta er lagt saman eru þarna 214 millj. kr. sem útflytjandi tekur í umboðslaun alveg án tillits til þess verðs sem fyrir vöruna fæst. Ég tel að menn verði að vera sammála um að þessu þurfi að breyta og taka upp kerfi eins og frv. gerir ráð fyrir, sem miðast við söluverð vörunnar erlendis og felur í sér hvatningu til útflytjandans um að ná sem allra hagstæðustu verði.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta langa framsögu. Þetta sýnist vera einfalt og sjálfsagt mál, og má í rauninni furðu gegna að þessi skipan hefur haldist um langa hríð og að þessu skuli ekki hafa þegar verið breytt. Ég vænti því að þetta frv. þurfi ekki að velkjast lengi fyrir mönnum hér í hv. Alþ. og að þessu verði breytt til þess að ná þeim markmiðum sem ég hef þegar minnt á, að eðlilegar viðskiptavenjur gildi í þessum efnum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.