19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3400 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Það virðist sem till. okkar sjálfstæðismanna í n. hafi sett hv. þm. Stefán Valgeirsson úr jafnvægi. Hann hefur allt á hornum sér. En í öðru orðinu segir hann þó, að enginn munur sé á þeim till. og hans, svo að þetta ætti ekki að fara í hann eins og raun ber vitni, ef það væri rétt.

Ég fann að því áðan í ræðu minni, að yfirleitt eru menn nafngreindir í nál. Þessu var nú rétt slegið fram og að gefnu tilefni frá hv, þm. Stefáni Valgeirssyni. En auðvitað var hægt að segja að ég mundi skila séráliti, sem hér liggur fyrir í tillöguflutningi, ég veit ekki betur.

Hv. þm. sagðist ekki hafa heyrt skoðanir mínar á þessu máli. Ég vil aðeins upplýsa hann. Ég vil dreifa þessum byrðum á bændur og ríkið, Ég hef haldið þessu margoft fram. Annað er óhjákvæmilegt. Hann setur það í sínum tillöguflutningi á annan aðilann. Ég vil fóðurbætisskömmtun, en án þess að bændur verði fyrst að borga tvöfalt verð, en fá síðan endurgreiðslu eftir dúk og disk. Okkar till. eru skýrar að þessu leyti.

Hv. þm. sagði að ég hefði sagt: Bara að gera eitthvað. Það má að mörgu leyti segja það um það sem kom fram í landbn. Það lá ekki fyrir, þegar var beðið um upplýsingar, hvað kæmi út úr till. Formaður var spurður, aðstoðarráðh. og fleiri — það fengust engin svör — hvað kæmi út úr till. Það hafa ekki fengist svör við því enn þá. Út frá því var ekkert óeðlilegt að segja þessi orð, sem fóru í hv. þm.: „bara að gera eitthvað“, þegar ekki liggur fyrir hvað út úr till. á að koma.

Ég hélt fram í máli mínu að Stéttarsambandsmenn hefðu sagt að þetta væri óframkvæmanlegt. Ég sagði ekki hverjir það hefðu verið í Stéttarsambandinu, en það voru ýmsir málsmetandi menn þar sem sögðu þessi orð. Ég nefndi ekki formann Stéttarsambandsins í þessu tilfelli. En ég stend við það enn, þeir sögðu þetta ýmsir, eftir að till. lágu fyrir.

Hér var minnst á niðurgreiðslur. Engin ríkisstj. hefur eins leikið sér með niðurgreiðslur og núv, stjórn. Hún hækkaði þær síðast heilmikið 1. des., en samþykkir svo í fjárl. nokkrum dögum síðar að lækka þær um 2.8 milljarða.

Hér hefur verið rætt um beinu greiðslurnar, að þær skerði mest hjá þeim stóru, segir hv. þm. Stefán Valgeirsson. Um þetta er að sjálfsögðu ekkert ákveðið. Það er eftir að útfæra það allt. Heimild er aðeins opnuð. Stéttarsambandsmörinum líst vel á þetta, en þarf þó enn að sjálfsögðu við mikillar skoðunar, en alveg óþarfi að afskrifa þetta fyrir fram.

Ég vil segja að lokum, að hv. þm. Stefán Valgeirsson þyrfti að taka með inn í allt dæmið að þessum vanda þarf að skipta á bændur og ríkið, það er kjarni málsins: á bændurna og ríkið. Og sem forustumaður í landbúnaðarmálum með svo mikinn þingmeirihluta að baki trúi ég ekki öðru en að honum verði vel ágengt í að dreifa þessum byrðum, en láta þær ekki lenda allar á bændunum.