19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3370 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það þarf engum að koma á óvart þó að allmiklar umr. spinnist út af því frv., sem hér er nú á dagskrá, og þeim brtt., sem hv, n. hefur lagt fram. Þær staðreyndir blasa við í þessu máli, að samkv. fjárl. er áætlað að verja rúmlega 18 milljörðum kr. til niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum og rúmlega 5 milljörðum kr. til útflutningsuppbóta, og gert er ráð fyrir samkv. útreikningum að þessu til viðbótar þurfi í niðurgreiðslur að koma um 2.5 milljarðar til þess að halda sama hlutfalli og verið hefur að undanförnu varðandi niðurgreiðslurnar og til viðbótar þurfi að bæta við um 5 milljörðum kr. til þess að leysa þann birgðavanda sem nú liggur fyrir. Jafnframt er upplýst að offramleiðsla á kindakjöti í landinu um þessar mundir sé um 30–35% og á mjólkurafurðum um 24%. Þessar tölur segja raunverulega allt um það, hversu gífurlegur vandi er hér á ferðinni, og hann er engan veginn auðleystur. En ég stend hér upp til að taka þátt í þessari umr. til að undirstrika það, að þessi vandi er ekki eingöngu vandi landbúnaðarins og bændanna. Þetta er vandi allrar þjóðarinnar, þetta er vandi skattgreiðenda og neytenda í þessu landi, vegna þess að þessar miklu upphæðir, sem ég hef nefnt, lenda auðvitað fyrr eða síðar á skattgreiðendum í landinu.

Auðvitað sýnist sitt hverjum um það, hvernig eigi að grípa á þessu vandamáli, og þess vegna þarf engum að koma það á óvart, þó að t. d. þm. Sjálfstfl. þurfi að taka sér nokkurn tíma til þess að ráða ráðum sínum. Að svo miklu leyti sem fram kom í máli frsm. með meirihlutaálitinu gagnrýni á þær frestanir sem Sjálfstfl. bað um í þessu máli, þá er engin launung á því, að það stafaði í og með af því að um er að ræða nokkurn ágreining í þeim flokki um hvernig eigi að bregðast við. Og við teljum okkur ekkert minni menn af því að taka okkur tíma til þess að reyna að finna einhverja raunhæfa lausn á málinu, því að ég fullyrði að úr hvaða kjördæmi sem menn koma og hvaða afstöðu sem þeir kunna að hafa til landbúnaðarins út af fyrir sig, þá eru þeir allir sammála um að hér þurfi að bregðast við rösklega og drengilega. En það þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða heldur en aðeins þeirra sem framleiða vöruna. Það þarf að taka tillit til þeirra sem greiða ýmist vöruna niður eða standa undir útflutningsuppbótum vegna þessarar umframframleiðslu.

Það hefur verið vakin athygli á því, að í þessu máli sé ekki sanngjarnt að líta eingöngu á þær tölur, sem ég hef nefnt hér, og segja: Í þessu er vandinn fólginn og það þarf að draga úr framleiðslunni sem þessu nemur. — Menn hafa bent á að það þyrfti að gera úttekt á gildi landbúnaðarframleiðslunnar, á þjóðhagslegu gildi hennar, sem felst vitaskuld í því að hún skapar atvinnu við margvíslega úrvinnslu. Hún heldur uppi byggð á vissum stöðum í landinu, sem kannske mundu ekki vera byggðir ella, og hún skapar vissar tekjur fyrir þjóðarbúið með þeim hliðarframleiðslugreinum sem fylgja landbúnaðinum. Þetta skal ég taka undir. Ég held að slík úttekt sé nauðsynleg, og við skulum ekki rengja það, að ýmis úrvinnsla landbúnaðarafurða, ýmis hliðarframleiðsla hefur mikla þýðingu, bæði í arðsemi og tekjuöflun og eins atvinnulega séð. Hins vegar mega menn ekki í þessu sambandi rugla saman framleiðslupólitík og byggðapólitík, vegna þess að það þarf engan veginn að haldast í hendur að byggð sé fyrir hendi því aðeins að þeir, sem þar búa, framleiði hinar hefðbundnu búvörur landbúnaðarins. Ég held að hægt sé að styðja byggðastefnu og hægt sé að halda við byggð í hinum ýmsu svæðum á landinu án þess að það haldist jafnframt í hendur að þeir sömu aðilar framleiði t. d. mjólkurvörur eða dilkakjöt. Þessu tvennu má alls ekki rugla saman.

Við deilum ekki um það, að nauðsyn er einhverra aðgerða um þessar mundir. Hins vegar verð ég að játa að mér kom nokkuð á óvart þegar frv. til l. um breytingu á framleiðsluráðslögunum var lagt hér fram fyrr í vetur, hversu skammt það náði og hversu lítil úrræði voru raunverulega í því fólgin. Bæði frv. og till. meiri hl. og að nokkru leyti þær brtt., sem lagðar hafa verið fram af einstökum þm. í þessu máli, eru yfirleitt með því marki brenndar, að þar er verið að leysa vandann innan frá, þar er verið að setja á ákveðið verðjöfnunargjald, þar er verið að ákveða kerfi um tilfærslur á þeim fjármunum sem í kerfinu eru án þess að gerð sé mjög alvarleg, áþreifanleg tilraun til þess að skera niður þá fjármuni sem til þessara mála fara. M. ö. o.: kerfið heldur sér í aðalatriðum, en breytingarnar eru allar í þá átt að setja sérstakar ítarlegri reglur innan þessa kerfis, og mér finnst satt að segja allar þessar till. meira og minna gallaðar.

Ef ég vík að þeim brtt., sem meiri hl. landbn. hefur lagt fram og ég skil svo að séu nánast komnar í staðinn fyrir frv. eins og það var upphaflega lagt fyrir, — á ég þá við að hæstv. ráðh. hafi samþ. þær fyrir sitt leyti enn sem komið er — fela þær m. a. í sér að ákveða má mismunandi verð á búvöru til framleiðenda og í því sambandi er m, a, heimilt að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir að viss hluti framleiðslunnar fái fullt grundvallarverð, en síðan eigi sér stað skerðing sem umfram þennan grundvöll er. Ég hef ástæðu til að halda að þessi regla mundi m. a. hafa það í för með sér að bændur, sem eru kannske undir meðaltali, sem ekki framleiða algerlega upp í þann kvóta sem ákveðinn er, mundu auka framleiðslu sína upp í þetta mark. Ef þetta er rangt hjá mér, þá leiðréttist það, en ég hef skilið þessa till. svo að þessa hætta sé fyrir hendi. Ég hef skilið þetta svo, að þarna sé viss hætta á að litlu búin stækki og enda þótt einhver samdráttur verði í stærri búunum, þá munum við standa í stað og framleiðslan ekki minnka sem neinu nemur vegna þessa ákvæðis. Jafnframt er gert ráð fyrir því í sambandi við kjarnfóðurskattinn, að ákveðinn hluti framleiðslunnar sé gjaldfrír, og ég óttast að niðurstaðan verði þess vegna sú sama hvað það varðar.

Ég hef líka þær aths. fram að færa varðandi þá tilhögun sem þarna er gert ráð fyrir á kjarnfóðurskattinum, að verið er að setja upp mikið kerfi um hverjir skuli fá hluta kjarnfóðurs gjaldfrítt, og mikil skriffinnska fylgir slíku, miklir útreikningar og mjög veruleg hætta á alls kyns misnotkun í því sambandi. Jafnframt vil ég gagnrýna það, að gert er ráð fyrir að kjarnfóðurskattur sé lagður á kjarnfóðursneyslu hjá öðrum framleiðendum en þeim sem framleiða dilkakjötið og mjólkurvörurnar, en ég hef a. m. k. skilið það svo, að verið sé að setja þennan skatt á til þess að reyna að draga úr þessari framleiðslu. Og þá er spurningin: Til hvers er verið að leggja skatt á aðrar framleiðslugreinar? Eð vísu eru þær ekki inni í vísitölunni og ráða nokkuð sínu verði sjálfar, en ég held að þarna sé of langt gengið.

Þetta kvótakerfi, sem verið er að setja upp, mismunar auðvitað bændum ótvírætt, og ég mundi ekki vilja vera í sporum Framleiðsluráðsins og þurfa að taka ákvarðanir um hvernig þessir kvótar eigi að vera. Ég held að þetta sé mjög óæskileg leið, óheppileg, bæði fyrir þá, sem eiga að stjórna því, og þá, sem eiga annaðhvort að njóta þess eða gjalda þess.

Ég spyr líka í þessu sambandi: Verður þá tekið tillit til þeirrar aðstöðu sem er til búrekstrar á hinum einstöku jörðum? Á að taka tillit til stærðar búa eða hagkvæmni í búrekstri? Verður þá gengið út frá þeirri framleiðslu, sem nú er fyrir hendi, án tillits til hagkvæmninnar sem er í rekstri hinna einstöku jarða o. s. frv., o. s. frv.? Ég verð því miður að segja það sem mína skoðun, að þessar leiðir, sem bæði í frv. og brtt. felast, eru hálfgert kák og engin vissa fyrir því, að þær hafi raunverulega þau áhrif sem ég skil þó að að sé stefnt: að draga úr framleiðslunni. Engin vissa er fyrir því.

Mér finnst líka mjög skorta á í þessum umr, öllum og í þessari tillögugerð, að tekið sé á útflutningsuppbótakerfinu sem að mínu mati er ákaflega gallað. Á sínum tíma var ákveðið að tryggja bændum bætur fyrir þann halla, sem þeir kynnu að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, með þeim hætti að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar yrði greitt til framleiðenda. Svona hefur það verið nú næstum því tvo áratugi í meginatriðum. Ljóst er nú, að ekki er lengur hægt að miða við þessi 10% vegna þess birgðavanda sem augljós er, það þarf að fara miklum mun hærra. En gallinn við þetta kerfi er sá, að þegar verið er að reikna út heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar eru teknar inn miklu fleiri stærðir en sem nemur þeim framleiðslugreinum sem verið er að greiða útflutningsuppbætur til. Það er allt lagt saman, hvort heldur er um að ræða svínarækt eða eggjaframleiðslu, jafnvel gróðurhúsarækt og allt hvað eina sem hægt er að tengja við landbúnaðinn. Þannig er fundin út heildarframleiðslan í landbúnaðinum og síðan eru reiknuð 10% út frá því. Sú tala verður fyrir vikið miklum mun hærri en í upphafi var reiknað með að miðað væri við.

Ég held að í þessum efnum þurfi að breyta til, það þurfi að ákveða eitthvert hlutfall af því verðmæti þeirrar búvörugreinar sem verið er að bæta upp, sem verið er að aðstoða, en ekki taka dæmið allt eins og hefur verið gert fram að þessu. Ég held líka að í þessu sambandi sé nauðsynlegt að skapa meiri hvatningu fyrir þá sem selja vöruna erlendis, sem standa fyrir útflutningi, að ná sem hagstæðustu verði. Það þarf t. d. að kveða á um það, að útflutningsbæturnar verði ekki veittar nema söluverðið nái ákveðnum hluta af heildsöluverðinu. Og það verður að segja þá sögu eins og er, að það fyrirkomulag, sem nú er, þegar menn þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvaða verð færst fyrir vöruna erlendis, vegna þess að þetta fæst meira og minna allt á þurru, þá hefur það auðvitað dregið úr þeim litlu möguleikum sem við kunnum þó að hafa til þess að geta fengið betra verð fyrir vöruna og leita raunverulega að mörkuðum erlendis. Það eru meira að segja nefnd dæmi um það, að þegar fleiri en einn og fleiri en tveir aðilar íslenskir eru að selja eða leita að mörkuðum erlendis fyrir landbúnaðarafurðir, þá séu þeir að undirbjóða hver annan og eyðileggja markaðinn með þeim hætti. Þetta er auðvitað hið alvarlegasta mál, ef rétt reynist, og staðfestir raunar það, sem ég er að segja, að í kerfinu sjálfu felst engin hvatning af þess hálfu til þess að ná sem hagstæðustu verði erlendis. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, þegar menn standa frammi fyrir svo geigvænlegum vanda sem raun ber vitni um, að þá verði það jafnframt að haldast í hendur að einhverjar breytingar séu gerðar á þessu fyrirkomulagi.

Ég vil líka beina því til þeirra sem fara með þessi mál núna, hvort ekki sé rétt að nýta þá miklu þekkingu og reynslu sem er hjá verslunarstéttinni íslensku til þess að standa í ríkari mæli fyrir útflutningi á þessum vörum. Íslensk verslunarstétt hefur sannað dugnað sinn og útsjónarsemi og staðið undir frjálsri, sjálfstæðri verslun, bæði hér innanlands og í innflutningi, og ég er sannfærður um að þeir kraftar, þeir menn og þeirra hæfileikar mundu koma sér vel ef hægt væri að nýta þá við útflutning landbúnaðarvara. Mér finnst þá jafnframt að ekki sé nægilega mikil áhersla lögð á það atriði að því er varðar að beina bændum og landbúnaðarframleiðendum inn á framleiðslu í öðrum búgreinum. Það er engan veginn tekið á því. Ég hjó að vísu eftir því í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að hann hugsar svolítið um það, og mér þykir gott að heyra það, vegna þess að ég held að það hljóti að vera eitt meginatriðið í þeirri landbúnaðarstefnu, sem við verðum að taka ákvörðun um á næstunni, að styrkja menn og styðja til þess að taka upp aðra framleiðslu heldur en eingöngu á þessum hefðbundnu greinum, dilkakjöti og mjólk. Með þeim hætti ætti að vera auðvelt að halda byggðinni blómlegri og skapa arðbæra vinnu fyrir fólkið sem í landinu býr og við viljum að búi áfram í hinum ýmsu sveitum landsins.

Skoðun mín er í stuttu máli sú, að þær brtt., sem hér eru lagðar fram, nái mjög skammt, það sé vafasamt um árangurinn af þeim, og ég held að það sé miklu skynsamlegra fyrir okkur, þegar við erum að takast á við þennan vanda, að í staðinn fyrir að búa til einhverjar styrkja- og skömmtunaraðferðir innan kerfisins sem mismuna bændum og skapa hættu á ýmiss konar misnotkun á því kerfi, þá sé heiðarlegast að taka ákvörðun um að við ætlum að bæta umframframleiðsluna upp að einhverju tilteknu marki, taka ákvörðun um hvað útflutningsuppbætur eiga að vera mikið hlutfall og tilkynna það t. d. með eins eða tveggja ára fyrirvara, þannig að bændur viti um það og geti gengið að því sem vísu. Það er auðvitað sú leið sem er árangursríkust, vegna þess að ef bændur fá ekki sitt fyrir vöruna, þá hljóta þeir auðvitað að hætta að framleiða hana eða beina vinnu sinni inn á önnur svið. Þetta er auðvitað einfaldasta og árangursríkasta aðferðin, í staðinn fyrir að vera að búa til einhverjar gervilausnir. Það þarf sem sagt að beita einhverjum almennum hagstjórnaraðgerðum sem hafa almennt gildi, í stað þess að vera að setja upp reglur þar sem þarf að skoða hvern einasta bónda og taka ákvörðun um hversu mikla skerðingu hann eigi að búa við.

Mér fannst það rétt aths. sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. fyrr í dag, þegar hann benti á það ósamræmi sem er í afstöðu og núv. stjórnvalda til niðurgreiðslna. Auðvitað eru niðurgreiðslur að vissum og verulegum hluta til almenn efnahagsaðgerð. Það er ekki litið á þær sem beinan styrk eða beina aðstoð til landbúnaðarins, þó þær hafi auðvitað óbein áhrif að því leyti til, að því lægri sem varan er í verði, því meiri líkur eru á að hún seljist. Á sama tíma sem þessi stjórn talar um að það þurfi að leysa vanda landbúnaðarins og þennan vanda sem við erum að tala um gerir hún beinar till. um það í sínum frv. að draga mjög verulega úr niðurgreiðslunum. Ég leyfi mér að komast að sömu niðurstöðu hv. 1. þm. Austurl. um þetta atriði. Í grg., þar sem fjallað er um lækkun á niðurgreiðslunum, segir, með leyfi forseta:

„Miðað við niðurgreiðslustigið í marsbyrjun 1979 mundu niðurgreiðslur á ári væntanlega þurfa að lækka um 5400–6700 millj. kr. til þess að markmiði frvgr. yrði náð.“

Ég held að það fari ekkert á milli mála að þetta er skilið á einn veg, þ. e. a. s. að þessi mikla lækkun þarf að vera á ári hverju. Ef það er hugsað öðruvísi, þá held ég að sé rétt að flytja þau boð yfir í Ed., þar sem þetta frv. og þessi grg. er til meðferðar nú.

Gallinn við niðurgreiðslurnar er auðvitað sá, að þær eru með í vísitölunni, og ég held að við komumst aldrei út úr því vandamáli nema niðurgreiðslur séu teknar út úr vísitölunni. Gallinn er líka sá við niðurgreiðslurnar, hvort sem þær eru hagstjórnartæki eða aðstoð við landbúnaðinn, að eftir því sem þær eru meiri eru þær auðvitað meiri hvati til offramleiðslu, til óeðlilegrar offramleiðslu, og að því leyti er ekki heppilegt, þegar verið er að tala um landbúnaðinn og efnahagsmálin í heild sinni, að viðhalda miklum niðurgreiðslum, ef við viljum á annað borð draga úr þeirri umframframleiðslu sem öllum er ljóst að er fyrir hendi.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta öllu lengur. Ég hef tekið þátt í þessari umr. til þess að undirstrika að þetta er ekki eingöngu mál þeirra, sem í dreifbýli búa, eða þeirra, sem bera hagsmuni bændanna fyrir brjósti fyrst og fremst. Ég bý í þéttbýlinu og ég tel mig bera hag bænda fyrir brjósti jafnmikið og aðrir hér á þingi. En ég legg áherslu á að þetta er vandi sem snýr að fleirum en bændastéttinni. Þetta snýr að skattgreiðendum, að fólkinu í landinu, og það verður þess vegna að ræða frá öllum sjónarmiðum. Ég held að þessar tillögur, sem við höfum hlýtt hér á, séu meira og minna vafasamar. Þær eru vandræðalausnir. Það er verið að mismuna bændum. Ég held að það verði að stíga miklu djarfara og stærra skref til þess að leysa þennan vanda heldur en þetta frv. felur í sér.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég er sannfærður um að bæði neytendur og þéttbýlisfólk vill horfast í augu við þann vanda sem nú er fyrir hendi, það vill aðstoða bændur við að leysa úr honum. En það er ekki hægt að halda áfram á sömu braut, það er ekki hægt að viðhalda því kerfi sem nú er, en leggja síðan á 5 milljarða kr. til viðbótar til þess að leysa birgðavandann. Þetta er ekki hægt nema jafnframt sé sýnt og staðfest svart á hvítu að það er vilji til þess hjá stjórnvöldum, hjá Alþ. og hjá ríkisstj., að komast út úr þessum vanda. Ef fólkið, almenningur, kjósendur, sér að það er verið að taka á vandanum til frambúðar, það er verið að leysa þannig vandann að verið sé að skrúfa niður, en ekki sífellt að auka útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur, þá er áreiðanlega vilji til þess hjá mönnum að taka á sig nokkrar byrðar um þessar mundir í þeirri von og þeirri vissu að úr rætist innan tiltölulega stutts tíma.