19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3377 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að leggja nokkur orð í belg í sambandi við umr. um þau alvarlegu mál sem hér eru á dagskrá.

Ég vil segja það strax í byrjun, að mér er það ákaflega vel ljóst, að sá vandi, sem íslenskur landbúnaður stendur nú frammi fyrir, er mun meiri en við hefur verið að glíma um langt skeið og að sjálfsögðu miklu meiri en nokkru sinni síðan upp runnu þeir tímar á landi hér, að um offramleiðslu varð að ræða í landbúnaðinum. Offramleiðslan hefur aldrei verið slík sem nú. Og það er ákaflega athyglisvert og mikið umhugsunarefni, að þrátt fyrir það að á þessu ári hafi verið gerðar mikilvægar opinberar ráðstafanir til þess að draga úr offramleiðsluvandanum með stórauknum niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum, með afnámi söluskatts á matvörum, þar með öllum landbúnaðarvörum, og þrátt fyrir það að þessar aðgerðir hafi leitt til nokkurrar aukningar í neyslu hér innanlands, þá skuli það verða á sama tíma, að birgðasöfnun landbúnaðarvara verði miklu meiri einmitt í ár en við höfum áður átt að venjast.

Það hefur verið tekið fram af þeim sem hér hafa áður talað, að það, sem segir í því frv. sem hér er til umr., þó samþykkt yrði, dregur í rauninni ákaflega skammt til að mæta þeim mikla vanda sem við er að glíma. Og ég er mjög sammála því, sem sagt hefur verið í þeim efnum, að frv. grípur ekki nema mjög takmarkað á þeim erfiðleikum sem við stöndum þarna frammi fyrir. Það hefur verið bent á það af mörgum, að eigi bændastéttin ein að bera þá 5 milljarða kr. sem áætlað er að nú vanti til þess að tryggja bændum grundvallarverð fyrir sína framleiðslu þegar búið væri að greiða þær 10% útflutningsbætur sem lög heimila, þá mundi þarna vera um að ræða 12–13 millj. á hvert býli á landinu. Þetta segir auðvitað ærna sögu. En það segir líka sögu ef við athugum hvað þetta væri þungur baggi á hverja meðalfjölskyldu í landinu, sé byrðinni dreift, ekki bara á það fólk sem býr í sveitum, heldur á landsmenn alla, en þá mun láta nærri að þarna sé um að ræða nálægt 100 þús. kr. á hverja meðalfjölskyldu í landinu öllu, enda um að ræða fjárvöntun sem nálgast það að vera jafnmikil og nemur öllum áætluðum útflutningsuppbótum samkv. fjárlögum eða um 5 milljörðum króna.

Ég vil láta þá skoðun hér í ljós strax, að ég tel með öllu útilokað að ætla bændastéttinni, þeim tæplega 4000 bændum sem á bújörðum sitja, að bera eina sér þá 5 milljarða sem þarna vantar. Það þarf engum orðum um það að fara, að ef slík stefna væri tekin gæti ekki annað af því leitt en verulega mannfækkun í sveitum landsins og að stór hluti bújarða legðist í eyði. Óhjákvæmilegt er þess vegna að finna leiðir til þess að dreifa þessari byrði á þjóðina í heild, og þegar ég segi: þjóðina í heild, þá vil ég bæta við: og þá fyrst og fremst á þá þegna þjóðfélagsins, hvar sem þeir búa, í sveit eða bæjum, sem nokkra greiðslugetu hafa. En jafnframt hygg ég að íslenskir bændur komist ekki hjá því að taka á sig nokkru meiri byrðar en aðrar fjölskyldur í landinu af þessum ástæðum, og ég hygg að bændum sé þessi stóri vandi það vel ljós að margir þeirra séu í rauninni til þess búnir.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á það og hana mikla, að um leið og komið er í fyrsta lagi til bændastéttarinnar og í öðru lagi til annarra landsmanna einnig og sagt við þessa aðila báða: Nú er óhjákvæmilegt að jafna hér niður þungri byrði vegna offramleiðslunnar, — þá er ákaflega áríðandi að stjórnvöld séu á sama tíma tilbúin að benda á leiðir sem hugsanlegt sé að fara á næstu árum til þess að draga úr offramleiðsluvandanum svo að um muni, þannig að þeir, sem þessa 5 milljarða eiga að bera og verða að bera nú, allir þeir þegnar þjóðfélagsins sem nokkra greiðslugetu hafa, þeir fái það ekki á tilfinninguna að þeir séu að moka í botnlausa tunnu, heldur sé verið að gera ráðstafanir sem dugað gætu til þess að það komi ekki 5 milljarðar í ár, síðan 7 milljarðar næsta ár og 10 milljarðar 1981 0. s. frv. En um þær leiðir sem þarna þarf að finna til úrlausnar, — og ég ætla í þeim efnum ekki að bæta á þessu stigi málsins mörgu við það sem áður hefur verið drepið á hér í umr. og víðar, það eru ýmsar til, þó engin ein sé fullnægjandi, — en um þær leiðir þarf að sjálfsögðu að leita víðtæks samkomulags við bændasamtökin. Og vegna þess, hversu einmitt það er nauðsynlegt, vil ég úr þessum ræðustól gera hvort tveggja: að lýsa stuðningi við brtt. hv. 1. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, sem í þessa átt gengur, og einnig að fagna yfirlýsingu hæstv. landbrh. um stuðning við það sjónarmið sem þar kemur fram.

Sú grundvallarhugmynd, sem kemur fram í brtt. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, miðar að því að gerð verði áætlun til nokkurra ára í samráði við stéttarsamtök bændastéttarinnar og þá aðila sem mest hafa um landbúnaðarmálin fjallað, — áætlun sem miði að því að aðlaga framleiðsluna í meira mæli en nú er þeim markaðsaðstæðum sem fyrir hendi eru. Um slíka áætlun þarf ríkisvaldið að semja við samtök landbúnaðarins og það sem allra fyrst. En ég vil einnig af minni hálfu lýsa eindregnum stuðningi við þær kröfur, sem átt hafa vaxandi fylgi að fagna í hópi bænda og reyndar víðar, að stéttarsamtök bændanna semji einnig á hverjum tíma beint við ríkisvaldið um kjör sín almennt ár frá ári, og ég vil vænta þess, að góður stuðningur hæstv. landbrh. við það mál, eins og hann lýsti áðan, geti m. a. átt þátt í því að slíkt fyrirkomulag komist á, því að það er tvímælalaust eðlilegt í alla staði að bændur njóti í þessum efnum sem líkasts réttar og þeir þegnar þjóðfélagsins sem aðild eiga að hinum ýmsu stéttarfélögum er fjalla fyrir þeirra hönd um kaup sinna félagsmanna og kjör. En ég vil einmitt í tengslum við þetta mál bæta því við, að ég hygg að nokkur ástæða væri hins vegar til þess að uppbyggingu stéttarsamtaka bændanna, þeirra samtaka sem ætlað væri það hlutverk að eiga í beinum kjarasamningum við ríkisvaldið, væri með góðu samkomulagi við bændastéttina almennt nokkuð breytt og þá í þá veru að hver einstakur bóndi hefði meiri möguleika en hann hefur nú til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sinna stéttarsamtaka, að þar væri um að ræða að öllu leyti beinar kosningar t. d. og að samtök bændanna væru byggð upp að þessu leyti sem líkast því sem við þekkjum frá verkalýðsfélögunum. Þörfin á slíkum breytingum væri vissulega meiri en áður, ef það fyrirkomulag kæmist á sem ég hef hér lýst stuðningi við, að Stéttarsamband bænda semji beint við ríkisvaldið um helstu atriði er kjör bændastéttarinnar varða á hverjum tíma.

Ég vil fara fáeinum orðum um efni frv. og efni þeirrar brtt., sem fram hafa komið.

Ég vil segja þá í fyrsta lagi, að enda þótt mér sé ljóst að ekki verði hjá því komist að ætla bændum að taka á sig töluverða byrði þegar staðið er frammi fyrir þeim vanda sem við blasir, þá beinast áhyggjur mínar mjög að því, hvernig þessum vanda verði jafnað niður. Mér er það ákaflega ríkt í huga, að aðstæður bænda eru ákaflega ólíkar innbyrðis. Aðstæður bænda innan sama héraðs eru ákaflega ólíkar innbyrðis með tilliti til þess, hvaða kostum þær jarðir eru búnar sem þeir sitja, en þó oft miklu frekar með tilliti til þess, hvort bóndinn er búinn að koma sér vel fyrir í búskapnum, kannske fyrir 20 árum, eða hvort hann er að byrja á að byggja upp. Þessar aðstæður eru ólíkar. En mér er ekki síður í hug hvað búskaparaðstæður eru ólíkar eftir héruðum í landinu. Þar er í ýmsum tilvikum um mjög mikinn mun að ræða. Og ég óttast það, að þó ekki væri um að ræða nema tiltölulega litla byrði skoðað frá almennum sjónarhól, þá geti slík byrði lögð á þá bændur, sem verst eru settir, orðið til þess að flæma allmarga bændur frá búum sínum, og alveg sérstaklega óttast ég í þessum efnum um byggð í þeim sveitarfélögum sem höllustum fæti standa nú þegar. Og ég er þeirrar skoðunar, að nokkuð sé á sig leggjandi til þess að tryggja búsetu einnig í þeim sveitarfélögum þar sem þannig er ástatt. Ég ætla ekki að fara út í að færa rök fyrir þeirri skoðun nú, en gæti sannarlega gert það í löngu máli eða stuttu, ef ástæða þætti til. En af þessum ástæðum er ég almennt þeirrar skoðunar, að það beri við niðurjöfnun innan bændastéttarinnar sjálfrar að gæta þess mjög að þeim bændum, sem verst eru í sveit settir og tæpast standa, sé hlíft annaðhvort að öllu leyti eða að nær öllu leyti.

Það liggur hér fyrir að meginhugsun bæði í frv. upphaflega og í því nál. meiri hl., sem lagt hefur verið fram, er að Framleiðsluráð landbúnaðarins, þar sem stéttarsamtök bændanna sjálfra munu fara með meirihlutavald, fái í sínar hendur ákaflega víðtækar heimildir og í raun og veru svo víðtækar heimildir að það geti að mestu, að nær öllu leyti skipað þessum málum eftir því sem það telur skynsamlegast, hvernig þessi niðurjöfnun fari fram, bæði hvað varðar fyrirhugað framleiðslugjald og fyrirhugaðan fóðurbætisskatt. Ég geri mér grein fyrir að þarna er um að ræða ósk stéttarsamtaka bændanna sjálfra, að þetta mikla og víðtæka vald liggi hjá Framleiðsluráðinu, og ég vil ekki á þessu stigi málsins ganga gegn þeim óskum sem uppi eru um að þessar heimildir og þetta vald sé veitt í meginatriðum svo víðtækt sem þarna er gert ráð fyrir. En ég vil segja það, að ég er þó dálítið tortrygginn á að hafa þessar heimildir svona víðtækar og ég óttast nokkuð að þær kunni að verða notaðar með öðrum hætti en ég væri tilbúinn til að styðja með atkv. mínu hér á Alþ. ef á reyndi. Ég óttast það. En um þetta er að sjálfsögðu ekki unnt að staðhæfa neitt fyrir fram, og ég hlýt þess vegna að komast að þeirri niðurstöðu í þessum efnum, að hér verði að reyna á hvernig Framleiðsluráðið beitir þessu vandmeðfarna valdi. En við hér á hinu háa Alþ., þm., bæði ég og aðrir, ættum þá að hafa í huga, að ef með þetta vald verður farið á þann veg að þar sé talin ástæða til alvarlegra aths., þá höfum við að sjálfsögðu okkar möguleika til að hafa uppi tillöguflutning hér á Alþ. um breytingar í þessum efnum, og þann rétt hljótum við allir að áskilja okkur.

Það er gert ráð fyrir því í nál. meiri hl. landbn., að Framleiðsluráðið hafi heimild til að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda, og síðan segir í nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi er m. a. heimilt að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er.“

Þetta skal vera heimilt. Þetta má túlka að sjálfsögðu á fleiri en einn veg, en sennilega lægi næst að beita þessari heimild þannig, að hver bóndi fengi fullt grundvallarverð fyrir einhverja ákveðna prósentutölu af framleiðslu sinni og að þessi prósentutala væri þá jöfn hjá öllum, hvort sem búin væru smá eða stór. Mér sýnist að það lægi jafnvel beinast við að túlka þetta svona. En ég tek fram að slíkri niðurstöðu — að beita heimildinni með þeim hætti — væri ég ekki samþykkur, vegna þess að ég tel að það sé eðlilegt að þeim, sem eru með stór bú, verði ætlað að bera hlutfallslega meiri skerðingu en þeim sem eru með smábúin. Sé sú leið farin, sem ég get út af fyrir sig mjög vel hugsað mér, að það sé borgað fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, þá tel ég að skerðingin eigi að koma til á stærri hluta af framleiðslu stóru búanna heldur en smábúanna. Ég legg áherslu á þetta atriði, og með tilliti til þess, að hæstv. landbrh. hefur óskað eftir því, sem ég vænti að við verði orðið, að landbn. athugi málið á nýjan leik milli 2. og 3. umr., þá vil ég leyfa mér að fara þess á leit, að einmitt þetta atriði verði athugað nánar. Ég tel að út af fyrir sig sé ekki um óskynsamlegt fyrirkomulag að ræða í áliti sjömannanefndar, sem hér fylgir í grg. með frv., þar sem út frá því er gengið að skerðingarhlutfallið, þ. e. framleiðslugjaldið, nemi 2% af framleiðslu þeirra búa sem hafa innan við 400 ærgildi, en hækki síðan stighækkandi eftir stærð búanna þangað til það nemi mest allt að 10% . Ég tel að vísu að það geti verið spurning hvort á að leggja þessi 2% á minnstu búin. Ég hefði hugsanlega viljað gera aths. við það. En þennan almenna tröppugang, sem þar er gert ráð fyrir, tel ég eðlilegan og ég tel ekki rétt að draga á neinn hátt úr þeirri leiðbeiningu til Framleiðsluráðsins, að einhver slíkur tröppugangur verði viðhafður í sambandi við framleiðslugjaldið.

Varðandi fóðurbætisskattinn hefur verið gerð nokkur breyting á honum frá upphaflega frv. af hálfu meiri hl. landbn., og segir þar nú í meirihlutaálitinu: „Framleiðendur búvöru á lögbýlum og aðrir, sem hafa meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu, skulu fá tiltekið magn kjarnfóðurs gjaldfrítt miðað við framtalið magn afurða á skattaframtali.“ Ég tel að þessi breyting sé út at fyrir sig að nokkru leyti til bóta, það sé í sjálfu sér eðlilegt að menn fái ákveðið magn gjaldfrítt. Þarna er þó gert ráð fyrir því, að hvort sem búin eru stór eða smá, hvort sem menn eru vel megandi grónir bændur á stórum býlum, sem þurfa kannske ekki mikið að kvarta yfir sínum kjörum, eða um er að ræða bændur sem berjast í bökkum og hafa því hlutverki að gegna fyrir okkur öll að glíma við erfiðar aðstæður við það að halda landinu í byggð, þá eiga báðir að sitja við sama borð að því leyti að þeir eiga að fá tiltekið magn gjaldfrítt miðað við sina framleiðslu: smábóndinn bara miðað við sína litlu framleiðslu, en bóndinn, sem stærsta búið hefur, miðað við sína miklu framleiðslu. Mér finnst að það mætti hugsa sér að þessi hlutfallsregla gæti e. t. v. gilt varðandi annaðhvort atriðið, annaðhvort fóðurbætisskattinn eða framleiðslugjaldið, en ef hún ætti að gilda um hvort tveggja, þá væri ég mjög óánægður með það, það legg ég áherslu á.

Ég tek eftir því, að í brtt. hv. þm. Pálma Jónssonar og Eggerts Haukdals segir á einum stað: „Heimilt er að ákveða, að skerðing grundvallarverðs sé engin eða hlutfallslega minni hjá bændum með meðalbú og minna.“ Ég vil taka Það fram, að ég er samþykkur þessum hluta till. þeirra. Ég vil að þessi heimild sé skýrt og ótvírætt orðuð þannig að Framleiðsluráðinu sé beint inn á þá braut að nota slíka heimild að einhverju leyti. Aftur á móti vil ég taka það fram, að ég er mjög ósammála því atriði sem kemur fram í brtt. þeirra og lýtur að því að fella niður þá heimild sem í frv. er um jöfnun flutningskostnaðar á framleiðslu innlendra grænfóðurverksmiðja eða öðrum fóðurbæti. Ég tel að það sé sjálfsagt að hafa þá heimild þarna með, ekki síst vegna þess að hana væri hægt að nota-svo langt sem hún nær — og ég vil vænta þess að hún verði notuð til að hamla gegn því að byggð fari í auðn í þeim útkjálkahéruðum á landinu þar sem búskaparaðstaða er erfiðust fyrir og kostnaður hvað mestur við flutning á fóðurbæti, eins og nú háttar til.

Hv. landbn. þessarar d., þ. e. a. s. meiri hl. hennar, hefur gert þá till., að 1. og 3. gr. upphaflega frv. falli niður og aðeins 2. gr., sem felur í sér meginefni þess, má segja, standi eftir. Út af fyrir sig get ég fellt mig við það með tilliti til þess að von sé á frv.-flutriingi af hálfu ríkisstj. innan mjög skamms tíma um frekari breytingar á framleiðsluráðslögum og nánari stefnumörkun í landbúnaðarmálunum. Ég sé þó eftir 3. gr. eða vissum atriðum í henni, vegna þess sem þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú verður búvöruframleiðsla of lítil í landinu eða einstökum hlutum þess, eða framleiðsluáætlanir samkv. 5. tölul. 2. gr. raskast verulega og skal þá Framleiðsluráð landbúnaðarins gera till. til sexmannanefndar og landbrh. um aðgerðir til úrbóta.“

Þarna er gert ráð fyrir því, að hugsanlegt sé að grípa til aðgerða vegna of lítillar búvöruframleiðslu í einstökum landshlutum, og slíkar ástæður geta vissulega verið fyrir hendi. Og það er mjög undarlegt að það skuli geta gerst, meðan hér flóir svo mjög út af framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum yfir landið í heild, að þá er þannig ástatt í allfjölmennum byggðarlögum í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir, að þar á fólk í mjög miklum erfiðleikum með að fá keypta mjólk og mjólkurafurðir vegna þess að framleiðslan á viðkomandi svæði er mjög takmörkuð og kerfið, sem á að tryggja að mögulegt sé að flytja mjólk frá öðrum landshlutum, svo þungt í vöfum að um mjög alvarlegan mjólkurskort og skort á mjólkurvörum hefur verið að ræða. Í slíkum tilvikum þarf auðvitað að tryggja annað tveggja aukna framleiðslu á viðkomandi svæði, — ég tek fram að ég er þó ekki endilega að leggja það til, — að flutningar séu svo öruggir eins og samgöngur frekast leyfa frá offramleiðslusvæðunum, en á það vantar nú mikið.

Það er í sjálfu sér ekki miklu meira sem ég sé ástæðu til að segja um málið hér við 2. umr. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast örlítið á niðurgreiðslurnar. Það er vitað af öllum hv, þm., að þær eru vissulega mjög háar. En hitt er líka ekki síður ljóst, að þær hafa átt verulegan þátt í því að draga úr offramleiðsluvandanum, auka neysluna innanlands, og það er ekki að vita nema við stæðum frammi fyrir mun fleiri milljörðum en þessum 5 í sambandi við vöntun varðandi greiðslu útflutningsuppbóta ef niðurgreiðslurnar hefðu verið verulega minni. Og ég er þeirrar skoðunar, að það sé í rauninni ákaflega varasamt að ætla að draga mjög úr niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum meðan offramleiðsluvandamálið er jafnstórt og við vitum að það er, því að einn meginþátturinn í því að koma á samræmi milli framleiðslu og sölu hlýtur að vera sá að tryggja sem mestan markað hér innanlands.

Í þessum umr. hefur verið minnst lítillega á það sem segir í efnahagsmálafrv. hæstv. forsrh. um þessi efni. Það mun að vísu vera einhver misskilningur að greinin þar geri ráð fyrir að draga úr niðurgreiðslum um 6 milljarða á ári, eins og mætti skilja af aths., því að þá væru niðurgreiðslurnar komnar niður í núll á þremur árum. Ég vil hins vegar láta það uppi af minni hálfu, að þau ákvæði, sem þar eru sett fram í aths., um hvernig hagað skuli minnkun niðurgreiðslna á unnum afurðum, svo sem smjöri, ostum og öðru slíku, að þar skuli miðað við að slíkar niðurgreiðslur nemi hlutfallslega því sama og niðurgreiðslur á mjólk og kjöti og öðrum afurðum sem seldar eru frá bændum nokkurn veginn beint til neytenda, en jafnframt kveðið á um að útsöluverð á mjólk og kjöti yrði undir engum kringumstæðum hærra en svaraði framleiðsluverði til bænda, þá er það, sem ég vil segja, þetta: að það er út af fyrir sig eðlilegt og sjálfsagt að mínu viti. að varðandi mjólk og kjöt og aðrar landbúnaðarvörur, sem seldar eru beint frá bændum til neytenda, sé þessi viðmiðun viðhöfð, að útsöluverðið sé ekki lægra en svarar framleiðsluverðinu. En ég vil ógjarnan binda mig við eitthvert sams konar hlutfall þegar kemur að spurningunni um niðurgreiðslur á unnum landbúnaðarafurðum, því að ef þá reglu á að taka upp hlyti það að þýða mjög verulega minnkun á þeim niðurgreiðslum, sem nú eru fyrir hendi, með tilheyrandi afleiðingum, bæði hvað varðar framfærslukostnað hjá neytendum í bæjunum og einnig hvað varðar þann framleiðsluvanda sem við er að glíma í landbúnaðinum.

Ég vil að lokum láta í ljós þá von, að það takist hér á hinu háa Alþ. sem best samstaða ekki aðeins um afgreiðslu á þessu frv., heldur einnig um það, hvernig tekið verði á þeim stóra og mikla vanda sem íslensk bændastétt stendur frammi fyrir vegna offramleiðslunnar, — vanda sem öll þjóðin stendur frammi fyrir af þeim sökum. Og ég vil leyfa mér að lýsa stuðningi við þær hugmyndir sem fram hafa komið og hæstv. landbrh. lýsti hér m. a. í ræðu sinni áðan, að það fjármagn, sem samkv. lögum og reglum hefði á þessu ári átt að verja að öllu óbreyttu til ræktunarframkvæmda, verði fært til innan landbúnaðarins. Mér hefur skilist að þetta væru þó nokkur hundruð millj., og þetta fjármagn á að renna í sjóðinn sem mynda verður þessa margumtöluðu 5 milljarða kr. sem nú vantar til að tryggja bændum grundvallarverðið. En þar er að sjálfsögðu bara um einn þátt að ræða sem er langt frá því að duga til einn sér, en getur engu að síður haft sína þýðingu til að draga nokkuð úr þeim byrðum sem óhjákvæmilega verður að jafna niður af þessum ástæðum, ekki aðeins á bændur — það legg ég áherslu á, heldur alla sæmilega gjaldfæra menn í þessu landi.