31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

325. mál, gildistaka byggingarlaga

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er áberandi nú á síðustu misserum, skulum við segja, eða árum kannske, hvað mikið er rætt um málefni fatlaðs fólks, og ég verð að segja að mér finnst umr. vera talsvert mikið að breytast frá því sem þær voru fyrir áratug eða svo. Sýnilegt er að menn eru farnir að átta sig á því, að meginstefnan í málefnum fatlaðs fólks á auðvitað að vera sú, að fatlað fólk geti aðlagast þjóðfélaginu, en einangrist ekki frá því. Það er talað um það núna að opna þjóðfélagið meira, ef svo má segja, fyrir fatlaða fólkinu og fyrir öryrkjunum, opna vinnustaðina fyrir þessu fólki og svo stofnanir ýmsar og staði í landinu sem almenningur á aðgang að og vill hafa aðgang að. Ég tek mjög undir þetta, að nauðsynlegt er að gera fötluðu fólki kleift að ferðast á meðal annars fólks og vinna með öðru fólki. Ég vil vekja athygli á því, að þetta er í raun og veru það sem nú er að gerast í umr. um málefni fatlaðs fólks, og ég held að við alþm. ættum að vera vakandi fyrir því, að svo er, og opna huga okkar fyrir þessari breytingu sem er að verða í umr. um málefni fatlaðra og ég verð að segja að ég kann afar vel við.

Hér hefur verið minnst á það, sem rétt er, að það þurfi að breyta byggingum, sem fyrir eru í landinu: Það hefur líka verið bent á það — ég held af hv. 4. þm. Reykn. — að þetta sé mjög vandsamt mál. Þetta er vandsamt fjárhagsmál. En ég vil líka benda á að þetta er dálítið vandsamt mál frá byggingarfræðilegu sjónarmiði og frá listrænu sjónarmiði. Það er ekki alveg sama hvernig við förum með hús eða breytum gömlum húsum. Þá dettur mér sérstaklega í hug þetta hús, sem við erum staddir í, sem er eitt merkasta húsið í landinu og er sérstaklega friðað fyrir illri meðferð, en jafnframt verðum við að viðurkenna að þetta hús er ekki sérstaklega aðgengilegt fyrir fatlað fólk eða þá sem eiga við hreyfihömlun að stríða. Hitt er jafnljóst, að við verðum að finna ráð til þess að þetta fólk eigi sæmilega leið upp á þingpalla eða um sali þessa húss. Á því máli verður þó að taka af mikilli aðgæslu og vanda sig þegar farið verður að reyna þetta. Við megum ekki purpa niður okkar gömlu byggingar þannig að það verði stórlýti á húsunum, heldur verður að hugsa það vel hvernig þessi mál verða leyst, ekki eingöngu fjárhagslega, heldur líka frá listrænu sjónarmiði. Þetta ætla ég að leyfa mér að benda á í lokin.