21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3454 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

169. mál, áfengislög

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir máli sem fjallar um breytingar á áfengislögum, sem eru frá árinu 1969, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Friðrik Sophusson, Eiður Guðnason og Ellert B. Schram.

Í sem fæstum orðum fjallar þetta frv. til l. um nokkrar veigamiklar breytingar á áfengislögum eins og þau hafa verið framkvæmd hér á landi um allnokkurt skeið, eða frá því að áfengisbanni var aflétt um miðjan fjórða áratuginn.

Meginatriði þeirra breytinga, sem hér er verið að leggja til, eru í fyrsta lagi þau, að afnumdar skulu hömlur sem gilt hafa um opnunar- og lokunartíma veitingahúsa og þá auðvitað þeirra húsa, sem vínveitingaleyfi hafa haft, en á móti komi til tryggingar fyrir neytandann skyldur þessara aðila til þess að auglýsa rækilega og í góðan tíma hvaða opnunar- og lokunarreglum verði fylgt.

Í annan stað er í þessu frv. til l. verið að leggja til að því fólki, sem áhuga hefði á því að opna og reka slíka veitingastaði, verði auðveldað að gera slíkt. Er lögð til sú almenna regla, að ef um færri en 60 sæti er að ræða á slíkum stöðum sem um ræðir sé að uppfylltum almennum heilbrigðisskilyrðum öllum sem slíkt vilja, heimilt að opna slíka staði, en ef þeir fara yfir þessi mörk, yfir 60 sæti, er hins vegar gert ráð fyrir að sérstaklega séu tryggð réttindi þeirra sem við slíka staði starfa, og þá auðvitað fyrst og fremst matreiðslufólks, þjóna svo og annarra þeirra sem við slíka staði starfa.

Um það þarf varla að fara mörgum orðum, að hætt er við því að smávægilegir hagsmunaárekstrar kunni að verða í viðskiptum af þessu tagi á milli þeirra annars vegar, sem við slíka staði starfa, og svo neytandans. Þarna er reynt að þræða eins konar milliveg, þannig að hagsmunir beggja séu tryggðir að nokkru.

Í þriðja lagi er sú meginbreyting lögð til að fólki 18 ára og eldra sé heimilt að sækja slíka staði, enda má segja að því fylgi sú almenna röksemd að þegar allt virðist í það horf sækja að kosningaraldur sé að verða 18 ár og það er alkunna að 18 ára er fólk iðulega harðgift og jafnvel foreldrar eins eða fleiri barna, þá sýnist það heyra til liðinni tíð að vera um þessa tilteknu þjónustu að hafa slíkar aldurshömlur.

Í fjórða lagi er lagt til að verðlagning sé gefin frjáls. Hér má segja, að í sem allra stystu máli hafi verið lýst þeim meginbreytingum sem verið er að leggja til.

Um þetta frv. til l. hafa þegar farið fram allnokkrar umr. vítt og breitt um samfélagið og þá auðvitað einnig hjá þeim sem beinna hagsmuna eiga að gæta. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé um það kunnugt, að áfengisvarnaráð hefur sent grg. um skoðanir sínar hingað. Hv. þm. er auðvitað kunnugt um það, að áfengisvarnaráð hefur yfir höfuð að tala lýst sig andvígt þeim meginbreytingum, sem hér er verið að leggja til, og rökstyður mál sitt þeirri almennu skoðun, að séu hömlur teknar af í þessum efnum verði slíkt til þess einungis að auka áfengisbölið í þessu landi. Það þarf auðvitað ekki að fara um það mörgum orðum, að það er ekki vilji flm. að auka á áfengisböl. Þvert á móti geri ég ráð fyrir því að allir 4 flm. þessa frv. viti og viðurkenni að hér er verulegt áfengisböl og gegn því þarf og verður auðvitað að vinna með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru. Í því sambandi ber auðvitað mjög að meta störf áfengisvarnaráðs, svo og annarra samtaka, frjálsra samtaka einnig, sem hafa látið sig þessi mál mikið skipta og hafa að minni hyggju lyft Grettistökum í þessum efnum.

En að þessu sögðu og þó að það sé auðvitað vilji flm. að á raddir þessar sé hlustað og til þeirra tekið mikið tillit, þá ber auðvitað að undirstrika að hér er ekki um að ræða þann vilja að auka á það böl, sem vissulega er fyrir hendi, heldur er það hugmynd flm. þvert á móti að með rýmri reglum, þar sem fólkinu sjálfu er treyst fyrir auknu valfrelsi í þessum efnum og einkum og sér í lagi þar sem lögin eru þannig úr garði gerð að þau stuðli að því að hinum smáu rekstrareiningum í þessari þjónustu sé gert auðveldara að starfa, þá verði slíkt aukið félagslegt valfrelsi til þess að auka á menningarlegra félagslíf í þessum efnum en hér hefur verið um langa hríð. Ég hygg að það þekki a. m. k. allir þeir sem nokkra þekkingu hafa á félagslífi á höfuðborgarsvæðinu, að ákveðin vandamál hafa verið hér. Það þarf ekki annað en keyra um borgina á föstudagskvöldum eða laugardagskvöldum á tilteknum tímum, en þá má sjá fólk hundruðum og jafnvel þúsundum saman vera að fara út á göturnar hér í alls konar veðrum. Flm. eru þeirrar almennu skoðunar, að þær ströngu reglur, sem um þetta hafa gilt og hafa átt að vera til hindrunar því að til vandræða kæmi, hafi iðulega beinlínis haft öfug áhrif við það sem til var stofnað.

M. ö. o.: hér er verið að leggja til aukið félagslegt valfrelsi í tiltekinni þjónustu. Það er verið að flytja ákveðið hegðunarvald frá þeim, sem sett hafa strangar reglur, til fólksins sjálfs — þess fólks sem þessarar vöru og þjónustu vill njóta og telur sig hafa af því nokkra félagslega fullnægingu.

Flm. gera sér auðvitað grein fyrir því, að um þetta eru skiptar skoðanir og þar kemur tvennt til. Bæði stafar allnokkur vandi af því, að menn eru ekki á eitt sáttir um hvort hömlur eða félagslegt val er heppilegra til þess að stuðla að aukinni menningu og forða frá ómenningu í þessum efnum, og annað vandamál kemur einnig til: vandi þeirra sem við þessar greinar starfa. Það þarf auðvitað að búa svo um hnútana að það fólk hafi tryggt atvinnuöryggi, en um leið séu hagsmunir neytenda tryggðir. Við, sem að þessu frv. stöndum, teljum að þeirra sjónarmiða hafi verið verulega gætt.

Að öðru leyti hygg ég ekki nauðsynlegt að fara um þetta frv. fleiri orðum. Ég hygg að þm. hafi kynnt sér skoðanir sem hingað hafa verið sendar. Það hafa fleiri en áfengisvarnaráð sent grg. hingað. Leigubílstjórar í Reykjavík hafa sent hingað erindi þar sem þeir benda á þau vandkvæði sem hafa fylgt hinum ströngu lokunarreglum sem hafa verið settar um þessi hús, og þeir eru því hlynntir að reglur þessar verði rýmkaðar þannig að þjónustan jafnist út, telja það verða til bóta.

Allt um það læt ég máli mínu um þetta frv. lokið, en vil ítreka þá meginhugsun að það er verið að leggja til aukið félagslegt valfrelsi til handa þeim sem telja sig hafa af því nokkra fyllingu að njóta þeirrar vöru og þjónustu sem í boði er hverju sinni.