15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3276 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það var að vísu furðulegt sem hv. 3. landsk. þm. upplýsti hér áðan um frétt í fjölmiðlum s. l. sunnudagskvöld. Hann upplýsti um fréttamanninn. Ég held að það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, hafi verið fyllilega orð í tíma töluð. Ég vænti þess, að það upplýsist í umr. þeirra í milli, hv. 3. landsk. þm. og formanns þingflokks Alþfl., ef þm. upplýsir það ekki sjálfur sem á hann var borið áðan, og við fáum um það vitneskju.

Erindi mitt upp í ræðustólinn í dag voru orð hv. 9. þm. Reykv., þar sem hann vildi meina að nú væri stjórnarandstaðan farin að gagnrýna að frv. lægi fyrir Alþ. Það er síður en svo, heldur hitt, að það hefur verið venja hingað til í þingræðisríkjum að ríkisstj., sem ekki kemur sér saman í fjármálum, í efnahagsmálum, léti af völdum, segði af sér. Við þekkjum þetta úr sögu Alþingis. Fleyg urðu þau orð þáv. hæstv. forsrh., Hermanns Jónassonar, 1958, að engin samstaða hefði verið í ríkisstj. og hann hefði þess vegna sagt af sér. En við virðumst í dag fá aðrar fréttir um gang slíkra mála, því að sú ríkisstj., sem lagði fram fjárlagafrv. með fyrirvörum næstum allra ráðh., treystir sér ekki til þess að leggja fram frv. í efnahagsmálum, heldur leggur hæstv. forsrh. það fram. Við höfum heyrt yfirlýsingar ráðh., og það liggur ljóst fyrir að ríkisstj. kemur sér ekki saman í efnahagsmálum frekar en hún kom sér saman um stefnuna í fjármálum ríkisins á s. l. hausti. Ríkisstj. hyggst hins vegar sitja, enda þótt hún komi sér ekki saman um stefnuna í hinum veigamestu málum. Stjórnarandstaðan gagnrýnir það, ekki hitt, að alþm. fái á borð sín þau frv. sem um skal fjalla varðandi fjármál eða efnahagsmál ríkisins. Við teljum að þessar starfsaðferðir séu með þeim hætti að þingræðinu, lýðræðinu, sé hætta búin.