19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3301 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Uppruna þess frv., ef frv. skyldi kalla, sem hér er til umr., verður líklega að rekja til Alþfl. Hæstv. forsrh. sagði áðan aðdragandann hafa verið langan og merkilegan. Langur hefur hann a. m. k. verið.

Eins og menn minnast lagði Alþfl. fram frv. í Alþýðublaðinu fyrir jól og því var síðan vísað til nefndar í Framsfl. Þegar síðari útgáfur þessa skjals með áorðnum breytingum eru bornar saman við frumritið verður að játa að upphaflega gerðin ber í einu og öllu af hinum síðari, enda þótt réttilega væri á það bent, er hún fyrst sá dagsins ljós, að margt væri skrýtið í kýrhausnum.

En hvað sem um Alþfl.-frv. má segja er þar gerð tilraun til að horfast í augu við staðreyndir og leita leiða til að kljást við verðbólgudrauginn sem hér hefur riðið húsum síðan hæstv. forsrh. myndaði hina fyrri ríkisstj. sína 1971. Hitt er svo annað mál, að úrræði Alþfl. manna hefðu engan vanda leyst, hvorki í bráð né lengd, því að þau byggja frá upphafi til enda á alrangri forsendu, þ. e. a. s. þeirri að kerfið margnefnda geti leyst allan mannlegan vanda, aðeins ef það sé styrkt, eflt og falin forsjá, falið alræði í efnahagsmálum. Má í því sambandi t. d. nefna að þeir Alþfl.-menn hugsuðu sér að fá Seðlabanka og ríkisvaldi í hendur 40% alls sparifjár landsmanna og í samvinnu við Kerfið bjuggu þeir til lítið raunalegt kerfi í vaxta- og peningamálum. Þangað má rekja snilliyrði eins og það sem lögfesta átti, að raunvextir verði jákvæðir. Litla kerfið átti síðan í áföngum að byggja á verðbótaþáttum vaxta, vaxtaaukalánum, vaxtaaukum og hvað það allt saman hét. Um þetta spunnust, eins og menn minnast, kátbroslegar umr. milli hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og Lúðvíks Jósepssonar, þar sem sá síðar nefndi benti á að við 50% verðbólgu mundu 40% vextir reka hana áfram, en hinn fyrr nefndi, að þá væri bara að elta drauginn. Og þá fundu snillingarnir upp hugtakið „neikvæðir raunvextir“. Þá dámaði mér ekki, eins og þar stendur.

Þá er rétt að minna kjósendur Alþfl. frá í fyrra á 5. gr. frv.-draga þeirra, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Með tilliti til sérstakrar skattlagningar verðbólgugróða skulu stjórnvöld á árunum 1979 og 1980 láta kanna eignamyndun einstaklinga og fyrirtækja í skjóli verðbólgu undanfarinna ára.“

Í tengslum við þessa hugsjón Alþfl. flutti svo hæstv. viðskrh, frv. til l. um peningaskipti, svo að hvergi skyldi króna sleppa undan aðgerðum réttvísinnar. Auk þess boðuðu Alþfl.-snillingarnir svo harðsnúnari verðlagsákvæði og höft en nokkru sinni áður. Þeir héldu — og halda sjálfsagt enn, að það sé leiðin til að kljást við verðbólgu. Þeir boðuðu, og boða enn, verulega kjaraskerðingu. Þar eru þeir raunsæir, því að versnandi kjör hljóta að verða fylginautur þess einkennilega samblands stjórnleysis og ofstjórnartilburða sem nú einkenna störf og starfsleysi hæstv. ríkisstj. Þetta var sem sagt upphafið að endalokunum og nú er komið að þeim.

Frv. forsrh., eins og það er kallað, hefur séð dagsins ljós, síðasta útgáfa. Lítum á það. Fljótt er hægt að fara yfir sögu.

I. kafli, sem fjallar um ýmiss konar áætlanir og skýrslugerðir, segir ekki neitt, eins og ljóst varð af orðum hæstv. forsrh. áðan. — Hann las æðimargt úr frv. og grg. Engin var það skemmtilesning og endurtek ég lítið af því og er honum þakklátur fyrir að koma til skila þeirri endaleysu sem þar stendur í ýmsum greinum.

II. kafli í svonefndu eldhúsfrv. Ólafs, sem raunar var aldrei lagt fram á þingi, fjallaði um stofnun kjararáðs. Í lokaútgáfunni var hausinn höggvinn af, hætt við að stofna ráðið, en verkefni þess látin standa í lögunum, ef þessi ósköp verða þá einhvern tíma að lögum en eftir standa spakmæli eins og t. d.: „Verkefni samráðs þessa skal m. a. vera“ og: „Samráðsfundi má halda bæði með fulltrúum einstakra samtaka og fulltrúum ríkisstj. og öllum samráðsaðilum í senn.“ Það á sem sagt að festa það í lögum landsins, að ríkisstj, og einstökum ráðh. sé heimilt að tala við hvern sem er án þess að vitum verði við komið.

III. kafli er sagður fjalla um ríkisfjármál. Þar er talað um áætlanir og skýrslur fyrir þjóðhagsárið, næstu þrjú ár o. s. frv., o. s. frv. „Skal að því stefnt að sýna m. a.“, segir orðrétt, „dæmi um líklega þróun . . . samræmi heildarstefnu“ o. s. frv., o. s. frv.

Í 11, gr. á svo að koma til móts við krata. Þar er sagt að miða skuli að því, að heildartekjur og útgjöld í fjárl. haldist innan marka sem svara til 30% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessi tala var raunar komin niður í 28% í tíð fyrri ríkisstj., en látum það vera. Kratarnir eru sælir í sinni vitleysu og það er auðvitað fyrir mestu.

3. gr. í frv. þeirra hljóðaði svona, með leyfi hæstv. forseta: „Skylt er“, ég endurtek, „skylt er að halda heildartekjum og heildarútgjöldum ríkisbúskaparins innan við 30% af vergri þjóðarframleiðslu á árunum 1979 og 1980“. En í 11. gr. núverandi frv. er talað um að miða við þetta og svo er bætt við smásetningu um að frá þessu skuli þó víkja, ef o. s. frv., o. s. frv. Og það eru raunar alls staðar, þar sem á kratahugsjónir er yfirleitt minnst, settir fyrirvarar. Allt, sem inn er sett fyrir krata, er samstundis tekið út aftur fyrir komma.

En í þessum kafla skýtur allt í einu upp grein sem gæti þýtt eitthvað, það er 9. gr. Þar er talað um að niðurgreiðsla landbúnaðarafurða skuli ekki vera hærri en svo, að útsöluverð hverrar afurðar til neytenda verði lægra en svarar verði til framleiðenda. Gerði hæstv. forsrh. nokkra grein fyrir þessu áðan. En um þetta segir í aths. með frv., að niðurgreiðslur þyrftu þá að lækka um 5.4–6.7 milljarða. Það er bara svona, kynni nú einhver launþeginn að segja. Eru ekki niðurgreiðslurnar aðalhagsbótin okkar? Er ekki ríkisstj. okkar alltaf að lækka vöruverð okkur til hagsbóta og svo til þess að halda í skefjum vísitölunni, svo að kaupið rjúki ekki upp úr öllu valdi? Eða var þetta allt saman misskilningur? Var tölvan kannske mötuð vitlaust?

Þetta sneri að neytendunum, en hvað sneri að bændum? Um landbúnaðarmál er ekkert annað í þessu frv. Þó liggur fyrir að í vor er hugmyndin að skattleggja bændur um svo sem eins og 1 milljón hvern eða rúmlega það, og reynt er að tildra upp ofstjórnarkerfi í málefnum bænda sem riðið gæti fjölda þeirra að fullu. En ríkisstj. og hæstv. landbrh. vita ekkert um vandamál í landbúnaði eða vilja ekki um þau vita. Er þar þó um að ræða svo stórfelldan vanda að honum verða auðvitað engin skil gerð í þessari umr., en Alþ. þyrfti sannarlega að taka þar til hendinni.

Í V. og V. kafli frv. eru með þeim hætti að langt er fyrir neðan virðingu Alþingis svo mikið sem að ræða þá, þótt hún sé stundum talin takmörkuð. En þeir eru sagðir fjalla um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir og framfarir í atvinnuvegunum. Hæstv. forsrh. gerði sér lítið fyrir og ræddi svolítið um þessa kafla og menn heyrðu þær raddir og ætti það að nægja.

Raunar má segja það sama um VI. kaflann þar sem fjallað er um stjórn Seðlabankans á peningamálum. Það, sem í kaflanum segir, er allt þegar í lögum, ýmist í 3. eða 4. gr. Seðlabankalaganna. Raunar orðaði hæstv, forsrh. það svo áðan, og það var hreinskilnislegt, að það væri „áréttað“ í sambandi við peningamál. Það voru orð að sönnu, því að allt er þetta fyrir í lögum.

En þá er komið að kafla sem óneitanlega segir eitthvað. Það er VII. kaflinn, sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, en þar er gert ráð fyrir að allvíðtæk verðtrygging verði upp tekin. Vissulega mundi það geta verið liður í aðför að verðbólgunni, ef aðrar forsendur væru fyrir hendi og traust stjórnarfar. Allt er málið þó klætt kerfisbúningi og fléttað ofstjórnaræði. Engu að síður er það góðra gjalda vert, að stjórnarflokkarnir allir skuli lýsa fyllsta stuðningi sínum við verðtryggingu fjárskuldbindinga, enda má segja að það sé kaldhæðni að ganga ætíð á eftir erlendum sparifjáreigendum og biðja þá að fjármagna íslenskar framkvæmdir með fullri verð- og gengistryggingu á sama tíma sem íslenskum sparifjáreigendum er það fyrirmunað.

Strax á haustþinginu lögðu sjálfstæðismenn fram þingmál sem varða þennan þýðingarmikla þátt efnahagsmála. Þar er gert ráð fyrir afnámi laga um bann við verðtryggingu fjárskuldbindinga og valdsvið Seðlabanka mjög takmarkað — gert svipað og í öðrum vestrænum ríkjum. Þar er um að ræða frjálsræðisstefnu í peningamálum sem gengur í berhögg við ofstjórnarstefnu núverandi valdhafa, enda er þetta liður í þeirri heildarstefnumörkun Sjálfstfl. sem landslýð hefur verið kynnt og verður betur kynnt áður en til kosninga verður gengið. Hér má þó gjarnan skjóta því inn, þótt það auki eitthvað á angur vinstri manna, að óeiningin, sem þeir segja vera í Sjálfstfl., er ekki meiri en svo, að báðar þær till., sem á þingi hafa verið lagðar fram, um fjármálastjórnina og heildarstefnu í efnahags- og atvinnumálum, voru einróma samþykktar í þingflokki, efnahagsmálanefnd og miðstjórn Sjálfstfl. Sjálfstfl. er þess vegna albúinn að takast á við vandamálin hvenær sem er og leysa þau í anda frjálshyggju — í fyllstu andstöðu við vinstri vitleysurnar. Verður þar um svipaðar aðgerðir að ræða og árið 1960, en þær entust sem kunnugt er á annan áratug. Þó er gert ráð fyrir meira frjálsræði en þá var og enn öflugri atvinnuuppbyggingu sem tryggt getur batnandi lífskjör, og megináhersla er lögð á að höggva að rótum ofstjórnarvaldsins og færa fjármuni til almennings, gagnstætt skattáþján þeirri sem nú ríkir.

En hvað sem kerfisdýrkun stjórnarflokkanna líður hljóta sjálfstæðismenn að fagna þeirri hugarfarsbreytingu sem í VIL kafla frv. birtist, enda er hann í rauninni það eina sem bitastætt er í í þessu langa og mikla þskj., að því þó undanskildu að næst er fjallað um verðbætur á laun og stjórnarflokkarnir allir ásáttir um að breyta vísitölugrundvelli og draga með þeim hætti úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags. Ekki eru þeir þó sammála um hve mikil kjaraskerðingin eða kaupránið, svo að notuð séu þeirra eigin orð, skuli vera. En allir eru þeir sammála um að þar þurfi að taka til hendinni en hressilegar en fram að þessu hefur verið gert. Aðeins er um það deilt, hvort næsta kjaraskerðing eigi að vera svo sem eins og 5% eða 7%, og svo er deilt um hvað eigi að kalla þetta, hvaða búning eigi að færa það í. Og ríkisstj. riðar til falls út af svo sem tveim hundraðshlutum — einum blóðmörskepp í sláturtíðinni.

Við sjálfstæðismenn höfum gefið þessari stjórn starfsfrið og við höfum lagt okkur fram um að greiða fyrir þingstörfum, þótt alger upplausn hafi verið í stjórnarliðinu, eins og t. d. síðustu dagana fyrir jól. Þá hefðu engin mál náð fram að ganga, hvorki fjárlög né annað, ef stjórnarandstaðan hefði ekki lagt nótt við dag til að greiða fyrir þingstörfum og bjarga því sem bjargað yrði, svo að heitið gæti að þjóðarskútan væri þó á kili, en ekki á hvolfi. Og nú langar mig að gefa stjórnarflokkunum eitt gott ráð, enn eitt ráð, sem ég hygg að mundi leysa þessa 2% deilu þeirra sem svo erfið er úrlausnar. Það þarf bara eina grein í viðbót við hinar 66, hygg ég þær vera. Hún kæmi í lok vísitölukaflans og hljóðaði eitthvað á þessa leið:

„Þrátt fyrir kauprán samkv. þessum kafla skulu láglaunamenn halda þeim kjörum sem þeim voru tryggð með maílögunum 1978.“

Þannig væru kjör þeirra, sem lakast eru settir, og raunar mikils fjölda launamanna, að fullu tryggð og kjaraskerðing vinstri stjórnarinnar lenti á þeim sem betur geta þolað hana. Þetta er sem sagt veganesti sem ég vil gefa sáttasemjaranum mikla, landsföðurnum og sameiningartákni vinstri aflanna fyrir næsta ríkisstjórnarfund. Annars á ég von á því, að um þessa hlið mála verði svo rækilega fjallað hér af öðrum, kannske í bróðerni, að engu þurfi ég við að bæta. En við sjáum hvað setur.

Höldum þá áfram skoðun umbúðanna um vísitöluskerðinguna. IX. kafli er um svokallaðar félagslegar ráðstafanir og heitir: „Um vinnumarkaðsmál.“ Þar er enn fylgt þeirri mörkuðu stefnu að færa hefðbundin völd verkalýðsfélaganna inn í stjórnarskrifstofur og ríkiskerfið. Íslensku verkalýðsfélögin eiga ekki lengur að vera að bjástra við neina samningsgerð við vinnuveitendur. Þroskinn þarf að komast á svipað stig og er í sósíalistaríkjum, þar sem velviljað ríkisvald leysir allt saman. Þar semja sjálfkjörnir verkalýðsforingjar við flokkinn sinn og tryggja hag alþýðu. Hún þarf þar hvergi nærri að koma og síst af öllu að ómaka sig á fundi í félögum. Ef þeir kynnu að vera haldnir, sem ástæðulaust er raunar, er það bara til þess að fá stimpil á aðgerðir sem þegar eru ákveðnar af fínu mönnunum í stjórnarráðinu og palisanderskrifstofunum sem verkamenn eru látnir kosta. Og sjá ekki launamenn hve dýrðlegt þetta allt saman er og elskulegt? Félagslegar ráðstafanir hér og félagslegar ráðstafanir þar, kjörin batna dag frá degi, verðlagið er alltaf að lækka, verðbólgan er dauð eða svo til, engir félagsfundir og verkfallastúss. Svona er sósíalisminn unaðslegur. Og allt er þetta oddvitanum blessuðum að þakka, sem sameinaði verkalýðinn undir framsóknarstjórn.

Þá er komið að X. kafla frv. sem fjallar um verðlagsmál. Í upphaflegu frv. Ólafs var gert ráð fyrir að flýta gildistöku nýju verðlagslaganna, en í síðustu útgáfunni eru þau hreinlega afnumin eða allt sem máli skiptir í þeim. Þetta mun gert að kröfu hæstv. viðskrh., sem mun hafa álitið að sér yrði fremur vært í ráðherrastóli eftir stórfelldar kjaraskerðingar ef hann hyrfi frá villu síns vegar í verðlagsmálunum. En í þessari d. lýsti hæstv. viðskrh. því yfir skýrt og skilmerkilega á s. l. hausti, að hann mundi sjá til þess, að af viðskrn. hálfu yrði hraðað öllum undirbúningi svo að nýju lögin gætu tekið gildi á tilskildum tíma. En svona smásvik eru ekki bara réttlætanleg í röðum kommúnista, þau þykja þar sniðug.

Þá er komið að lokum frv. og þar flaug síðasta skrautfjöður kratanna. Þeir ætluðu sér að breyta ákvæðum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þannig að hann yrði betra stjórntæki en nú er og þjónaði betur hinum upprunalega tilgangi að jafna verðsveiflur á erlendum mörkuðum. Lúðvík gerði sér þá lítið fyrir og bætti við einni setningu svo hljóðandi: „Við ákvarðanir sínar skal sjóðsstjórnin einnig líta til afkomu viðkomandi sjávarútvegsgreina“ o. s. frv. Opið er því frv. líka í þennan endann og það kemur sér vel fyrir sjútvrh. Alþfl., því að hann hefur nú greitt bætur á loðnu, þó að bæði verðlag og aflabrögð hafi verið með eindæmum góð, í stað þess að styrkja Verðjöfnunarsjóðinn, eins og kratar hafa mjög gumað af að væri eitt meginbaráttumál þeirra. Og ég leyfi mér að spyrja hæstv. sjútvrh., sem talar síðar í umr., hvað þessari algeru kúvendingu, algeru stefnubreytingu Alþfl. hafi valdið, hvers vegna þeir vilji nú ekki lengur styrkja Verðjöfnunarsjóð þegar mjög góð vertíð er og verðlag stöðugt og gott, heldur greiða þá líka með útveginum. Þeir hafa sem sagt horfið frá þessari stefnu. Og væntanlega svarar ráðh. því, hvað valdið hafi.

Og svo kemur í lokin ein loforðagreinin, sem ég held að ég verði að lesa, með leyfi forseta. Hún er svona: „Á árinu 1979 verði lög um Aflatryggingasjóð tekin til gagngerrar endurskoðunar með það fyrir augum, að sjóðurinn gegni því hlutverki sínu að jafna aflasveiflur sem best við þær aðstæður, sem nú eru, m. a. vegna takmarkana á sókn í mikilvæga fiskstofna. Í þessu sambandi verði m. a. heimilað að beita fjármagni sjóðsins til þess að bæta upp verð á þeim tegundum, sem vannýttar kunna að vera, og leggja í því skyni sérstakt gjald á afla af þeim tegundum, sem taldar eru ofnýttar.“

Þarna er svo sem ekki um að ræða neitt smámál, auðlindaskattur með öðru. En greinin segir raunar ekkert annað en að lög verði sett. Það á sem sagt að lögfesta rétt einu sinni að lög verði sett. Þetta er í samræmi við þá lögskýringu sem hæstv. forsrh. og lagaprófessor gaf í umr. um desemberlögin, þar sem 2. og 3. gr. þeirra laga byrjuðu á orðunum: Ríkisstj, mun gera þetta og hitt. — Hann kallaði þetta loforðagreinar, loforðaparagrafa og sagði þetta altítt í rétti margra þjóða, m. a. s. væri loforðagreinar að finna í stjórnarskránni. Enginn lögfræðingur, sem ég hef spurt, og eru þeir þó margir síst lakari fræðimenn en prófessorinn, kannast við þessi ósköp. Auðvitað skilur hvert mannsbarn að það, sem er á ferðinni bæði nú og áður, er samsuða af grg. embættismanna og stjórnmálamanna sem síðan er hrúgað upp í lagaform og settar á kaflafyrirsagnir og númerað. Þetta á ekkert skylt við heilbrigða löggjöf. En skrumskæling íslenskrar löggjafar er auðvitað líka heimil þegar verið er að sætta stríðandi öfl og þjóna alþýðunni. Loforðagreinar skulu það heita, dengjum því í lagasafnið og svíkjum svo allt saman. Það var lóðið. — En þetta er svo sem ekkert meira en sú yfirlýsing dómsmrh. síðustu ríkisstj. nú nýverið, þess sem dómsmrh. var í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að hann hafi staðið að lagasetningu sem einungis þekkist í lögregluríkjum.

Ég hef nú rakið efni þessarar frumvarpsnefnu hæstv. forsrh. Það er útþynning þess fræga frv. sem sagt var að hæstv. forsrh. hefði lengi haft í eldhúskróknum heima hjá sér. Hann sýndi það um síðir, en þá brugðust kommarnir ókvæða við. Hæstv. forsrh. glotti og sagði að þeir hefðu aldrei lesið frv. og vissu ekkert hvað í því stæði, en leyfði þeim svo að krukka í það og síðan krötunum aftur með alkunnum afleiðingum. En hvað sem um Alþb.- mennina má segja hygg ég að þeir hafi lesið betur en hæstv. forsrh. og ekki verði um þá sagt eins og Odd þann, sem lítt kunni til lestrar, en var upp með sér og drýldinn og vildi lítið láta vita af vankunnáttu sinni. Einu sinni bað hann um bók þar sem hann var gestkomandi. Honum var lánað Nýja testamentið. Oddur læst lesa nokkra stund, lítur svo upp úr bókinni og segir: „Mikill maður var Bósi, drepur hann enn.“ Ef einhver einn maður ætti þetta svonefnda frv., hefði samið það og gengið frá því, sem raunar mun ekki vera rétt, þá er ég ansi hræddur um að fólkið mundi velja honum heiti eins og t. d. Bögu-Bósi. En spurningin er svo hin, hvern drepur Bósi næst? Það mun framtíðin bera í skauti sér.

Sigurvegarar 1978 hafa afturkallað allar dagskipanir. Nú er ekki hrópað: Samningana í gildi, meiri kaupmátt, betri kjör. — Síst af öllu dettur þessum mönnum í hug launajöfnunarstefna eins og sú sem fyrrv, ríkisstj. barðist fyrir, enda eru þeir slíkir snillingar í löggjafarmálum að í fárviðrinu, sem geisað hefur í stjórnarherbúðunum, hreinlega fauk þakið af þegar Kjaradómur fjallaði um launamál BHM, og fjmrh. sá sitt óvænna og tilkynnti að þakið á BSRB hefði líka hrunið.

Nú seg,ja stjórnarherrarnir: Við þurfum að keppa að sama kaupmætti og 1978. Við þurfum að nálgast kjörin á tíma síðustu ríkisstj. — Þegar betur er að gáð var þetta allt heldur skárra hjá Geir Hallgrímssyni, en þeir vita bara ekki hvernig þeir eiga að fara að því að tryggja svipuð kjör og þjóðin þó bjó við þegar þeir tóku völdin, og síst af öllu munu þeir þiggja það ráð sem ég gaf þeim áðan, að hverfa að þeirri stefnu sem mörkuð var í maílögunum í fyrra, með því að þá var aðallega hugsað um láglaunafólkið. En það lætur ekki svo mikið í sér heyra hvort sem er. Líf stjórnarinnar gæti aldrei byggst á slíku fólki. Þess vegna svarar ekki kostnaði að hugsa um það.

Í annan stað segjast þeir svo berjast hetjubaráttu við verðbólgudrauginn. Fyrst stóð til að á þessu ári yrði verðbólgan komin niður í hvorki meira né minna en 30%. Nú tala þeir um 35–40%. Engum dettur víst í hug, nema þá blindum reiknimeisturum, að þar verði staðnæmst, ef áfram stefnir sem horfir um stjórnarhætti.

En hvar er þennan verðbólgudraug að finna? Menn segja að hér hafi verið stöðug verðbólga síðan á stríðsárunum, og víst er um það, að verðlag hefur jafnt og þétt heldur farið hækkandi. En allan síðasta áratug var sæmilega stöðug þróun hér á landi og verðbólga ekki ýkjamikil, yfirleitt þetta frá 3–10%, eða áþekk og í nágrannalöndunum. En hvenær tók þá verðbólgudraugurinn völdin? Hvers vegna er þetta allt svona miklu erfiðara á áttunda áratugnum en hinum sjöunda? Verðbólgudraugurinn tók völdin sama daginn og Ólafur Jóhannesson, hæstv. forsrh., myndaði hina fyrri vinstri stjórn sína árið 1971. Hún kom verðbólgunni í hvorki meira né minna en 54 stig. Síðasta ríkisstj. kom verðbólgunni um tíma niður í 26%, en aðgerðir hennar voru brotnar á bak aftur með sólstöðusamningunum 1977, enda verður að játa að verðbólgudraugurinn var á kreiki í þeirri stjórn líka, þótt hann sæti þar ekki í öndvegi. Og hvar er verðbólgudrauginn nú að finna? Því svari hver fyrir sig.

Frv. þetta er fyrst og fremst umbúðafrv. Það eru umbúðir um þá kjaraskerðingu sem stjórnarflokkarnir allir eru sammála um að framkvæma. Allir höfðu ráðh. samþykkt milli 6 og 7% kjaraskerðingu til viðbótar þeim kauplækkunum sem áður höfðu verið framkvæmdar. Reynt hefur verið að færa þetta allt saman í einhvers konar stefnumörkunarbúning, en umbúðirnar um kjaraskerðinguna ætíð verið gegnsæjar. Og þetta síðasta frv., umbúðafrv., er rétt eins og það sé klætt í „sellofan“.

Einn þm. Alþfl. líkti stjórnarstefnunni nýlega við nýju fötin keisarans. Sú samlíking er ekki nógu góð. Það þarf ekkert barn til að benda fullorðnu fólki á allsnekt ríkisstj. Þótt sjónin sé ófögur, má nú enginn undan líta. Það skulu verða mín síðustu orð, herra forseti, fengin að láni frá Blöndal sýslumanni Húnvetninga: „Enginn má undan líta.“