15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3276 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Áður en ég kem að erindi mínu í ræðustólinn vil ég mælast til þess við hv. þm. Matthías Bjarnason að hann hætti að láta liggja svona illa á sér. Hann var lengi í haust ósköp kátur í þingsölum, en upp á síðkastið er hann orðinn argur mjög og kvartandi yfir vonsku heimsins, umr. okkar stjórnarsinna og nú síðast ríkisfjölmiðlunum, sem hann telur að hafi ekki skýrt nægilega vel frá málflutningi Sjálfstfl. á þingi í vetur. Ég verð að segja að ég skil það fyllilega að erfitt hefur verið fyrir ríkisfjölmiðlana að skýra frá því sem lítið hefur verið.

Formaður þingflokks Alþfl., Sighvatur Björgvinsson, hafði hér uppi ásakanir í garð ríkisfjölmiðlanna. Ég held að það komi úr hörðustu átt þegar þm. Alþfl. eru að koma með vandlætingartal af þessu tagi. Í sjónvarpinu í fyrrakvöld voru allir ráðh. Alþfl. og fluttu útskýringar til þjóðarinnar hver á fætur öðrum, hæstv. dómsmrh., nýkominn úr hálfs mánaðar skíðadvöl í Ölpunum, birtist þjóðinni og flutti ávarp af tröppum stjórnarráðshússins til útskýringar á þessu frv., og forsrh. sjálfur birtist þar.

En upphaf þessa máls er þó fólgið í því, að á sunnudagskvöld kom frétt í Ríkisútvarpinu á þá leið, að samkomulag hefði náðst í ríkisstj. um frv. þetta. Það var skýrt frá því, hver væru höfuðatriðin í því samkomulagi. Þessi frétt Ríkisútvarpsins var röng í öllum höfuðatriðum. Þegar ég hringdi á fréttastofu Ríkisútvarpsins til þess að spyrja hvaðan fréttastofa Ríkisútvarpsins hefði þessa frétt, þá fékk ég það svar, að þm. Alþfl. hefði hringt á fréttastofuna og skýrt frá þessari frétt og það hefði verið samið um það milli fréttamannsins og þm. Alþfl. að skýra ekki frá því hver þessi þm. Alþfl. væri, þótt slíkt sé algert brot á fréttareglum Ríkisútvarpsins, þar sem það er höfuðatriði í þeim fréttareglum, sem þar er starfað eftir, að ávallt skal skrá og geta heimildarmanna að öllum fréttum. Ég held að það komi úr hörðustu átt þegar menn úr þingflokki Alþfl., sem vísvitandi eru að færa ríkisfjölmiðlunum skröksögur af gangi stjórnmálanna, gera við þá samninga um að geta þess ekki hver sé heimildarmaðurinn að þessari frétt, koma hér með ásakanir af þessu tagi og þykjast vera að flytja siðaprédikanir um það, hvernig fjölmiðlarnir eigi að starfa. Ég hef enga ástæðu til þess að vantreysta orðum þess fréttamanns, sem sagði að þessi frétt hefði verið fengin undir því fororði að samkomulag væri gert um það við þm. að ekki yrði skýrt frá því hver hann væri. (Gripið fram í: Hver er fréttamaðurinn?) Sá fréttamaður, sem skýrði mér frá þessu, er Gunnar Eyþórsson. Ég skora nú á þann þm. Alþfl., sem flutti Ríkisútvarpinu þessa röngu frétt og var ekki maður til þess að leyfa Ríkisútvarpinu að hafa nafn hans fyrir söguburðinum, að koma nú hér upp í þinginu og standa við fréttina.