14.03.1979
Neðri deild: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

175. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það til l., sem hér er flutt af okkur hv. þm. Pálma Jónssyni, sem er 1. flm., og mér, er flutt í framhaldi af þeim svörum sem hæstv. landbrh. gaf við fsp. minni varðandi umboðslaunagreiðslur af útfluttum landbúnaðarafurðum. Í því svari staðfesti hæstv. landbrh. að útflytjendur á íslenskum landbúnaðarafurðum hefðu um árabíl reiknað sér umboðslaun af niðurgreiðsluupphæðinni líka.

Það var gott að fá fram þessa staðfestingu hæstv. ráðh., en eins og hv. síðasti ræðumaður, 7. þm. Reykv., sagði, þá nær það náttúrlega ekki nokkurri átt að útflytjendur eða milliliðir geti leyft sér að taka umboðslaun af skattpíningu þjóðarinnar.

Eins og hv. 1. flm. þessarar till. tók fram, hefur hvorugum okkar tekist að fá þær upplýsingar sem við höfum beðið um frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Hefði óneitanlega verið þægilegt að hafa þær hér við höndina.

Til þess að tryggja mér umbeðnar upplýsingar hef ég gripið til þess ráðs að óska eftir því við þingflokk Sjálfstfl. að skrifa Framleiðsluráði bréf þar sem beðið er um svör við ákveðnum spurningum. Bréf þetta hefur þegar verið sent, og er nú beðið eftir svari Framleiðsluráðs.

Umboðslaun í almennum viðskiptum, þegar um háar upphæðir er að ræða, eru mjög lág í prósentum og gæti ég lagt fram umboðslaunasamninga við erlenda aðila fyrir hv. Alþingi máli mínu til stuðnings ef óskað er.

Umboðslaun geta verið 2–3%, ef um tugmilljóna viðskipti er að ræða, en fari upphæðirnar yfir 100 millj. minnka umboðslaunin niður í 1–1/2%.

Ef það er hugur talsmanna útflytjenda hér á hv. Alþingi að takmarka umboðslaunagreiðslur við umboðslaun af því verði sem erlendu kaupendurnir greiða fyrir vöruna, en jafnframt að hækka álagningarprósentuna, svo að eftir sem áður fái útflytjendur sömu krónutölu í þóknun fyrir vinnu sína, þá vil ég mótmæla slíkum vinnubrögðum.

Hér hefur átt sér stað óeðlileg umboðslaunagreiðsla sem verður að koma í veg fyrir.

Það er ýmislegt annað sem ekki er eðlilegt í sambandi við útflutning landbúnaðarafurða okkar. Ég hef undir höndum skeyti frá Danmörku sem staðfestir óeðlilegan verðmismun á afurðum okkar. Spurningum varðandi þetta mál hefur Framleiðsluráð ekki svarað.

Óeðlileg undirboð, sem koma frá útflytjendum á íslenskum landbúnaðarafurðum, þegar nýir aðilar leita nýrra viðskiptavina erlendis, koma í veg fyrir hærra verð á afurðum okkar á erlendum mörkuðum og það þarf að rannsaka. Þessi þáttur er e. t. v. ekki til umræðu nú heldur mun sú umræða fara fram þegar ég flyt framsögu fyrir þeirri þáltill. sem ég hef flutt og gerir ráð fyrir allsherjarrannsókn á starfsemi Sambands ísl. samvinnufélaga.