31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

325. mál, gildistaka byggingarlaga

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það eru ánægjulegar umr. sem hafa farið fram í sambandi við fsp. hv. þm. Odds Ólafssonar. Vissulega er mjög tímabært að tala um þetta, enda hefur að undanförnu verið nokkur áróður frá almenningi og fötluðum til þess að bæta úr því ófremdarástandi sem er hér bæði hvað varðar opinberar byggingar og ýmsa aðra hluti í sambandi við hreyfiþörf fatlaðra. Þar á ég við gatnagerð og annað slíkt.

Íslendingar hafa verið furðusljóir í þessum efnum alveg fram á síðustu ár. Á allra síðustu árum hafa þó augu manna verið að opnast fyrir þessari þörf. En ég verð að segja það, að það hefur gengið nokkuð illa að fá menn til þess að vakna, því að jafnvel á elliheimilum, sem nýbyggð eru, og jafnvel á sumum heilsugæslustöðvunum, sem eru nýbyggðar, er ekki möguleiki að komast um með sjúkling í hjólastól eða inn í þessar byggingar, ég tala nú ekki um að koma sjúklingum milli hæða. Þess vegna er ekki aðeins nauðsynlegt í framtíðinni að sjá svo um, að slíkar byggingar og yfirleitt opinberar byggingar taki tillit til fatlaðra í þessum efnum, heldur, eins og reyndar hv. fyrirspyrjandi kom á framfæri í seinni ræðu sinni, veruleg þörf á því að endurbæta mikið af opinberum byggingum, ég tala nú ekki um dvalarheimilin og heilsugæslustöðvarnar, sem hafa verið sumar byggðar án tillits til þessa þar sem þetta fólk þarf þó einkum og sérstaklega að koma. Á hvern hátt þetta verður gert veit ég ekki, en að því þarf að huga í sambandi við framtíðarlagasetningu og reglugerðir í þessu efni. Það er kannske eðlilegt, að við heilsugæslustöðvar væri þetta í réttum kostnaðarhlutföllum — 85%: 15% — eins og uppbyggingu þeirra er háttað með tilliti til ríkis og sveitarfélaga og þannig verði bætt úr þeirri skömm, sem þær eiga við að búa.