20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3421 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég kem nú ekki hingað til þess að draga neitt úr þeim málflutningi sem hér hefur verið haldið uppi í því skyni að fara fram á aukna neyðarþjónustu og þá einkum þeirra sem hafa ekki sjálfvirkan síma. Ég get vel skilið að það muni vera vandamál sem þarf að ráða bót á. En ég vek aðeins athygli á því í þessu örstutta máli, að víðar getur verið erfitt ástand en þar sem ekki er sjálfvirkur sími. Ég minni í því sambandi á smáfyrirspurn sem ég hef beint til hæstv. póst- og símamálaráðh. eða samgrh. og er á þskj. 450 og fjallar um símamál Mosfellinga. Ég mun ræða hana þegar þar að kemur, en ég bendi á þetta til þess að sýna að það geta víðar orðið slæmar uppákomur heldur en þar sem stuðst er við neyðarþjónustu símans eina saman, þó að ég muni ekki gera lítið úr því eins og ég áðan sagði.

Hæstv. ráðh. talaði um það í sínu máli, að það væri nauðsynlegt að gera stórátak á næstunni í símamálum landsmanna. Ég get vel fallist á að hér muni vera rétt frá greint. Hann talaði líka um að það væri erfitt að hækka gjaldskrá Pósts og síma vegna þess að í gildi væri í landinu svonefnd Reykjavíkurvísitala, eins og hann komst að orði, og þess vegna megi ekki hækka gjöldin á okkur, sem búum á þessu svæði, vegna þess hvaða áhrif það hefur á launagreiðslur almennt. En ég vil þá bara biðja guð að hjálpa okkur Reykvíkingum þegar farið verður að reikna vísitöluna eftir því hvað það kostar að vera einhvers staðar annars staðar, því að á undanförnum örskömmum tíma hefur gjaldskrá Pósts og síma hækkað um 400% á sama tíma og t. a. m. rafmagnsverð frá Landsvirkjun hefur hækkað um 200% — og þykir mörgum nóg um — og hjá Hitaveitu Suðurnesja líka. Það verður þá aldeilis tekið eftir því þegar farið verður að taka stóru stökkin, þegar þetta hefur gengið svona með smáskrefunum eins og ég var að lýsa hér áðan. Auk þess veit ég ekki og hirði svo sem ekki um að fá upplýsingar um það hér og nú, hvort inni í þessari 400% hækkun er fækkun á skrefum sem átt hefur sér stað. Ég veit það ekki. Mér er nær að halda að sú breyting og þar af leiðandi kostnaðarauki, sem af því leiðir, sé ekki innifalið í þessari hækkun.

Ég skal hætta þessu, herra forseti, og bíða með það mál sem mér er efst í huga á þessu augnabliki þar til að því kemur samkv. dagskránni.