19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég væri að tala þvert um hug mér, ef ég segði um það 61/2 mánaðar samstarf núv. stjórnarflokka: Ó, þetta var indælt stríð. — Vissulega hefur verið stríð, nær samfellt stríð, en það hefur ekki verið indælt, það hefur verið sorglegt, því að í raun hafa bræður borist á banaspjót. Alþb. og Alþfl., fulltrúar hins breiða hóps launþega, hafa ekki náð að vera samstiga til sóknar í þjóðmálum, flokkarnir sem voru sigurvegarar síðustu alþingiskosninga og kjósendur þeirra að stærstum hluta ætluðust til að ynnu saman heilshugar. Sífelldur ágreiningur um það, hvernig taka skuli á efnahagsmálum þjóðarinnar til úrbóta, hefur gert ríkisstj. fjölmörg önnur mál seinunnin til þjóðþrifa eða sem verra er: ekki unnin. Og ég þykist þess fullviss, að mörgum áhorfanda og áheyranda sé illskiljanlegt hve þessi ágreiningur er sílogandi. Þótt einn eldurinn sé vaðinn til samkomulags virðist annar taka við. Segja má að sá eldurinn, sem við erum nú að reyna að vaða til úrlausnar vandamálum þjóðarinnar, sé þriðji eða fjórði í röðinni síðan núv. ríkisstj. var mynduð.

Í kosningastefnuskrá Alþfl. á s. l. vori lagði hann megináherslu á gerbreytta stefnu í efnahagsmálum, þannig að horfið yrði frá skuldasöfnun erlendis, hallarekstri á ríkissjóði, atvinnuvegirnir efldir gegnum skipulega áætlunargerð og endurskipan, svo að full atvinna væri tryggð og þar með kjör almennings traust. Flokkurinn lagði áherslu á að straumhvörf yrðu að gerast í stjórn peningamála, m. a, að peningar gengju á raunverði á milli sparenda og framkvæmenda eða eigenda, launamál öll þyrftu endurskoðunar við svo og lengd og tilhögun vinnutíma, allt í samráði við aðila vinnumarkaðarins undir leiðsögn ríkisvaldsins.

Alþfl. lagði sérstaka áherslu á það sjónarmið sitt, að besta kjarabót launþegum til handa og þar með í raun meginhluta alls almennings í landinu væri umtalsverð lækkun verðbólgu, þar eð mönnum væri mikilsverðara raunvirði þess, sem þeir öfluðu, heldur en krónutöluhæðin. Jafnframt þessu leyndi Alþfl. enga því, að þessar lagfæringar allar mundu kosta þjóðina umtalsverðar fórnir meðan þær væru að komast á, en þær fórnir mundu seinna vinnast meir en upp í betra efnahagsástandi, blómlegra atvinnulífi og traustari launakjörum þegar frá liði.

Við, sem í framboðseldinum stóðum s. l. vor, urðum ekki annars varir en Alþb. deildi í meginatriðum þessum skoðunum með okkur, og hin gífurlega fylgisaukning Alþfl. í kosningunum varð ekki skilin á annan hátt en þann, að umtalsverður hópur landsmanna gerði skoðanir og stefnu Alþfl. að sínum. Við urðum þess líka greinilega vör, að kjósendur Alþfl. og Alþb. ætluðust til þess að stærstum hluta, að þessir tveir flokkar stæðu saman að nýrri ríkisstj. með annaðhvort Sjálfstfl. eða Framsfl. Við Alþfl.-menn horfðum fremur á aðild Sjálfstfl. vegna meira fylgis hans í röðum launþega, Alþb. meir á aðild Framsfl., þar sem það taldi þar meira vinstra samstarfs að vænta. Þetta kom strax fram í kosningaslagnum, en málefnaágreiningur var að hverfandi hluta.

Okkur Alþfl.-mönnum kom því mjög á óvart þegar áþreifingar um nýja stjórnarmyndun hófust eftir kosningarnar, hve ósamvinnuþýðir Alþb.-menn reyndust og hve lítið þeir töldu sig bundna af óskum kjósenda frá okkar sjónarhóli séð. Þeim virtist allt önugt og tilfyndni þeirra um ágreining fannst okkur blöskrunarleg. Nærtækasta skýringin var sú, að það hefði orðið Alþb. slíkt áfall að Alþfl. hefði komist upp að hliðinni á því um fylgi og þm.-fjölda, að það gæti með engu móti lítið raunsætt á hlutina, og frómt frá sagt hefur okkur Alþfl.-mönnum æ síðan fundist Alþb. leggja orku sína meir í það að finna upp á ágreiningi heldur en að leita samkomulags af heilindum. Og það er ákaflega slítandi í samstarfi að geta aldrei treyst á ábyrgðarkennd, heilindi né samstarfseinlægni samstarfsaðila.

Persónulega held ég að vandræði Alþb. séu djúpstæðari en öfundin og afbrýðin ein út í kosningasigur Alþfl. Við skulum rifja upp tvö grundvallaratriði: Annars vegar það, að Alþfl. hefur frá upphafi sínu að hornsteinum jafnaðarstefnu sem stefnir að þjóðfélagsumbótum eftir leiðum óheftra skoðanaskipta, frjálsra almennra kosninga og þingræðis. Alþfl. er og hefur verið umbótaflokkur, ekki byltingarflokkur. Hins vegar var upphafskjarni núverandi Alþb., Kommúnistaflokkur Íslands, sem var hreinræktaður byltingarflokkur með Kommúnistaflokk Rússlands og byltingu hans að fyrirmynd. Síðan fékk hann brot úr Alþfl. sér til styrktar og tók þá upp nafnið Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, enn síðar bættust honum leifar Þjóðvarnarflokks og nýtt brot úr Alþýðuflokki og kallast upp frá því Alþb. Loks kom síðast inn í þessa fylkingu brot úr svonefndri Möðruvallahreyfingu. En frumkjarninn virðist alltaf hafa verið hinn sami, eins konar æðsta ráð flokksins, Kommúnistaflokkur Íslands, sem hafði að markmiði umbyltingu ríkjandi þjóðskipulags og telur þann stjórnmálaflokk, sem leitar fastast umbóta innan þess, Alþfl., háskalegastan þránd í götu sinni. Hvað sem hin opinbera rödd Alþb. mælir er þetta grundvallarskoðun æðsta ráðsins innan þess, hinna raunverulegu kommúnista, kjarnans, sem ræður Alþb., að Alþfl. sé höfuðandstæðingurinn þegar til kastanna kemur. Þetta er hið raunverulega innanmein Alþb. sem stór hluti Alþb.-manna ýmist veit ekki um eða neitar að gera sér fyllilega ljóst og dylur að sjálfsögðu trúlega fyrir kjósendum sinum, heldur miklar fyrir sér og þeim umbótavilja sinn, sem vissulega er ríkulega fyrir hendi hjá mörgum þeirra, enda margt mætra manna innan raða Alþb. svo sem allra annarra flokka. En þetta dulvitaða innsta eðli Alþb., að umbætur tefji aðeins fyrir umbyltingu sem koma eigi, varð æðsta ráðinu í Alþb, kosningasigur Alþfl, slíkt reiðarslag að það hefur fram á þennan dag verið Alþb. alger hindrun til góðra samstarfsverka, og vil ég þó staðhæfa að greindari og hyggnari menn flokksins sjái vel að gott samstarf núv. stjórnarflokka sé það sem almenningur vonast eftir að takist til gagns fyrir land og þjóð. Þess vegna mælist ég til þess hér og nú, að þessi vængur Alþb. íhugi af heilindum og ábyrgðartilfinningu þetta efnahagsfrv., sem hér liggur frammi, og fái sem flesta liðsmenn sína til hins sama.

Formaður Sjálfstfl. hefur gefið þá yfirlýsingu í aðalmálgagni flokksins, að Sjálfstfl. muni greiða atkv. gegn þessu efnahagsfrv. hér í þinginu. Engum þarf að koma slíkt á óvart. „Sjálfstæðið“ veit um sjúkleika núv. stjórnarsamstarfs, afbrýðisemi Alþb. í garð Alþfl. og vangaveltur innsta ráðs þess um að kannske sé efnahagsöngþveitið besta vatnið á myllu Alþb.-valda. „Sjálfstæðið“ stenst því ekki þá freistingu að hóa í lætin. En eins og Alþb. gengur með innanmein óeiningar og sundurþykkju ætti „sjálfstæðið“ ekki að leyna sig því, að það gengur með líkan kvilla. Draumur „sjálfstæðisins“ um mikinn kosningasigur á vori komanda, ef kosið yrði, kynni að verða því mikill blekkingardraumur. Flokkur, sem er sjálfum sér sundurþykkur svo sem Sjálfstfl. er nú og hefur verið um skeið, vinnur varla stóra sigra nema í þykjustunni.