20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í framhaldi af fsp. hv. 5. þm. Vesturl. varðandi neyðarþjónustu Landssímans, þar sem hann vék réttilega að vanda sem við er að etja, vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að um það bil fyrir ári, — eða í aprílmánuði 1978, bar ég fram fsp. til hæstv. þáv. samgrh.: Í fyrsta lagi um það, hvenær komið yrði á fót örbylgjusambandi milli Stykkishólms og Ólafsvíkur eða út á Snæfellsnes og í öðru lagi, hvenær Dalir yrðu tengdir símasvæði 93 þar sem þeir eiga réttilega heima. Hæstv. ráðh. svaraði þessari fsp. og gat þess, að stefnt yrði að því að bæta úr þessu tvennu á næstu tveim árum. Og rétt er að geta þess, að á fjárl. 1979 er gert ráð fyrir allmiklum framkvæmdum að því er varðar fjölsíma og radíóleiðir út um Snæfellsnes, en þær framkvæmdir eiga að bæta skilyrðin mjög í þessum efnum. Hins vegar var radíófjölsímalögn frá Búðardal til Stykkishólms felld út úr fjárlagatillögum fyrir árið 1979.

En því vil ég sérstaklega minnast á þetta nú, að það er svo enn eins og var á s. l. ári, að áhafnir báta á Snæfellsnesi kvarta mjög mikið undan því að þegar þær koma nokkuð út í sjó frá verstöðvum á Snæfellsnesi, — hafa sumir nefnt um klukkustundar siglingu frá landi, — þá hverfi þeim svo að segja samband við Snæfellsnes, sem geri þeim mjög erfitt fyrir í ýmsum efnum, bæði að láta vita af sér og tilkynna ef slys ber að höndum eða annað slíkt. Hins vegar tjá þeir mér, að þegar þeir komi nokkuð vestur á bóginn, t. d. vestur í Víkurálinn, þá glymji í eyrum þeirra strandstöðvaþjónustan frá Vestfjörðum sem þjónustar Vestfjarðabátana. Mér er sagt að það séu nú starfandi 7 strandstöðvar á landinu. Ein af þeim er á Patreksfirði, önnur á Ísafirði.

Því vek ég athygli á þessu að við svo búið má ekki sitja öllu lengur. Mér er að vísu tjáð af tækni- og forráðamönnum Landssímans, að við þessar fjölsíma- og radíóleiðir út um Snæfellsnes, sem ég áðan nefndi, batni mjög skilyrði til hvers konar þjónustu af þessu tagi. Það væri fróðlegt að fá um það frekari upplýsingar. Það kveður svo rammt að þessu, að útgerðarmenn í Stykkishólmi hafa talað um að koma á fót einkatalstöðvum til þess að eiga þægilegra með að hafa samband við sína báta. En vonandi stendur þetta allt til bóta og bætt ástand fram undan í þessum efnum.