19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3401 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. svo að neinu nemi. Ég vil leggja áherslu á það, að menn leiti samkomulags um þessi mikilvægu og viðkvæmu mál. Eðlilegt er að nokkuð sýnist sitt hverjum þegar um slík mál er að ræða, og tek ég þær stimpingar, sem hér hafa orðið, sem merki um það.

Ég vil koma inn á það sem menn hafa sagt hér að ekki sé framkvæmanlegt. Ég hef að sjálfsögðu látið athuga, hvernig framkvæma megi hinar ýmsu hugmyndir, og er alls ekki kominn til botns í því. En niðurstaða mín er sú, að allar þessar leiðir munu vera framkvæmanlegar, en misjafnlega auðveldar. Ég er sannfærður um að till. sjömannanefndar voru auðveldastar í framkvæmd. Það er auðvelt að leggja á fóðurbætisgjald og endurgreiða svo, og það er auðvelt að ákveða framleiðslugjald miðað við stærð búa. En ég nefni dæmi um fóðurbætisskömmtun. Þar er mér bent á ýmislegt sem mundi valda erfiðleikum í framkvæmd, a. m, k. nú í upphafi. T. d. eru ýmsir sem ekki telja fram, þó að þeir eigi að gera það, og á þá er þá áætlað. Frá slíkum aðilum liggja ekki fyrir upplýsingar fyrir 1. maí. Þeim yrði þá hegnt fyrir að telja ekki fram og fengju engan skammt. Auk þess er vafasamt að skattstjórar megi gefa upp eftir framtölum manna, svo að líklega þyrfti þetta að fara í gegnum hendur framteljandans sjálfs til að aðgengilegar upplýsingar fengjust. Ég nefni þetta sem dæmi, því hef ég komist að þeirri niðurstöðu að í raun og veru eru breytingar n. erfiðar í framkvæmd, en ég hygg þó framkvæmanlegar. Það var af þeirri ástæðu sem ég nefndi áðan að mér þætti skynsamlegt að n. athugaði hvort ekki mætti veita, jafnvel til bráðabirgða, heimild til að leggja á fóðurbætisgjald, sem mætti þá endurgreiða t. d. í samræmi við þann fóðurbæti sem síðar verður ákveðinn án slíks gjalds. Þetta mundi gera kleift að sporna þegar nokkuð við ofnotkun fóðurbætis.

Ég kemst ekki hjá því að gera aðeins aths. við það að málið hafi tafist af því að ég var fjarverandi. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl., að ég tók mér nokkurra daga frí og taldi mig eiga það inni. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að á mánudegi fyrir viku var ég mættur hér reiðubúinn að tala í þessu máli, en þá var það ekki unnt. Á miðvikudaginn var ég einnig reiðubúinn til þess og gekk eftir því að þá yrði rætt um málið. Þá lágu ekki fyrir brtt., sem hv. þm. hafði boðað, og þær komu ekki fyrr en þessi umr. var hafin. Ég er ekki út af fyrir sig að áfellast neinn, en ég vil vekja athygli á þessu. Ég held að það sé langsótt að telja að fjarvera mín hafi á einhvern máta tafið þetta mál. Þá hefðu allar till. í málinu átt að liggja fyrir þegar ég var mættur til þessarar umr.

Hv. 1. þm. Suðurl. spurði, sem eðlilegt er: Hvers vegna er þetta ekki allt saman í einum pakka, framleiðsluráðslögin, sem á að breyta, og þetta, sem nú er til umr.? Því er að vísu auðsvarað. Þegar í haust gerði ég athugun á því, hvort slíkt yrði unnt, og kallaði báðar þær nefndir, sem fjalla um þessi mál, fyrir mig. Í ljós kom þá strax, að útilokað var að ganga frá hinni gífurlega viðamiklu endurskoðun framleiðsluráðslöggjafarinnar í tíma, enda hefur komið í ljós að jafnvel þótt nefndin legði sig fram um að ljúka þeirri endurskoðun fyrir áramót gerði hún það þó ekki fyrr en fyrir um það bil tveimur vikum, og það er langt frá því að samstaða sé orðin um það mál. Hins vegar töldu forustumenn bænda — og ég tel réttilega — að hér væri um svo mikilvægt mál að ræða til þess að ná nokkurri stjórn á framleiðslunni og miðla byrðum með verðjöfnunargjaldi réttlátar en gert hefur verið að freista yrði þess að fá það fram sem fyrst. Þessi var ástæðan fyrir þeirri ákvörðun minni að leggja frv. fram fyrir áramótin.

Hér hafa ákvæði í grg. með frv. til l. um stjórn efnahagsmála veríð dálítið til umr. Í raun og veru held ég að skýringin hafi komið að nokkru fram í því, hvernig hv. 2. þm. Norðurl. v. orðaði ákvæði greinarinnar. Hann sagði einhvern veginn á þann veg, að í grg. væri sagt að niðurgreiðslur mundu þurfa að lækka um 5400–6700 millj. kr. á ári. Er þetta ekki rétt? Þarna er ekki alveg rétt með farið. Í grg. segir: „Mundu niðurgreiðslur á ári væntanlega þurfa að lækka um 5400–6700 millj. kr.“ Ég viðurkenni fúslega að þetta er ekki skýrt orðað. En ég hef kannað málið í matarhléi. Maður getur eins lesið út úr þessu og sú er meiningin með greininni, að árlegar niðurgreiðslur, eins og þær eru nú, þyrftu að lækka um þá upphæð sem þarna er nefnd. Ég vek athygli á því, að í fjárl. í ár er gert ráð fyrir að lækka niðurgreiðslur um u. þ. b. þriðjunginn af því sem þarna er um að ræða. Og hugmyndin með þessu er að árlegar niðurgreiðslur lækki eins og þarna er gert ráð fyrir á þremur árum í áföngum. Þetta er hin rétta skýring. En ég vil taka fram, að þetta er ekki nógu skýrt orðað til þess að vera alveg tvímælalaust.

Hv. þm. minntist réttilega á ýmsa hluti, sem þarf að athuga, og get ég tekið undir það allt með honum, en vil aðeins koma því á framfæri í stuttu máli, að flest af því, sem hann hefur nefnt, höfum við verið að athuga, og því miður rekumst við aftur og aftur á sama vegg, að verð á íslenskum landbúnaðarafurðum reiknuðum á fullu verði án útflutningsbóta er of hátt t. d. til að keppa við erlent feitmeti. Þetta hefur verið skoðað. Ég er að láta skoða núna jafnvel breytingu á lögum sem kann að þurfa til þess að heimila að nota smjörlíki í staðinn fyrir annað feitmeti í ákveðnu magni. Það kann að vera þar einhver möguleiki. En ég vil líka láta það koma hér fram, að ýmsir vara mjög við þeirri leið og telja að slík breyting mundi leiða til stóraukinnar neyslu á smjörlíki og draga úr neyslu á smjöri. Þetta er e. t. v. tvíeggjað, ef menn eru að hugsa um að auka smjörneysluna.

Ég hef einnig látið athuga hvort það komi til greina að greiða niður mjólkurduft, sem notað yrði í súkkulaði til útflutnings, og það virðist vel koma til greina. Það virðist vera möguleiki á því að það sé unnt. Hins vegar er niðurgreiðsla á mjólkurdufti beint til útflutnings eitt af því óhagstæðasta sem hægt er að nota útflutningsbætur í.

Ég vil einnig nefna í þessu sambandi, að athugað var hvort ekki mætti flytja út íslenskar landbúnaðarafurðir sem aðstoð við þróunarlöndin. Í fyrsta lagi kemur að sjálfsögðu í ljós, sem við gerum okkur suðvitað strax grein fyrir, að aðeins örfáar vörur koma þar til greina — þær sem geymast við ákaflega lélegar aðstæður, nánast bara mjólkurduft. Það var athugað. Hins vegar hygg ég að lítið þætti orðið úr því sem Alþingi ákveður sem aðstoð við þróunarlöndin ef kaupa ætti mjólkurduftið á kostnaðarverði. Það er að sjálfsögðu hægt að fá erlendis fyrir sömu peninga margfalt fleiri kg af mjólkurduft en við mundum senda þá. Ef Alþ. ákveður að greiða þetta mjólkurduft niður, svo að það sé samkeppnisfært við erlent mjólkurduft í þessu skyni, er þar um að ræða frekari fjárframlög af Alþingis hálfu. Þetta ber allt að sama brunni. Það vantar meira fjármagn til þess að geta gert þetta.

Ég vil taka undir það með hv. þm. til að fyrirbyggja allan misskilning, að ég á að sjálfsögðu ekki við að skorin verði niður jarðræktarframlög í ár, það hefur mér aldrei dottið í hug, heldur hefur mér dottið í hug að næstu ár kynni að verða þar afgangur, sem nota mætti í þessu skyni og jafnvel að fá að ráðstafa nokkuð fyrir fram.

Ég get tekið undir það út af fyrir sig, að ég fagna því að fá heimildir í lögum, þó að reyndar megi alltaf um það deila hvað slíkar heimildir eigi að vera víðtækar, heimildir til að greiða úr hluta af þessum vanda sem nú blasir við. Og ég þakka skýringar hv. þm. á því, við hvað þeir eiga með þessari grein, sem er, eins og hann sagði sjálfur, nokkuð lauslega orðuð. En þessi heimild er ákaflega lítils virði nema heimild sé jafnframt veitt til þess að afla fjármagns, annaðhvort með sköttum eða með sparnaði í ríkisrekstri. Ég get svarað hv. þm., en hann spurði um sparnað í ríkisrekstri, að það er ætlun ríkisstj. að spara 1 milljarð á þeim fjárl. sem nú eru, en eins og hann benti á sjálfur gerist það erfiðara eftir því sem tíminn líður. Grunur minn er sá, að það reynist allerfiður biti að kyngja að spara þennan 1 milljarð. Ég held að það þurfi því verulegan samdrátt jafnvel í framkvæmdaliðum fjárlaga, ef sparast á verulega miklu meira.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Ég vona að þær hafi orðið gagnlegar og vona að þær hafi orðið til þess að skýra þessi mál töluvert. Ég legg enn áherslu á að þetta mál fái skjóta afgreiðslu, vek athygli á því að Framleiðsluráð mun þurfa að taka nú í apríl ákvörðun um verðjöfnunargjald. Menn verða að minnast þess, að æðimikið af framleiðslu er selt og sumir framleiðendur kunna að vera búnir að fá meiri hluta sinn borgaðan og það er ekki hægt að ná til þeirra eftir á, þannig að það verður alls ekki beðið lengur með að leggja á verðjöfnunargjald. Ef heimild fæst ekki til annars en álagningar verðjöfnunargjalds mun Framleiðsluráð að öllum líkindum leggja í kringum 300 kr. á hvert kg af kjöti og í kringum 15–16 kr. á hvern innveginn lítra af mjólk. Það er mikil byrði. Því vona ég, að hv. n. taki málið nú til endurskoðunar, og lýsi enn þeirri von minni, að samstaða geti náðst um aðrar leiðir, — leiðir sem verða til þess að unnt sé að jafna þetta, en geti jafnframt orðið til þess að sporna við þeirri þróun, sem verið hefur, og geti komið til framkvæmda án tafar.