20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3411 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

339. mál, útgáfa fiskikorta

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fsp. fjallar um það, hvað líði útgáfu fiskikorta sem Alþ. ályktaði að út skyldu gefin með samþykkt sinni 15. mars 1977. Vegna þessarar fsp. hef ég aflað upplýsinga um hver gangur og staða þessa máls sé.

Það hefur verið unnið mikið starf hjá Sjómælingum Ístands til undirbúnings útgáfu fiskikorta með áprentuðum lóranstaðarlinum, og er talið að tæknilegum undirbúningi sé nú að mestu lokið. Lóranstaðarlínukortin eru nær eingöngu teiknuð í tölvustýrðum teiknivélum þar sem tölvan reiknar út staðsetningu lóranlínunnar um leið og hún er teiknuð. Teiknivél, sem hentar við gerð sjókorta, var ekki til hér á landi fyrr en snemma árs 1977, að verkfræðistofan Hnit hf. keypti slíka vél. Sjómælingarnar tóku þegar upp samvinnu við þetta fyrirtæki um notkun á teiknivélinni og tölvu, en vegna galla kom vélin ekki að fullum notum við teikningu á lóranlínum fyrr en s. l. haust, þ. e. a. s. haustið 1978. Í nóv. var svo lokið teikningu staðarlína fyrir 4 sjókort af 6 sem náðu yfir hafsvæðið allt í kringum landið. Endanlegum frágangi þessara sjókorta er nú lokið, en þau er talið að megi nota einnig sem fiskikort, og er vonast til að prentun hefjist alveg á næstunni. Það hefur verið byrjað á þeim tveimur kortum sem eftir eru, og lýkur með þeim nýrri útgáfu sjókorta sem yfirprentuð eru með lóranstaðarlínum. Mælikvarði þessara korta er 1:300 000 og ná þau, eins og fyrr segir, allt í kringum landið og yfir helstu fiskimið.

Sjútvrn. hefur í samvinnu við Sjómælingar Íslands og Fiskifélag Íslands hafið undirbúning að útgáfu lórankorta í mun stærri mælikvarða en þau 6 sem áður eru nefnd. Mundu þau ná yfir einstakar fiskislóðir og verða þannig eiginleg fiskikort og eingöngu ætluð sem vinnukort fyrir fiskimenn, væntanlega í mælikvarðanum 1:50 000 og 1:100 000, en hins vegar eru þau að sjálfsögðu ekki siglingakort. Segja má að tæknilegum undirbúningi að gerð slíkra fiskikorta sé að mestu lokið, enda má hér einnig nota þau tölvuforrit sem hafa verið gerð í sambandi við stærri kortin 6.

Á vegum rn. er nú að hefjast upplýsingasöfnun meðal fiskimanna um fiskislóðir, festur og aðrar upplýsingar sem á kortunum þurfa að vera.

Rétt er að taka fram að útgáfa fiskikorta í stórum mælikvarða er nokkrum vandkvæðum bundin vegna þess að útbreiðsluhraði radíóbylgju er misjafn eftir því hvort leið hennar liggur yfir sjó eða land og einnig eftir því hvers eðlis landið er. Getur því orðið töluverður mismunur á aflestri lóranviðtækis um borð í skipi og útreiknaðri lóranlínu, jafnvel allt að 1000 metrum, eftir þeim upplýsingum sem ég hef. Skekkja þessi er breytileg frá einum stað til annars og þarf allmiklar og tímafrekar athuganir til þess að finna þær leiðréttingar sem nauðsynlegt er talið að gera á útreiknuðum lóranlínum svo að staðsetning þeirra verði í fullu samræmi við aðrar upplýsingar sem á sjókorti eru. Lórankortin munu engu að síður geta komið fiskimönnum að góðum notum, og væntanlega má endurbæta þau smátt og smátt eftir því sem meira safnast í þau af upplýsingum frá fiskimönnum sjálfum.

Að því er varðar atriði þáltill., þá hefur hún víst verið send dómsmrn. þó að málið og sú stofnun, sem á að vinna þetta, heyri undir samgrn., en sjútvrn. hefur engu að síður gert ráðstafanir til þess að þeir eftirlitsmenn, sem eru á skipum, afli upplýsinga frá skipstjórum og að maður í rn. verði eins konar miðstöð og safni upplýsingum og komi þeim áleiðis til mælingastofnunarinnar. Þessum þætti verður mætt án sérstakrar fjárveitingar.

Það starf, sem Sjómælingarnar vinna að í sambandi við þann undirbúning sem nú er í gangi, verður líka unnið innan ramma þeirrar fjárveitingar sem Sjómælingarnar hafa, en ekki samkv. sérstakri fjárveitingu. En eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda hefur ekki verið samþ. hér á Alþ. sérstök fjárveiting til þessara nota og því er unnið að þessum málum innan þeirra marka sem fjárveitingarnar leyfa.