21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3462 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

169. mál, áfengislög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Mér finnst á hv. þm. að þeir séu undrandi á að ég skuli fara að taka til máls í þessu máli. Hitt er mín skoðun, að mál þetta komi ekkert síður við þeim mönnum sem hafa verið taldir lélegir þátttakendur í því sem heitir drykkjuskapur, en það hef ég verið um dagana. Mér finnst að málið út af fyrir sig sé ekki þess eðlis að um það eigi að fjalla á þann veg, heldur á þann veg, hvað maður álítur að megi verða til þess að hafa áhrif í þá átt er til betri vegar horfir á máli þessu.

Það er svo með frv. það, sem hér er á ferðinni, að ég hef hugsað mér fylgi við það. Hins vegar vil ég segja það, að ég vildi gjarnan óska eftir því að þegar frv. færi til n. væri lögð vinna í að vinna það betur en nú hefur verið gert. Ég er t. d. ekki fylgismaður þess að hafa opnunartíma samkomustaða allan sólarhringinn, það séu engin takmörk þar á. Hins vegar finnst mér að eins og þeim málum er fyrir komið núna verði að gera á breytingar.

Ég hafði nokkur kynni af þessum málum þegar ég var samgrh. og ræddi þá oft við forsvarsmenn leigubifreiðastjóra um þessi mál og það að fjölga leigubifreiðum á þeim tíma sem samkomur ættu sér stað, svo biðtíminn þyrfti ekki að vera svo langur og raun ber vitni um fyrir þá sem þaðan kæmu. Því miður tel ég að árangur af þeim aðgerðum, sem við í samgrn. gerðum tilraunir til þess að gera í sambandi við leyfisveitingar, hafi ekki náðst, sá sem við stefndum að. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er mjög óheppilegt að öllum samkomuhúsum sé lokað samtímis og þeir, sem þaðan koma, þurfi að fara út á götuna. Þessu tel ég að verði að breyta og þess vegna geti 1. gr. frv. þessa komið inn á það svið, ekki með því að vera takmarkalaus, heldur með því að í kjölfar þeirrar breytingar, sem þar yrði gerð, yrði sett reglugerð sem leyfði hreyfanleika í opnunartíma samkomuhúsanna. Þá geri ég mér grein fyrir því, að sá tími yrði að lengjast frá því sem nú er, en það yrði bara að vera með þeim hætti að sum samkomuhús lokuðu klukkan þetta þetta kvöldið og klukkan hitt hitt kvöldið. Ég tel að það beri brýna nauðsyn til að koma þessu á og það sé engin menning fólgin í því að halda þeirri reglu sem nú er, að loka öllum samkomustöðum samtímis. Og ég held að það sé eins með að halda þeim opnum, því að það er staðreynd og þýðir ekkert að vera á móti því að mæla að biðraðirnar við samkomustaðina eru óhugnanlega miklar. Ég þekki þetta ekki af eigin raun, þó að ég sé svo gamall sem á hári mínu má sjá, og kannske álíta sumir mig þó eldri en raun ber vitni um, en hinu hef ég frásagnir af og frá ungu fólki, þessum stöðum og þessum hlutum. Um alllangt skeið hef ég kynnt mér þetta, bæði segja mér börn mín og annað ungt fólk, sem ég veit að er óhætt að taka tillit til, og veit að þetta eru staðreyndir sem ekki verða umflúnar.

Sama er að segja um þá reynslu sem ég hef haft af leigubifreiðarstjórum, sem ég tek mikið mark á. Þeir hafa einmitt sagt mér að mesta hættan væri fólgin í drykkjuskap og leiðindum hjá fólkinu sem kæmi að lokuðum dyrum og kæmist ekki inn fyrir.

Nú er mér ljóst, að það komast ekki allir á samkomustaði. Satt að segja finnst mér að málum hafi verið of lítið sinnt hér í Reykjavík. Mér finnst að samkomustaðir fyrir unga fólkíð hér í borginni séu of fáir og of litlir. Þetta mun e. t. v. mörgum finnast skrýtinn hugsanagangur, en þetta er mitt mat á því að vilja hafa hemil á þessum málum eins og öðrum. Mér dettur ekki í hug að æskan í þessu landi sé neinir englar og kæri mig heldur ekkert um það. Mennirnir eiga ekki að vera englar. En ég vil hins vegar að þeir hafi uppi eðlilega siðmenningu og eðlilega framkomu. Til þess að það megi takast verður þjóðfélagið að taka til greina réttmætar kröfur og taka tillit til krafna þeirra sem æskan í landinu gerir til lífsins á því aldursskeiði.

Ég vil líka segja það, að mér þykir til bóta að færa aldurinn niður í 18 ár. Ég kann ekki við að fólk, sem er gift og farið að eiga börn, skuli ekki mega koma inn á samkomustaði, þó að vín sé þar veitt. Og mér dettur ekki heldur í hug að það verði til þess að forða því frá víndrykkju. Þess vegna tel ég breytingu aldurstakmarkanna spor í rétta átt. Ég man það, þegar var verið að fjalla um þessi mál síðast, að ég var með sömu skoðun, að 18 ára aldurinn ætti að gilda, en ekki 20 ára aldurinn. Ég tel að brýna nauðsyn beri til þess að breyta aldursákvörðunum.

Ég skal ekki fara að tefja fyrir neinum með því að ræða þetta mál eða lýsa frekar skoðunum mínum en ég hef þegar gert. Ég hef lýst þeim alveg eins og þær liggja fyrir. Ég vil endurtaka það að ég legg áherslu á að málið verði skoðað vel í nefnd. Ég álít að það eigi að vera breytanlegur opnunartími á samkomustöðum, bæði um lokum þeirra á kvöldin og einnig hvað lengi samkomur megi standa, og það þurfi í reglugerð að kveða á um breytileika þann og dreifa þessu á samkomustaðina sem jafnast til þess að forðast að örtröð og leiðindi fylgi, bæði við upphaf og endi samkoma, eins og nú er. Og í því sambandi tel ég að eftir að þessi breyting væri orðin á væri betra fyrir samgrn. að hafa áhrif á það að leigubifreiðastöðvar höguðu rekstri í samræmi við þetta.

Þetta vil ég segja við þessa umr. málsins og tel að það sé eins með þetta og aðra hluti, að það beri alltaf að taka tillit til þess í hverja átt og veru hlutirnir stefna og reyna að hafa áhrif á og stjórna því, hvernig sú breyting kann að verða sem sjáanlega hlýtur að verða.