19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., flyt ég sem þm. í þessari hv. þd., en það á sér langan og merkilegan aðdraganda innan ríkisstj., sem ég mun þó ekki á þessu stigi rekja ítarlega. Það er flutt með samþykki bæði Framsfl. og Alþfl. Alþb., þriðji stjórnarflokkurinn, vildi ekki standa að flutningi þess sem stjfrv., þar sem hann gat ekki fallist á ákvæði VIII. kafla frv. sem fjallar um verðbætur á laun, svo sem þau eru úr garði gerð, og höfðu þó verið gerðar á þeim verulegar breytingar, m. a. samkv. ábendingum launþegasamtaka og ekki hvað síst Alþýðusambandsins. Þessi afstaða ráðh. Alþb. kom samstarfsflokkunum nokkuð á óvart, þar sem þeir höfðu fyllstu ástæðu til að ætla að samkomulag hefði náðst um frv. innan ríkisstj. Ég flyt því þetta frv. óbreytt og í þeirri mynd sem það var, sem ég taldi vera niðurstöðu samkomulags og málamiðlunar milli ríkisstjórnarflokkanna.

Ég legg á það áherslu, að hér er um málamiðlun að ræða og því ýmis atríði öðruvísi en ég og Framsfl. hefðum kosið, ef ekki hefðu komið til sjónarmið samstarfsflokkanna. Ég minni á að í febrúarmánuði voru gerð opinber frv.-drög um sama efni, sem ég lagði þá fram í ríkisstj. og hv. þdm. hafa haft tækifæri til að kynna sér. Með samanburði má sjá að margvíslegar breytingar hafa verið gerðar og er það árangur samráðs, sem haft var við samtökin á vinnumarkaðinum, og samkomulags innan ríkisstj. Það er athyglisvert að þótt Alþýðusamband Íslands hafi mótmælt verðbótaákvæðum frv. samþykkir það fyrir sitt leyti samráðstilhögun þá, sem frv. gerir ráð fyrir, en samráð var einmitt haft við þá um þetta mál með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir. Hins vegar ætlast enginn til þess af Alþýðusambandinu eða öðrum hagsmunasamtökum að þau gerist sjálf aðilar að till. sem þeir telja ganga gegn hagsmunum þeirra, eins og þeir eru metnir á líðandi stund.

Ég hefði kosið að mál þetta væri hér flutt sem stjfrv. En þótt stuðningur Alþb.-ráðh. við málið hafi bilað á elleftu stundu flyt ég það óbreytt í þeirri von að þeir sýni því í reynd stuðning á þingi, þegar öll kurl eru komin til grafar og málið og málavextir allir kannaðir hér á hv. Alþ. Ég vona að slík könnun geti leitt til samkomulags stjórnarflokkanna og til sem víðtækastrar samstöðu um frv.

Ég ætla að allir hv. þdm. fallist á að þetta mál sé þess eðlis að það eigi erindi inn á Alþ. og ekki hefði reynst heppilegt að halda áfram umr. um það utan þings með þeim hætti sem gert var, án þess að það kæmi til kasta Alþ. Vera má að við athugun málsins komist menn að þeirri niðurstöðu, að ágreiningurinn um verðbótakaflann sé í reyndinni ekki eins alvarlegur og menn hafa ætlað, þ. e. a. s. um það atriði hans, sem hlýtur að vera höfuðatriði frá sjónarmiði launþega, þ. e. um sjálfan kaupmáttinn, þegar á allt árið er lítið, þó að ráðh. væru ekki í stakk búnir til að leysa þann hnút.

Ég sný mér þá að efni frv.

Í aths. við frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem samþ. var sem lög nr. 103 í lok nóvembermánaðar s. l., var tekið fram, að lagasetningunni væri ætlað að vera liður í þeirri viðleitni að ná fram varanlegum breytingum í efnahagsmálum sem kæmu til framkvæmda þegar á árinu 1979. Þar sagði m. a.:

Ríkisstj. er sammála um, að mótun samræmdrar stefnu um aðgerðir á öllum sviðum efnahagsmála, sem ráðið geti úrslitum um verðbólguþróun á næstu missirum, skuli vera algert forgangsverkefni. Fyrir utan langtímastefnu í verðlags- og launamálum, verður að marka samsvarandi stefnu í ríkisfjármálum, peningamálum, fjárfestingarmálum og skattamálum.“

Í aths. með viðnámsfrv. var einnig vikið að þeim meginaðgerðum sem ríkisstj. hygðist beita á árinu 1979. Var því lýst, að beita þyrfti víðtæku aðhaldi að breytingum verðlags og launa og að nauðsynlegt væri að vísitöluviðmiðun launa yrði breytt í því skyni að draga úr víxlhækkun verðlags og kaupgjalds og þar með úr verðbólgunni.

Enn fremur var í aths. lögð áhersla á nauðsyn jafnvægis í ríkisfjármálum og niðurskurðar á ríkisrekstrarútgjöldum og tekið fram að heildarfjárfesting á árinu 1979 skyldi ekki vera meiri en sem næmi 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Jafnframt var í grg. lýst yfir aðhaldssamri stefnu í peningamálum, þar sem útlánaþörf hankanna og bindiskylda Seðlabankans yrði ákveðin þannig að peningamagn í umferð yrði í samræmi við stefnuna í launa- og verðlagsmálum almennt.

Með viðnámslagafrv. frá nóvembermánuði s. l. var þannig boðuð samræmd heildarstefna í efnahagsmálum þjóðarinnar fyrir árið 1979 og næstu ár. Á grundvelli þessarar stefnumörkunar lögðu stjórnarflokkarnir á fyrstu vikum þessa árs fram tillögur sínar í efnahagsmálum. Sérstök ráðherranefnd, sem ríkisstj. skipaði að tillögu forsrh., vann mikið starf að því að samræma till. flokkanna. Í febrúarmánuði s. l. lagði forsrh. fram í ríkisstj. drög að frv. til l. um efnahagsmál. Þessi frv.-drög voru samin á grundvelli þeirrar stefnu, sem mörkuð var í grg. viðnámslagafrv., og þeirra till. sem ráðh.-nefndin lagði fram. Jafnframt hafði forsrh. hliðsjón af till. formanns vísitölunefndar varðandi verðbólgukafla frv., en nefndin lauk störfum um miðjan febrúar.

Ríkisstj. leitaði umsagnar aðila vinnumarkaðarins um frv.-drögin, og á grundvelli þess samráðs og umfjöllunar í ríkisstj. og stjórnarflokkunum voru gerðar á þeim talsverðar breytingar, m. a. að því er varðar ákvörðun verðbóta á laun. Einnig var bætt við sérstökum kafla um þróun atvinnuvega og hagræðingu í atvinnurekstri.

Markmið stefnunnar í efnahagsmálum og þessa frv. er að tryggja næga og stöðuga atvinnu, að halda verðhækkunum í skefjum, að stuðla að jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og greiða fyrir félagslegum og efnahagslegum framförum og bættum lífskjörum alls almennings. Frv. stefnir jafnframt að því, að ráðstafanir stjórnvalda í efnahagsmálum séu jafnan við það miðaðar, að stefnt sé að framangreindum markmiðum án þess að efnahagslegu jafnvægi sé raskað eða fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar út á við teflt í tvísýnu.

Með þeim ráðstöfunum, sem frv. kveður á um, er stefnt að því að draga úr verðbólgu án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu. Jafnframt er stefnt að jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar án þess að kaupmáttur launa sé skertur. Hér er því um að ræða samræmdar aðgerðir á flestum sviðum efnahagsmála, sem ekki horfa einungis til næstu mánaða, heldur næstu missira og ára. Þótt mikilvægt sé að draga úr verðbólgu verður árangur á því sviði einungis mikilsverður ef jafnframt er tryggð full atvinna. Þetta er meginsjónarmiðið, sem frv. þetta er byggt á. Frv. kveður á um róttækar breytingar á stjórn ríkisfjármála og fjárfestingar, á sviði peningamála, launa- og kjaramála og verðlagsmála og stuðlar að aukinni sveiflujöfnun í sjávarútvegi. Enn fremur er gert ráð fyrir að endurskoða þá sjálfvirkni sem færst hefur í aukana á ýmsum sviðum efnahagsmála á undanförnum árum og kann að hafa átt talsverðan þátt í aukningu verðbólgu og gert skynsamlega stjórn í efnahagsmálum erfiðari en ella.

Veigamikið atriði þeirrar heildarstefnu, sem mótuð var í grg. með viðnámslagafrv., er að dregið verði að mun úr verðbólgu á þessu ári og hinu næsta. Meginatriði þess frv., sem hér er lagt fram, felst í markvissri tilraun til þess að hamla gegn verðhækkunum á þessu ári og raunar næstu árum með kerfisbreytingum og aðgerðum á mörgum sviðum efnahagslífsins.

Í desembermánuði s. l. setti Þjóðhagsstofnun fram spá um þjóðarhag á árinu 1979, og var spáin m. a. byggð á grundvelli þeirrar verðlags- og launastefnu sem sett var fram í viðnámslagafrv. í nóv. Niðurstaða þessarar spár Þjóðhagsstofnunar var sú, að vöxtur þjóðarframleiðslu yrði um 1–1.5% á árinu 1979 og vöxtur þjóðartekna yrði svipaður, þar sem þá var gert ráð fyrir óbreyttum viðskiptakjörum á þessu ári.

Horfurnar fyrir árið 1979 um aukningu þjóðarframleiðslu og tekna eru nú tvísýnni en þegar desemberspáin var gerð. Viðskiptakjör hafa snarsnúist til hins verra á síðustu vikum, og veldur þar mestu mikil hækkun olíuverðs umfram það sem reiknað var með á síðustu mánuðum ársins 1978. Síðustu áætlanir benda til þess, að viðskiptakjör séu um þessar mundir mun lakari en þau voru á árinu 1978, og hefur þó verið tekið tillit til verðhækkunar á frystum fiskflökum á Bandaríkjamarkaði og verðhækkunar á frystum fiskflökum til Sovétríkjanna. Þótt hin stórfellda hækkun olíuverðs kunni að ganga til baka að einhverju leyti siðar á árinu og viðskiptakjörin gætu skánað, bendir flest til þess að viðskiptakjörin verði til muna lakari að meðaltali á þessu ári en í fyrra, e. t. v. um 6–7%. Því eru horfur á að þjóðartekjur muni standa í stað hið mesta og gætu jafnvel dregist saman á þessu ári, þótt framleiðsluaukning verði svipuð og áður var spáð. Brýnt er að tekið verði tillit til þessara atriða við ákvörðun verðbóta á laun þannig að öfugþróun viðskiptakjara valdi ekki hækkun launa. Í frv. er lagt til að tekið verði tillit til breytinga á viðskiptakjörum við ákvörðun verðbóta. Andstreymi í ytri skilyrðum þjóðarbúsins gerir enn brýnna en áður að traustu jafnvægi sé náð í hagkerfinu og búið í haginn fyrir framfarir sem byggja á innlendum auðlindum.

Í þjóðhagspánni í des. var reiknað með 2% aukningu sjávarafla og hefur þeirri spá ekki verið breytt. Hins vegar er ljóst, að til þess að þessi spá gangi eftir þurfa að verða verulegar breytingar á sókn í hina ýmsu fiskstofna, einkum ef gripið verður til strangari takmarkana á þorskveiðum en var í fyrra, eins og boðað hefur verið.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. er gert ráð fyrir að fjármunamyndun dragist saman um 7% að raungildi frá fyrra ári. Í þeirri áætlun er reiknað með að á þessu ári verði rösklega 182 milljörðum kr. varið til fjárfestingar. Er það innan við fjórðung af áætlaðri þjóðarframleiðslu ársins og því innan þeirra marka sem að er stefnt með frv. þessu. Þessi spá felur í sér um 11% samdrátt í fjárfestingu atvinnuveganna, sem skýrist fyrst og fremst af því, að fiskiskipainnflutningur minnkar mikið og framkvæmdir við járnblendiverksmiðju verða aðeins helmingur þess sem var 1978. Þótt spáð sé samdrætti í fjárfestingu fellur hann að svo miklu leyti á innflutning, einkum skipainnflutning, að minna dregur úr byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð innanlands. Bygging íbúðarhúsa er þannig talin munu verða svipuð á þessu ári og í fyrra. Enn fremur er í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni gert ráð fyrir 5% samdrætti í framkvæmdum hins opinbera. Þó er gert ráð fyrir verulegum umsvifum á ýmsum sviðum framkvæmda sem til framfara horfa, t. d. á sviði orkumála og samgangna.

Í fjárfestingaráætlun þessari er reiknað með 34% hækkun byggingarvísitölu milli áranna 1978 og 1979. Í ljósi þeirrar miklu verðhækkunar á olíuvörum, sem orðið hefur að undanförnu, og þeirrar launastefnu, sem m. a. er fylgt í þessu frv., má hins vegar búast við að verðhækkunin verði meiri en áður var reiknað með og gæti þetta orkað að nokkru leyti til rýrnunar á raungildi framkvæmdafjár og þar með ívið meiri samdráttar í fjárfestingu eða e. t. v. um 7–7.5%. Í frv. eru hins vegar settir fyrirvarar þess efnis, að jafnan skuli horft til þess að ráðstafanir þær, sem í því felast, stefni atvinnuöryggi ekki í hættu.

Forsendur desemberspárinnar um þróun kauptaxta voru þær, að hækkun kauptaxta færi ekki fram úr 5% á þriggja mánaða fresti. Við endurskoðun áætlunar um breytingar verðlags og verðbótagreiðslna á laun hefur bæði verið tekið mið af hinni stórfelldu hækkun olíuverðs, sem nú er fram komin, og ákvæðum þessa frv. Í frv. er gert ráð fyrir að versnun viðskiptakjara á árinu valdi ekki verðbótahækkun launa. Er talið að áhrif olíuverðshækkunarinnar einnar gætu leitt til 7–8% versnunar viðskiptakjara á þessu áti miðað við 1978, en sé reiknað með nokkurri hækkun útflutningsverðs umfram verð á öðrum innflutningi en olíu yrði viðskiptakjararýrnunin nokkru minni en sem nemur áhrifum olíuverðshækkunar, eða 6–7% milli 1978 og 1979. Viðskiptakjarafrádráttur frá hækkun verðbóta mun hafa áhrif á verðbótagreiðslur í júní og yrðu þær af þeim sökum 2.5–3% minni en ella, en ekki er gert ráð fyrir frekari viðskiptakjaraáhrifum á árinu. Í frv. þessu eru einnig gerðar till. um að þær ráðstafanir, sem gerðar kynnu að verða til að jafna þann aðstöðumun sem olíuverðhækkunin veldur, skuli ekki valda launahækkun. Hins vegar eru ekki settar beinar skorður við verðbótahækkun á árinu. Í ljósi þeirra breytinga, sem orðið hafa á þjóðarhag að undanförnu, telur ríkisstj. óráðlegt að hækka grunnlaun á árinu 1979 og hyggst beita sér fyrir því í samkomulagi við samtök launafólks að fallið verði frá 3% hækkun grunnkaups hjá opinberum starfsmönnum sem ráðgerð er 1. apríl n. k. Ég vænti þess, að allir hljóti að sjá að ef sú launahækkun kæmi til framkvæmda mundi hún draga dilk á eftir sér.

Ofangreindar forsendur um þróun verðlags og launa eru á ýmsan hátt óvissar, ekki síst vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framvindu verðlagsmála, einkum olíuverðs, en samkv. þeim má ætla að kauptaxtar hækki um 34–35% að meðaltali á árinu. Að meðtalinni fjölgun fólks í vinnu gætu atvinnutekjur því hækkað um 36–37%, en ráðstöfunartekjur sennilega ívið minna, eða um 35%.

Áðurnefndar forsendur um launabreytingar svo og ákveðnar forsendur um hækkun innflutningsverðlags benda til þess, að framfærslukostnaður geti e. t. v. hækkað um 32–33% frá upphafi til loka árs, en meðalhækkun milli 1978 og 1979 yrði þá um 33–34%. Samkv. þessu má ætla að kaupmáttur ráðstöfunartekna í heild aukist aðeins, eða e. t. v. um allt að 1%, en í fyrri spám var reiknað með að hann stæði í stað frá fyrra ári.

Í ljósi þessarar kaupmáttaraukningar mætti búast við því, að einkaneysla yrði nokkru meiri að magni en á árinu 1978. Sé litið á þróun kaupmáttar og einkaneyslu árin 1977 og 1978 virðist líklegt að um nokkra aukningu verði að ræða á þessu ári, e. t. v. um 2–3% á mann og 3–4% í heild. Einkaneysla jókst minna en kaupmáttur á árinu 1977 og í fyrra fylgdust breytingar kaupmáttar og einkaneyslu sennilega nokkurn veginn að. Kaupmáttur jókst nokkuð á síðari hluta árs 1978 miðað við það sem var á fyrri hluta ársins, og er líklegt að það hafi áhrif á einkaneysluútgjöld á þessu ári þannig að þau aukist ívið meira en kaupmáttur.

Séu þessar lauslegu spár um einstaka þætti þjóðarútgjalda, útflutning og innflutning dregnar saman verður niðurstaðan sú, að þjóðarframleiðsla gæti aukist um 1.5% , en vegna versnandi viðskiptakjara sé í mesta lagi unnt að reikna með að þjóðartekjur standi í stað. Gangi þessar spár eftir virðist mega halda sem næst jöfnuði í viðskiptum við útlönd á árinu 1979, en sá jöfnuður gæti þó hæglega snúist í halla ef sjávarafli verður minni en hér er reiknað með eða útflutningur tregari eða ef innflutningseftirspurn eykst að mun með vaxandi kaupmætti.

Áhersla skal á það lögð, að lítið má út af bera til þess að útkoman á árinu verði önnur og lakari en hér er gert ráð fyrir. Ljóst er að víða er teflt á tæpasta vað, ekki síst um jafnvægið í utanríkisviðskiptum og afkomu atvinnuvega. Þau umsvif, sem hér er stefnt að í þjóðarbúskapnum á árinu 1979, ættu að nægja til þess að tryggja fulla atvinnu, ef marka má fyrri reynslu. Hætta er hins vegar á að hugsanlegt framhald öfugþróunar verðlags, m. a. af völdum olíuverðshækkunar, grafi undan rekstrargrundvelli atvinnuveganna og valdi atvinnubresti. Ríkisstj. mun verða á varðbergi gagnvart þessum hættum í atvinnumálum og snúast við þeim eftir því sem þörf krefur.

Þetta mat á efnahagshorfunum á þessu ári sýnir glöggt þann búskell sem þjóðarbúið hefur þolað vegna stórhækkunar olíuverðs að undanförnu. Ekki síst af þessum sökum verður sá árangur, sem að er stefnt með þessu frv., minni en ella á þessu ári, einkum hvað varðar hjöðnun verðbólgu. Mikilvægara er þó í þessu sambandi að þær ráðstafanir og ekki síður þær breytingar á stjórnarháttum í efnahagsmálum, sem felast í till. þessa frv., horfa til mun lengri tíma en til loka þessa árs og fela í sér að ná megi varanlegum árangri í baráttunni við verðbólguna og stjórn efnahagsmála almennt, ef vel er á haldið. - Það verður auðvitað verkefni þn. að kanna nánar allar þær spár og forsendur sem hér hefur verið vikið að.

Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir efni einstakra kafla frv., en vísa að öðru leyti til ítarlegra aths. sem frv. fylgja.

I. kaflinn fjallar um almenna stefnumörkun í efnahagsmálum, þar sem annars vegar er kveðið svo á, að ráðstafanir stjórnvalda í efnahags- og fjármálum skuli jafnan miðaðar við helstu markmið efnahagsstefnunnar, án þess að efnahagslegu jafnvægi sé raskað eða fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar út á við teflt í tvísýnu. Hins vegar er þar kveðið á um skipulega gerð þjóðhagsáætlunar á hverju ári til viðmiðunar við stefnumótandi ákvarðanir í efnahagsmálum.

Forsrh. mun fyrir hönd ríkisstj. gera grein fyrir þjóðhagsáætlun þeirri eða þjóðhagshorfum, sem ríkisstj. leggur til grundvallar stefnu sinni í efnahagsmálum, á sama tíma og stefnuræða hans er flutt á þingi. Með þessu móti fæst skýr undirstaða undir umræðu og ákvarðanir á einstökum sviðum efnahags- og fjármála í störfum þingsins.

Í II. kafla frv. er mælt fyrir um reglubundið samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum. Er það í samræmi við þá meginstefnu ríkisstj., að árangursríkri og farsælli stjórn efnahagsmála verði ekki komið á nema í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Meginverkefni á samráðsfundum yrði að fjalla um helstu þætti efnahagsmála og mörkun efnahagsstefnu í því skyni að leggja grundvöll að samræmdum ákvörðunum um efnahagsmál. Þá yrðí einnig fjallað um þjóðhagsog framkvæmdaáætlanir hins opinbera, tekjustefnu og forsendur þeirra. Loks yrði fjallað um önnur þau atriði sem horfa til framfara á sviði atvinnu- og kjaramála og raunar efnahagsmála almennt. Gert er ráð fyrir að nánari reglur um samráð verði settar í reglugerð eftir því sem þurfa þykir.

III. kaflinn fjallar um ríkisfjármál. Ákvæði hans skiptast í þrjá þætti: í fyrsta lagi ákvæði er lúta að gerð fjárl. og heildarstjórn ríkisfjármála; í öðru lagi eru ákvæði um breytingu ríkisfjármála á árunum 1979 og 1980 í því skyni að setja ríkisumsvifum hæfileg mörk til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og þar með draga úr verðbólgu, í þriðja lagi eru ákvæði er varða eftirlit með framkvæmd fjárl. og hagsýslustarfsemi, í því skyni að auka aðhald og hagkvæmni í ríkisrekstri og draga úr útgjöldum.

Í kaflanum er lagt til að með fjárlagafrv. ár hvert verði lögð fram áætlun til næstu þriggja ára eftir lok þess fjárlagaárs sem fjárlagafrv. tekur til. Áætlun þessi skal vera vísir að langtímafjárlögum. Ekki er þó ætlast til að áætlunin verði bindandi, heldur er henni ætlað að sýna þá meginstefnu sem móta á í ríkisfjármálum og fjárlagafrv. er hluti af. Með þessu móti fengist betri yfirsýn yfir stefnuna í ríkisfjármálum, sem styrkir þær ákvarðanir er varða tekjuöflun og skiptingu útgjalda á fjárl. Jafnframt verður gleggra hvaða mörk þarf að setja ríkisfjármálum og hvaða svigrúm er fyrir hendi til framkvæmda, uppbyggingar og endurbóta á sviði opinberrar þjónustu. Áætlunargerð sem þessi er að auki ein meginforsenda þess, að raunhæft sé að taka á föstum og reglubundnum eða sjálfvirkum fjárframlögum samkv. öðrum lögum en fjárl. svo og mörkuðum stofnum eins og till. er gerð um í 8. gr., en í henni er lagt til að tekin verði til endurskoðunar á þessu ári helstu lagaákvæði af því tagi. Sú till. miðar fyrst og fremst að því að auka svigrúm ríkisstj. og Alþ. til að hafa áhrif á fjárfestinguna í landinu. Þau sjálfvirku framlög og þær mörkuðu tekjur, sem hér um ræðir, hafa í raun bundið nokkuð hendur fjárveitingavaldsins og skert möguleika þess til að marka og framfylgja ákveðinni stefnu í efnahagsmálum og fjárfestingarmálum, sérstaklega með virkri beitingu ríkisfjármálanna. Hér er að því stefnt, að ákvarðanir um þessi fjárframlög verði teknar til endurskoðunar og það kannað að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa skuli framvegis ákveðin með fjárl. ár hvert og til frambúðar í langtímaáætlun samkv. 7. gr.

Þau fjárframlög, sem verið hafa lögbundin og hér um ræðir, nema samtals 14.2 milljörðum kr. á fjárl. ársins 1979. Þeir tekjustofnar, sem ráðstafað hefur verið til sérstakra þarfa, nema alls 18.1 milljarði kr. á fjárl. ársins 1979. Eru þá undanskilin ýmis framlög og stofnar, og má þar nefna framlög atvinnurekenda til almannatrygginga og gjaldskrár þjónustufyrirtækja.

Í greininni er lögð áhersla á að tillit sé tekið til félagslegra markmiða og samráð haft við hagsmunaaðila við endurskoðunina. Með aths. með frv. er lögð fram skrá–fskj. — yfir helstu framlög og tekjustofna sem hér um ræðir. Þegar menn athuga þá skrá geri ég ráð fyrir því að menn komist að þeirri niðurstöðu að ýmsum þeirra lagaákvæða verði ekki breytt.

Þá er í þessum kafla einnig gerð till. um að niðurgreiðslu landbúnaðarafurða verði sett ákveðið hámark fyrir hverja afurð og miðist hámarkið við verð til framleiðenda. Ljóst er að niðurgreiðslur fela jafnan í sér röskun á verðhlutföllum gagnvart öðrum vörum, auk þess sem mismiklar niðurgreiðslur á einstökum búvörum raska verðhlutföllum innbyrðis. Í þessu er fólgin sú hætta, að hvatt sé til framleiðslu á vörum, sem offramboð er á, og niðurgreiðslurnar seinki og torveldi þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað í samsetningu framleiðslunnar eigi hún að geta staðist til lengdar. Með þessari till. er leitast við að ráða hér nokkra bót á, bæði hvað snertir röskun verðhlutfalla gagnvart öðrum vörum og eins gagnvart öðrum búvörum. Er gert ráð fyrir að þessu markmiði verði náð í áföngum á árunum 1979, 1980 og 1981.

Sú viðmiðunarregla, sem hér er gert ráð fyrir, er einföld í meðförum þegar um er að ræða afurðir, svo sem mjólk og kjöt, þar sem unnt er að hafa beina viðmiðun við verð til bænda. Um aðrar afurðir, sem meira eru unnar, svo sem rjóma, smjör og ost, er þetta ekki eins einfalt, en helst hefur verið gert ráð fyrir að niðurgreiðslur megi mest nema þar sama hlutfalli af heildarkostnaðarverði og á mjólk og kjöti. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að fjárhæðum, er verja skal til niðurgreiðslna á þessu ári samkv. fjárl., verði ekki breytt.

Í 10. gr. frv. er að finna ákvæði um framkvæmd þeirrar lækkunar ríkisútgjalda um 1 milljarð kr. sem heimild var veitt fyrir í fjárl.

Í 11. gr. er stefnumarkandi ákvæði um heildarumfang ríkisfjármála á árunum 1979 og 1980. Lögð er áhersla á að við núverandi efnahagsástand verði ríkisfjármálunum beitt til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum, en með fyllsta tilliti til atvinnuástands.

Loks eru í 12. og 13. gr. tillögur um endurbætur á eftirliti með framkvæmd fjárl. og aukna hagsýslustarfsemi í því skyni að auka aðhald í ríkisrekstri og tryggja sem hagkvæmasta meðferð opinberra fjármuna. Þessi ákvæði yrðu til fyllingar gildandi ákvæðum laga nr. 61/1931, um ríkisendurskoðun, og laga og reglugerðar um Stjórnarráð Íslands frá 1969. Gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðun fylgist með framkvæmd fjárl. í umboði Alþingis. Í framhaldi af þessari till. hyggst ríkisstj. beita sér fyrir því á þessu ári að sett verði ný lög um Ríkisendurskoðun er feli í sér grundvallarbreytingu á stöðu stofnunarinnar og hlutverki hennar. Gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðunin starfi í nánum tengslum við fjvn. og undirnefnd hennar. Lögð er aukin áhersla á hagsýslustarfsemi ríkisins í því skyni að auka hagkvæmni og sparnað í ríkisrekstri. Læt ég nægja að vísa þar um til aths.

Í IV. kafla frv. er fjallað um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir ríkisstj. er lagðar skulu fyrir Alþ. í tengslum við fjárlagafrv. Verða þær lagðar fram samtímis, væntanlega í einu lagi eins og gert var árið 1979. Í kaflanum eru ákvæði um að í fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skuli setta fram heildaráætlanir um opinberar framkvæmdir og Fjármögnun þeirra og ákvarðanir um framkvæmdaframlög og framlög til fjárfestingarlánasjóða og útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða, auk þess sem ákvæði eru um undirbúning áætlananna og nauðsynleg atriði vegna framkvæmdar þeirra. Einnig eru í kaflanum ákvæði, sem ætlað er að leggja áherslu á nauðsyn þess að draga úr fjárfestingarútgjöldum og þau verði innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu á þessu ári. Einnig er ákveðið að stefna að meira aðhaldi í erlendum lántökum en verið hefur á undanförnum árum. Í kaflanum eru einnig ákvæði um að útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða verði samræmd á þessu ári.

Það er nauðsynlegt að fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir séu lagðar fram um leið og fjárlagafrv. til þess að fyrir liggi heildaryfirlit yfir fjármunamyndun og fjármögnun í samhengi þjóðhagsáætlunar, þegar fjárlagafrv. er til meðferðar á Alþ. Áætlanirnar eru gerðar til eins árs í senn, en þegar fram í sækir er nauðsynlegt að þær verði gerðar til nokkurra ára í senn, en verði jafnframt endurskoðaðar árlega. Að þessu verður stefnt á árunum 1979 og 1980. Þá er gert ráð fyrir að áætlununum fylgi stefnumótun í meginatriðum fyrir næstu 3 árin eftir gildistíma þeirra, og er þetta til samræmis við ákvæðin um langtímafjárlög í 7. gr. frv.

Í 15. gr. frv. eru skilgreindir nánar einstakir þættir fjárfestingar- og lánsfjáráætlana í samræmi við það markmið sem sett er í 14. gr., og leyfi ég mér að vísa til greinarinnar um það.

Í þessari grein er loks mælt fyrir um mat á mannaflaþörf áætlaðra framkvæmda í heild og að sérstaklega verði metið atvinnuástand við byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, þar sem sveiflur í atvinnustigi koma yfirleitt fyrst fram.

Í 16. gr. er kveðið á um lagasetningu um lántökuheimildir, ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar fjáröflunarráðstafanir, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það, nema undirstrika að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skal einnig fylgja rammaáætlun um erlendar lántökuheimildir einkaaðila, sem langlánanefnd skal framfylgja, en á undanförnum árum hefur skort á að erlendar lántökur einkaaðila væru metnar út frá slíkri rammaáætlun.

Aðkallandi er að efla áætlanagerð um einstakar greinar opinberra framkvæmda. Í 17, gr. er ákvæði þess efnis. að einstök rn. undirbúi slíkar áætlanir hvert á sínu verksviði, en fjárlaga- og hagsýslustofnun samræmi undirbúning og gerð þessara áætlana. Aðrar stofnanir, svo sem Framkvæmdastofnun, Orkustofnun og Þjóðhagsstofnun, munu einnig geta lagt lið í þessum efnum, en frumkvæðið er hjá rn. Nauðsynlegt er að því verði sem fyrst komið á, að áætlanir hvers árs verði gerðar innan ramma áætlana til nokkurra ára, til þess að unnt verði að marka stefnu í fjárfestingarmálum og ríkisfjármálum til lengri tíma en árs. Samhliða þarf að leggja áherslu á að bæta tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning einstakra verka.

Í 18. gr. er fjallað um atvinnuvegaáætlanir. Áætlanir um þróun einstakra greina atvinnulífsins eru á verksviði Framkvæmdastofnunar samkv. núverandi skipulagi, en frumkvæði og þátttaka frá hlutaðeigandi rn. er hér einkar mikilvæg. Þróun atvinnulífsins er í ríkum mæli háð stefnu og aðgerðum stjórnvalda, ekki síst þar sem lánveitingar bæði til stofnlána og rekstrarlána eru að mestu leyti á vegum banka og fjárfestingarlánasjóða í opinberri eigu. Mikilvægt er að settir séu upp könnunarreikningar um þróun einstakra greina á næstu árum til þess að taka megi ákvarðanir um lánveitingar og önnur atriði er hagi atvinnugreinanna varða, með yfirsýn yfir stöðu og þróun greinanna og gildi einstakra verka og framkvæmda. Nokkurt starf hefur verið unnið á þessu sviði af Framkvæmdastofnun, Rannsóknaráði ríkisins og einstökum rn. Virðist eðlilegt að frumkvæði og ábyrgð á áætlunargerð um einstakar atvinnugreinar sé hjá viðkomandi rn. í samvinnu við samtök greinanna sjálfra, en þau njóti aðstoðar Framkvæmdastofnunar og Þjóðhagsstofnunar við verkið. Hlutverk Þjóðhagsstofnunar væri þá fyrst og fremst að láta í té upplýsingar og sjónarmið varðandi almenna efnahagsþróun og tengja áætlanir annarri áætlunargerð. Verkefni Framkvæmdastofnunar væri hinsvegar að gera sérstakar kannanir og áætlanir fyrir einstakar greinar, en einnig, í samvinnu við Seðlabankann, að semja fjáröflunar- og útlánaáætlanir fyrir fjárfestingarlánakerfið, sem gera mætti markvissari væru þær tengdar atvinnuvegaáætlun.

Í 19. gr. er fjallað um undirbúning lánsfjár- og fjárfestingaráætlana og vísa ég til þess sem þar segir.

Í 20. gr. eru heildarfjárfestingu sett mörk á árinu 1979. 21. gr. frv. fjallar um útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða, en þær ráða miklu um framgang stefnunnar í fjárfestingarmálum og því er nauðsynlegt að marka skýra stefnu í þessu efni sem miði að því að einfalda og samræma öll lánskjör sambærilegra lána, einkum að því er varðar nafnvexti, verðtryggingu og lánstíma. Með ákvæði þessarar greinar er stefnt að því að ljúka þessu starfi á þessu ári. Starfsemi fjárfestingarlánasjóðanna hefur einkennst af því, að útlán þeirra hafi í of ríkum mæli ráðist af sjálfvirkum reglum, t. d. sem ákveðinn hundraðshluti af framkvæmd, ef vissum skilyrðum er fullnægt, en í of litlum mæli af kröfum um arðsemi einstakra framkvæmda. Þessu verður að breyta með því að afnema eftir því sem fært þykir hinar sjálfvirku útlánareglur, en koma í staðinn á samræmdum reglum um arðsemismat á einstökum framkvæmdum. Með sama hætti þarf að kanna lagaákvæði um framlög ríkissjóðs til fjárfestingarlánasjóða eftir sjálfvirkum reglum og athuga hvort ekki eigi að taka í staðinn upp beinar fjárveitingar á fjárl. Í þessu sambandi þarf einnig að skoða verkefni einstakra sjóða með tilliti til félagslegra markmiða.

Í V. kafla frv. eru ákvæði um atvinnuvegaáætlanir til nokkurra ára í senn og frumkvæði rn. að gerð þeirra. Mælt er fyrir um hvernig samræma skuli áætlanagerð, form áætlananna á Alþ. og rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þá eru ákvæði um fjáröflun til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins og skýrslugerð um fjárfestingu í atvinnuvegunum. — Ákvæði þessa kafla geta orðið mikilvæg, þegar til lengri tíma er lítið, og ég vil sérstaklega benda á 22. gr., sem er þar aðalákvæði.

Efni VI. kafla er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru settar fram almennar viðmiðanir fyrir stjórn peningamála og ákvörðun gengis og vaxta. Í öðru lagi eru gerðar ákveðnar tillögur um hvernig beita skuli stjórntækjum peningamála gegn verðbólgu til jafnvægis í efnahagsmálum á þessu og næsta ári.

Í 28. og 29, gr. er áréttuð sú skylda Seðlabankans að vinna að því að peningamagn í umferð og heildarútlán séu í samræmi við stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Þá er ákveðið að Seðlabankinn skuli gera áætlun til tveggja ára um breytingar á helstu peningastærðum og um lánamarkaðinn í heild á grundvelli þjóðhagsáætlunar, sbr. I. kafla frv. þessa.

Í 30. gr. er gerð till. um viðmiðun fyrir aukningu peningamagns á næstu tveimur árum, vegna þess að ýmsar utanaðkomandi breytingar geta haft áhrif á þessa stærð. Verður hér að vera um stefnuyfirlýsingu að ræða fremur en alveg ákveðið mark. Hins vegar er það ákveðinn vilji ríkisstj., að peningamálum verði beitt á virkari hátt en verið hefur til viðnáms gegn verðbólgu. Til þess að svo megi verða þarf að gera breytingar á nokkrum helstu stjórntækjum peningamála, auk þess sem jafnvægi í ríkisfjármálum er mikilvæg forsenda þess að aukning peningaframboðs sé hófleg.

Í lok greinarinnar er settur sá fyrirvari, að víkja megi frá markmiðum hennar ef óvæntar breytingar verði í þjóðarbúskapnum.

Í 31. gr. er lagt til að bætt verði inn í Seðlabankalögin ákvæði um viðmiðun gengisskráningar íslensku krónunnar á hverjum tíma. Brýnt er að þessi almenna viðmiðun sé bundin í lög þegar um jafnmikilvægt hagstjórnartæki og gengisskráningu er að tefla.

Í 32. gr. er gerð till. um að tekin verði upp í áföngum á þessu og næsta ári almenn verðtrygging, en vextir verði jafnframt lækkaðir verulega. Hin öra verðbólguþróun hérlendis að undanförnu hefur eðlilega leitt til þess, að leitað er leiða til að leiðrétta skekkju af völdum verðbólgunnar á ýmsum sviðum efnahagslífsins. En tilfærsla eigna frá þeim, sem skulda í peningum með vöxtum, sem liggja undir hraða verðbólgunnar, til hinna, sem geyma fé sitt á vöxtum undir verðbreytingum, er e. t. v. einn alvarlegasti fylgikvilli verðbólgunnar. Auk eignatilfærslu fylgir því ástandi, sem hér hefur ríkt, óhófleg eftirspurn eftir lánsfé og jafnframt brenglar verðbólga mat á framtíðargildi fjárfestingar þegar raunverulegur vaxtakostnaður kemur ekki fram í lánskjörum. Leiðirnar til að verjast þessu eru tvær: hækkun nafnvaxta eða verðtrygging með lágum vöxtum. Hækkun nafnvaxta og lækkun eftir verðbólgustigi hefur ýmsa ókosti sem verðtrygging hefur ekki, einkum ef hraði verðbólgunnar er breytilegur. Á hinn bóginn er ljóst að verðtrygging eftir á hentar ekki öllum lánsviðskiptum til skamms tíma. Í þessari grein er lagt til að stefnt verði að verðtryggingu — og þar með jákvæðum, en lágum raunvöxtum — með vaxtaákvörðun Seðlabankans á næstunni. Hér er um vandasamt verk að ræða sem hlýtur að taka nokkurn tíma að koma á, en í frv. þessu er mörkuð skýr stefna í þessu efni.

VII. kaflinn fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Það er eitt af markmiðum ríkisstj. í peningamálum að tryggja örugga ávöxtun sparifjár með því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í lögum um verðtryggingu fjárskuldbindinga, nr. 71/1966, er gert ráð fyrir verulegum takmörkunum á notkun verðtryggingarákvæða í lánsviðskiptum. Í tillögum þessa kafla felst að þau ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir, komi í stað laga nr. 71/1966.

Það er meginstefna þessara tillagna, að tekin verði upp sem almennust verðtrygging á inn- og útlánum. Með samþykkt þeirra væru því sett almenn lagaákvæði um ákvörðun verðtryggingar, bæði í viðskiptum innlánsstofnana og utan þeirra, en nánari reglur varðandi verðtrygginguna yrðu settar af Seðlabankanum með sama hætti og vextir eru ákveðnir. Gert er ráð fyrir, að verðtrygging útlána verði einkum með þeim hætti að verðbótaþáttur vaxta leggist við höfuðstól láns í lok hvers vaxtatímabils. Þetta hefur þau áhrif, að raunverulegri greiðslubyrði afborgana og vaxta er dreift sem jafnast á lánstímann. Þessi aðferð er þó ekki framkvæmanleg að því er varðar viðskiptavíxla og verður því að taka tillit til verðtryggingar við ákvörðun forvaxta og verðbótaþáttar þeirra.

Ég mun nú ekki fara nánar út í einstök ákvæði í kaflanum. Þau eru mörg hver tæknilegs eðlis. Þó er rétt að undirstrika að í 36. gr. eru sett sérstök ákvæði um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna, þannig að ríkisstj. skuli ákveða hvaða reglur skuli gilda um verðtryggingu þeirra, að fengnum tillögum Seðlabankans.

Í VIII. kafla er fjallað um greiðslu verðbóta á laun. Tillögur þessa kafla eru byggðar á aths. viðnámslagafrv. frá því í nóv. 1978, á starfi vísitölunefndar og samráði við samtök launafólks. Með tillögum frv. eru settar almennar reglur um verðtryggingu launa. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að um grunnkaup verði samið í kjarasamningum. Kveðið er á um greiðslu verðbóta á þriggja mánaða fresti miðað við breytingar sérstakrar verðbótavísitölu sem reiknast eftir framfærsluvísitölu. Þó er dregin frá framfærsluvísitölu sú hækkun hennar eða lækkun sem leiðir af breytingum búvöruverðs vegna breytinga á vinnulið verðlagsgrundvallar búvöru, breytingum vegna áhrifa olíuverðshækkana umfram beina rýrnun viðskiptakjara og breytingum á áfengis- og tóbaksverði. Auk þess er nýmæli í þessum kafla, að gert er ráð fyrir sérstökum tímabundnum frádrætti frá breytingum verðbótavísitölu, ef viðskiptakjör þjóðarbúsins rýrna frá viðskiptakjarastigi ársins 1978, en frádráttur þessi fellur niður ef viðskiptakjör batna og gæti þá snúist í viðbót.

Við endanlega gerð þessa kafla hefur verið tekið verulegt tillit til ábendinga frá samtökum launafólks, bæði í vísitölunefnd og í skriflegum umsögnum um upphafleg frv.-drög forsrh.

Í 47. gr. er fjallað um gildistíma og tíðni verðbótagreiðslna og kveðið á um greiðslu verðbóta á þriggja mánaða fresti miðað við breytingar sérstakrar verðbótavísitölu sem kauplagsnefnd reiknar á sama tíma og vísitölu framfærslukostnaðar.

Í 48. gr. er fjallað um grunn verðbótavísitölunnar, þar sem kveðið er á um að hún skuli reiknuð eftir framfærsluvísitölu og miðast við grunntöluna 100 miðað við febrúarvísitölu 1979. Hér er vísitala sett á 100 í eitt skipti — auðvitað alls ekki gert ráð fyrir því að hún sé sett á 100 hvern útreikningsdag.

Í 49. gr. er fjallað um hugsanleg frávik við útreikning verðbótavísitölu eftir framfærsluvísitölu. Í fyrsta lagi skal draga frá framfærsluvísitölu þá hækkun hennar eða lækkun er leiðir af breytingum búvöruverðs milli útreikningsdaga vísitölunnar er leitt hefur af breytingum á vinnulið verðlagsgrundvallar búvöru og stafa af launahækkun á almennum vinnumarkaði. Hér er um að ræða að takmarka víxlhækkanir launa og verðlags, þar sem þær eru augljósastar og reyndar lögboðnar, en þessi leiðréttingarliður hefur verið í gildi að meira eða minna leyti allt frá 1950. Í öðru lagi skal draga frá framfærsluvísitölu þá hækkun sem verða kynni á sköttum — eða jafngildi annarra fjármálaráðstafana — annars vegar til að draga úr áhrifum olíuverðshækkunar á hag þeirra heimila, sem helst verða fyrir barðinu á henni, og hins vegar til að draga úr því öryggisleysi sem olíuverðshækkunin veldur í þeim atvinnugreinum sem hvað mest eru háðar olíu. Þykir sanngirnismál að ráðstafanir til þess að jafna nokkuð aðstöðumun, sem af þessu hlýst, valdi ekki hækkun verðbóta. Gert er ráð fyrir að eftir því sem þörf krefur verði flutt sérstök lagafrv. um ráðstafanir í því skyni að jafna aðstöðumun heimila og einstaklinga og draga úr áhrifum olíuverðshækkunar á afkomu fyrirtækja og atvinnugreina til þess að tryggja að hún valdi ekki atvinnubresti. Ríkisstj. hefur þegar gert grein fyrir almennum viðhorfum til olíuvandans og hefur þegar beitt sér fyrir lagasetningu vegna fyrstu áhrifa hans á hag fiskveiða. Á næstunni mun hún leggja fram tillögur um fleiri ráðstafanir á þessu sviði. Í þessu ákvæði felst ekki út af fyrir sig heimild til neins konar skattlagningar.

Þar verða auðvitað að koma til lög hverju sinni. Í þriðja lagi er lagt til að breytingar á áfengis- og tóbaksverði hafi ekki áhrif á verðbætur. Hafa svipuð ákvæði, en þó nokkuð breytileg, verið um nokkurt skeið í kjarasamningum. — Gert er ráð fyrir að kauplagsnefnd setji nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

Í 50. gr. er að finna það nýmæli, að við útreikning verðbótavísitölu skuli tekið tillit til versnandi ytri aðstæðna í þjóðarbúskapnum er leiðir af hækkun innflutningsverðs umfram hækkun útflutningsverðs. Hér er kveðið svo á um útreikning verðbótavísitölu, að rýrni viðskiptakjör þjóðarbúsins frá viðskiptakjarastigi ársins 1978, þannig að innflutningsverð hækki umfram útflutningsverð, skal draga frá hækkun verðbótavísitölu 30% þeirrar hlutfallstölu sem viðskiptakjararýrnuninni nemur. Hlutfallstalan 30% er valin með tilliti til hlutfalls vöruinnflutnings af þjóðarframleiðslunni, að áli undanskildu. Við mat á viðskiptakjaraviðmiðun verðbóta frá 1. júní 1979 skal byggt á viðskiptakjaravísitölu Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar fyrir fyrsta ársfjórðung 1979 að 2/3, en að 1/3 á mati á viðskiptakjörum á grundvelli dagverðs á helstu útflutnings- og innflutningsvörum eftir miðjan apríl 1979. Hliðstæð tímaviðmiðun skal gilda fyrir síðari verðbótaútreikning á gildistíma laganna. Batni viðskiptakjörin eiga þau með hliðstæðum hætti að verka til hækkunar verðbótavísitölu, sbr. 2. mgr. 50. gr.

Til grundvallar ákvæðum þessarar greinar liggur sú skoðun, að eðlilegt sé að taka tillit til ytri skilyrða þjóðarbúsins vegna versnandi eða batnandi viðskiptakjara við útreikning verðbótavísitölu.

Gert er ráð fyrir að kauplagsnefnd setji nánari reglur um tilhögun viðskiptakjaraviðmiðunar verðbótavísitölu. Drög að slíkum reglum voru samin á vegum svonefndrar vísitölunefndar og birt í skýrslu um störf hennar frá 14. febr. 1979. Væntanlega yrði á þessum drögum byggt er kauplagsnefnd setur reglurnar endanlega. En það má einmitt undirstrika, að framkvæmd þessa verðbótakafla alls er mjög undir ákvörðunum kauplagsnefndar komin, og er það undirstrikað í 51. gr.

Í IX. kafla er fjallað um vinnumarkaðsmál. Þar er kveðið á um stofnun sérstakrar vinnumálaskrifstofu innan félmrn., þar sem samræmd verði upplýsingasöfnun og skýrslugerð um atvinnumál launafólks í landinu öllu. Enn fremur beiti vinnumálaskrifstofan sér fyrir ráðstöfunum, í því skyni að greiða fyrir tilfærslum starfsmanna milli atvinnugreina, veiti öryrkjum og unglingum aðstoð við að finna vinnu við þeirra hæfi og geri till. um úrbætur á sviði atvinnumála. Loks er það nýmæli í þessum kafla, að atvinnurekendum er gert skylt að tilkynna vinnumálaskrifstofunni og viðkomandi verkalýðsfélagi með fyrirvara ráðgerðar breytingar í rekstri er leiði til uppsagnar starfsfólks.

Þá er vinnumálaskrifstofunni falið að fylgjast náið með þróun atvinnumála og gera tillögur um úrbætur í þeim efnum. Þannig er í þessari grein sumpart nánar um að ræða útfærslu á starfi sem þegar hefur verið hafið, en einnig kveðið á um ýmis nýmæli á þessu sviði í því skyni að koma á samræmi og bættri skipan atvinnumála. Þannig er t. d. í 54. gr. um merk nýmæli að ræða, þar sem atvinnurekendum er gert skylt að tilkynna vinnumálaskrifstofunni og viðkomandi verkalýðsfélagi með tveggja mánaða fyrirvara fyrirhugaðan samdrátt eða aðrar þær varanlegar breytingar á rekstri er leiða til uppsagnar fjögurra starfsmanna eða fleiri, þannig að úrræða megi leita í tæka tíð. Með þessu ákvæði er leitast við að tryggja betur en nú er unnt atvinnuöryggi launafólks, en svipuð ákvæði er t. d, að finna í sænsku vinnumálalöggjöfinni.

Í X. kafla er fjallað um verðlagsmál. Vegna tímatakmarkana læt ég nú nægja að vísa til aths. varðandi skýringar á einstökum greinum. Sama verð ég líka að gera varðandi XI. kaflann, sem fjallar um Verðjöfnunarsjóð og Aflatryggingasjóð. XII. kafli þarfnast ekki skýringar.

Vegna fyrirkomulags umr, hef ég orðið nokkuð að takmarka skýringar á einstökum greinum frv., en þeim verður þá e. t. v. hægt að koma að síðar.

Herra forseti. Ég hef nú lokið því að gera grein fyrir efni frv. þessa í einstökum atriðum. Ég held að óhætt sé að segja að frv. feli í sér merka tilraun til þess að ná tökum á verðbólgunni og þeim óstöðugleika sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf, um leið og komið er á skipulegu samráði við samtök launafólks, bænda, sjómanna og vinnuveitenda og lagður grunnur að skynsamlegri áætlunargerð á sviði efnahagsmála. Auk þess felur frv. í sér tilraun til þess að taka með nýjum tökum á þeim sérstöku vandamálum sem að okkur steðja þessa dagana, þar sem er annars vegar stórfelld hækkun olíuverðs og nauðsyn þess að sveigja sókn fiskiskipa frá ofveiddum fiskstofnum til vannýttra stofna á Íslandsmiðum.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. segir m. a., að vinna skuli að gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar sem marki stefnuna í atvinnumálum, fjárfestingarmálum, tekjuskiptingu og kjaramálum. Jafnframt verði mörkuð stefna um hjöðnun verðbólgu í áföngum og ráðstafanir ákveðnar sem nauðsynlegar eru í þessu skyni, m. a. endurskoðun á vísitölukerfinu, aðgerðir í skattamálum og mótun nýrrar stefnu í fjárfestingar- og lánamálum.

Þær ráðstafanir, sem gripið var til í sept. s. l., mörkuðu fyrsta áfanga þessa verks. Með ráðstöfununum í nóv. og des. s. l. var þessu verki fram haldið og í reynd hafinn annar áfangi þess starfs sem um er fjallað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Meginefni þessa frv. er í fyrsta lagi að marka stefnu í efnahagsmálum til næstu ára, í öðru lagi að bæta skipulag og stjórntæki efnahagsmála í landinu, í þriðja lagi að grípa til ráðstafana þegar í stað á sviði fjármála, peningamála, launamála, verðlagsmála og sveiflujöfnunar í sjávarútvegi sem svari kalli á líðandi stund, í fjórða lagi að búa í haginn fyrir efnahagslegar framfarir og bætt lífskjör í landinu á grundvelli auðlinda lands og sjávar.

Það má segja að verðbólguhjöðnunarmarkmiði viðnámslaganna frá í nóv. sé ekki náð með þessu frv. Það er sumpart af því að tekið hefur verið tillit til ábendinga umsagnaraðila, en sumpart af því að atvinnuöryggi hefur verið sett í efsta sæti. En ég vil vara við því að einblína í þessu sambandi aðeins á verðbótakaflann. Önnur ákvæði í frv. eiga að stuðla að hjöðnun verðbólgu, þó að áhrif þeirra séu ekki mælanleg fyrir fram. Forsenda þess, að unnt verði að koma á bættri skipan við stjórn efnahagsmála, er að dregið verði úr verðbólgunni með samræmdum aðgerðum sem þannig séu valdar að hvorki sé atvinnuöryggi teflt í tvísýnu né efnahagslegu jafnvægi eða fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar út á við raskað. Til þess að slíkar ráðstafanir beri tilætlaðan árangur þarf skilning og víðtækt samráð og samstarf allra þeirra sem hlut eiga að máli. Verðbólgan hefur á undanförnum árum fært íslenskt efnahagslíf og ýmsan opinberan rekstur svo úr skorðum að lífskjör hafa ekki batnað í kjölfar ytri skilyrða, þar sem hún rýrir beinlínis vöxt þjóðartekna og þar með þjóðarhag. Til lengdargeta kjör launþega því aðeins batnað að þjóðartekjur vaxi. Við viljum halda því aðalsmerki íslenskra efnahagsmála á undanförnum árum að allir hafi næga atvinnu. Það tekst okkur ekki ef verðbólgan fær óáreitt að naga að rótum þjóðlífsins og atvinnuöryggis. Út henni verður að draga. Afleiðingar verðbólgu bitna á þjóðfélaginu í heild, en þegar til lengdar lætur fyrst og fremst á launþegum og sparifjáreigendum. Til þess að tryggja örugga undirstöðu farsældar og framfara í landinu þarf að koma varanlegu jafnvægi á í efnahagsmálum. Það er megintilgangur frv. þessa.

Herra forseti. Ég vona að afgreiðslu þessa máls verði hraðað eftir því sem kostur er. Ég tel eðlilegt að viðkomandi nefndir beggja deilda vinni saman að athugun málsins. Þær munu fá í hendur allar fram komnar umsagnir. Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.