19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. afar sérstætt þingmál. Það heitir frv. til l. um stjórn efnahagsmála, án þess að það geti þó leitt til nokkurrar skynsamlegrar stjórnar efnahagsmála þótt samþykkt yrði. Það er flutt af hæstv. forsrh. án þess þó að hæstv. ríkisstj. styðji það. Hæstv. forsrh. hefur nú mælt fyrir frv. án þess að fram hafi komið nokkur skýring á málinu fremur en í skjalinu stendur.

Ríkisstj. tók við störfum 1. sept. s. 1, í þeim tilgangi að berjast gegn verðbólgunni. Þetta þskj. er árangurinn af starfi hennar í hátt á sjöunda mánuð. Segja verður sem er að árangurinn er harla lítill og raunar enginn. Ríkisstj. setti sér sjálf ýmsa eindaga til lausnar efnahagsmála, sem frægt er orðið, en hvert úrslitadægrið af öðru leið án þess að ríkisstj. tækist að koma sér saman um efnahagsfrv. Ýmsar efnahagsfrv.-nefnur frá stjórnarsinnum eða ráðh. höfðu þó verið á umboðslausum þeytingi vítt og breitt um landið meðal allra annarra en þeirra sem í almennum þingkosningum höfðu verið til þess kjörnir að fara með mál þjóðarinnar. Alþ. og ríkisstj. fara saman með landsstjórnina samkv. stjórnskipan Íslands. En þessi ríkisstj. tekur sér vald til þess að sniðganga þriðja hluta Alþ. Í umr. á Alþ. um miðjan febr. hefur hæstv. forsrh. sjálfur sagt að hann telji stjórnarandstöðuna á Alþ. engan samráðsaðila ríkisstj. Leynir sér ekki hvaða andi svífur þarna yfir vötnunum. — Má minna á að í stjórnarandstöðunni eru 20 þm. Sjálfstfl., kjörnir í lýðræðislegum kosningum til þess að eiga hluta að landsstjórninni, og á bak við þá stóðu í síðustu kosningum um 40 þús. kjósendur, nánar tiltekið 39 982, og hefðu verið enn fleiri ef sjálfstæðismenn hefðu ekki verið næstu 4 árin á undan í ríkisstj. með Framsfl.

Þar kom þó í síðustu viku, að hæstv. forsrh. landsins leitaði til Alþ. um efnahagsmálin, en þó ekki fyrr en allt um þraut. Þetta kallaði málgagn eins stjórnarflokksins, Þjóðviljinn, í fyrirsögn ritstjórnargreinar s. l. föstudag. „Að gefast upp við að stjórna“, en svo hét leiðarinn. Sannleikurinn var auðvitað sá, að Þjóðviljanum gramdist að svo leit út sem forsrh. hefði gefist upp við að láta stjórnast, og það líkaði þeim ekki í Alþb. Nú hefur sjálfur forsrh. landsins setið nokkra daga beygður undir vandarhöggum samráðh. sinna úr Alþb. fyrir að ganga í berhögg við hina raunverulegu húsbændur á heimilinu með framlagningu þessa frv.

Í framlagningu þessa frv. felst í raun yfirlýsing af hálfu forsrh. um það, að ríkisstj. hans ráði ekki við efnahagsvandann sem hún var stofnuð til að leysa. Næsta skrefið hefði vitanlega átt að vera að biðjast lausnar fyrir ríkisstj. Engan þarf að undra þótt kommúnistar víkist undan þeirri lýðræðisskyldu að fjalla um málin á Alþ., það er í samræmi við eðli þess flokks. En hitt er torskildara, hvernig hæstv. forsrh. getur varið það fyrir sjálfum sér, fyrir þinginu og þjóðinni að una þessum viðbrögðum félaga sinna í hæstv. ríkisstj.

Í umr. utan dagskrár í Sþ. s. l. fimmtudag las Alþb. ráðh. Svavar Gestsson bókun Alþb.-ráðh. á ríkisstjórnarfundi, en hún hafði raunar áður verið kynnt landslýð í fjölmiðlum. Þar sagði m. a.:

„Við mótmælum því harðlega að frv. það um efnahagsmál, sem rætt hefur verið á undanfarandi ríkisstjórnarfundum verði lagt fram af forsrh. einum, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Það er mikill hnekkir fyrir stjórnarsamstarfið að þannig skuli að málum staðið og slíkt getur torveldað að samkomulag náist milli stjórnarflokkanna um þau ágreiningsatriði frv. þessa sem óleyst eru, einkum verðbótakafla þess. Vinnubrögð af þessu tagi eru algert einsdæmi og þau eru í fullri andstöðu við yfirlýsingu stjórnarflokkanna á s. l. hausti um samráð við verkalýðshreyfinguna.“

Það má segja, herra forseti, að sínum augum líti hver á silfrið. Í bókuninni bera síðan Alþb.-ráðh. samráðh. sínum ýmis ósannindi á brýn, en slíkt er orðið daglegt brauð í samskiptum stjórnarflokkanna, eins og glöggt mátti heyra í orðaskiptum þeirra hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og Sighvats Björgvinssonar, formanns þingflokks Alþfl., í umr. í Sþ. á fimmtudaginn var.

Í niðurlagi bókunar kommúnistaráðherranna segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„S. l. mánudag hótaði hæstv. forsrh. því að leggja frv. fram sem stjfrv. tveggja stjórnarflokka gegn mótmælum þriðja flokksins. Þessu höfum við harðlega mótmælt og höfum jafnframt lýst því yfir á fyrri fundum ríkisstj., að verði frv. samþykkt óbreytt í andstöðu við Alþb. munum við að sjálfsögðu segja af okkur ráðherrastörfum.“

Þetta sögðu Alþb.-ráðh. og margt fleira. Vafalaust verður samþykkt einhver málamyndabreyting á frv., enda ekki trúlegt að Alþb.-menn víki sjálfviljugir úr valdastólum. En þessar yfirlýsingar sýna þrennt: Í fyrsta lagi fullkomna fyrirlitningu Alþb. á því lýðræðislega hlutverki og skyldu sem stjórnskipan okkar ætlar Alþ. og ríkisstj. Í öðru lagi fullkomna vissu Alþb. um að því sé óhætt að auðmýkja hæstv. forsrh. með þessum hætti, því að hann bresti þor til að vísa á bug Alþb., hinu raunverulega húsbóndavaldi í ríkisstj. Í þriðja lagi eru lyklavöld í stjórnarráðinu meira virði en stjórn efnahagsmála, eða nokkur málefni yfirleitt. Allt þetta getur verið kjósendum til leiðbeiningar og varnaðar þegar þar að kemur, og hefur þá það gagn hlotist af framlagningu frv, þótt ekki sé annað.

En þetta ástand á stjórnarbænum hefur verið ærið hávaðasamt og það svo, að aðrir, utan stjórnarflokkanna, hafa tæpast getað yfirgnæft þann gauragang sem þar var, og er það skiljanlegt, eins og sjá má af frekari skýringum sem ég mun nú flytja og leita þá liðsinnisstjórnarblaðanna um það leyti sem ríkisstj. varsett á laggirnar. Ég vík að örfáum atriðum.

Hinn 1. sept. birtist á forsíðu Þjóðviljans mynd af hæstv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni, undir hinni djarflegu fyrirsögn: „Meiri hluti þjóðarinnar vildi þetta.“ Í textanum lýsir hæstv. forsrh. mjög mikilli ánægju með að stjórnarmyndunartilraun hafi tekist og segir síðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarmyndunarmálin voru komin í slíka sjálfheldu, að það hefði verið til mikillar vanvirðu fyrir Alþ. ef ekki hefði tekist að mynda stjórn núna.“

Í Þjóðviljanum daginn eftir kemur útlegging á því, hver raunverulega myndaði ríkisstj. Þar segir svo í upphafi leiðara, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn vafi leikur á því, að Lúðvík Jósepsson á stærri hlut í myndun vinstri stjórnar en nokkur annar maður.“ Í miðjum leiðaranum: „Og það var Lúðvík og enginn nema hann sem hlaut traust framámanna í launþegahreyfingunni, sem nauðsynlegt var til fyrirheita um vinnufrið til loka næsta árs.“

Það leynir sér ekki, herra forseti, við hverja er átt. Það var auðvitað átt við þá sem höfðu rétta pólitíska yfirsýn að mati Þjóðviljans. Í lok leiðarans segir, með leyfi forseta:

„Lúðvík var ekki að mynda þessa ríkisstj. sjálfum sér til upphefðar, heldur til styrktar launafólki í landinu. Hins vegar væri það fölsun staðreynda að láta hlut Lúðvíks ekki koma í ljós.“

Formaður þingflokks Alþfl. segir í Tímanum þennan sama dag, að hann hafi greitt atkv. á móti myndun þessarar ríkisstj., enda sé hann á móti þeim hugmyndum, komnum frá Alþb., að unnt sé að stjórna efnahagsmálum á Íslandi út frá skammtímalausnum Lúðvíks Jósepssonar. „Og þetta ættu vinstri menn að hafa lært af reynslunni að er gersamlega útilokað,“ segir Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl. Það er því eðlilegt að Tíminn beri klæði á vopnin hinn 3. sept. „Af fullum þunga“, eins og leiðarinn heitir, og ég leyfi mér að vitna í, með leyfi hæstv. forseta:

„Annars vegar hafa framsóknarmenn eðlilega tekið að sér það þjóðholla hlutverk að laða starfskrafta annarra flokka fram til nýtra starfa fyrir þjóðarheildina, draga úr ágreiningi, en miðla málum, svo að nauðsynlegri gætni og hófsemi verði fylgt. Þessu hlutverki hefur á stundum fylgt sú kvöð að sitja undir ónytjuorðum. Þau hafa horfið eins og döggin, en verkin standa eftir.“

Herra forseti. Við sjáum hvað gerist í dag. Hv, þm. hafa séð sýnishorn af þeim daggarperlum sem réttar eru milli ráðh. En lítum á verkin, sem standa eftir, þ, e, þetta frv.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur gert grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna til efnisatriða frv. þessa. Í heild má um það segja, að verði það samþykkt yrði þar um algeran aðskotahlut í allri íslenskri löggjöf að ræða, svo hjárænulegt er það og undarlegt að allri gerð. Mest af hinu langa máli þess er um atriði sem alls ekki eru framkvæmdaatriði, annað er þegar í lögum og enn annað vitagagnslaust til þess að vinna bug á verðbólgunni. En um þau atriði, er einhverju skipta, er engin samstaða í ríkisstj. og verða þau ekki framkvæmd þegar af þeirri ástæðu. Sú gagnsemi, sem af framlagningu þessa frv. gæti hlotist, væri helst sú að opna augu manna fyrir því, hve fráleitt það er að meiri hluti þjóðarinnar geti viljað þessa ríkisstj.

Hæstv. forsrh. sagði í niðurlagi ræðu sinnar: Verðbólguhjöðnunarmarkmiði viðnámslaganna frá því í nóv. er ekki náð. — En hæstv. ráðh. varaði við að einblína á verðbótakaflann. Önnur ákvæði frv. geta haft áhrif, sagði hæstv. ráðh., þótt þau séu ekki mælanleg. En í upphafi máls síns vitnaði hæstv. forsrh. til þessara orða, sem raunar eru frá því í haust: „Ríkisstj. er sammála um, að mótun samræmdrar stefnu um aðgerðir á öllum sviðum efnahagsmála, sem ráðið geti úrslitum um verðbólguþróun á næstu missirum, skuli vera algert forgangsverkefni.“ — Þetta algera forgangsverkefni hefur mistekist og forsenda þessa frv. er því ekki fyrir hendi, forsenda stjórnarsamstarfsins brostin.

Ríkisstj. er margklofin í öllum meginmálum og getur því enga forustu veitt í landsmálum. Hinn 1. sept. sagði hæstv. forsrh. að það væri Alþ. til vanvirðu ef þessi ríkisstj. hefði ekki verið mynduð. Í dag, herra forseti, er það Alþ. til vanvirðu ef þessi ríkisstj. fer ekki frá.

Tími er til þess kominn að almenningur taki nú í taumana og tryggi landinu starfhæfa stjórn í anda frjálshyggju til gæfu og öryggis fyrir lifandi og starfandi fólk í stað þeirrar kerfisofstjórnar, að ég ekki segi ráðstjórnar, sem við nú búum við og hvílir á burðarási Alþb., eins og einn hv. Alþb.-þm. orðaði það í haust, undir forustu hæstv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar og með aðstoð Alþfl. Við þurfum nýtt Alþ. sem skilur ætlunarverk sitt og hefur kjark til að leysa það verk af hendi með þinglegum og lýðræðislegum hætti.