19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3354 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Þegar frv. þetta var til 1. umr. gerði ég nokkrar aths. við það, eins og það lá þá fyrir, og taldi óhjákvæmilegt að nokkrar breytingar yrðu gerðar á frv. Við þá umr. var nokkuð deilt á mig fyrir þessa afstöðu af hv. talsmönnum Framsfl., þ. á m. hv. formanni landbn., og þá um leið að ég skyldi ekki þegar vilja afgreiða málið óbreytt fyrir jólaleyfi þm.

Þegar hafið var að ræða þetta mál í hv. landbn, þessarar d. kom tiltölulega fljótt í ljós, að þar var ekki vilji fyrir því að afgreiða málið án breytinga, kannske ekki hjá nokkrum nm. Niðurstaðan varð enda sú, að meiri hl. n. hefur flutt verulegar brtt. við efni frv., og segir það sína sögu, að ekki var ástæða til þess að hrapa um of að afgreiðslu þessa máls.

Ég mun ekki ræða hér mikið þá vinnu sem í þetta frv. var lögð í hv. landbn. Ég tel að formaður n. og frsm. meiri hl. hafi gert grein fyrir því í stórum dráttum hvernig það fór fram. Afgreiðsla meiri hl. n., sem birtist á þskj. 391, felur í sér nokkrar breytingar á frv. eins og það var lagt fram af hálfu hæstv. ráðh. Þær breytingar eru í stórum dráttum þessar:

Í fyrsta lagi að afgreiðsla á frv. einskorðist við 2. gr. þess og 1. gr. og 3. gr. verði felldar niður. Það hefur verið boðað að fram verði lagt annað frv., heildarfrv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl., og þessar greinar verði látnar bíða afgreiðslu þess máls.

Í öðru lagi er í breytingum á þskj. 391 opnað fyrir leið til kvótakerfis sem verði með þeim hætti, að greitt verði fullt verð fyrir tiltekinn hluta framleiðslunnar, en aðeins markaðsverð eða útflutningsverð fyrir það, sem þar er fram yfir. Þessa leið benti ég á við 1. umr. sem hugsanlega leið án þess að ég tæki nokkra afstöðu til hennar. En þetta er sú leið sem hvað almennast hefur verið bent á af ýmsum bændafundum og í áliti t. a. m. Búnaðarsambands Eyjafjarðar, í áliti ellefumenninga, sem komu saman til fundar á Hótel Sögu, og fleiri aðila. Ég hafði ekki tekið neina afstöðu til þessarar leiðar enda þótt ég benti á hana við 1. umr.

Í þriðja lagi eru þær efnisbreytingar gerðar á frv. í nál. á þskj. 391, að kjarnfóðurskattur komi á þá notkun innflutts kjarnfóðurs sem er umfram eitthvert tiltekið mark og ákveðin grunnnotkun kjarnfóðurs verði skattfrjáls. Þetta atriði gerði ég verulega að umtalsefni í ræðu minni við 1. umr. og taldi nauðsynlegt að breyta frv. í þá átt að kjarnfóðurskattur yrði með þessum hætti.

Í fjórða lagi eru breytingar í brtt. meiri hl. n. á þskj. 391 í þá átt, að sé notuð heimild til þess að greiða fyrir samdrátt í framleiðslu, þá sé það bundið því að mótframlag komi úr ríkissjóði við það fé sem bændur leggja til þessara greiðslna, a. m. k. jafnhátt. Þetta atriði gerði ég einnig að umtalsefni í ræðu minni við 1. umr. og taldi ranglátt að fé, sem notað væri í þessu skyni, yrði alfarið tekið með skattlagningu af bændum sjálfum, vegna þess að hér væri um þjóðfélagslega aðgerð að ræða. Ég hef út af fyrir sig fallist á það, að sú millileið verði farin að mótframlag komi úr ríkissjóði sem sé jafnhátt eða meira en það sem bændur sjálfir leggja fram til þessara hluta, en það má segja að það sé gert til samkomulags.

Enn eru breytingar á frv. í brtt. meiri hl. n. í þá átt, að ef fé, sem inn kemur með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, með misháum verðjöfnunargjöldum, kjarnfóðurskatti o. s. frv., verði notað til annarra hluta en að jafna verð á milli sölusvæða, þá komi það fjármagn inn í gjaldalið verðlagsgrundvallar. Þessa hafði ég krafist í ræðu minni við 1. umr., og þetta sjónarmið hefur verið viðurkennt í brtt. meiri hl, nefndarinnar.

Þessi atriði öll, þar sem hefur í allmörgum greinum verið komið til móts við þau sjónarmið sem ég hélt fram við 1. umr., hafa ráðið því, að ég hef skrifað undir það nál. sem hér liggur fyrir frá meiri hl. landbn. Frv. hefur verið breytt að efni til í verulegum atriðum til samræmis við þau sjónarmið sem ég lýsti sem mínum sjónarmiðum við 1. umr. Það er svo einnig rétt sem fram kom hjá hv. frsm. n., að sumt af þessu og kannske flest eða allt hefur komið fram í þeim ábendingum sem borist hafa n. frá hinum ýmsu búnaðarsamböndum í landinu sem sendu umsagnir um þetta mál. Ég hlýt að fagna því, að það skyldi koma á daginn að þau sjónarmið, sem ég hélt fram hér við 1. umr., skyldu einnig vera sjónarmið bændasamtakanna víðs vegar um land í svo mörgum greinum sem raun bar vitni. Það átti auðvitað sinn þátt í því — og ber ekki að lasta það — að meiri hl. n. féllst á að verða við þessum sjónarmiðum í þeim brtt. sem n. hefur flutt.

Í ræðu hv. frsm. n. kom fram í sambandi við meðferð þessa máls, að þm. Sjálfstfl. hefðu tafið afgreiðslu þess. Ég skal ekkert draga úr því, að bæði ég og aðrir þm. Sjálfstfl. hafa ítrekað óskað eftir að frestur væri gefinn til afgreiðslu á þessu máli. Það á sér hins vegar sínar orsakir, þ. á m. að hér er um næsta vandasamt mál að ræða. Búnaðarþing tók þetta mál til umfjöllunar og við töldum óeðlilegt að afgreiða málið meðan Búnaðarþing væri að fjalla um það. Það kom enda í ljós, að hv. frsm. n. taldi ástæðu til að ályktun Búnaðarþings kæmist hér inn í þskj. Það tel ég einnig réttmætt. Og síðast, en ekki síst var mér ljóst að þær brtt., sem meiri hl, n. hefur látið frá sér fara í nál. á þskj. 391, eru með þeim hætti, þrátt fyrir þær efnisbreytingar sem þær fela í sér og hafa komið til móts við þau sjónarmið sem ég hef haldið fram, — þær eru sumar hverjar í því formi, að þar má bæta um betur.

Undir nál. á þskj. 391 skrifar meiri hl. hv. n., tveir þm. skrifa undir með fyrirvara, þ. e. ég og hv. 1. þm. Austurl. sem hér talaði áðan. Einn nm., hv. 1. þm. Suðurl., skrifar ekki undir, og einn nm. var lítt viðstaddur fundi n. um þetta mál. Ástæðan til þess, að ég ritaði undir þetta nál. með fyrirvara, er sú, að þrátt fyrir að í brtt. meiri hl. n. sé, eins og ég hef þegar lýst, gengið mjög til móts við þau sjónarmið sem ég hélt hér þegar fram við 1. umr. og síðan áfram í starfi n., þá var ég ekki og er ekki ánægður með þann búning sem þetta frv. er í með þeim brtt. sem n. hefur látið frá sér fara, auk þess sem enn þarf að mínum dómi að breyta þar nokkrum efnisatriðum. Það var þess vegna fullkomlega eðlilegt að ég skrifaði undir þetta mál með þessum hætti og hefði fyrirvara um brtt. við það. Þetta er einkanlega vegna þess að orðalag á sumum brtt. er fremur óskýrt. Það nær því ekki nægilega vel sem mér virtist að n. ætlaðist til að kæmi fram í brtt., miðað við þær umr. sem fram fóru í n. Og enn tel ég eðlilegt að nokkrar efnisbreytingar séu gerðar á þessu máli. Þetta kom ekki strax fram vegna þess að eftir að þessum brtt. hafði verið útbýtt til umr. innan n. var afgreiðslu þeirra nokkuð hraðað, og skal ég út af fyrir sig ekki lasta þau vinnubrögð hv. formanns n., en á þeim tíma vannst t. a. m. okkur hv. 1. þm. Suðurl. ekki tími til að fullmóta brtt. eins og við töldum þörf á.

Í framhaldi af þessu er rétt að það komi hér fram, að við hv. 1 þm. Suðurl., Eggert Haukdal, höfum unnið að því að semja brtt. við þær brtt. sem meiri hl. n. lét frá sér fara. Eins og þegar hefur raunar komið fram í máli mínu er þetta sumpart gert til þess að ná skýrara eða ítarlegra orðalagi en er á till. á þskj. 391, en einnig um leið að koma fram með nokkrar efnisbreytingar. Þessar brtt. eru á þskj. 466, og skal ég ekki fara í það að lesa þær frá orði til orðs, heldur skýra helstu breytingar sem í þeim felast. Ég tel ekki ástæðu til að rekja allar þær orðalagsbreytingar sem eru til þess gerðar að ná skýrara orðalagi og að nálgast það meir sem mér virtist, miðað við umr. innan landbn., að nm. ætluðust til.

Í 1. mgr. er sú efnisbreyting ein, ef efnisbreytingu skal kalla, að þær leiðir, sem bent er á að heimilt verði að fara samkv. þessu frv., ef að lögum verður, verði bornar undir fulltrúafund í Stéttarsambandi bænda og hljóti þar samþykki. Þetta er sú eina efnisbreyting sem er í 1. mgr.

Meiri breytingar eru á uppsetningu a-liðs, en í till. meiri hl, n. er í a-lið nefnd ein leið sérstaklega, sem var skilið þannig af forustumönnum Stéttarsambands bænda og lögfræðingi Stéttarsambandsins að þá leið bæri að fara áður en aðrar leiðir væru reyndar, en það er hið svokallaða kvótakerfi.

Í a-lið í till. á þskj. 466 frá okkur hv. 1. þm. Suðurl. eru settar upp fjórar leiðir til þess að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda. Þessar leiðir eru að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn allt að ákveðnu marki, en án tillits til framleiðslumagns þar fyrir ofan. Þetta er nýtt og er um efnisbreytingu að ræða. Allmiklar athuganir hafa farið fram á vegum Stéttarsambands bænda á þessari leið og hvernig best væri að framkvæma hana. Hefur það m. a. verið gert í framhaldi af þeirri till. hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar sem frsm. n. lýsti áðan. Það er skoðun þeirra manna, sem starfað hafa að athugun þessa máls hjá Stéttarsambandi bænda, að hér geti verið um álitlega leið að ræða að tilteknu marki, og er sjálfsagt og nauðsynlegt að opna heimild fyrir slíka leið í þessum lögum. Lengi hefur verið um það rætt og margsinnis gerð á því athugun, hvernig það komi út að greiða hluta af niðurgreiðslum á frumstigi framleiðslunnar í stað þess að greiða á lokastigi framleiðslu eins og nú er gert. Þessar leiðir hafa yfirleitt sýnst vera heldur óhagstæðari hvað snertir áhrif á vísitölu. Verðlagsbreytingar ýmiss konar geta þó haft þarna áhrif á og ekki er víst að alltaf gildi hið sama. Enn fremur kunna að verða ýmsar breytingar á vísitölunni sem má út þennan mun, ef hann er þá einhver nú sem ekki hefur endanlega verið athugað. En það er eðlilegt og nauðsynlegt að opna leið fyrir þetta í sambandi við þessi lög.

Þá segir í næsta málslið: „Að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er. Heimilt er að ákveða að skerðing grundvallarverðs sé engin eða hlutfallslega minni hjá bændum með meðalbú og minna.“ Þetta er hið svokallaða kvótakerfi sem þegar hefur verið minnst á og m. a. hefur verið bent á af Eyfirðingum og fleirum.

Þá segir í næsta málslið: „Að innheimta framleiðslugjald til verðjöfnunar, sem getur verið mishátt eftir bústærð ef ástæða þykir til.“ Þessi málsliður nær m. a. þeirri leið sem bent er aðallega á í till. sjömannanefndar, en einnig er hægt eftir þessum lið að innheimta flatt eða jafnt gjald, ef það þykir betur henta, t. d. ef þessi liður er notaður ásamt hinum fyrri liðunum sem hér hefur verið bent á.

Í síðasta málsl. í þessari upptalningu segir: „Að ákveða framleiðendum sérstakar verðbætur ef þeir draga úr framleiðslu sinni um ákveðinn hundraðshluta.“ En í c-lið þessa frv, koma fram þeir skilmálar sem settir hafa verið inn í frv., að fé til þeirra nota komi a. m. k. jafnhátt frá ríkissjóði sem mótframlag við það fé sem bændur sjálfir leggja til þessa verkefnis. Hér segir á eftir þessari upptalningu að heimilt sé að nota samtímis tvær eða fleiri af ofangreindum leiðum.

Það verður að líta svo á í sambandi við þá upptalningu sem sett er inn í þessa brtt. við a-liðinn, að þær leiðir, sem bent er á, séu allar jafnréttháar og að heimilt sé að fara fleiri leiðir samtímis ef Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð samþykkja og landbrh. staðfestir.

Í b-lið er í raun og veru ekki um neina verulega efnisbreytingu að ræða. Þar er um allmargar orðalagsbreytingar að tefla, en þær orðalagsbreytingar hafa verið gerðar mjög í samráði við forustumenn og starfsmenn Stéttarsambands bænda til þess að nálgast það meir að þetta sé í því horfi sem best er framkvæmanlegt. En efnisbreyting í b-lið er að heita má engin nema það, ef það kallast efnisbreyting, að heimildin nær yfir það að leggja sérstakt gjald á innflutt kjarnfóður og innlendar fóðurblöndur sem erlent fóður er notað í að hluta. Áður var aðeins talað um að leggja gjald á innflutt fóður. Það er ekki talið framkvæmanlegt, miðað við þetta form, að hluti kjarnfóðurnotkunar skuli vera skattfrjáls. Þannig eru ýmsar orðalagsbreytingar í þessu sem eru til þess að orðanna hljóðan sé í samræmi við það sem talið er framkvæmanlegt.

Við c-lið er gerð brtt, á þskj. 466 frá okkur 1. þm. Suðurl. sem felur í sér tvær efnisbreytingar. Hin fyrri er að fella niður einn málslið úr brtt. meiri hl. n., — málslið er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er heimilt, að fengnu samþykki fulltrúafundar Stéttarsambands bænda, að ráðstafa hluta af þessu fjármagni til að jafna búskaparaðstöðu bænda, svo sem með því að jafna flutningskostnað á framleiðslu grænfóðurverksmiðja og öðrum fóðurbæti.“

Við, sem stöndum að þessum till., teljum að þessi ráðstöfun fjárins eigi ekki heima í þessu frv. Það fjármagn, sem hér er gert er ráð fyrir að innheimta, á að vera einvörðungu til þess að ná jöfnuði á verði til bænda á milli sölusvæða og á ekki að vera að innheimta þetta fé til annars. Þessum málslið mun hafa verið bætt inn í frv. af landbrn. áður en það var lagt fram, en var ekki í frv. sjómannanefndar. Það er hins vegar skoðun okkar tillögumanna, okkar hv. 1. þm. Suðurl., að réttmætt sé eða geti verið að jafna flutningskostnað t. d. á graskögglum og öðru kjarnfóðri, en þó er eðlilegt að það verði gert með öðrum hætti, þannig að sú verðjöfnun leggist sérstaklega ofan á verðið eða sé tekin með öðrum hætti en með skattlagningu á bændur eftir þessum leiðum sem á að nota einvörðungu til þess að ná jöfnuði í verði á framleiðslu milli sölusvæða.

Þá er örlítil efnisbreyting í c-lið að því er varðar skipun n. sem á að úrskurða ágreiningsefni c:f þau koma til, að í stað þriggja manna n. verði um fimm manna n. að ræða, tveir verði tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands, tveir af Stéttarsambandi bænda og formaðurinn verði ekki skipaður af hæstv. landbrh., heldur því slegið föstu að það sé ráðuneytisstjórinn í landbrn. Það er gert til þess að það sé tryggt að landbrn. sé jafnan tengt þessum málum og fylgist með þeim og sé inni í framkvæmd þeirra, það tryggt með því að ákveða að formaður n. sé ráðuneytisstjórinn í landbrn., og ekkert gefið undir fótinn með að einn eða annar landbrh. kunni að skipa aðra menn og ótengdari rn. hvað þetta snertir.

Þá er hér gerð till. um að aftan við frv. bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta:

,.Á árinu 1979 er heimilt að leggja fram nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara á þessu verðlagsári og birgðum búsafurða sem til eru í landinu þegar lög þessi öðlast gildi.“

Hér er vitaskuld um veigamikið efnisatriði að ræða. Þetta ákvæði til bráðabirgða leggjum við til að samþykkt verði um leið og þær heimildir, sem hér er gert ráð fyrir að fella inn í lögin og bændasamtökunum eru veittar, til þess að ekki verði hægt að segja að Alþ. sé að varpa frá sér vandanum. Við treystum okkur ekki til þess að leggja til afgreiðslu á svona máli án þess að með einhverjum hætti verði tekið á þeim gífurlega miklu vandamálum sem á herðum bænda hvíla nú í sambandi við birgðir og óverðtryggða framleiðslu þessa verðlagsárs.

Ég vil taka það fram út af orðum hv. frsm. meiri hl. n., þar sem hann fjallaði um bráðabirgðaákvæði sem fram hefur komið frá hv. 1. þm. Austurl. og er í raun og veru í þáltill. — stíl, — og ég skal í sjálfu sér ekki lasta það þó að þáltill. sé hengd aftan í svona lagafrv., maður hefur séð stjfrv. sem hefjast með því að vera þáltill., svo að allar aðferðir eru í þeim efnum tíðkaðar hér á hinu háa Alþ., — en út af orðum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um þetta efni, að í raun og veru sé ekki ástæða til þess að gera till. um að taka á þessu máli vegna þess að n. sé að störfum sem í eigi sæti menn frá öllum þingflokkunum og sé að ræða landbúnaðarmálin á víðum grundvelli, þá get ég ekki fallist á að sú nefndarskipun komi á nokkurn hátt í veg fyrir að reynt sé að færa þetta vandamál inn á Alþ. og taka á því efnislega. Sú n., sem ég á sæti í og hv. þm. Stefán Valgeirsson er formaður fyrir, er skipuð einum þm. frá hverjum þingflokki, hefur haldið nokkra fundi og ýmsir þeirra funda verið gagnlegir. Þar er rætt á víð og dreif um vandamál landbúnaðarins, sem eru ærin, og án þess að það verði séð í fljótu bragði a. m. k. enn sem komið er hjá þeirri n., að hún muni gera beinar till. um hvernig á málum verði tekið. Það var enda skilningur minn, þegar ég tók sæti í þeirri n., að hún væri kannske ekki síst til þess gerð að allir þingflokkar hefðu aðstöðu til þess að fylgjast með því sem væri á döfinni af hálfu hæstv. landbrh. í þessum efnum. Það mætti e. t. v. verða til þess að auka miðlun frá n. inn í alla þingflokkana, þingflokkarnir gætu fylgst betur með málum og þannig gæti það orðið til þess að greiða fyrir því að mál gengju áfram, þau þyrftu ekki að taka eins langan tíma í þinginu og ella væri. Þetta held ég að sé skynsamlegt, og að ýmsu leyti hefur n. starfað á þessum grundvelli. En hún kemur vitaskuld hvergi í veg fyrir að einstakir þm. úr stjórnmálaflokkunum hér á hinu háa Alþ. færi þau vandamál, sem við er að fást í landbúnaðarmálum, inn á Alþingi.

Ég vil segja það út af þessum vandamálum sem við blasa, og er rétt sem hv. 1. þm. Austurl. sagði, að frv. sem slíkt tekur ekki á nema a. m. k. að mjög óverulegu leyti, að þau eru með þeim hærri, að það er útilokað að Alþ. ljúki svo að ekki verði á einhvern hátt á þeim tekið. Ég hef fyrr í vetur lagt fram fsp. til hæstv. landbrh. um hverjar fyrirætlanir ríkisstj. væru í þessum efnum og hef ekki mikil svör fengið við þeim, en ekki er að efa að hæstv. ráðh. hefur góðan vilja í því efni. Það er sannarlega ástæða til að það fari að koma till. til lausnar á þessum málum. Ef svo er ekki væri hægt að skilja það svo, að með þessu frv., sem við erum hér að fjalla um og er um hvernig bændasamtökin sjálf ætli að dreifa vandanum á herðar bændanna í landinu, væri lausn fengin og Alþ. varpaði öðrum þáttum þess máls frá sér. Það gengur ekki að skilja bændur eftir með þennan vanda á herðunum alfarið. Hér er, eins og fram hefur komið, um að ræða fjárhæðir sem nema 1.2–1.3 millj. kr. á bónda að meðaltali, og hæstv. ríkisstj. kemst auðvitað ekki hjá því að taka á þessum vanda með einhverjum hætti.

Í till. okkar hv. þm. Eggerts Haukdals um ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að á þessu ári verði heimilað að leggja fram nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þess að greiða úr þessum málum. Það má hugsa sér að það geti gerst með ýmsu móti. Ég leyfi mér t. d. að minna á till. til þál. frá hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni o. fl. um að ríkissjóður kaupi hluta af þessum vörum og sendi til þróunarlanda og það verði þáttur í aðstoð Íslands við þróunarlöndin, sem margsinnis hefur verið gagnrýnt að ekki væri nægilega mikil. Ég vil segja frá því, að nokkur athugun hefur þegar farið fram á því, hvort unnt væri að greiða fyrir því að íslenskur iðnaður gæti notað meira af þessum vörum en gert er og það hráefni, sem hér er um að tefla, einkum smjörið, verði meira notað í stað innfluttrar feiti. Þetta er mjög athyglisvert. (Forseti: Mig langar að spyrja hvort hv. ræðumaður eigi mikið eftir af ræðu sinni. Það var hugmynd mín að gefa kaffihlé núna, hlé um það bil hálftíma, síðan höldum við áfram svo lengi sem dagurinn endist.) Ég á stutt eftir ræðunnar, en það er sjálfsagt að gera hlé á henni. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var í ræðu minni að tala um ákvæði til bráðabirgða í brtt. okkar hv. þm. Eggerts Haukdals og leggja áherslu á það sem þar segir, að á árinu 1979 verði heimilað að leggja fram nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara á þessu verðlagsári og birgðum búsafurða sem til eru þegar lögin taka gildi. Ég hafði minnt á til að mynda till. til þál. frá hv. 2. þm. Vesturl. í þessu sambandi, að ríkissjóður keypti eitthvað af birgðum og kæmi til þróunarlandanna og væri það þáttur í aðstoð Íslands við þau lönd. Ég var að greina frá því, að nokkrar athuganir hafa þegar verið gerðar á því, og það fyrir frumkvæði þeirrar n. sem hér hefur verið talað um að tilnefnd hafi verið af hæstv. ráðh. í landbúnaðarmálum, að athuga hvort íslenski iðnaðurinn gæti tekið við meira magni af þessum vörum, einkanlega feitmeti í stað innfluttrar feiti. Það þarf að halda þeim athugunum áfram og greiða fyrir því að það geti tekist. Einnig verður að gæta þess, að verðlagningarkerfið og ýmsir þröskuldar í því verði ekki til þess að koma í veg fyrir að íslenski iðnaðurinn geti notað t. d. smjörfeitina íslensku í stað innfluttrar feiti á þann hátt að báðum aðilum sé til hags: íslenskum iðnaði og framleiðendum þessara vara. Það hefur m. a. komið til tals í viðræðum um þetta efni, að ef sælgætisiðnaðurinn notaði meira af t. a. m. smjöri í framleiðslu sína en gert er í stað innfluttrar feiti kynni hann að geta unnið sér markaði erlendis fyrir framleiðslu sína, vegna þess að þá væri framleiðslan betri að gæðum en samkeppnisvörur sem þar eru. Allt slíkt þarf að athuga og það má ekki dragast að ganga í slíkt. Enn fremur má benda á það, að réttmætt er við þessar aðstæður að hefja samninga við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um að kaupa þessar vörur af okkur. Það þarf að gera án allra undanbragða og ekki láta slíkt dragast. Þannig er ýmislegt sem getur verið til athugunar og þarf að vinna að og það snarplega í þessum miklu vandamálum, þessum birgðamálum bændanna. Ef ekkert er hafst að mun þessi vandi skella með fullum þunga á herðum framleiðenda og ríða ýmsum þeirra að fullu fjárhagslega.

Auðvitað er það rétt sem fram kom í máli t. a. m. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og raunar einnig hjá frsm. n., að það þarf að taka upp nýja stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins. Það er líka skoðun mín, að til þess að nægilegur skilningur verði hjá þjóðinni á þeirri nauðsyn, að hið opinbera komi til aðstoðar í þessum mikla vanda, þurfi þjóðin að sjá fram úr því að nýtt kerfi taki við, ný stefna verði tekin upp í framleiðslumálum, í markaðsmálum og í verðtryggingarmálum landbúnaðarins. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram till. um þetta efni á Alþ. og skal ég ekki rekja hana. Hæstv. landbrh. hefur boðað að hann muni flytja till. svipaðs eðlis um þessi mál, þannig að bæði stjórn og stjórnarandstaða hafa sýnt vilja á því að taka á þessu máli. Eins og það er útfært í þeirri till. sem við þm. Sjálfstfl. höfum flutt, þá er sýnt fram á það í tillgr. sjálfri að nýtt kerfi tekur við sem hægt er að beita þannig að leiði út úr ógöngunum. Og það á að skerpa skilning þjóðarinnar fyrir því, að það sé eðlilegt og líka nauðsynlegt að koma þarna að einhverju verulegu marki til móts við bændastéttina í þeim geigvænlega vanda sem hún stendur frammi fyrir vegna framleiðslu þessa árs og þeirra birgða sem til eru. Þetta vil ég ítreka hér, og þetta er nauðsynlegt að hafa í huga og bíða ekki eftir starfi einhverra nefnda sem ég tel að séu góðra gjalda verðar til þess að fjalla um mál af þessu tagi með ýmsum hætti. Það má ekki bíða eftir því að einhverjar nefndir, sem eru að fjalla um mál á víðum grundvelli, ljúki starfi sínu.

Ég vil sem sagt segja það að lokum um þetta efni, að við fulltrúar Sjálfstfl. í hv. n. leggjum til að þessi heimild verði gefin sem er nokkuð rúm og hæstv. ríkisstj. ætti að taka með þökkum. En þetta er auðvitað gert af þeirri nauðsyn að hæstv. ríkisstj. eða hv. þm. stjórnarliðsins hafa ekki komið fram með neinar beinar till. um þetta mál og við svo búið má ekki standa. Ég vil aðeins segja það um þessar till. í heild, að þær eru þess eðlis að það ætti að geta orðið um þær gott samkomulag. Þær eru mótaðar í nánu samstarfi við fulltrúa Stéttarsambands bænda og ýmsa aðra aðila sem þessum málum eru gerkunnugir, og ég vænti þess, að hv. stjórnarliðar muni taka þessum till. vel og athuga þær gaumgæfilega áður en þeir hverfa að því að hafna þeim, því að það tel ég mjög óhyggilegt.

Ég vil aðeins segja í sambandi við texta í þessum till., sem hefur nú verið færður, eins og ég sagði, að ýmsu leyti í skýrara form til þess að ná því sem menn vilja segja og þarf að vera í lagagr., að það verður auðvitað aldrei orðað svo að nái til hins ítrasta. T. d. er í þessum texta tvisvar eða þrisvar sinnum talað um framleiðendur á lögbýlum sem eigi að fá tiltekið magn kjarnfóðurs gjaldfrítt, sem þeir liðir eiga að ná yfir sem nefndir eru í a-lið o. s. frv., o. s. frv. Þetta vil ég skilgreina þannig, að hér sé átt við bændur á lögbýlum ásamt skylduliði þeirra, ekki aðeins bændur ásamt fjölskyldu í þrengstu merkingu, heldur bændur, sem búa á lögbýlum ásamt skylduliði. Slíkar útlistingar kann að þurfa að rekja í reglugerð um þessi efni ef einhver vafi leikur á við hvað er átt. Ýmis fleiri hugtök í þessu efni má auðvitað ræða þó að það sé ekki gert hér. En það var vakin athygli á því af formanni Stéttarsambands bænda, að það væri til styrktar að skilgreina t. d. þetta orðalag sem hér er um rætt.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta frv. fjallar í rauninni einvörðungu um að fá auknar heimildir til þess að ná verðjöfnun á milli sölusvæða og það fjallar um heimildir til þess að leggja á kjarnfóðurgjald í takmörkuðu formi. Þetta er tiltölulega afskorið mál, tiltölulega þröngt svið sem þetta mál spannar yfir. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar, að það sé réttmætt og hyggilegt að veita bændasamtökunum innan vissra marka og með staðfestingu landbrh. heimildir af þessu tagi, eins og þær eru orðaðar í brtt. okkar hv. þm. Eggerts Haukdals við till. meiri hl. n., — það sé til bóta að bændasamtökin hafi þarna nokkurt val. Þessar leiðir kunna að vera mismunandi auðveldar í framkvæmd og sést ekki allt fyrr en á reynir. Þess vegna er nauðsynlegt að fleiri leiðir sé unnt að fara, enda er í till. okkar hv. 1. þm. Suðurl. bent í a-lið á fjórar leiðir sem eru nokkuð jafnréttháar, og fimmta leiðin er raunar kjarnfóðurskatturinn. Þetta er hvað a-liðinn snertir rýmra og þar er hægt að fara nýjar brautir sem ekki eru í till. meiri hl. n., sem þó bendir á eina af þessum leiðum sem erfiðast er að sjá fyrir, að talið er, hvort sé framkvæmanleg. Þetta er m. a. það sem veldur því að við leggjum nokkuð mikla áherslu á að menn kasti ekki þessum till. fyrir róða án athugunar. Ég vænti þess, að þeim verði tekið með skilningi og að hv. þd. átti sig á því, að hér sé um till. að ræða sem séu til bóta.

Ég tel enga ástæðu til þess að um mál eins og þetta rísi neinar sérstakar deilur, og það er hyggilegt, ef hægt er, að ná um það eins góðu samkomulagi og mögulegt er. Ég tel að við tillögumenn, sem flytjum brtt. á þskj. 466, höfum lagt í þetta mikla vinnu í samstarfi við menn sem hvað best þekkja til, þ. á m. forustumenn og starfsmenn Stéttarsambands bænda. Og ég vænti þess, að þetta geti orðið grundvöllur að því að samkomulag takist um þetta mál.