20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

338. mál, brennsla svartolíu í fiskiskipum

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. greinargóð svör og ætla ekki að hafa í frammi málalengingar nú um þetta mál. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er ýmislegs að gæta þegar menn reikna út gróðann af því að vélar í fiskiskipum brenni svartolíu, og það er ekki einhlítt að bera einvörðungu saman verðið. Bæði gengur í skilvindum allmiklu meira úr svartolíunni og enn fremur þarf af auðskildum ástæðum fleiri kg af svartolíu en af gasolíu til þess að knýja skip sömu vegalengd vegna mismunandi afls sem í þessum mismunandi hreinsuðu olíum er.

Ég ætlaði einmitt að víkja sérstaklega að því, sem fram kom í máli hv. 1. landsk. þm., og inna eftir því, hvaða líkur séu á því að við getum fengið í stórauknum mæli keypta hina rússnesku svartolíu áfram og á því verði sem hún hefur verið. Það fer ekkert á milli mála, að milli verðs venjulegrar gasolíu og hinnar rússnesku svartolíu hefur verið miklu meira bil, miklu meiri verðmunur á þessum tveimur tegundum olíu heldur en er á hinni illa svörtu svartolíu og venjulegri gasolíu. Þessi olía hefur verið keypt af Rússum í litlum mæli, og mér er kunnugt um að þeir hafa sótt mjög á um hækkun verðs á þessari olíu sem er blönduð, eins og fram kom, með gasolíu til þess að möguleiki sé á að dæla henni um langan veg eins og gert er.

Ef fiskiskipafloti okkar og togarafloti sérstaklega tekur upp að brenna þessari tegund olíu, þá er augljóst mál að um stóraukinn innflutning verður að tefla. Þá er enn spurningin, hvernig olíufélögin eru viðbúin að annast slíka dreifingu, því að þau hafa mjög erfiða aðstöðu til að sinna þeirri eftirspurn, sem þegar er fyrir hendi, vegna geymslurýmis og bifreiða. Allt þetta þarf að athuga áður en því verður alveg í gadda slegið að við höfum himin höndum tekið í þessu efni.

Það kom einnig fram hjá hv. 1. landsk. þm., að útvegsmenn eiga um fátt að velja þegar svo er komið sem komið er um verðmuninn á þessum tveimur lífsnauðsynlegu neysluvörum okkar. Þeir eiga um fátt að velja. Og þegar svo er komið að menn geta vegna brennslu á hinni ódýru olíu haft efni á því að afskrifa vélar sínar kannske þrefalt, fjórfalt hraðar, þá er augljóst mál að þetta er reikningsdæmi. En það verður líka að vera öllum mönnum ljóst, að ef lokast fyrir þessa olíutegund frá Rússlandi, þá eiga íslensk fiskiskip engra annarra kosta völ en að breyta þegar í stað yfir í gasolíu á nýjan leik.

Nú mætti kannske inna eftir því í leiðinni, enda þótt það komi kannske fram í svari við annarri fsp. sem ég á hér, hvort ekkert hafi verið athugað um innflutning á marinolíu svokallaðri, sem er millistig milli gasolíu og svartolíu, þó allmikið hreinsuð olía, en þessari olíu geta velflestir togarar okkar brennt og taka hana raunar á tanka sína þegar þeir kaupa olíu erlendis. Olíufélögin hins vegar hafa ekki flutt þessa olíu til landsins. Þessa olíu hafa millilandaskip okkar velflest, þau sem ekki hafa verið keyrð á svartolíu, keypt í erlendum höfnum. Þau eiga þangað leið og geta fyllt tanka sína. En olíufélögin hafa ekki sinnt þessu máli. Marinolían er nokkru ódýrari en gasolían. Allt þetta þyrfti, eins og ég segi, að athuga og það eru orð í tíma töluð að taka þetta til rækilegrar yfirvegunar.

Hins skulu menn einnig minnast, að víðfrægustu vélaframleiðslufyrirtæki hafa ekki enn náð tökum á því að brenna hinni eiginlegu svartolíu í vélum fiskiskipa. Hafa þó þessi heimsfrægu fyrirtæki gert með þetta tilraunir árum saman, þar sem þau hafa keyrt léttbyggðar vélar eða meðalléttbyggðar vélar með misjöfnu álagi á reynsluplönum sínum um árabil.