21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3453 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

15. mál, happdrættislán vegna framkvæmda við orðurveg og Austurveg

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. nr. 36 frá 23. maí 1975, um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg. N. hefur orðið sammála um að mæla með að frv. verði samþ. með þeirri breyt. sem felst í till. á þskj. 462. Samkv. því koma í 1. gr. frv. í stað, „gefur út“ orðin: er heimilt að gefa út. Það er til að undirstrika að hér er um heimildarákvæði að ræða, enda þótt það felist raunverulega í ákvæðinu um að upphæðin skuli vera allt að 2 þús. millj. kr. Þar er því ekki um að ræða neina efnisbreytingu.

Síðara atriðið er að í frv. komi ný grein sem breyti 4. gr. núgildandi laga á þann veg að skuldabréfin verði verðtryggð eða gengistryggð í stað þess að nú er aðeins talað um verðtryggingu.

Það ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um þörfina fyrir aukið fjármagn til vegagerðar, þar sem vegaframkvæmdir eru áreiðanlega einna efst á óskalistanum í hugum flestra þm., enda með erfiðustu verkum þeirra að verða árlega að skipta allt of fáum krónum til margra og brýnna framkvæmda. Það er því mikils virði, að aðstæður í þjóðfélaginu verði slíkar að hægt verði að nota þá heimild til fjáröflunar sem í frv. felst, enda innlendum sparnaði varla á annan hátt betur varið en til framkvæmda í vegagerð.

Samkv. frv. skal á næstu 4 árum verja því viðbótarfjármagni, sem á þann hátt fæst sem gert er þar ráð fyrir, til framkvæmda við Norðurveg og Austurveg. Yrði þá hægt að ná mikilvægum áföngum við að koma þeim vegum í viðunandi horf.