21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans, en ég verð því miður að segja að þau staðfesta þann grun minn, að það séu horfur á því að lítið gerist á þessu ári eins og hinu síðasta í dómskipan í landinu til þess að reyna að hraða afgreiðslu dómsmála annað en að fjölga í Hæstarétti. Ég fagna að vísu öllum tilraunum sem uppi eru til þess að taka upp ný vinnubrögð á þeim dómstigum, sem nú eru starfandi, tæknivæðingu upplýsinga og annað slíkt.

Mér fundust athyglisverðar þær upplýsingar sem hér komu fram, m. a. um andstöðu hæstv. núv. forsrh. og fyrrv. dómsmrh. við að Hæstiréttur fengi eðlilega starfskrafta — upplýsingar um efasemdir fyrrv. dómsmrh. um að rétt væri, að Hæstiréttur fengi þá viðbótarstarfskrafta sem slíkir dómstólar hafa fengið víðast hvar sem ég þekki til í nágrannalöndum. Lýsingin á þeim ólíku skoðunum, sem uppi eru um lögréttufrv., gefa til kynna að það, sem einna helst kunni að breytast á næstunni í meðferð þeirra mála, sé eingöngu að fjölgað verði í Hæstarétti. Og þetta er, eins og ég hef sagt hér áður, að mínum dómi röng braut. Ég tel að grundvallarstofnanir eins og Hæstiréttur eigi að hafa vissa friðhelgi, að það eigi ekki að vera að krukka í Hæstarétt hvað eftir annað og breyta honum og starfsháttum hans til þess að leysa vandamál sem eru fyrst og fremst af allt öðrum rótum sprottin.

Ég vona að hæstv. dómsmrh. taki þessi mál til meðferðar af sínum alkunna dugnaði, þannig að það þurfi ekki aftur að koma að því eftir 3 eða 4 ár, eins og virðist nú, að annaðhvort hann eða einhver annar dómsmrh. komi aftur með frv. um nýja fjölgun í Hæstarétti.

Það mætti t. d., ef mikið vinnuálag er á dómurunum, sem mér fannst koma fram hjá dómsmrh., leggja niður þann sið, sem löngum hefur tíðkast og mér skilst að tíðkist jafnvel enn þá, þó að mér sé ekki kunnugt um í hve ríkum mæli það er gert, að dómararnir séu að vinna alls konar handavinnu fyrir ráðh. við undirbúning löggjafar, ýmiss konar aðstoð við stjórnsýsluna af því tagi sem sjálfsagt er hægt að fá nægilega marga vel fróða og hæfa lögfræðinga til þess að sinna.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. frekar. Því miður, eins og ég sagði áðan, finnst mér skýrsla þessi staðfesta að ekki er efnislegt tilefni til þess að fjölga í réttinum, þó að ég skilji það út af fyrir sig að dómararnir sjálfir, sem sjálfsagt eiga við erfiðleika að etja, vilji fá fleiri til þess að standa í þessu puði með sér. En fyrir dómskipunina í landinu og þróun hennar held ég að þarna sé aftur verið að ganga sömu röngu brautina og gert var fyrir 4 árum án þess að sú endurbót, sem þá varð gerð, hafi leitt af sér nokkra breytingu til batnaðar.