15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Í grg. með frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem samþ. var sem lög í nóvembermánuði s. l., boðaði ríkisstj. m. a. í mjög greinargóðu máli hvaða aðgerðum hún hygðist beita sér fyrir á árinu 1979. Þar kom m. a. fram, að ríkisstj. mundi beita víðtæku aðhaldi að breytingu verðlags og launa, að nauðsynlegt væri að vísitöluviðmiðun launa yrði breytt í því skyni að draga úr víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds og þar með úr verðbólgu. Þar var lögð áhersla á nauðsyn jafnvægis í ríkisfjármálum, niðurskurðar á rekstrarútgjöldum og tekið fram að heildarfjárfesting á árinu 1979 skyldi ekki vera meiri en sem næmi 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Ríkisstj. heftu síðan unnið að þessu verkefni sínu um margra vikna skeið og leitað samráðs þeirra aðila, sem henni ber samkv. stjórnarsáttmálanum að leita samráðs við, og tekið tillit til ábendinga þeirra.

Nú fyrir helgina náðist samkomulag um það í hæstv. ríkisstj., hvernig málið skyldi lagt fram. Það samkomulag var lagt undir verkalýðsmálanefnd Alþfl:; þingflokk hans og flokksstjórn, og þessar stofnanir staðfestu það að Alþfl. stæði að því samkomulagi sem við teljum að gert hafi verið á laugardag. Við það stendur Alþfl. að sjálfsögðu nú eins og hann gerði s. l. laugardag. Hvers vegna breytingar hafa orðið á flutningi málsins vil ég ekki ræða.

Ég tel að það séu frekar ástæður, sem ég er ekki dómbær um, sem því valda, frekar en ástæðan sé ágreiningur milli ráðh. í hæstv. ríkisstj.

Um það, sem fram kom í orðum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar um fréttaflutning ríkisfjölmiðlanna í gær, vil ég taka fram að það er mjög óæskilegt þegar svona stendur á, að báðir ríkisfjölmiðlar skuli taka höndum saman um það, að því er virðist, að veita einum stjórnmálaflokki sérstakt ráðrúm, bæði í fréttatíma útvarps og sjónvarps, til að veitast að öðrum, án þess að gefa þeim flokkum, sem að var veist, og þeim mönnum, sem að var veist, tækifæri til andsvara og til þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta tel ég vera mistök ríkisfjölmiðla sem ber að harma. Ég mun ekki svara þessu. Ég tel, að það sé ástæðulaust að vera að bítast um slík mál nú, og mun því ekki fara að svara þeim ásökunum sem hafðar voru frammi um þetta mál í gær.

Ég vil aðeins vekja athygli á einni staðreynd í lokin, hæstv. forseti, sem er alkunn.

Á s. l. ári hækkuðu peningalaunatekjur um u. þ. b. 55%. Þrátt fyrir það jókst kaupmáttur launatekna því miður aðeins um u. þ. b. 5% eða um svipað magn og þjóðartekjur uxu. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að kaupmáttur launa á árinu 1979 aukist um 1% þrátt fyrir það að þjóðartekjur standi í stað. Það er hins vegar mjög eðlilegt, að þegar gerðar eru ráðstafanir til að draga úr verðbólgunni lækki að sama skapi útborgaðar peningalaunatekjur, því að fylgni milli peningalaunatekna og verðbólgu er alþekkt í okkar þjóðfélagi. Spurningin, sem mestu máli varðar, er ekki upphæð peningalaunatekna, heldur kaupmáttur launa verkafólks sem það fær greidd.