21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

200. mál, almannavarnir

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er án efa til bóta í stjórnun almannavarna. Mig langaði til að vekja athygli á því í fyrsta lagi, að mér finnst óeðlilegt að hvergi sé tekið tillit til þess aðila sem kannske þekkir best til slysavarna og aðgerða gegn slysum í þessu landi, þar sem er Slysavarnafélag Íslands. Mér hefði ekki fundist óeðlilegt að slíkur félagsskapur með sína sögu ætti fulltrúa í þessari stjórn. Hvað sem því líður finnst mér ástæða til að sú n., sem fær frv. til skoðunar, taki þetta aðeins til athugunar.

Í öðru lagi langaði mig til þess, þar sem ég bý í nágrenni birgðastöðvar almannavarna, að vekja athygli á þeim mikla fjárskorti sem þar virðist jafnan vera. Það er að mér skilst svo slæmt ástand, að ekki er einu sinni hægt að halda vegum opnum að hinni miklu birgðageymslu sem þar er, og mundi því valda erfiðleikum ef skyndilega þyrfti að taka.

Hvarvetna finnst mér skína í gegn það atriði sem hæstv. dómsmrh. kom inn á, að við leggjum lítið fjármagn til almannavarna og það svo lítið að þar verður úr að bæta sem allra fyrst. Ég held að það sé kominn tími til þess að athuga gaumgæfilega, hvort ekki sé ástæða til fyrir okkur að safna birgðum á fleiri sviðum en við gerum núna, jafnvel matvælabirgðum. Komið gæti t. d. fyrir að geislavirkt ský eyðilegði birgðir okkar og að til slíkra birgða þyrfti þá að grípa, — birgða sem geymdar væru á þeim stað þar sem geislavirkni gæti ekki skaðað. Þetta held ég að kominn sé tími til að athuga og — eins og getið hefur verið um og hæstv. ráðh. benti réttilega á — að við eigum núna það góð rannsóknatæki að við höfum e. t. v. einhverja möguleika til að fylgjast með hvað er í vændum

og gætum þá gert ráðstafanir, þ. e. a. s. ef fjármagn væri fyrir hendi. Ég held að það sé augljóst mál að þarna þurfum við að bæta úr sem allra fyrst.