21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3441 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

217. mál, söluskattur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu þessa máls, sem ég tel í raun og veru vera afgreiðslu á, eins og fram kom í máli hv. frsm., máli sem við þrír þm. þessarar deildar fluttum fyrr í vetur. Við getum fyllilega sætt okkur við þá afgreiðslu sem þarna hefur orðið hjá n., því að mér sýnist það, sem hér er lagt til, vera í fullu samræmi við aðaltilgang frv. okkar.

Það kom mjög glöggt fram í framsögu minni, að við flm. værum gjarnan til viðræðu um að þrengja heimildir og binda eingöngu við það markmið okkar að þeir byggingaraðilar, sem framleiða verksmiðjuframleidd hús, sætu við sama borð og aðrir byggingaraðilar. Það var megintilgangur frv. Þeim megintilgangi sýnist mér að sé náð einmitt með þessu frv. og ég get því fyllilega tekið undir það. Aðalatriðið er auðvitað að í þessu máli gildi sem mest jafnrétti, sérstaklega þar sem um svo hagstæðan byggingarmáta og raun ber vitni er að ræða, að þeim hagstæða byggingarmáta sé ekki beinlínis refsað, eins og nú er gert, með því að leggja söluskatt á sams konar vinnu og er undanþegin söluskatti ef hún er unnin á byggingarstað.

Ég hef auðvitað ekki tækifæri til að sannreyna þau hlutföll, sem þarna eru lögð til í frumdrögum að reglugerð, en ég reikna með því að þau hafi verið könnuð það ítarlega að fyllilega sé hægt að una við það.

Ég tel það sérstaklega til fyrirmyndar, að í fskj. með þessu nál. skuli vera frumdrög að reglugerð varðandi þetta atriði. Ég hef bent á það oft áður, og hef reyndar flutt um það ákveðna þáltill. áður, að Alþ. þyrfti að hafa meiri hönd í bagga með samningu reglugerða, en leggja það ekki eins al:farið í hendur embættismanna og raun ber vitni. Í till., sem ég flutti hér ásamt Sigurði Blöndal á sínum tíma, bentum við á það sem leið t. d., að þingnefnd eða þingnefndir, sem hefðu fengið þessi mál til meðferðar og afgreitt lög, frá Alþingi, fengju reglugerðir til umfjöllunar og staðfestingar til þess að þar væru ekki embættismenn einir á ferð og þá ráðherrar. Ég tel sem sagt að ef þetta væri gert víðar væri það mjög til bóta. Oft verður maður var við að miðað við þá túlkun sem hefur verið á Alþ. á ákveðnum lagafyrirmælum hefur reglugerð hjá rn. skotið nokkuð skökku við. En ég skal ekki fara nánar út í það, heldur aðeins lýsa yfir stuðningi við þau vinnubrögð sem þarna eru viðhöfð og ég minnist tæplega að hafa orðið var við áður.

Ég vil svo aðeins, því að þetta byggingarform er hér til umr. og það er verið að aflétta refsiskatti af því byggingarformi, minna á það í leiðinni, að ég hef flutt till. í Sþ. sem miðar að því að rannsaka byggingarform þetta enn frekar og kanna þróun þess. Það gæti orðið til þess að lækka byggingarkostnað verulega ef þetta byggingarform fengi þá eðlilegu og sjálfsögðu þróun sem það á fyllilega rétt á. En einmitt í þeirri athugun allri er mjög verulegt atriði og stórt, að mál þetta skuli vera komið á þann rekspöl sem það er komið nú. Ég vænti þess að Alþ. nái að samþykkja fyrir þinglok að þessi refsiskattur verði afnuminn. Þar er um drjúgan áfanga að ræða í þá átt að þetta byggingarform geti náð frekari útbreiðslu og náð meiri þróun í átt til lækkunar byggingarkostnaðar en verið hefur.