15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

78. mál, smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við það mál sem er um að ræða í þessari þáltill., brúarsmíði yfir Ölfusá við Óseyrarnes. Þetta er mjög brýnt hagsmunamál Sunnlendinga og þetta mál er baráttumál allra þm. Suðurl., í hvaða flokki sem þeir eru. Þessi brú skiptir öllu máli fyrir þorpin austan við Ölfusá, fyrir Stokkseyri og Eyrarbakka, þar er um að ræða hvort þessi þorp eiga að halda áfram að vera til eða ekki.

Það hafa verið nefndir í umr. arðsemiútreikningar sem hafa verið gerðir af hálfu Vegagerðarinnar. Arðsemiútreikningar þessir miða einungis við umferðarþunga eða fjölda bíla og samkv. þeim er ekki talin nein ástæða til að reisa þessa brú. Aftur á móti eru fjölmargir aðrir kostir við þessa brúarsmíði sem ekki hafa komið inn í þá arðsemiútreikninga sem nú liggja fyrir, og ber þar hæst tengslin við Þorlákshöfn og Selfoss og þó aðallega Þorlákshöfn, en þá mundi höfnin í Þorlákshöfn vera aðalhöfnin fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri og fiskur yrði keyrður þar á milli á mjög auðveldan og fljótlegan hátt.

Einnig má geta fleiri kosta við þessa brúarsmíði. Nú á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi var fjallað um þá ferju, sem ganga á milli Íslands og hinna Norðurlandanna, og gert ráð fyrir að viðkomustaður ferjunnar,á Íslandi verði í Þorlákshöfn. Það er ekki að efa, ef af þessu máli verður, — og mér skilst að það sé komið það langt á rekspöl að það verður af því, — að þetta verður mikil lyftistöng fyrir Þorlákshöfn og svæðin þar í grennd, bæði hvað varðar útflutning svo og ferðamannastraum með ferjunni.

Hæstv. félmrh. nefndi annan kost, sem væri hitaveitan sem hægt væri að leiða með brúnni. Einnig hafa fleiri kostir verið nefndir, eins og að jarðskjálftasvæði er á Suðurlandi og þessi brú mundi bæta mikið úr því öryggisleysi sem nú ríkir þar um slóðir.

Ég vil ekki að svo stöddu lengja þessar umr., þó að flytja megi langt mál um þessa till., — það er orðið áliðið fundar, — en vil leggja aftur áherslu á að þetta hagsmunamál Sunnlendinga verður að komast í framkvæmd sem allra fyrst og, eins og gert er ráð fyrir í grg. svo og í brtt. hv. þm. Eggerts Haukdal, að það sé mörkuð sú stefna, að næsta stóra brúarsmíði á eftir Borgarfjarðarbrúnni verði þessi brú. Það er reiknað með að þessi brú kosti u. þ. b. 2 milljarða. Það er ekki mikið fé. Þetta er álíka og einn skuttogari og er ekki voðalega stór upphæð, ef tekið er tillit til þess mikla gagns sem þessi brú mundi hafa í för með sér.

Það er ánægjulegt við þetta mál, að allir þm. Suðurl. hafa sameinast um það og fleiri reyndar. Það er stuðningur fyrir þessu máli í öðrum kjördæmum. Þetta mál er gjörsamlega laust við flokkadrætti, og það er von mín að Alþ. beri gæfu til að samþ. þessa till. og að þessu máli verði sem allra fyrst hrundið í framkvæmd.