19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3330 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það, sem í fyrstu gaf launþegasamtökunum gildi í huga þeirra er raðir þeirra fylltu, var hin raunhæfa barátta er einkenndi allt starf þeirra. Það var í raun og sannleika barist fyrir réttinum til að lifa og geta lifað eins og frjáls maður. Sigur í þeirri baráttu er löngu unninn. Barátta hins vinnandi manns á síðari árum hefur langtum fremur snúist um að lifa betra lífi en áður, lifa öruggara, fyllra lífi en áður..Og fyrir því ber samtökunum að berjast um ókomin ár, án tillits til þess hverjir sitja í ráðherrastólum, því sú barátta er enn þá einn helsti aflgjafi til bættra lífskjara.

Innan verkalýðshreyfingarinnar er oft deilt um leiðir að markinu og oft og tíðum eiga menn erfitt með að átta sig á því, hvaða valkostur er bestur. Ekki er sagan mjög til leiðsagnar í þessum efnum, því að margbreytileiki aðgerða og stefnumótunar er svo afskaplega mikill. Á seinni árum er það þó athyglisvert, að verkalýðshreyfingin hefur átt í stöðugum útistöðum við óvinveitt ríkisvald. Það hefur sett mark á baráttuna, og ekki er að efa að margur maðurinn telur það sína helstu skyldu að vera á móti ríkisvaldinu hverju sinni. Slíkur hugsunarháttur þjónar ekki verkafólkinu í landinu. Slík vinnubrögð eru til þess eins fallin að rýra áhrifamátt verkalýðshreyfingarinnar.

Hjá nágrönnum okkar í Evrópu hefur tekist mjög gæfuríkt samstarf milli verkalýðshreyfingar og vinveitts ríkisvalds. Þessi samvinna hefur fært launþegum mjög verulegar kjarabætur, öryggi og farsæld. Þar þykir sjálfsagt að verkalýðshreyfingin skoði málin frá öllum hliðum án fordóma og fullyrðinga. Þar og reyndar víðast hvar í heiminum þekkist ekki sú kommúnistíska árátta að saka fólk og flokka um hefndarhug og illgirni í garð launafólks. Slíkur málflutningur er ekki heldur tekinn alvarlega, og það er skoðun mín að sá svartnættisáróður, sem Alþb. hefur haft uppi, og tilbúinn ágreiningur verði talinn ómerkur og einskis verður þegar fólk veit hið sanna.

Ekki fer á milli mála að höfuðágreiningur stjórnmálaflokkanna á undanförnum mánuðum hefur markast af afstöðunni til verðbólgunnar. Annars vegar er Alþfl., sem einn íslenskra stjórnmálaflokka ber ekki ábyrgð á 40–50% verðbólgu. Hins vegar eru verðbólguflokkarnir þrír, sem allir hafa það sameiginlegt að hafa kynt undir verðbólgunni og magnað hana á allan hátt. Það kostar vissulega átök þegar breyta þarf til. Við Alþfl.- menn gengum til kosninga með fyrirheit um gerbreytta efnahagsstefnu. Við unnum mikinn sigur. Fólkið vildi greinilega breytingu. Við sögðum fólki að við mundum berjast á móti verðbólgunni, það mundi kosta stundarfórnir, en árangurinn mundi skila betri lífskjörum, öruggari atvinnu, betri framtíð.

Þrátt fyrir mikinn kosningasigur dugði það engan veginn. Við bundum þó sterkar vonir við þá staðreynd, að verkalýðsflokkarnir höfðu næstum meiri hluta á Alþ., með því þingfylgi væri hægt að ráðast gegn óvættinum mikla, verðbólgunni. Strax að kosningum loknum hófust því viðræður. Í ljós kom að ágreiningur var sáralítill hvað hugsjónamálin snerti. Það kom þó brátt fram, að vilji til samstarfs var mjög blandinn. Ljóst var að gera þurfti ráðstafanir, sem um stund urðu óvinsælar. Það var þessum mönnum ógeðfellt. Þeir höfðu aldrei þurft að axla ábyrgð og voru því vanbúnir til slíkra verka. Það var ekki fyrr en Verkamannasamband Íslands tók af skarið, að þessi ríkisstj. var mynduð. Það hefur gengið á ýmsu í þessu samstarfi og hinir ábyrgðarlausu hafa ráðið of miklu.

Við búum nú við niðurgreidda verðbólgu. Fjallháir skattar hafa verið lagðir á fólkið í landinu, en samt sér ekki til lands. Verkalýðshreyfingin hefur unað því hvað eftir annað að krukkað hafi verið í kaupið, án þess að nokkur viðleitni hafi verið uppi um að móta heildstæða efnahagsstefnu til langs tíma. Nú er komið að því að það verði gert. Deilurnar um efnahagsfrv. eru í reynd deilur um það, hvort halda eigi áfram á þeirri braut að krukka aðeins í kaupið eða hvort móta eigi heildstæða efnahagsstefnu.

Það er mikil ógæfa fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að verkalýðsflokkarnir tveir skuli ekki koma sér saman. Og það er furðulegt að nú, þegar öll skilyrði eru fyrir hendi, skuli ekki reynt til hins ítrasta að ná sáttum. Það eru vissulega mörg ljón í veginum. Það, sem nú gerir erfitt um samstarf við Alþb., eru þau botnlausu óheilindi og vingulsháttur í afstöðu þess til mála. Það er aldrei neinum treystandi, það er aldrei að vita við hvern verið er að semja. Þeir slá úr og í í takt við breytingar á sjávarföllum. Í þeim samningum, er átt hafa sér stað um margumrætt efnahagsfrv., hefur kjarni deilumálanna alls ekki verið um það, hvort kaupmáttur eigi að vera meiri eða minni. Það skiptir ráðh. Alþb. engu. Deilt er um það, hvort verðbólgan eigi að vera meiri eða minni.

Alþfl.-menn og Alþb.-menn hafa talað sitt hvort tungumálið. Alþfl.-menn hafa þó ætíð talað um kaupmáttinn, en kommarnir um fleiri krónur. Þeir hafa á undanförnum vikum verið eins konar brjóstvörn braskara í landinu. Þeir hafa heimtað meiri verðbólgu, þeir hafa krafist óhreyttrar stefnu, þeir vilja í raun „Geirismann“ ómengaðan, sem er helst í því fólginn að láta reka á reiðanum. Þeir vilja að þjóðarskútan verði stjórnlaus, að ferill þessarar ríkisstj. verði ferð án fyrirheits. Þó eru það nokkur atriði sem þeir hafa staðnæmst við — atriði sem furðu gegnir að þeir skuli setja á oddinn.

Á undanförnum mánuðum hafa átt sér stað magnaðar deilur um raunvaxtastefnuna. Alþfl.-menn hafa haldið því fram, að slík stefna gæti hægt á verðbólgu og minnkað eignatilfærslu frá fátækum til ríkra. Alþb.-menn hafa barist á móti eins og oft áður. Þeir vilja í rauninni óbreytt kerfi, engar breytingar. En viti menn: Einn daginn gleyptu þeir raunvaxtastefnuna með einu skilyrði. Það skilyrði kom okkur jafnaðarmönnum mjög á óvart. Þeir kröfðust þess, að atvinnurekendur þyrftu ekki að greiða háu vextina, það skyldu aðeins þeir fátæku gera. Braskararnir yrðu að hafa sitt, þeir skyldu undanskildir. Um það ber 36. gr. frv. glöggt vitni.

Það hefur og gert erfitt um vik, að innan Alþb. eru uppi feikilegar og illvígar deilur. Annars vegar og í minni hl. eru þeir sem vilja styrka samhenta stjórn sem tekur á vandamálunum með hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar fyrir augum. Hins vegar eru hinir pólitísku geldingar sem hafa á undanförnum árum hlaupist frá æskuhugsjónum sínum og gerst talsmenn eigin metnaðar og framagirni. Það er þessi manngerð sem mestu ræður í Alþb. í dag — manngerð sem í raun er sama um allt annað en sjálfa sig. Þeir líta á stjórnmál sem eitt allsherjar spilverk án markmiða, án fyrirheits. Svo langt hafa þessir geldingar komist, að nú gína þeir yfir framkvæmdastjórn flokksins, og hefur einn þeirra komist í þá lykilstöðu að heita ritstjóri málgagnsins, sem í tíð Magnúsar Kjartanssonar bar mikla reisn og hafði sitthvað til málanna að leggja. Nú hefur þessi pólitíski geldingur komið þessu blaði niður á svið lágkúrunnar, sem helst er í því fólgið að ráðast að verkalýðshreyfingunni og forustumönnum hennar með dylgjum og ósannindum. Það er skiljanlegt að Alþb.-menn almennt séu ekki ánægðir með þetta lið.

Menn spyrja líka hvernig á því standi að mætir menn eins og Guðmundur J. Guðmundsson eru settir í skuggann, svo að þetta tætingslið geti baðað sig í ljóma yfirborðsmennskunnar. Menn spyrja líka hvernig á því standi að maður eins og Ásmundur Stefánsson er barinn niður, svo að Coca Cola-drengurinn í ráðherrastólnum geti notið sín. Það er ekki óeðlilegt að hrikti í svona flokki. Og það eykur ekki tiltrúna hjá viðsemjendum og reyndar almennu flokksfólki þegar það kemur í ljós að samningar standa ekki, þegar það kemur í ljós að ráðh. vissu ekki hvað þeir höfðu samþykkt og hvað ekki. Minni hl. í Alþb., hugsjónamennirnir, gerir sér hins vegar ljóst að hlaupi Alþb. nú úr ríkisstj. vegna tilbúins ágreinings við Alþfl. er líklegt að fjandmenn verkalýðshreyfingarinnar nái völdum. Þeir vita sem er, að almennt verkafólk vill þessa ríkisstj. — að fólk gerir sér grein fyrir því, að hugsanlega þarf nú að færa nokkra fórn til að koma efnahagsmálum á réttan kjöl.

Við höfum búið við stjórnleysi til þessa. Það er athyglisvert að á tímabili og þar til 1971 voru lífskjörin í landinu betri en gerðist á Norðurlöndum. Þegar verðbólgan tók heljarstökk fóru lífskjörin að versna. Nú búum við við mun verri lífskjör en nágrannar okkar t. d. í Færeyjum. Það er staðreynd, sem ekki verður umflúin, að verðbólgan hefur meiri áhrif á kaupmáttarrýrnun en nokkuð annað. Verðbólgan er versti óvinurinn og einkum þeirra er ekki geta spilað á hana. Það er hinn óbreytti alþýðumaður sem verst verður úti. Hinir, sem betur mega sín, hagnast á verðbólgunni. Það er raunalegt, að okkur í verkalýðshreyfingunni hefur ekki tekist, þrátt fyrir ýmsa viðleitni, að auka kaupmátt launa með þeim aðferðum sem við höfum notað. Ef við skoðum línurit um kaupmátt launa verkafólks, sjáum við að línuritið er eins og sagarblað. Það gengur upp og niður. Þegar samningum hefur verið lokið, hækkar strikið, en daginn eftir og í hæsta lagi eftir viku snarlækkar strikið. Þannig hefur þetta gengið. Við höfum í raun háð arðlausa kjarabaráttu.

En ekki skeður það af tilviljun. Hér hafa ríkt dáðlausar ríkisstj. sem hafa verið tilbúnar til að koma aftan að verkalýðshreyfingunni með hroka valdsins. En núna er tækifærið — tækifæri sem kannske býðst aldrei aftur. Við getum nú breytt hinni arðlausu kjarabaráttu þannig að árangur náist, þannig að kaupmáttur aukist, að félagslegar umbætur fáist, að atvinnuöryggi verði tryggt, meðan höfuðfjandinn, verðbólgan í landinu, er barinn niður.

Á því er ekki nokkur vafi, að hjá flokksmönnum verkalýðsflokkanna beggja er mikill og sterkur vilji fyrir því að tækifærinu mikla verði ekki glutrað niður. Það er almenn krafa að deilur um smáatriði verði settar niður, en hin stóru verkefni tekin fyrir. Fólkið í landinu botnar ekkert í þessu ómerkilega pexi. Það vill fórna peði fyrir mann. Það vill gjarnan fórna nokkru, svo að mögulegt verði að skapa heilbrigt efnahagslíf í landinu. Ályktanir berast nú frá verkalýðsfélögum og samböndum víða að í landinu. Alls staðar er þess krafist að samstarfinu verði haldið áfram. Alls staðar er þess getið, að annað væri svik við verkalýðshreyfinguna. Við skulum vona að Alþb. sjái að sér. Við skulum vona að hugsjónamennirnir beri hina pólitísku geldinga ofurliði. Takist það mun íslenskt alþýðufólk geta horft fram til betri tíma, öruggari framtíðar og bættra lífskjara.