19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3396 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Einu sinni höfðum við Íslendingar kóng sem hét Magnús og var kallaður lagabætir. Nú er öldin önnur, sem betur fer, en ég þykist nú sjá að arftakar konungs þessa sitji ekki í hv. landbn. d. Þeir hafa tekið við frv. sjömannanefndar, sem ég að vísu verð að viðurkenna að mér þótti aldrei sérstaklega gott eða sérstaklega skemmtilegt frv., en það var samið af nefnd sjö bænda eftir mjög vandaðan undirbúning og þorri bændastéttarinnar hafði sætt sig við þetta frv. og samtök bænda lagt blessun sína yfir það, en það er „hantérað“ svo í hv. landbn. að það er óþekkjanlegt. Ég stóð að framlagningu þessa frv. m. a. vegna þess að ég leit svo á að þær heimildir, sem þar væru veittar, yrðu, þrátt fyrir að þær væru sumar óþægilegar og óskemmtilegar að þurfa að bera ábyrgð á þeim, þó skárri en verðjöfnunargjaldið sem innheimt var í fyrra og að mínum dómi er versta leið sem hugsanlegt er að fara.

Auðvitað er rétt að Alþ. á að setja lög í landinu. En eðli málsins samkv. hefði ég ekki talið óeðlilegt að tekið væri tillit til bændastéttarinnar, ekki síst þar sem hún fór þarna mjög fram af hófsemi og m. a. s. bauðst til að bera byrðarnar sjálf að það miklu leyti að sumum bændum þótti nóg um. En sjömannanefnd, Stéttarsambandið, Búnaðarfélag Íslands eða landbrn. virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá hv. n. Ég er ekki fyllilega samþykkur þeim brtt., sem fram hafa komið, engum þeirra — það komu fram þrjú þskj. með brtt. Ég vil þó taka fram, að eitt og annað gagnlegt er í öllum þeim brtt.

Ég ætla að byrja á að nefna álit meiri hl. á þskj. 391. Það er nú kannske stórt orð, meiri hl., um þetta álit, vegna þess að einungis 3 menn af 7, sem í n. störfuðu, skrifuðu undir málið fyrirvaralaust, þ. e. hv. þm. Stefán Valgeirsson, Finnur Torfi Stefánsson og Þórarinn Sigurjónsson. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson og Pálmi Jónsson skrifuðu undir með fyrirvara og tveir nm., hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og Eggert Haukdal, skrifuðu alls ekki undir. Það má því kannske liggja á milli hluta hvað þetta er mikill meiri hluti.

Þetta nál. tekur í veigamiklum atriðum mjög mið, eins og kom fram hjá hv. frsm., af tillögum bænda í Eyjafirði. Það kom fram í framsöguræðu hans, að mig minnir, að hann taldi fjölda bænda aðhyllast þau sjónarmið. Ég er ekki einn af þeim. Ég lít svo á, að þarna komi fram fyrst og fremst stórbændasjónarmið. Hv. frsm. n. taldi að mikil vinna hefði verið lögð í þessar till., en ég vil minna á að það var mikil vinna lögð í fleiri umsagnir sem bárust og gengu ekki í sömu átt og till. Eyfirðinga. Ég vil nefna ágæta umsögn frá Búnaðarsambandi Austur-Húnvetninga, ég vil nefna ágæta umsögn frá Búnaðarsambandi Skagfirðinga, en það vill svo til að mér eru þær báðar kunnar.

Í till. Eyfirðinga og í till. meiri hl. n. er tekið mikið tillit til óska kjarnfóðurinnflytjenda. Í áliti meiri hl. er gengið aftur verðjöfnunargjaldið sem mér þótti ástæða til þess að forðast og stóð í mér í fyrra og ég lagði mjög mikla áherslu á fyrir mitt leyti við síðustu stjórnarmyndunarviðræður að endurgreitt yrði bændastéttinni, vegna þess að ég taldi að bændur ættu það fjármagn, sem framkvæmdanefnd Framleiðsluráðs tók af þeim í fyrravor án vitundar stjórnvalda í landinu. Sagt er að heimilt sé að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er, svo að ég vitni til þskj., en setja engin mörk um bústærð eða annað. Eftir orðanna hljóðan get ég ekki skilið þetta öðruvísi en sem verð jöfnunargjald.

Í áliti meiri hl. er felldur niður kjarnfóðurskattur, a. m. k. á hluta framleiðslunnar. Kjarnfóðurskattur var umdeilanlegur fyrst og fremst fyrir það að sálfræðilega verkaði hann illa á allmarga bændur. Ég held að það sé jákvætt í þessum till., og kannske það jákvæðasta í brtt. meiri hl., að þær koma til með að stuðla að bættu framtali í framleiðslu hænsna- og svínaframleiðenda. Það sjónarmið er út af fyrir sig ágætt.

Á þskj. 466 eru brtt. frá hv. þm. Pálma Jónssyni og Eggert Haukdal. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst í sumu tilliti á þeim till. vera markvissara orðalag en á till. meiri hl. og líkar mér það orðatag skár. Þarna koma fram hugmyndir, sem ekki eru í nál. meiri hl., um niðurgreiðslur. Með leyfi forseta segir: „Að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn allt að ákveðnu marki, en án tillits til framleiðslumagns þar fyrir ofan.“ Þessi hugmynd er komin frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, þannig að þó að hendurnar séu Esaú er þarna röddin Jakobs. Það er kaldhæðni örlaganna að horfa upp á að frá þessum þremur heiðursmönnum, sem bera þetta fram hver með sínum hætti, sé komin hrottalegasta kommúnistatillaga um landbúnaðarmál sem ég hef séð. Ég er ekki þar með að segja að það megi ekki vera sósíalistabragð að till. um landbúnaðarmál, en þessi till. gengur út á það, eins og hér hefur reyndar komið fram í umr., að takmarka með svakalegasta hætti framleiðslu á stærri búum. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en mér þykir aðferðin í grófara lagi, þó að ekki sé meira sagt; því að þetta setur stórbændur væntanlega á hausinn. Bændur með tvöfalt vísitölubú mundu ekki fá nema 70–80% af grundvallarverði fyrir framleiðslu sína.

Mér finnst skynsamlegt í þessum till. hv. þm. Pálma og Eggerts að halda opinni heimildinni til að ákveða kvóta út á búfjártölu. Það er talað um framleiðslumagn í Eyfirðingatill. og í till. meiri hl. Ég held að það eigi ekki síður að íhuga búfjártöluna en framleiðslumagnið.

Hins vegar er í niðurlagi till. taugaveiklunaratriði frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni um að fjölga í nefndinni og gera hana að 5 manna nefnd.

Það hafa fleiri verið hreinskilnir í umr. um þetta mál en hv. þm. Ellert B. Schram. Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 27. febr. 1979 skrifaði hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson grein. Hann gefur stutta umsögn um það frv., sem hér er til umr., og ég vil leyfa mér að vitna til hennar, með leyfi forseta, — ég vil byrja á greininni:

„Nú dregur til tíðinda í málefnum bænda og allra annarra, því að mikill vandi landbúnaðarins snertir þjóðlífið allt.

Umræða um þessi mál hefur hægt og bítandi beint ljósi að kjarna vandans, kerfinu sjálfu.

Íslenska kerfið, sem tildrast hefur upp, ofstjórnin, skrifstofuvaldið og opinbert fjármálabrask er undirrót efnahagsvandans, og hvergi er kerfið jafnillyrmislegt og í málefnum bænda. Og nú er hugmyndin að fullkomna sköpunarverkið þannig:“ — Þá á hann við þá lagasetningu sem við erum að ræða.

„1. Alþingi afsali sér öllu áhrifavaldi í landbúnaðarmálum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem geti skyldað söluaðila til „að halda eftir af andvirði búvöru þeirri fjárhæð sem Framleiðsluráð ákveður“, þ. e. a. s. allt að 99.99% búvöruverðsins.

2. „Gæsla og ráðstöfun þess fjármagns, sem innheimtist“ samkv. framansögðu, „skal vera í höndum Framleiðsluráðs landbúnaðarins“. — Djarfmannlegt og opinskátt lagaákvæði það, ótakmörkuð heimild til þess að ráðska með svo til alla fjármuni bænda og „gæta“ þeirra vel, t. d. í þágu SÍS.

3. Fjármunum skal m. a. varið til þessa og til hins. Allar heimildir ótakmarkaðar til mismununar.

4. En „rísi ágreiningur“ um ráðstöfun nokkurra milljarðatuga skal hann lagður fyrir nefnd þriggja framsóknarmanna „til úrskurðar“.

Þetta er í stuttu máli inntak þeirra lagabreytinga um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem nú á að reka í gegnum Alþingi.“

Ég læt nú lokið lestri úr þessari grein, þó að margt sé spaugilegt í henni fleira, en mér finnst sem sagt alveg ástæðulaust fyrir hv. flm. að fara að taka undir þetta sjónarmið hv. þm. Eyjólfs Konráðs um að þrem mönnum sé ekki treystandi til þess að vinna þetta verk.

Ég kem þá að þskj. 398, þ. e. brtt. frá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. Að mörgu leyti er ágæt stefnuyfirlýsing sett þar fram, en því miður svipar henni til ýmissa annarra úrræða Alþb., því að erfitt er að festa hendur á einstökum efnisatriðum og þau eru misjafnlega vænleg til árangurs. Mér dettur stundum í hug, þegar ég sé till. í þessum dúr, að þær séu skrifaðar fyrir kjörfylgismöppuna fremur en til að verða að gagni í þjóðfélaginu. Á þessu plaggi eru margar góðar hugmyndir og sjálfsagðir hlutir sem þar er drepið á, en það er ekki svo þægilegt að gera sér grein fyrir því hvað það felur í sér „að stofna nefnd“ sem m. a. „á að ræða um“, eins og segir í þskj. í g-lið, „ýmis hagsmunamál bændastéttarinnar og möguleika á því að draga úr þeim mikla mun sem nú er á afkomu bænda“, eða þá í h-lið: „Önnur atriði sem aðilar telja rétt að taka upp í sambandi við samkomulag á milli bændastéttarinnar og ríkisvaldsins.“ — Ég veit árakornið ekki hvað ég væri að samþykkja með því að standa að þessu og veit reyndar ekki hvort þetta yrði neitt að gagni.

Það hafa sem sagt komið fjölbreyttar skoðanir frá hv. nm. Ég hygg að hér séu allir á einu máli um það, að rétt sé að draga brtt. til baka til 3. umr. og rannsaka málið betur í n., og ég hygg að það sé vel farið. Ég held að menn ættu líka að sættast á, þegar brtt. eru komnar aftur til n., að endurskoða afstöðu sína til álits sjömannanefndar, hins upphaflega þskj., og þess vegna ómakaði ég mig í ræðustól í kvöld. Ég hef tekið eftir því að þrátt fyrir allt muni skásta till. í málinu líklega vera á upphaflega þskj.

Það er raunasaga, hvað Alþ. gengur illa að setja framleiðsluráðslög. 1972 tókst það ekki, 1977–1978 bilaði dugur okkar að setja framleiðsluráðslög eins og Stéttarsambandsfundur bað okkur um að gera. Ef við hefðum haft manndóm í okkur þá til þess að gera það væri áreiðanlega minni vanda við að glíma nú. Bændur hefur ekki vantað samstarfsviljann eða eggjanir til þess að þessi lagasetning næði fram að ganga.

Það má e. t. v. skoða í landbn. enn fleiri möguleika en nokkurn tíma er búið að ræða hér. Það er hægt að hugsa sér að mjög árangursríkt tæki til að draga úr framleiðslu væri bein skömmtun kjarnfóðurs á hvern grip í landinu. Þá á ég við lítinn skammt af kjarnfóðri, en ekki stóran skammt eins og Eyfirðingar voru að tala um.

Það má líka benda á að kjarnfóðurnotkun hefur við allar þessar umr. aukist geysilega mikið. Það hefur verið yfirgengilega góð auglýsing fyrir kjarnfóðurkaupmenn að í eyrum bænda hefur glumið stöðugt þessi söngur um hvað kjarnfóðrið væri ódýrt. Fáir kaupmenn aðrir hafa fengið vöru sína jafnrækilega auglýsta fyrir kaupendum.

Það má líka hugsa sér þá hugmynd, sem var ofarlega á baugi í þingsölum í fyrravetur, að leggja toll á kjarnfóður sem gengi beint til að greiða niður áburð. Sú hugmynd þykir mér best. Þá var raunar einnig verið að velta fyrir sér að styrkja graskögglaframleiðsluna og að leggja gjald á kjarnfóður til þess. Sú hugmynd fannst mér ekki góð. Það má kannske leiða hugann að því hér og nú, að graskögglaframleiðsla kemur til með að verða örðug á Íslandi í sumar vegna hinnar miklu olíuverðshækkunar, og það er alls ekki fyrir séð á hvaða verði okkur standa til boða graskögglar annað haust.

Það er auðvitað ljóst að ríkisvaldið verður að taka á sig talsverðar byrðar til þess að leysa vanda landbúnaðarins, því það er ósanngjarnt að ætla bændum að gera það einum. Og Alþ. má ekki bregðast að leggja sitt af mörkum til þess að vandinn verði leystur áður en það er orðið of seint, að vandinn vaxi ekki fyrir seinlæti okkar eða kjarkleysi. En hugsanlega þarf raunar ekki að hafa svo miklar áhyggjur af of mikilli framleiðslu á þessu ári. Hafísinn liggur úti fyrir Norðurlandi og þá kann vel að vera að vel heppnað hallæri tempri okkar miklu framleiðslu og leysi fyrir okkur vandann.