20.03.1979
Sameinað þing: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

167. mál, neyðarþjónusta Landssímans

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi talaði mikið um mun á símagjöldum í þéttbýlinu annars vegar og dreifbýlinu hins vegar. Þetta er vissulega rétt, sá munur er allt of mikill. Hann er til kominn fyrir áratugum, þegar það kostaði tvær stúlkur að afgreiða eitt símtal og svo tvo víra á milli staða. Þessi munur hefur sem sagt haldist nokkurn veginn óbreyttur. Nú er það svo, að innanbæjarsímtöl á Íslandi og afnotagjöld eru mun lægri en víðast hvar annars staðar í heiminum, líklega lægri en alls staðar annars staðar að Svíþjóð einni undantekinni. En langlínusamtölin hér eru jafndýr eða dýrari en annars staðar þekkist, og kemur þetta heim og saman við það sem ég var að segja.

Hæstv. samgrh. minntist á vísitöluna. Það er alveg rétt. Vísitalan gerir það að verkum, að það er ekkert hægt að laga hjá símanum í þessum málum eins og er. Það er helmingi ódýrara að tala eftir 7 á kvöldin og helmingi ódýrara eftir 3 á laugardögum og yfir helgar. Ekkert af þessu er metið í vísitölunni. Þar er aðeins skrefið í Reykjavík og aðeins að degi til, þó að helmingurinn af öllum einkasímtölum fari fram á kvöldin og um helgar. Það er því vísitalan sem þarna er hinn versti skaðvaldur.

Neyðarþjónustu hefur verið minnst á hér og sparnað. Það er rétt, að það er víða verið að leggja niður næturvaktir í sparnaðarskyni, en því er nú oftast nær mætt með því að tengja saman línur til þeirra stöðva sem hafa næturvakt. Allt kostar þetta peninga. Enn fremur væri hægt í mörgum tilfellum að fá sjálfvirkan útbúnað ýmiss konar, en hann kostar líka peninga.

Hv. þm. Stefán Jónsson talaði um vandræðaástand í sambandi við metrabylgjusamband á ákveðnum stöðum á landinu. Þetta er rétt, það er vandræðaástand á ýmsum svæðum. Með fjarstýrðum sendi- og viðtækjum væri hægt að lagfæra þetta. En þar er sama sagan. Það kostar líka mikið fé, og það er spurningin hvað við teljum okkur hafa efni á að nota mikið fé í þennan öryggisþátt. — Hann ræddi líka um CBS-stöðvarnar, að hafa hlustvakt hjá Pósti og síma fyrir þær. Ég tel það mjög skynsamlega lausn. Þessar stöðvar eru orðnar fjöldamargar í öllum landshlutum. Að vísu er ekki gert ráð fyrir því að forminu til og kannske einhvers staðar bannað að Póstur og sími eða slíkur aðill komi inn á þessar bylgjur, því þetta á að vera prívat fyrir prívatfólk til prívatþjónustu. Eigi að síður held ég að það ætti mjög að koma til álita, að síminn tæki upp vakt á neyðarbylgju þeirra eða kallbylgju þeirra — stanslausa hlust — þar sem þeir eru með hlustvakt á annað borð, þ. e. a. s. á loftskeytastöðvunum, í Gufunesi og þar sem næturvakt er hjá símanum á annað borð.

Hv. 9. þm. Reykv. talaði um að skrefum færi fækkandi hér í Reykjavík. Það er rétt, þeim hefur fækkað nokkuð, en svæðið hefur að sama skapi stækkað, Hafnarfjörður er með, Breiðholtið með o. s. frv., en símtöl á svipuðum fjarlægðum mundu kosta stórfé úti á landi víðast hvar. En það er líka það eina sem hefur verið gert. Það er til þess að koma lítillega til móts við þann feikilega mismun sem um er að ræða. Það kostar tugum eða hundrað sinnum meira að tala héðan til Akureyrar heldur en innanbæjarsamtal í Reykjavík, en ég efast um að það kosti nema þrisvar eða fjórum sinnum meira í tækjabúnaði. (Gripið fram í. ) Já, og það var aftur gert núna, en vísitalan metur það ekki, hún mælir bara í Reykjavík.