19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3335 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Núv. ríkisstj. hefur nú setið í rúmlega 61/2 mánuð og efnahagsmálin hafa allan þennan tíma og reyndar miklu tengur yfirskyggt flestöll önnur mál á þinginu. Það var vissulega engin furða þótt fyrstu mánuðirnir færu til þess að finna lausnir þeirra mála, því að enn muna allir hversu ógæfulegur viðskilnaður ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar var á þeim þegar sú stjórn fór frá. En ég ætla ekki að fara að rifja það upp hér fyrir mönnum. Þau mál eru svo fersk enn þá að ég veit að flestir sjálfstæðismenn hafa enga löngun til að fara út í kosningar núna. Þeir munu vilja bíða eftir því að þessi ríkisstj. hjari nokkru lengur, til þess að þau vandamál og þau mistök, sem þeir eiga sök á, máist nokkuð út áður en til kosninga kemur.

Þetta frv., sem hér er nú til umr., hefði vissulega þurft að vera komið fram fyrir 4 mánuðum a. m. k., í stað þess frv. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem við samþykktum hér í lok nóvembermánaðar. En þjóðin veit ósköp vel hvers vegna þá og síðan hefur ekki verið staðið við það heit sem er að finna í 2. gr. samstarfsyfirlýsingar stjórnarflokkanna frá 31. ágúst s. l. um breytta efnahagsstefnu. Þrátt fyrir það að allir viðurkenndu að sú óðaverðbólga, sem tröllriðið hefur efnahagslífi þjóðarinnar á síðustu árum, væri meginbölvaldur og alþýða landsins yrði verst úti ef áfram yrði haldið á sömu braut, þá hafa Alþb.-menn sífellt svikist um að vinna að framtíðarlausn á þessum illa vanda. En þegar þeim hefur nú tekist að afskræma frumvarpsdrög hæstv. forsrh. frá því í febr., þá loksins laugardaginn 10. mars samþykktu ráðh. Alþb. þetta frv. Það breytir svo engu hvað þeir hafa sagt síðar með nýjum bókunum. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sessunautur minn í þessari d., hefur í blaðaviðtali 12. mars lýst því yfir að samkomulag var orðið um þetta mál. En að þeir umsnerust algerlega á einni helgi, það hlýtur að vera innanfélagsmál þeirra, heimilisböl.

Enn ein afleiðingin af langloku efnahagsmálanna, sem staðið hefur frá þingbyrjun, er sú, að bráðnauðsynleg mál komast ekkert áfram. Bæði í þinginu og hjá ríkisstj. hrúgast upp mál án þess að fá afgreiðslu. Ráðh. geta staðið að því að samþykkja eitt í dag og svíkja það á morgun með útúrsnúningum og bókunum á ríkisstjórnarfundum. Mig langar til að nefna nokkur mál og sýna ykkur afleiðingarnar af vinnubrögðunum.

Ef við tökum t. d. fyrst landbúnaðarmálin, þá horfum við á að birgðir landbúnaðarafurða hrúgast upp í fjöll og offramleiðslan eykst stöðugt þrátt fyrir að geymslukostnaðurinn á ári sé meiri en hægt er að fá fyrir sömu vöru á erlendum markaði, sbr. smjörið sem við vitum öll um. Hæstv. landbrh. lagði á fyrstu vikum þingsins frv. fyrir Nd. sem ætlast var til að leysti a. m. k. að nokkru leyti vanda offramleiðslunnar. Og þar sem vandinn var vissulega brýnn var óskað eftir að málið fengi greiða meðferð í þinginu. En enn þá er málið ekki komið í gegnum Nd., hvað þá í gegnum þessa hv. ágætu deild. Stjórnlaus vitleysa gengur sinn gang.

Seint á sumri hétum við því, að bankakerfið í landinu skyldi tekið til endurskoðunar og bönkum fækkað, skipulag olíusölu og vátryggingarmála endurskoðað sem og lyfjaverslunar, en vitanlega hefur lítill tími unnist til þeirra mála.

Við vorum einnig að heita því að djúphiti í jörðu og virkjunarréttur fallvatna yrði gerður að þjóðareign, en þetta bíður síns tíma og sá tími verður langúr ef þessi ríkisstj. okkar, sem enn þá hjarir, svíkst um að standa við þetta loforð sitt, því hægri stjórn á Íslandi mun aldrei gera það. Nú rennur til sjávar heitt vatn úr iðrum jarðar og við bíðum eftir að fá að virkja það, en getum ekki, því að einkarétturinn á vatninu úr iðrum jarðar hindrar að hægt sé að virkja það. Því brennum við fokdýrri olíu.

Mér er tjáð að tími minn sé útrunninn í þessum umr. En ég verð að benda á það, að svona er fjölda mála komið nú. Lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn liggur á borði ríkisstj. Þrátt fyrir mikinn dugnað hæstv, félmrh. kemst hann ekki þaðan. Við höfum ekki tíma til þess, því að við erum alltaf að staglast á efnahagsmálunum og þar gengur hvorki né rekur.

En þrátt fyrir hótanir Alþb.-manna, þá vona ég þó að þeir sjái að sér og standi ekki við það að eyðileggja þessa stjórn sem er þó, þegar allt kemur til alls kannske, skásti möguleikinn sem við höfum um langa framtíð.