20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki mitt hlutverk nú að þurfa að verja Landssímann þó mér finnist að honum séu oft að óverðskulduðu sendar kaldar kveðjur, og er það alls ekki í samræmi við þá reynslu sem ég hef af forsvarsmönnum þeirrar stofnunar. En í sambandi við þessar umr., sem hér hafa farið fram og eru orðnar almennar, vil ég geta þess, að þessi stofnun, sem margir senda kaldar kveðjur, eins og ég sagði, hefur á 2–3 síðustu árum dregið úr sínum rekstrarkostnaði þannig að fólki hefur fækkað eða ársdagsverkum þar á annað hundrað. Ég efast um að önnur stofnun í þessu landi hafi tekið betur á í þeim efnum að skipuleggja starfsemi sína. Hitt er ljóst, að í slíkri stofnun sem Póstur og sími er, sem er ein stærsta stofnun landsins, tekur það sinn tíma að gera skipulagsbreytingar.

Ég vil líka segja það, að sú breyting hefur verið s. l. meira en 4 ár, þegar gjaldskrárbreytingar hafa orðið, að þá hefur verð símanotkunar verið jafnað á milli þéttbýlisins og annarra svæða til þess að draga úr kostnaðinum í dreifbýlinu sem er óhagstæður þeim sem úti á dreifbýlinu búa. Og ég vil geta þess út af því sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að einmitt þetta með skrefin var tekið inn í vísitöluna. Þess vegna var það svo, að það var talið af yfirstjórn Póst- og símamálastofnunarinnar þegar ég var þar að verki, að lengra væri ekki hægt að ganga í þá átt, heldur var þá ákveðið að verja 2% af hækkuninni til þess að jafna gjaldið, og ég held að sama hafi verið gert þegar breyting var gerð á þessu ári. Hins vegar get ég sagt það, að ég var ekki sáttur og er ekki enn sáttur við það að vera að hækka gjöld Pósts og síma í smástökkum eins og gert hefur verið. Mín besta reynsla var sú, þegar ákveðinn var fyrir árið 1977, áður en árið byrjaði, taxti sem gilti allt árið, og það varð notendunum langhappadrýgst. Það er alveg ljóst, að ekki verður breytt þessum málum svo betur megi fara nema með því að hækka tekjurnar hjá þessari stofnun, því að það verða menn að muna, að um 60–70% af útgjöldum Pósts og síma eru vinnulaun og þau hafa hækkað allmikið á síðustu árum, eins og kunnugt er. Annaðhvort verður því að ske, að gjaldskráin verður að hækka eða ríkissjóður verður að veita fé til framkvæmda, ef á að ná þarna nokkrum árangri.

Um leið og ég lýk þessu og með því að syndga upp á náðina vil ég taka það fram, að það er þegar í athugun með Búðardal að færa hann inn á svæði 93, eins og gert var ráð fyrir og ég taldi að raunar hefði verið búið að lofa að gert yrði á þessu ári. Ég vona að það verði. Að öðru leyti skal ég ekki verja þá stofnun sem mér þótti ósköp gott að starfa með. Ég veit að núv. samgrh. mun gera það.