20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3407 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

338. mál, brennsla svartolíu í fiskiskipum

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp langar mig til að nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi er það, að sú svartolía, sem menn kalla svo, er ekki svartolía, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur reyndar getið um, heldur er hér um að ræða svartolíu sem er blönduð með gasolíu, keypt af Rússum. Þeir blanda hana ekki með gasolíu vegna þess að þeir vilji selja okkur betri olíu, heldur er það gert til að þeir eigi auðveldara með að dæla henni, því að þeir geta ekki flutt hana nema með leiðslum. En hin eiginlega svartolía er það þykk að hún dælist ekki.

Það hefur vantað í umr., þegar talað er um að setja fiskiskipaflotann á svartolíu, hvort það sé tryggt að við fáum þessa olíu í framtíðinni í miklu meira magni en við eyðum núna, og í öðru lagi, hvort verðið á olíunni verði svipað og nú er. Þetta svartolíuverð er hvergi skráð í heiminum, enda er þessi olía hvergi annars staðar til, og það er vafasamt að Rússar, sem selja okkur þessa olíu, geti í fyrsta lagi afgreitt til okkar þetta stóraukna magn, og í öðru lagi, þegar við erum orðnir algerlega háðir því, hvort þeir mundu þá ekki selja okkur þessa olíu á eðlilegu verði, en verðið, sem við kaupum þessa svartolíu á, er óeðlilegt.

Varðandi notkunina í fiskiskipum eru það eiginlega einungis japönsku skipin sem geta brennt þessari olíu og hafa brennt henni með mjög góðum árangri. Ég hef sjálfur staðið í nokkrum svartolíutilraunum og brenndi eitt ár svartolíu um borð í togara og hætti við þegar skemmdir komu fram í stífum og stimplum, en hef hug á því að fara í það aftur vegna þess að nú er komin betri útkoma með þetta. Þar er aðallega um að ræða skilvindur sem gera það kleift að fara yfir í svartolíu fyrir menn sem eru kannske ekkert sérstaklega fylgjandi svartolíu. Þeir fara í svartolíu eða hætta að gera út. Þeir, sem í hjarta sínu eru á móti svartolíu, hafa séð þessa valkosti: annaðhvort að hætta að gera út eða fara í svartolíu. Og eins og verðmunurinn er núna, þá má viðhaldskostnaður vera mjög mikill til að þetta borgi sig ekki eftir 2–3 ár, ef það er tryggt að þessi verðmunur haldist í framtíðinni.

En það er eitt atriði sem mig langar til að koma að í viðbót í sambandi við þetta mál. Hæstv. sjútvrh. vék að því áðan, og það hefur verið skýrt frá því á Alþ. af öðrum ráðh., bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh., að það eigi að stuðla að sérstakri lánafyrirgreiðslu í sambandi við að breyta skipum til svartolíunotkunar. Hæstv. sjútvrh. talaði um að ríkisstj. hefði tryggt að veitt yrði fjárhagsleg aðstoð sem samsvaraði 5 millj. kr. til að breyta yrði yfir í svartolíu. Þetta loforð hefur engan veginn verið efnt. Það bólar ekki á þessum peningum. Viðskrh. hefur að vísu ritað bönkunum bréf — það er alllangt síðan — og síðan hefur ekkert gerst í þessu máli. Ég talaði síðast í morgun við Ólaf Eiríksson sem er með hóp manna í vinnu að breyta togurum til svartolíubrennslu, en hann er þegar búinn að breyta nokkrum, og hann sjálfur er með verulegar áhyggjur af þessu máli. Ég vona að hæstv. viðskrh., sem mér skilst að hafi forgöngu um þetta mál innan ríkisstj., geti upplýst hvenær þessir peningar, sem talað er um og margoft lýst yfir og síðast af hæstv. sjútvrh., verði lánaðir í þessar breytingar, hvenær þeir komi, því að ástandið eins og það er núna hjá þessum manni, sem stendur aðallega fyrir þessu, Ólafi Eiríkssyni, varðandi að greiða mönnum sínum laun, leysa út skilvindur og annað slíkt er orðið gersamlega óbærilegt. Það er ekki hægt að þola það endalaust, að stjórnmálamenn lýsi yfir hvað þeir ætli að gera og hyggjast hafa gert og svo kemur í ljós að efndirnar eru ekki fyrir hendi og þannig er í þessu tilviki. Þess vegna vona ég að hæstv. ráðh., hvort sem það er viðskrh. eða sjútvrh., geti upplýst hvenær þetta loforð, sem var veitt fyrir 3–4 vikum, verður efnt.