19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Strax eftir að mál þetta kom til landbn. hv. d. var boðað til fundar með n. beggja d. og frv. og málsmeðferð þar rætt allítarlega. Niðurstaða þess fundar varð sú, að samþ. var að senda frv. til umsagnar stjórnar Búnaðarfélags Íslands og öllum búnaðarsamböndunum í landinu. Strax þegar þinghaldið hófst eftir áramótin var hafist handa um að athuga mál þetta. Unnu landbn. beggja d. saman að því verki og voru haldnir 10 fundir um málið. Umsagnir bárust frá stjórn Búnaðarfélags Íslands og öllum búnaðarsamböndunum í landinu að einu undanteknu. Einnig bárust umsagnir frá framleiðsluráðslaganefnd, Félagi kjúklingabænda, Sambandi eggjaframleiðenda og Félagi svínaræktarmanna og frá tveimur búnaðarfélögum: Búnaðarfélaginu Ófeigi í Reykjahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, og Búnaðarfélagi Dyrhólahrepps. Einnig bárust umsagnir eða álitsgerðir frá nokkrum einstaklingum.

Ekki sé ég ástæðu til að taka hverja og eina umsögn fyrir og tilgreina sérstaklega hvað fram kemur í hverri þeirra um sig, enda væri það allt of langt mál upp að telja. En í þessum umsögnum kom fram, að bændur telja yfirleitt að gera beri ráðstafanir til að reyna að ná stjórn á framleiðslunni og það hafi dregist úr hömlu að lögfesta heimildir fyrir bændasamtökin á þann hátt sem aðalfundur Stéttarsambands bænda hafi í mörg undanfarin ár farið fram á.

Meiri hl. búnaðarsambandanna ýmist leggur til eða skorar á Alþ. að lögfesta frv. Sum þeirra draga þó í efa að það frv., sem lagt var fyrir Alþ., nái þeim tilgangi sem til er ætlast, a. m. k. óbreytt. Margir umsagnaraðilarnir mótmæla fóðurbætisskatti, þ. á m. allar aukabúgreinamar.

Þessar umsagnir eru misjafnlega ítarlegar, sumar aðeins nokkrar setningar, en aðrar mjög ítarlegar þar sem gerðar eru ákveðnar tillögur um breytingar á frv. og langar og ítarlegar grg. Greinilegt er t. d. að Búnaðarsamband Eyjafjarðar hefur lagt mikla vinnu í að fjalla um þetta mál, og bárust frá því brtt. ásamt langri grg. Fleiri umsagnaraðilar voru með svipaðar tillögur eða hugmyndir og Eyfirðingar, hvaða heimildir ætti að lögfesta fyrir bændasamtökin eða til hvaða ráða ætti að grípa nú í þeim vanda sem bændastéttin stendur frammi fyrir.

Á þeim tíma sem landbn. hafa verið að fjalla um þetta mál eftir áramótin hefur fjöldi bænda víðs vegar að af landinu haft samband við einstaka nm. og hafa flestir þeirra, eftir því sem mér hefur skilist, viljað fara inn á leið Eyfirðinga eins og hún mun almennt kölluð, þ. e. a. s. að hver framleiðandi fái grundvallarverð fyrir tiltekið magn sinnar framleiðslu og ef framleiðslan fer yfir þessi tilteknu mörk, þá fái hann fyrir það, sem fram yfir er, það verð sem fyrir hana fæst á erlendum mörkuðum, og að hver framleiðandi fái tiltekið magn af kjarnfóðri gjaldfrítt miðað við þann framleiðslukvóta sem honum verður úthlutað, en ef hann kaupir meira af kjarnfóðri en þetta tiltekna magn verði settur á það hár skattur.

Miklar umr. fóru fram í landbn. um það, hvort heimildirnar ættu að vera rúmar eða þröngar og voru skiptar skoðanir þar um. Hins vegar aðhyllast flestir nm. efnislega tillögur Eyfirðinga. Þá var mikið rætt um þann mikla vanda sem bændur standa nú frammi fyrir, þar sem upplýst hefur verið að vanta muni um 200 kr. á hvert kg kindakjöts á þessu verðlagsári og 16–17 kr. á hvern mjólkurlítra vegna þess að vanta muni um 4 800 millj. kr. til að útflutningsbætur dugi á yfirstandandi ári, eða 1200-1300 þús. á grundvallarbú, og þær heimildir, sem rætt er um að bændasamtökin fái nú og felast í þessu frv., mundu ekki hafa áhrif til að minnka þann vanda á þessu ári.

Formaður Stéttarsambands bænda, Gunnar Guðbjartsson, kom á tvo fundi hjá nefndunum, svaraði fyrirspurnum, útskýrði ýmis atriði málsins og útvegaði gögn sem einstakir nm. komu fram með ósk um. Er enginn vafi á að landbn. höfðu mikið gagn af hans mörgu upplýsingum og útskýringum. Hákon Sigurgrímsson aðstoðarmaður landbrh. sat alla fundi nefndanna nema einn. Gaf hann einnig nefndunum ýmsar upplýsingar og aðstoðaði þær eftir því sem um var beðið, og má segja að þeir Gunnar og Hákon hafi auðveldað mjög störf nefndanna.

Á fyrstu fundum nefndanna eftir áramótin kom fram að heildarendurskoðun á framleiðsluráðslögunum er að ljúka og átti að vera lokið fyrir síðustu áramót. Þó að sú n., sem um málið hefur fjallað, hafi ekki náð samstöðu í mörgum veigamiklum atriðum hefur henni þó tekist að ná samkomulagi í nokkrum veigamiklum atriðum, og stefnt hefur verið að því að leggja frv. fram á þessu þingi með þeim ásetningi að koma því í gegnum þingið fyrir lok þess, ef nokkur tök verða á.

Eftir að þetta lá fyrir varð fullt samkomulag í landbn. um að fella niður 1. og 3. gr. þessa frv. sem hér er á dagskrá og lögfesta nú 2. gr. eina, þ. e. a. s. heimildirnar fyrir Stéttarsambandið til að reyna að hafa áhrif á framleiðslumagnið.

Í sambandi við þá umr., sem hér fór fram um þetta mál, kom fram áhugi ýmissa nm. fyrir því, að gerð yrði nú þegar tilraun um, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi á milli allra stjórnmálaflokkanna til að reyna að finna viðunandi lausn á þeim vandamálum sem blasa við landbúnaðinum nú, og væri mjög brýnt að sú tilraun yrði gerð án tafar.

Fyrst kom sú hugmynd fram að þeir, sem sæti eiga í landbn. þingsins, færu með þessa málaleitan inn í sína þingflokka með tilmælum um að einn maður yrði tilnefndur úr hverjum flokki í þessa viðræðunefnd. Þegar ég fór að ræða þessi mál við hæstv. landbrh. kom strax fram að hann var með í undirbúningi svipaðar hugmyndir og við ræddum um á fundum landbn. Var þá ákveðið, að hann skrifaði þingflokkunum með tilmælum um að þeir tilnefndu mann í þessa viðræðunefnd.

Það, sem kom fram á landbúnaðarnefndafundunum og í viðræðum á milli einstakra nm., var að þessi samstarfsnefnd ætti fyrst og fremst að kynna sér hvort hægt væri að finna leiðir sem líklegt væri að allir eða a. m. k. flestir þingflokkarnir gætu náð samstöðu um, svo að ekki þurfi til að koma tekjuskerðing að neinu ráði a. m. k. hjá bændastéttinni á þessu og næsta verðlagsári. Reynt yrði til hins ýtrasta að ná samstöðu milli stjórnmálaflokkanna um framleiðsluráðsfrv. þegar það kemur úr n. og semja um það þannig að strax á næsta vori geti Stéttarsamband bænda samið beint við ríkisvaldið um öll sín mál og þar á meðal stefnuna í landbúnaðarmálum, t. d. til næstu 5 ára, því e. t. v. væri hægt að tengja saman að einhverju leyti lausn vandans í dag miðað við það að upp verði tekin ákveðin stefna í þessum málum tiltekið tímabil.

Þá var rætt um að fram yrði að fara marktæk könnun á gildi sauðfjárframleiðslunnar fyrir iðnaðinn og atvinnulífið í landinu. Komu fram efasemdir um að þjóðin í heild mætti við því að dregið yrði úr sauðfjárframleiðslunni a. m. k. að nokkru ráði. Voru allir nm. sammála um að þetta mál yrði að kanna til hlítar — og ekki mætti gleyma byggðasjónarmiðinu í slíkri könnun. Þarf n. að gera sér grein fyrir á hvern hátt slík könnun á að fara fram til þess að hún verði ekki vefengd og nái tilgangi sínum. Þáltill. um þetta efni liggur að vísu fyrir Alþ. frá hv. þm. Jóni Helgasyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni, en ekki er hægt að bíða með þetta verkefni eftir samþykkt hennar. Það þyrfti enn fremur að reyna að gera sér ljóst, hvort nýja framleiðslustarfsemi sé hægt að taka upp bæði í sveitum og á þéttbýlisstöðum í staðinn fyrir þann samdrátt sem verða kann í hinum hefðbundnu búgreinum og þá hvort sú breyting á atvinnustarfseminni, sem til greina kemur að komi í gang, verði í reynd arðsamari fyrir þjóðarheildina en t. d. sauðfjárframleiðslan er og úrvinnslan úr þeim afurðum líkt og hún er í dag. Ef ný atvinnustarfsemi verður upp tekin úti um allt land þarf að gera sér grein fyrir hvernig á að standa að því svo það verði gert á skipulegan hátt, ekki síst til þess að hagnýta markaðsskilyrði sem best og ef hægt væri á þann hátt að draga úr raunverulegum tekjumun bænda og koma í veg fyrir atvinnuleysi á þéttbýlisstöðunum, þar sem atvinna mundi minnka ef búvöruframleiðsla dregst saman að nokkru ráði.

Það ánægjulega við þessa umr. var, að allir nm., sem tjáðu sig á annað borð um þessi mál, litu svo á að sá vandi, sem landbúnaðurinn stendur nú frammi fyrir, sé ekki honum að kenna og því beri þjóðfélaginu að leysa þetta mál á viðunandi hátt. Nú hafa allir stjórnmálaflokkarnir tilnefnt mann í þessa viðræðunefnd og hún tekið til starfa. Reynslan ein mun sýna hver árangur verður af starfi hennar og hvað menn eiga við þegar talað er um viðunandi lausnir á þessum málum. Og nú er framleiðsluráðslaganefndin búin að skila af sér sínu verkefni.

Eins og áður segir voru skiptar skoðanir um það í landbn., hvort heimildirnar ættu að vera rúmar eða þröngar. Eftir því sem fleiri fundir voru haldnir og málið meira rætt kom betur í ljós að tillögur Eyfirðinganna höfðu mikið fylgi nm. Hins vegar taldi formaður Stéttarsambands bænda, Gunnar Guðbjartsson, að það væri miklum erfiðleikum háð að fara þá leið, þ. e. a. s. að bændur fengju fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslu sinnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er, nema þá að ekki þyrfti að gera afurðalánin að öllu leyti upp fyrr en heildaruppgjör fer fram til framleiðenda eða fá fjármagn til þess með öðrum hætti. Endirinn varð sá, að a-liðurinn var að mínum dómi rýmkaður frá því sem hann var í frv., en þó vil ég að það komi greinilega fram, að landbn. ætlast til þess, a. m. k. til að byrja með, að reynt verði að setja ákveðinn framleiðslukvóta fyrir hvern og einn framleiðanda á svipaðan hátt og Eyfirðingar leggja til. Hins vegar var b-liðurinn þrengdur, en við teljum að eins og hann er nú muni hann reynast meira stjórntæki en hafa flatan skatt.

Þegar búið var að forma tillögugreinina var hún send til stjórnar Stéttarsambands bænda til umsagnar, en hún gerði tvær athugasemdir sem samkomulag varð um hvernig leyst yrði. Stjórn Stéttarsambands bænda sendi n. eftirfarandi bréf, með leyfi forseta, — þetta er úr bókun frá fundi í stjórn Stéttarsambandsins:

„Formaður kynnti nýjar till. sem fram hafa komið í landbn. Alþingis til breytinga á frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð. Breytingarnar taka til 2. gr. frv. og lágu þær fyrir á fundinum

Till. voru ræddar. Ekki þótti ástæða til að mæla gegn þeim breyt. sem í till. felast, en samþ. var að benda á nauðsyn þess, að til kæmi fjárstuðningur ríkisins til þess að mæta þeim vanda sem vaxið hefur óðfluga vegna þess, hversu dregist hefur að ráða bót á því erfiða ástandi sem skapast af miklum útflutningi og birgðasöfnun búvara.

Stjórnin mælir með samþykkt frv, með þessum breyt., en telur sér ekki fært á þessu stigi að gefa yfirlýsingar um hvernig framkvæmd yrði hagað, þar sem fulltrúafundur Stéttarsambandsins á samkv. ákvæðum frv. að taka þær ákvarðanir.“

Undir þetta skrifar Gunnar Guðbjartsson, formaður Stéttarsambandsins.

Nú er ég líka með í höndum umsögn Búnaðarþings um þetta mál, og ég tel rétt að lesa hana upp hér, með leyfi forseta:

„Ályktun.

I. Búnaðarþing telur að það ástand, sem nú hefur skapast í framleiðslu- og sölumálum landbúnaðarins af ýmsum samverkandi orsökum, sanni enn nauðsyn þess að hafa í lögum heimildir til aðhaldsaðgerða gegn offramleiðslu búvara. Minnir þingið á samþykktir síðasta Búnaðarþings um þessi mál. Búnaðarþing harmar hve treglega gengur að fá slíkar heimildir lögfestar þrátt fyrir margítrekaðar óskir bændasamtakanna á undanförnum árum.

Búnaðarþing þakkar starf sjömannanefndar, er skipuð var að ósk þess 1978. Frv. til breyt. á l. 101 frá 1966, sem samið er í framhaldi af starfi n., hefur verið lagt fyrir Alþingi og borist Búnaðarþingi á þskj. 7. Í því felast, ef að lögum verður, heimildir handa Framleiðsluráði til ákveðinna aðgerða til aðhalds búvöruframleiðslu.

Búnaðarþingi er ljóst, að mál þetta er enn í mótun Alþingis, en leggur áherslu á að þannig sé gengið frá þessum ákvæðum, þegar lögfest verða, að Framleiðsluráð hafi svigrúm til þess með samþykki Stéttarsambandsfunda að beita þeim aðferðum sem heimilaðar verða (kvótakerfi, kjarnfóðurgjald) á þann hátt sem best á við hverju sinni, án þess að lagabreytinga þurfi.

Þannig séu ákvæðin svo skýrt orðuð að ekki orki tvímælis að Framleiðsluráð geti valið um hvers konar útfærslu kvótakerfis og kjarnfóðurgjalds, ákveðið viðmiðun við framleiðslu tiltekinna ára, og sé heimilt að taka tillit til bústofnsstærðar.

II. Búnaðarþing telur mjög brýnt nú að framleiðslustefnan í landbúnaði verði endurskoðuð í samstarfi bændasamtaka og stjórnvalda og jafnframt myndað virkt kerfi til að laga framleiðsluna að aðstæðum hverju sinni. Þingið fagnar því að landbrh. undirbýr nú slíka endurskoðun (sbr. Drög að þáltill., þskj. 36) og að stjórnarandstaðan hefur reifað sama stefnumið og skyld viðhorf (sbr. þáltill., þskj. 58).

Búnaðarþing telur að markmið samræmdrar framleiðslustefnu og byggðastefnu eigi að vera þannig:

1. Byggð verði viðhaldið í öllum meginatriðum.

2. Búvöruframleiðsla fullnægi jafnan innanlandsþörf, leggi til iðnaðarhráefni og beinist að útflutningi, þegar viðunandi verðlag næst erlendis.

3. Tekjur og félagsleg aðstaða sveitafólks sé sambærileg við það sem aðrir landsmenn njóta.

Til að ná þessum markmiðum þarf: að endurbæta lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. með tilliti til framleiðslustjórnar og samræma framkvæmd þeirra laga og hagstjórnaraðgerðir hins opinbera (svo sem niðurgreiðslur, verðtryggingu, byggðastuðning o. fl.) til að laga framleiðsluna að markaði hverju sinni, — að miða mjólkurframleiðslu sem mest við innanlandsneyslu og leitast við að jafna hana eftir árstíðum, — að koma á framleiðslu- og söluskipulagi sem nái til allrar kjötframleiðslu í landinu, svo að unnt verði að hafa áhrif á hlutfallið milli framleiðslugreina, — að auka hagfræðileiðbeiningar til bænda og vinna að auknu búreikningahaldi, — að stuðla að bættri heyverkun hjá bændum og efla innlendan fóðuriðnað, — að efla rannsóknarstarfsemi sem stuðlar að hagkvæmari búskap, — að styðja fjölbreyttari atvinnumöguleika í dreifbýli, bæði nýjar og eldri aukabúgreinar, nýtingu hlunninda og iðnfyrirtæki.

III. 1. Þar sem mestan hluta framleiðsluvandamála landbúnaðarins má rekja til samfélagslegra aðstæðna, verðbólgu, ýmissa framleiðsluhvetjandi þátta og skorts á lagaheimildum til stjórnunar, þá telur Búnaðarþing rökrétt að gera þá kröfu til Alþ. að það tryggi bændum fullt verð fyrir þær umframbirgðir búvöru sem nú eru í landinu svo og framleiðslu þess tímabils sem líður þar til stjórnunaraðgerðir hafa skapað jafnvægi í framleiðslunni.

2. Þingið telur mikilvægt að verðtrygging ríkisins (útflutningsbætur) haldist, enda þótt tekin sé upp framleiðslustjórnun.

3. Þingið telur að þær gífurlegu sveiflur, sem verið hafa í niðurgreiðslum búvara til neytenda á liðnum árum, hafi haft mjög óheppileg áhrif á sölu varanna á innanlandsmarkaði. Því skorar Búnaðarþing á Alþ. að setja niðurgreiðslunum fastar skorður í lögum, þannig að breytingar þeirra séu bornar undir samtök bænda áður en þær koma til framkvæmda og þær séu að jafnaði ákveðið hlutfall af útsöluverði búvara.

4. Búnaðarþing telur mikilvægt, með tilliti til aðstæðna, að stefnan í fjárfestingar- og lánamálum landbúnaðarins markist skýrt af hagkvæmnissjónarmiðum, þannig að ávallt sé haldið uppi framkvæmdum til eðlilegs viðhalds og endurnýjunar, en lagðar hömlur á þær framkvæmdir sem stefna beint að ótímabærri framleiðsluaukningu.

IV. Búnaðarþing leggur áherslu á að áfram verði skipulega unnið að markaðsmálum landbúnaðarins. Þingið skorar á stjórnvöld að vinna að því með viðskiptasamningum að fá fellda niður þá tollmúra og viðskiptahömlur sem svo mjög hafa staðið í vegi fyrir eðlilegri verslun með íslenskar búvörur erlendis. Ávallt sé leitast við að auka valkosti neytenda bæði á innlendum og erlendum mörkuðum með sem mestri fjölbreytni í vinnslu og athendingu vörunnar.

Þingið þakkar markaðsnefnd það verk, sem hún hefur þegar unnið, og væntir mikils af áframhaldandi störfum hennar fyrir þennan þýðingarmikla málaflokk.

V. Búnaðarþing vísar til nokkurra fyrri ályktana sinna varðandi eignar- og umráðarétt á landi.“

Með þessari ályktun fylgir löng grg. sem ég gef mér ekki tíma til að lesa hér, en ég beini því sérstaklega til landbúnaðarnefndarmanna að kynna sér hana vel.

Ekki var sett inn í frvgr. við hvaða framleiðsluár ætti að miða þegar framleiðslukvótinn verður settur. En að athuguðu máli var það álit n. að miða ætti við framleiðsluárið 1977. Árið 1977 var meðalár fyrir landbúnaðinn þegar á heildina er litið og að því leyti gott viðmiðunarár í þessu tilliti. Hins vegar er það ljóst, að ekki er hægt að taka neina viðmiðun sem látin er gilda án undantekninga, hvort sem tekið er eitt ár eða fleiri, því alltaf eru einhver óhöpp sem lenda á einstaka bónda og leiða til þess, að þó að aðalregla sé sett í þessu tilliti getur ekki farið hjá því að út af henni verði að bregða ef nokkurt réttlæti á að nást í þessum efnum. Hitt er annað mál, að það verður hvorki auðvelt né vinsælt að meta slíkar undantekningar og getur ekki orðið á annarra færi að gera það en Stéttarsambands bænda. Til þess að sýna hvernig horfir í þessum málum, þá reyndist vera 7.6% meiri mjólkurframleiðsla í janúarmánuði s. l. heldur en í janúarmánuði 1978, og svipuð aukning var í febrúarmánuði. Á þessu sést hvað er aðkallandi að setja í bili bremsu á þessa framleiðslu, þar til úr rætist í sölumálum mjólkurafurða. Hins vegar vil ég taka það fram, að það verður ekki fyrr en haustið 1980 sem hægt er héðan af að hafa áhrif á framleiðslumagn sauðfjárafurða, ef niðurstaðan verður sú að hagkvæmt þyki að draga einnig úr þeirri framleiðslu.

Á einum fundinum kom fram till. frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og bað hann um að hún yrði send til allra búnaðarsambanda í landinu til umsagnar og var það gert. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað frv. verði ákveðið að hluti niðurgreiðslna og útflutningsbóta verði greiddur beint til bænda, t. d. 6 millj. að hámarki til hvers bónda árlega eða 500 þús. kr. á mánuði miðað við verðlag 1978. Rækileg skoðun fari síðan fram á því, hvernig afganginum yrði ráðstafað.“

Fjórar umsagnir hafa borist, sem ég hef séð, og er ein þeirra frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar og eru allar neikvæðar.

Á síðasta fundi um mál þetta komu fram tvær till., sem báðar voru ákvæði til bráðabirgða: Önnur frá hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepssyni, og var um þau atriði sem ég minntist á áðan að viðræðunefndir ættu að taka til athugunar og umfjöllunar. Hin till. frá Alþfl., borin fram af hv. þm. Finni Torfa Stefánssyni, um að innan tiltekins tíma skuli Alþ. taka til endurskoðunar þær heimildir sem n. leggur til með þessum brtt. að veittar verði. Þar sem áður hafði náðst samkomulag um að lögfesta að þessu sinni 2. gr. frv. og láta allt annað bíða þar til heildarlögin endurskoðuð kæmu fyrir Alþ., sem ætlað er að verði innan stutts tíma, var ekki á það fallist að nein bráðabirgðaákvæði væru sett nú í þetta frv. Hins vegar var talið eðlilegt, ef ástæða yrði talin til að setja bráðabirgðaákvæði í þessi lög, að það kæmi til álita þegar heildarlögin yrðu samþ. Efnislega tjáðu nm. sig sammála báðum þessum till., þó ekki væri fallist á að slík bráðabirgðaákvæði yrðu með þessu frv., þar sem búið er að setja fulltrúa frá öllum þingflokkunum til að fjalla um þau efnisatriði sem felast í till. Lúðvíks Jósepssonar, hv. 1. þm. Austurl., og frv. til l. um heildarendurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. kemur fyrir Alþ. á næstunni, eins og áður segir. Og á sama hátt var talið óeðlilegt að till. Alþfl. yrði tekin inn í frv. nú.

Þó þetta yrði niðurstaðan í n. hefur hv. þm. Lúðvík Jósepsson flutt sína brtt, á þskj. 398. En þar sem ég veit að hv. þm vill ná samstöðu um landbúnaðarmálin á milli stjórnarflokkanna sé þess kostur og þar sem verið er að fjalla um þessi mál í viðræðunefnd sem allir stjórnmálaflokkarnir hafa tilnefnt mann í, vil ég fara þess á leit við hv. flm. að hann taki till. sína til baka og vísi henni til viðræðunefndar til umfjöllunar, ef honum sýnist svo.

Þar sem ég hef ástæðu til að ætla að gerð verði að umræðuefni afgreiðsla þessa máls út úr n., miðað við það sem við mig hefur verið sagt, vil ég taka eftirfarandi fram:

Fyrir fund, sem haldinn var 15. febr. s. l., var búið að tilkynna að á þeim fundi mundi verða látið reyna á að ganga frá málinu út úr n. En á þessum fundi 15. febr. fór hv. þm. Pálmi Jónsson fram á það, að málinu yrði frestað fram á þriðjudag 20. febr., þar sem ekki hefði fengist tími til að ræða mál þetta á þingflokksfundi Sjálfstfl. Orðið var við þessum tilmælum. Mánudaginn 19. febr. hringdi hv. þm. Pálmi Jónsson í mig og sagðist ekki geta mætt á boðuðum fundi daginn eftir og fór enn fram á að afgreiðslu á málinu yrði frestað. Afboðaði ég því fundinn, en tilkynnti honum þá að síðar í vikunni yrði lokafundur haldinn í þessu máli og það afgreitt út úr n. og fleiri frestir ekki gefnir af minni hálfu. Fimmtudaginn 23. febr. var fundur haldinn og málið þá afgreitt út úr n. Hins vegar kom í ljós að enn hefði ekki gefist tími hjá Sjálfstfl. að ræða málið í þingflokknum, og enn var beðið um frest, en var hafnað. Hins vegar bauðst ég til að skila ekki nál. fyrr en að loknum þingflokksfundi á mánudag. En ég tók þá sérstaklega fram, að ef sjálfstæðismenn væru þá ekki búnir að gera það upp við sig, hvort þeir ætluðu að skrifa undir nál. með n. eða skila séráliti, þá yrði þeirri ákvörðun ekki breytt, enda málið afgreitt úr nefndinni.

Nú er kominn 19. mars og síðan nál. var lagt fram hefur margoft verið beðið um af hendi sjálfstæðismanna að málið yrði ekki tekið fyrir og ýmsu borið við, t. d. að hæstv. landbrh. væri ekki viðlátinn, að beðið væri eftir umsögn Búnaðarþings, og s. l. miðvikudag, eftir að umsögn Búnaðarþings hafði borist og hæstv. landbrh. var kominn í þingsalinn þá var enn beðið um frest til dagsins í dag þar sem sjálfstæðismenn væru ekki enn búnir að gera málið upp í sínum flokki. Ekki veit ég hvaða ályktanir hv. alþm. draga af öllum þessum frestunarbeiðnum sjálfstæðismamma í sambandi við þetta mál, en benda þær ekki til þess að ekki sé mjög góð samstaða um málið í þessum flokki?

Eins og að framan greinir voru haldnir í n. tíu fundir um þetta frv. og margir þeirra langir, þar sem landbn. beggja d. fjölluðu um málið sameiginlega.

Auk mín skrifa undir þetta nál. ásamt meðfylgjandi brtt. hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson, Þórarinn Sigurjónsson, Lúðvík Jósepsson og Pálmi Jónsson, en þeir tveir síðarnefndu með fyrirvara. Hv. 1. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, sagði ekki n. hvort hann mundi skila séráliti, og hef ég a. m. k. ekki séð það enn. Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Brtt. eru svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Við 1. gr. Greinin falli niður.

2. Við 2. gr. Greinin, sem verður 1. gr., orðist svo:

Á eftir 2, gr. laganna komi ný grein, er orðist svo:

Nú verður búvöruframleiðsla meiri en þörf er fyrir á innlendum markaði og ekki fást erlendir markaðir, sem viðunandi teljast að mati Framleiðsluráðs landbúnaðarins, fyrir það sem umfram er, og eru þá Framleiðsluráði með samþykki landbrh. heimilar eftirfarandi tímabundnar ráðstafanir:

a) Að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda. Í því sambandi er m. a. heimilt að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er.

Einnig er heimilt að ákveða framleiðendum sérstakar verðbætur ef þeir draga úr framleiðslu sinni. Söluaðilum er skylt að halda eftir af greiðslum til framleiðenda þeirri fjárhæð af andvirði innlagðrar búvöru, sem Framleiðsluráð ákveður hverju sinni vegna framkvæmda á ákvæðum þessa stafliðar, og standa skil á þeim fjárhæðum til Framleiðsluráðs. Framleiðsluráð ákveður gjalddaga vegna þessarar heimildar.

b) Að leggja sérstakt gjald á innflutt kjarnfóður. Framleiðendur búvöru á lögbýlum og aðrir, sem hafa meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu, skulu fá tiltekið magn kjarnfóðurs gjaldfrítt miðað við framtalið magn afurða á skattframtali, skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Skattstjórar skulu fyrir 1. apríl ár hvert gefa Framleiðsluráði upp framtalið afurðamagn á hverju lögbýli og hjá öðrum framleiðendum, sem hafa meiri hluta tekna sinna af landbúnaði. Ákvörðun um upphæð gjaldsins skal tekin á fulltrúafundi Stéttarsambands bænda og er háð samþ. landbrh.

Sýslumenn, bæjarfógetar og í Reykjavík tollstjóri innheimta gjaldið við innflutning.

Sé ákvörðun tekin um að fella niður kjarnfóðurgjald, sem lagt hefur verið á skv. framangreindri heimild, skal endurgreiða það sem innheimt kann að hafa verið af birgðum sem til eru þegar niðurfelling er ákveðin. Á sama hátt skal taka gjald af birgðum söluaðila í upphafi gjaldtímabils.

c) Gæsla og ráðstöfun þess fjár, sem innheimtast kann skv. a- og b-lið þessarar greinar, skal vera í höndum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. M. a. er heimilt að verja því til að greiða verðbætur til þeirra sem minnka búvöruframleiðslu sína í því skyni að draga úr óhagkvæmri framleiðslu, enda náist samkomulag um að ríkissjóður leggi fram a. m. k. jafnháa fjárhæð, svo og til að jafna halla er verða kann á útflutningi milli söluaðila. Þá er heimilt, að fengnu samþykki fulltrúafundar Stéttarsambands bænda, að ráðstafa hluta af þessu fjármagni til að jafna búskaparaðstöðu bænda, svo sem með því að jafna flutningskostnað á framleiðslu grænfóðurverksmiðja og öðrum fóðurbæti. Gjöld þessi skulu ekki leiða til hækkunar á búvöruverði að svo miklu leyti sem fjármagninu er varið til að jafna söluverð búvara milli framleiðenda.

Rísi ágreiningur um atriði, sem falla undir þessa grein, skal hann lagður fyrir n. þriggja manna til úrskurðar. Nefndina skipa fulltrúar Stéttarsambands bænda, Búnaðarfélags Íslands og formaður tilnefndur af landbrh.

Landbrh. setur reglugerð um framkvæmd heimilda er felast í þessari grein, að fengnum till. Framleiðsluráðs landbúnaðarins og fulltrúafundar Stéttarsambands bænda.

3. Við 3. gr. Greinin falli niður.

4. Aftan við frv. komi ný grein, sem verður 2. gr. og orðast svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það er auðvitað ljóst að þessar brtt., sem n. leggur til að gerðar verði á frv., verða til þess að það verður lítið af fjármagni sem kemur til með að safnast upp, vegna þess að það verður ekki nema af þeim skatti sem menn kunna að kaupa meira af fóðurvörum en þeim verður úthlutað.

Þegar fjallað var um þetta mál í landbn. var rætt um það við landbrn. og aðallega þó Hákon Sigurgrímsson, að æskilegt væri að n. fengju í hendur drög að reglugerð um þetta mál, þar sem ekki væri búið að gera sér fulla grein fyrir ýmsum framkvæmdaratriðum í sambandi við að setja á framleiðslukvóta og tvenns konar verð á kjarnfóðri. Vegna anna hjá þeim aðilum, sem vinna áttu þetta verk, fengu n. ekkert í hendur áður en frá nál. og brtt. var gengið.

Nú er hins vegar búið að huga töluvert að þessu máli og í ljós hefur komið að það geti verið a. m. k. álitamál og e. t. v. nauðsynlegt að gera einhverjar breytingar á þessum tillögum sem ég er hér að tala fyrir, m. a. vegna þess að nýlega hefur fallið dómur um upplýsingaskyldu skattstjóra. Einnig verður athugað hvort ekki verður að leggja skatt á allt kjarnfóður nema grasköggla, en í till. okkar er talað um innflutt kjarnfóður. Fleiri atriði þarf að huga að, hvort ekki er hægt að koma þeim fyrir í reglugerð eða hvort verður að setja þau inn í lagagreinina, eins og t. d. að vitað er um að einhverjir bændur hafa ekki talið fram til skatts, en þar sem kjarnfóðrið, sem gjaldfrítt verður, ákvarðast af framleiðslumagni á skattframtali, þá er spurning hvernig með slíkt verður farið. Fleiri atriði væri e. t. v. hægt að telja upp, en ég ætla að láta þetta nægja. En af þessari ástæðu tel ég rétt, að landbn. beggja d. taki þessi og nokkur fleiri atriði til athugunar á milli 2. og 3. umr. Bið ég hæstv. forseta að taka það til athugunar og mun ég láta hann vita þegar þessi athugun hefur farið fram.