15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu halda mig við þau formsatriði sem hér hefur borið á góma, en tel þó nauðsynlegt að svara einu atriði sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Reykv. áðan.

Auðvitað er það ekki nokkur vafi að Ólafur Jóhannesson, hv. 1. þm. Norðurl. v., hæstv. forsrh., hefur tvímælalausa heimild til að leggja fram frv. á Alþ. Hitt er aftur annað mál, að við Alþb.-menn teljum að það að leggja fram frv. með þessum hætti geti spillt fyrir möguleikum á því að ná samstöðu milli stjórnarflokkanna um þau mikilvægu mál sem hér eru á ferðinni. Við teljum að rétt sé þó að kanna til hlítar hversu til tekst um að fá þessum texta breytt. Við munum leggja á það áherslu að ná fram á honum breytingum. En við höfum jafnframt sagt, og ég endurtek það hér sem við höfum margoft sagt í ríkisstj., að verði það niðurstaða samstarfsflokka okkar að ganga yfir okkur í þessum efnum og samþykkja greinar verðbótakafla þessa frv. gegn Alþb., þá munum við að sjálfsögðu segja af okkur ráðherrastörfum. Þá hefur skapast ný pólitísk staða í landinu. Þá virðist vera um að ræða annan pólitískan vilja en við töldum að væri forsenda fyrir núv. ríkisstjórnarflokkasamstarfi og viðhorfin væru gerbreytt.

Ég vil, vegna þess sem fram kom í máli hv. 4. þm. Reykv., láta koma hér fram við þessar umr. utan dagskrár mótmælabókun sem við ráðh. Alþb. gerðum á fundi ríkisstj. í morgun. Þessi bókun er á þessa leið:

„1. Við mótmælum því harðlega að frv. það um efnahagsmál, sem rætt hefur verið á undanfarandi ríkisstjórnarfundum, verði lagt fram af forsrh. einum, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Það er mikill hnekkir fyrir stjórnarsamstarfið að þannig skuli að málum staðið, og slíkt gæti torveldað það að samkomulag næðist á milli stjórnarflokkanna um þau ágreiningsatriði frv. þessa sem óleyst eru, einkum verðbótakafla þess. Vinnubrögð af þessu tagi eru algert einsdæmi, og þau eru í fullri andstöðu við yfirlýsingu stjórnarflokkanna á s. l. hausti um samráð við verkalýðshreyfinguna. Við viljum leggja á það áherslu, að það var fyrst á mánudag og þriðjudag að fyrir lágu opinberar upplýsingar í ríkisstj. um þau áhrif sem verðbótakafli frv. þessa hefði á kjör launafólks í landinu. Á þeim forsendum og öðrum viljum við harðlega gagnrýma það, að hvað eftir annað var neitað um frestun á afgreiðslu þessa máls í ríkisstj., enda þótt það hafi verið viðtekin venja innan ríkisstj. frá því að hún var mynduð að verða við beiðni eins ráðh., hvað þá heils flokks, um frestun á máli milli ríkisstjórnarfunda.

2. Við mótmælum sérstaklega ósvífnum fullyrðingum samráðh. okkar um það, að við ráðh. Alþb. höfum ekki haft fyrirvara um ýmis atriði í þessu frv. eftir ríkisstjórnarfundinn á laugardaginn og þá alveg sérstaklega verðbótakafla frv. Við minnum á að við höfðum ítrasta fyrirvara um það í fyrsta lagi, hvernig ákveða ætti viðmiðunartíma við útreikning á vísitölu viðskiptakjara, í öðru lagi höfðum við fyrirvara um meðferð á uppsöfnun frádráttarliða í vísitölunni og í þriðja lagi lögðum við áherslu á að aðeins ætti að setja vísitölugrunninn á 100 einu sinni, en ekki við hvert vísitölutímabil. Þá viljum við leggja á það sérstaka áherslu, að niðurstaða þeirrar umr., sem fram fór í ríkisstj. s. l. laugardag um ollumál, varð sú, að málið yrði tekið til framhaldsumr. á næstu ríkisstjórnarfundum, og að á fundinum á laugardag lágu engar ákvarðanir fyrir um það, hversu með olíumálin skyldi farið.

3. Við teljum að samstarfsflokkar okkar hafi með óbilgjörnum hætti tekið sig saman um að ganga gegn þriðja stjórnarflokknum með framlagningu þessa frv. Á fyrri ríkisstjórnarfundum, í síðustu viku og alveg sérstaklega á ríkisstjórnarfundi s. l. mánudag, hótaði hæstv. forsrh. því að leggja frv. fram sem stjfrv. með atbeina tveggja stjórnarflokka gegn mótmælum þriðja flokksins. Þessu höfðum við harðlega mótmælt, og við höfum jafnframt lýst því yfir á fyrri fundum ríkisstj., að verði frv. samþ. óbreytt á Alþ. í andstöðu við Alþb. munum við að sjálfsögðu segja af okkur ráðherrastörfum.“

Þetta taldi ég óhjákvæmilegt, herra forseti, að kæmi fram þegar á þessum fundi.