15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3265 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

220. mál, könnun á stærð selastofnsins

Flm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Ég sé að mönnum er glatt í sinni í upphafi starfsdags og vona að svo verði líka þegar honum lýkur. Og ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að mæla fyrir þessu máli, vegna þess að það eru síðustu forvöð fyrir mig í dag að gera það.

Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um könnun á stærð íslenska selastofnsins og könnun á áhrifum hans á fiskveiðar og vinnslu sjávarafla. Þessi ályktunartillaga er í 4 liðum, þ. e. a. s. fyrst, að það verði könnuð stærð selastofnsins frekar en gert hefur verið, könnuð áhrif hans á vöxt og viðgang íslenskra fiskstofna, og þar með eru talin hrognkelsi, lax og silungur, og ekki að ástæðulausu að kanna fylgni á milli stærðar selastofnsins og hringormamagns í nytjafiski, og í fjórða lagi að gera athugun á kostnaðarauka fiskvinnslunnar og markaðstjóni af völdum hringormsins.

Selveiðar hafa verið snar þáttur í búskaparháttum Íslendinga um langan aldur, einkum þeirra sem á hlunnindajörðum sitja, og nytjar af sel víða verið ein meiri háttar undirstaða þess að jarðir hafa verið setnar. Almennt séð hefur mikilvægi þessara veiða minnkað. Menn veiddu sér til matar, selspik var mikilvægur þáttur í feitmetisneyslunni og kjötið var gjörnýtt. Nú hefur annað kjöt og feitmeti leyst þessar fæðutegundir af hólmi og kópaveiði verið nær eingöngu stunduð af hlunnindabændum vegna skinnanna sem hafa til skamms tíma verið verðmæt útflutningsvara. Þrátt fyrir verðfall á selskinnum virðist veiði á landselskópum ekki hafa dregist saman fram til ársins 1977, enda þótt telja megi víst, að veiðin hafi á síðari árum ekki verið stunduð af jafnmiklu kappi og áður var. Gæti það bent til stækkandi landselsstofns. Hins vegar hefur veiði útselskóps því sem næst lagst niður.

Á árunum 1966–1970 var árleg veiði að meðaltali 472 kópar, á árunum 1971–1975 396 kópar, árið 1976 voru veiddir 274 kópar, en 1977 dettur veiðin niður í þrjá kópa. Þessar till. eru byggðar á innkaupaskýrslum útflytjenda. Hér munu svo bætast við þau skinn sem seld eru á markaði innanlands, en haldbærar upplýsingar liggja ekki fyrir í hve miklu magni það er.

Ekki hefur mér unnist tími til að afla þeirra gagna sem gætu gefið til kynna veiðina 1978, en ég hygg að óhætt sé að fullyrða að veiði á útselskóp hafi ekki verið stunduð að neinu ráði. Mér hefur tjáð glöggur maður vestur á fjörðum, sem stundað hefur hrognkelsaveiði mörg undanfarin vor, að aðgangur útsels og eyðilegging á netum af völdum hans hafi aukist mjög nú hin síðari árin. Þetta kemur raunar fram í viðtali sem eitt dagblaðanna hér í borg, Tíminn, átti við þennan mann fyrir skömmu. Þessi maður er einnig refa- og minkaskytta og þekkir því vel til náttúrufars alls og dýralífs fyrir annesjum vestra. Hann hefur einnig sagt svo frá, að á einni tiltekinni flögu, þar sem áður lágu oft og tíðum 4–5 útselir, megi oft telja 40–50 fullvaxna seli, þetta sé aðeins dæmi, en svipuð breyting hafi víða átt sér stað fyrir annesjum þar vestra.

Mér þykir rétt að taka það fram, að tilgangurinn með flutningi þessarar þáltill. er ekki sá að hvetja til aðgerða, sem leiða til þess að hagsmunir þeirra, sem byggja afkomu sína á kópaveiði, verði fyrir borð bornir. Ekki heldur er hún flutt með því hugarfari að mannshöndin breyti að marki því náttúrufari sem þróast hefur um aldir við strendur landsins. Tilgangurinn er hins vegar sá, að fylgst verði með því hvort breyttir búskaparhætti landsmanna verða til þess að nýir meðbiðlar til matarins vaxa okkur yfir höfuð, hvort og hve mikil áhrif fjölgun — í þessu tilviki fjölgun sela — hefur á afkomu þjóðarbúsins. Er hér fyrst og fremst um tvennt að ræða: Annars vegar sýkingu fiskstofnanna, þeirra sem við fyrst og fremst viljum vernda sýkingu af völdum sela. Það er álit manna, sem gerst fylgjast með, að hún fari vaxandi, það sé ekki aðeins hringormur í fiski af grunnslóð nú, heldur finnist hann líka í afla togara sem tekinn er á djúpmiðum. Í öðru lagi að fylgjast með hvert er líklegt magn þess fisk sem selurinn neytir. Það kemur fram í grg. með þessari þáltill., að fiskifræðingar telja að um 30% af neyslu selsins séu þorskfiskar, hann lifi lítt á krabbadýrum eða öðru slíku. Hann neytir alls kyns fisks, loðna t. d. er veruleg uppistaða í fæðuöflun hans, sandsíli og ýmis annar fiskur, ekki síst flatfiskur. Og það er í hugum sumra að hann kunni að eiga verulega sök á minnkandi lúðuafla við landið. Menn hafa horft á útselinn taka stórar sprökur, rífa af þeim rafabeltið, gæða sér á því, en skilja annað eftir.

Við hljótum að meta það, hvort við viljum láta það nægja til viðhalds selastofninum að ætla honum afla sem nemur um það bil ársafla 10–15 skuttogara eða hvort gripið verði til aðgerða ef þetta magn eykst verulega.

Þessi þáltill. er ekki heldur flutt vegna þess að rannsóknir hafi verið litlar nú að undanförnu. Eins og fram kemur í grg. var n. skipuð í upphafi árs 1976 af hæstv. þáv. sjútvrh., Matthíasi Bjarnasyni, til að kanna þessi mál. Þessi n. hefur skilað mjög góðu starfi. Formaður hennar var Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson og starfsmaður og ritari Björn Dagbjartsson, sem þá var forstöðumaður Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Í skýrslu n. sem og í grein, sem Björn Dagbjartsson birti í 9. tbl. Ægis í ágúst s. l., ágúst 1978, kemur fram fjölþættur fróðleikur varðandi þær rannsóknir sem þegar hefur verið unnið að. En það gengur sem rauður þráður í gegnum þau ummæli, sem fram koma hjá n., að hér hefur ekki verið hægt að vinna til enda, eins og segir í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Flest þau rannsóknarverkefni, sem bryddað hefur verið upp á, hafa reynst vera það umfangsmikil, að engin leið hefur verið fyrir n. sem slíka að ljúka þeim. Nokkur óvissa ríkir um stofnstærð, einkum útsels. Af þessu leiðir einnig, að ekki er fyrir hendi nægilega örugg vitneskja um fjölda sela á tilteknum svæðum og breytingar á stofninum frá ári til árs. Breyting byggðar og atvinnuhátta á undanförnum áratugum kann að hafa áhrif á fjölda sela, og hefur því m. a. verið haldið fram að útsel hafi fjölgað verulega af þessum sökum.

Þá er þörf upplýsinga á aldurssamsetningu, viðkomu og dánartölu beggja selategunda hér við land. Slíkar upplýsingar fást varla nema með því að safna stórum úrtökum til rannsókna. Enn fremur er æskilegt að kanna hreyfingar sela hér við land, m. a. með merkingum. Einnig er ljóst að mun ítarlegri rannsókna er þörf á fæðuvali sela, bæði á mismunandi árstímum og einnig eftir svæðum. Ítarlegum rannsóknum á lífsferli hringormsins, m. a. sýkingu þorsks á mismunandi aldursskeiði, er nú um það bil að ljúka. Hins vegar er brýnt að rannsaka betur sýkingu sela af hringormi, bæði eftir tegundum, aldri og svæðum. N. telur þó að það, sem unnið hefur verið á hennar vegum, sé mjög nauðsynleg undirstaða eða grundvöllur undir frekari rannsóknir og geysimikils viðbótarfróðleiks hafi verið aflað sem kemur að fullum notum fyrir framtíðina.“

Ég vil leggja áherslu á það síðasta sem ég las, sem staðfestir það sem fram kemur í þessari þáltill., að frekari rannsókna sé þörf.

Varðandi það sem snertir sýkinguna, þá kemur líka fram í þessari skýrslu að útselurinn virðist vera mun meiri sýkingarvaldur heldur en landselurinn. Þar hefur í öllum tilvikum verið um kynþroska hringorm að ræða, aðeins í 70–75% tilvika hjá landsel, en aftur á móti ekki í öðrum selategundum, eða hringanóra sem er nefndur í skýrslunni.

Það kemur líka fram, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur gert nokkra könnun á markaðstjóni og þá fyrst og fremst kostnaðarauka fiskvinnslunnar. Að hennar mati er erfitt að dæma um hið raunverulega markaðstjórn. Það er tekið fram í skýrslunni sem dæmi, að veitingahús með íslenskan fisk, þar sem ormur hafi fundist, hafi tæmst. Og við getum ímyndað okkur hver áhrif eitt slíkt tilvik getur haft og hversu mikils virði það er að við flytjum út ósýkta og óskemmda vöru. Enn fremur hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna gert tiltölulega einfaldan útreikning á því, hve mikinn hún telji vera aukinn vinnslukostnað í landinu vegna hringorms í fiski. Þær tölur eru að vísu nokkuð gamlar, byggðar á a. m. k. ársgömlu verðlagi, en þá er þetta metið til aukins vinnslukostnaðar upp á 100–150 millj., á því bili.

Varðandi þann lið till. er fjallar um tengsl á milli selastofnsins og hringormamyndunar, þá er mér kunnugt um að slík rannsóknarverkefni eru í gangi. Að þeim vinnur Jón Björn Pálsson sem nú vinnur úr þessum verkefnum sínum í háskóla í Bandaríkjunum.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, aðeins minnast á það, að þessi þáltill. gengur raunar ekki lengra en svo, að ætlast er til að áframhaldandi verkefni verði unnin þannig að komist verði að niðurstöðu um það og fengin séu haldbær rök fyrir því, hvort ástæða er til að grípa til aðgerða eða ekki. En ég vil leyfa mér þá um leið að benda á það, að aðgerðir geta farið fram á mismunandi vegu. Það er hægt að fara t. d. þá leið, sem farin er til að halda í skefjum ref og mink og vargfugli, þ. e. a. s. að verðbæta hvert kópskinn og á þann hátt að halda stofninum í skefjum ef æskilegt þykir. Það er líka hægt að hefja veiðar og taka ákvörðun um það, hvað ætti að fækka um mörg dýr, og veiða þau á skipulegan hátt. Þar hafa Norðmenn t. d. töluverða reynslu. Mér er kunnugt um að þeir nota til þessara veiða léttbáta, hafa skutla til þess að selurinn sökkvi ekki. Skinnin eru verkuð og bæði kjöt og spik fullnýtt. Það er hægt að fullnýta það hér til vissra hluta ef það er skipulagt. Skinnin sjálf geta hugsanlega verið hráefni til létts iðnaðar fyrir þá sem ekki hafa þrek til að vera á vinnumarkaðinum við hin erfiðari störf.

Ég vil svo vænta þess að lokum, að það hafi komið skýrt fram hver tilgangur minn er með þessum tillöguflutningi: að fá niðurstöðu til að byggja á frekari ákvarðanir og að framkvæma þær að sjálfsögðu þegar till. verða fram settar. Og þegar umr. lykur, herra forseti, tel ég eðlilegt og legg til að till. verði vísað til atvmn.