19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3387 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Umr. er nú þegar orðin mikil um þetta frv. Ég á ekki sæti í landbn., en eftir því sem mér skilst hefur frv. verið athugað þar allrækilega.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., sem lauk máli sínu og er frsm. meiri hl. landbn., gat þess, að haldnir hefðu verið 10 fundir um málið með landbn. beggja d. sameiginlega. Ekki fannst mér hann þó vera alveg ánægður með samstarfsmenn sína úr Sjálfstfl. Mér skildist á honum að hjá þeim hefði ekki gætt fullrar hreinskilni. Hann varð þess vegna mjög ánægður og glaður þegar hv. 8. þm. Reykv., Ellert B. Schram, kom fram á sjónarsviðið síðdegis í dag og opnaði hjarta sitt fyrir honum í þessu máli af fyllstu hreinskilni. Um þetta er ég ekki fær að dæma til fulls af því sem ég hef þegar sagt. En hitt veit ég, að — (Gripið fram í. ) ég hlustaði ekki á hv. 8. þm. Reykv. svo að ég get ekki um það dæmt — þetta mál hefur verið rætt mikið í þingflokki Sjálfstfl. Það hefur verið rætt á undanförnu nýafstöðnu Búnaðarþingi og mörgum fundum í félagasamtökum bænda, þannig að þetta mál er þegar mjög mikið rætt og krufið til mergjar svo sem vera ber.

Ég sagði nokkur orð við 1. umr. frv. Ég gat þess þá, að mér sýndust aðalbreytingarnar, sem væru fyrirhugaðar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl., nr. 101 frá 1966, í því fólgnar að fjölga heimildum sem unnt væri að grípa til ef slíkan vanda bæri að höndum sem nú blasir við. Ræðumenn þeir, sem hafa fjallað um málið, hafa einnig getið þess, að það sé nú þannig á vegi statt að þessum heimildum hafi fjölgað til muna eða ætlunin sé að fjölga þeim. Eina heimildin, sem unnt var að grípa til, var verðjöfnunin, en nú er gert ráð fyrir kjarnfóðurskatti og fleiri leiðum sem unnt er að fara ef slíkan vanda ber að höndum.

Ég ætla að geta þess, að ég er nokkuð undrandi yfir því hvað bændur margir virðast almennt mótfallnir kjarnfóðurskatti. Það er talað um að menn geti ekki verið þekktir fyrir að skattleggja sjálfa sig og þar fram eftir götunum. Tvennt er þó víst í þessu máli og öruggt. Hið fyrra er, að það er útilokað að láta allan vanda lenda á bændastéttinni í þessu máli. Hitt annað, að það er vonlaust að hún sleppi skaðlaus frá þessum vanda. Ég held að almennt séð þurfum við að gæta hófs í miklum innflutningi á erlendu niðurgreiddu kjarnfóðri. Það, sem við þurfum fyrst og fremst að leggja áherslu á þegar horft er til framtíðarinnar, er að leggja rækt við okkar innlenda fóður, sem í flestum tilvikum er fullnægjandi, að ég ætla, nú orðið. Það er lítið vit í því að mínum dómi að hrúga inn í landið erlendu kjarnfóðri í stórum stíl til þess að ausa í búpeninginn svo til á öllum tímum árs.

Það var einu sinni sagt, og það af mönnum sem þekktu vel til búskapar, að það ætti í raun og veru ekki að fara betur með búpeninginn en svo, að hann gæti a. m. k. farið jafnvel með sig sjálfur í grænum sumarhögum. En mér er ekki grunlaust um að nú sé farið að gefa kúm kjarnfóður jafnvel með sumarbeit á ræktað land.

Þá er líka þess að geta, að ég tel verðhlutfall milli kjarnfóðurs og afurða, a. m. k. eftir gömlu lagi, mjög skekkt nú frá því sem áður var. Ég hef heyrt talað um að mönnum þótti nokkuð við hæfi ef verð á mjólkurlítra var álíka hátt og á einu kg af kjarnfóðri. Þetta hygg ég að hafi mjög skekkst á síðustu tímum, þannig að mönnum er í sjálfu sér ekki láandi þó að þeir kaupi mikið af ódýrum fóðurbæti. Þetta tel ég að við þurfum að athuga. Þess vegna hefði ég ekki talið úr vegi að bændur samþykktu einhvern skatt af þessu tagi, kannske ekki mjög háan, en legðu á hinn bóginn meiri áherslu á að ríkið kæmi til móts við þá við að losna við umframbirgðirnar sem safnast hafa upp. En ég skil vitaskuld fyllilega að allt kapp er lagt á að leysa málin með sáttum, eins og vera ber, og hef þess vegna ekki fleiri orð um þetta atriði á þessu stigi.

En þá er að skoða nokkru nánar hvers virði hinar auknu heimildir eru, sem komið hafa fram frá landbn. mönnum. Hvers virði eru þær auknu heimildir, ef að lögum verða? Ég er viss um það a. m. k., að þær leysa ekki allan vandann. Það er vægt til orða tekið. Það er þess vegna margt og mikið sem við þurfum að athuga að auki í þessum málum.

Ég gat þess, að mér hefði fundist hyggilegra af bændum og forsvarsmönnum þeirra að leggja áherslu á að ríkisvaldið kæmi til móts við þá t. d. í sambandi við lausn offramleiðslunnar, sem við erum mjög óvanir að fást við. Ég vil benda á að hér liggur fyrir till. í þinginu, 182. mál, ef ég man rétt, frá mér og þrem öðrum sjálfstæðismönnum, þar sem skorað er á ríkisstj. að leita allra ráða til þess að koma matvælum, sem við höfum of mikið til af, á framfæri við sveltandi þjóðir. Á ég þá við að framleiðendur matvælanna fengju fyrir þær grundvallarverð, en þær yrðu keyptar af ríkinu. Okkur hefur verið legið á hálsi fyrir að við létum mjög lítið af hendi rakna til þess að styðja vanþróaðar þjóðir. Það hefur komið fram í umr. þing eftir þing. Ég get ekki séð annað en það verði að leggja áherslu á að koma matvælum til þróunarlandanna, þaðan sem of mikið er til af þeim þangað sem of lítið er til af þeim. Ég held að sá vandi verði ekki með nokkru móti leystur nema ráð finnist til að mæta honum á þennan veg.

Hv. frsm. meiri hl. landbn., sem áðan lauk máli sínu, komst svo að orði, að jafnvel þó að þetta frv. yrði samþ. yrði lítið gert meira en að koma í veg fyrir að vandinn yxi frá því sem nú er. Á því sést hvað hann er geigvænlega stór í sniðum. Þess vegna er það í sjálfu sér fagnaðarefni að margir hafa lagt sitt til málanna, — margir fremstu menn í bændastétt og einnig þeir þm. sem láta sig þessi mál nokkru skipta. Það hefur verið lögð fram þáltill. um stefnumörkun í landbúnaðarmálum af hálfu nokkurra sjálfstæðismanna. Það er boðað frv. um breytingu á framleiðsluráðslögunum, þar sem þau eru tekin til gagngerrar endurskoðunar. Hæstv. landbrh. hefur einnig boðað þáltill. um þessi mál. Við skulum vona að upp úr þessum umr. öllum spretti eitthvað hagstætt og hollt fyrir íslenskan landbúnað í framtíðinni.