21.03.1979
Neðri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3467 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Frsm. minni hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. er einn hluti af félagsmálaþætti þeim sem hæstv. ríkisstj. samdi um í vetur við verkalýðssamtökin. Frv. felur í sér ýmsar réttarbætur verkafólki til handa, ef það yrði að lögum og kæmist í framkvæmd. Í félmn. var ekki sérstaklega ágreiningur um efni málsins, heldur fyrst og fremst um málsmeðferðina. Minni hl. n. telur að undirbúningur málsins hefði átt að vera með öðrum hætti en verið hefur, því að samráð af hálfu stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins hefur verið of lítið.

Þetta mál er ákaflega flókið og vandasamt, eins og fram kemur í umsögnum aðila, og eins og ráða mátti einnig af framsöguræðu hv. 6. þm. Reykv., sem er þessum málum allra manna kunnugastur, eru hér ýmis vandamál og flókin viðfangsefni. Þetta mál er þess eðlis, að æskilegast hefði verið að aðilar vinnumarkaðarins hefðu getað samið um það. Kemur það glöggt fram í umsögnum aðila sem n. bárust. Vinnuveitendasamband Íslands segir í bréfi 25. jan., að það vilji ítreka þá kröfu að nú þegar verði skipuð nefnd frá vinnuveitenda- og launþegasamtökunum til að fjalla um frv. og freista þess að ná samkomulagi um efni þess. Vinnumálasamband samvinnufélaganna sendi n. einnig umsögn, sem var dags. 16. febr., og segir þar svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Frv. það, sem hér um ræðir, fjallar um mjög flókin og vandmeðfarin samskiptamálefni á vinnumarkaðinum, auk þess aukna tilkostnaðar, sem það hefur í för með sér fyrir atvinnureksturinn. Það er þess vegna mjög misráðið af hálfu ríkisvaldsins að setja fram frv. sem þetta án þess að aðilar vinnumarkaðarins hafi fengið aðstöðu til þess að fjalla um efni þess sameiginlega.“

Þetta segir m. a. í umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna.

Í þessum umsögnum er bent á ýmsa annmarka á frv., óljós ákvæði og vafaatriði. Minni hl. n. telur því miður farið að ekki skuli hafa verið fallist á slíka eðlilega athugun á þessu vandasama máli einmitt í þeim tilgangi að reyna að tryggja að náð yrði samkomulagi aðila vinnumarkaðsins og tryggja þannig að verkafólk fengi í reynd og með viðráðanlegum hætti fyrir atvinnureksturinn þær réttarbætur sem hér er að stefnt. Af þessum ástæðum, sem ég nú hef greint, töldum við hv. 1. þm. Suðurl., Eggert Haukdal ásamt mér, rétt að skila séráliti og ég vil beina því enn til hæstv. félmrh., hvort hann telji það ekki málinu sjálfu til góðs að nú yrði enn freistað að ná slíku samkomulagi. Ætti það ekki að saka málið þó eitthvert stutt hlé yrði t. d. milli 2. og 3. umr. um málið, þar sem gerð yrði tilraun til að ná slíku samkomulagi. Ég held að það væri til góðs fyrir málefnið sjálft, sem er flókið og vandasamt.